sunnudagur, desember 28, 2014

Fyrsti í lygi

Drakk 14 bjóra í gær. Krakkarnir hlupu um eins og enginn væri morgundagurinn. Þurftu að sýna mér eitt og annað eins og krakkar eru og ég setti upp tilgerðarsvip og sagði vá flott og æði. Fannst ég vera amerísk í smá stund með rúllur í hárinu og óhamingjusama mamman í tölvunni...á Fésbók komm on!

Man ekki hvort það var sígarettan sem skildi eftir svöðusár á handleggnum á mér eða hvort það var ég sjálf sem rak hann upp í elementið í bakarofninum þegar ég var að baka ótímabærar piparkökur. Ég er amk með ör. Kannski er það gróið. Ég tékka á morgun þegar ég fæ mér vatnsglas til að viðhalda hringrásinni. Systir mín gaf mér fullt af kremum í jólagjöf og í fávisku minni las ég pistilinn sem fylgdi kremunum. Leyndarmál fegurðarinnar virðist fólgið í því að drekka einn og hálfan lítra af vatni á dag og dúmpa rétt kremi frá nefi og upp að gagnauga. Mér líður samt eins og ég sé fersk eftir gott bað og kremin frá systur minni. Ný manneskja.

Veit ekki hvað ég á að segja meir. Bíð eftir draumaprinsinum. Mig langar svo mikið til að hitta hinn eina sanna. Þann sem lætur mér líða eins og ég sé drottning. Að ég ráði yfir öllu. Af því að ég er svo klár og svo stórkostleg....ó bara ég væri fallegri en ég er, bara að ég þyrfti ekki að opna munninn til þess eins að vekja athygli á því hversu frábær og vel gefin ég er...helvítis gen!

Missti mig smá...biðst forláts á tilhæfulausum hégómanum.

Ætli ég verði ekki að drekka smá vatn og leggja mig smá...helvítis krakkarnir! Geta þeir ekki drullað sér til þess að sjá um sig sjálfir! Hvaða helv...ég á ekki að þurfa að standa í þessu!
Ég er svooo þreyttt....

laugardagur, desember 27, 2014

Lygi

Ég hef fundið fyrir því að puttapúkann dauðlangar til að vakna til lífsins aftur til þess að þvaðra og blaðra. Ég er að spá í að blogga helling á næsta ári og helst ljúga sem mest. Það sem efnahagshrunið hefur kennt okkur skattborgurum er að hér hefur verið elíta í mörg ár og komist upp með eitt og annað. Nú er hún hætt að geta falið ruslið sitt og finnst almenningurinn bara vondur við sig. Sem við erum...með réttu.
Þar sem ég lifi ekki á vöxtum landsmanna og í góðu yfirlæti get ég logið með puttunum einum saman. Hlakka til.

Skrudda

miðvikudagur, nóvember 20, 2013

Manu Katché & Band - Piece of EmotionLangaði ótrúlega mikið til þess að prófa þetta nýstárlega undur. Að setja vídíó á bloggið sitt. Kannski snýr maður bara aftur? Hver veit.

miðvikudagur, október 26, 2011

Skyldu-fjallið

Nöldraði heil ósköp í morgun yfir mikilvægi stundvísi við hálf-sofandi barnið. Uppskar það eitt að finnast ég leiðinlegasta kéllíng í heimi.

Klemman sem ég er í þessa dagana er samfélagslegur þrýstingur um hitt og þetta og hvað maður á alltaf að vera að standa sig. Mér finnst bara heilmikið mál að standa mig þessa dagana. Ég er alltaf að gleyma hlutum út um allt og er að verða geðveik á að finna aldrei neitt.

Og þar liggur sjálfsagt hundurinn grafinn...ég á bara erfitt með alla hluti og finnst þeir vera eins og fjall sem öngvan vegin er hægt að saxa niður. Verður maður þá ekki bara að slaka á og taka því sem höndum ber í stað þess að vera með svipuna á fullu með heimskulegum skömmum?

laugardagur, júní 05, 2010

Af fullkomnunaráráttu

Ég hef ekki haft eirð í mér til þess að skrifa neitt eftir að mamma dó. Mér finnst allt í einu asnalegt að blogga. En það hefur svo sannarlega komið aftan að mér að halda mér ekki við. Mér hefur gengið mjög klaufalega að skrifa ritgerðir síðan ég hætti. Vægast sagt klaufalega. Endaði með því að ég fór til námsráðgjafa þar sem ég féll algerlega saman vegna þess að ég er furðulostin yfir þessari skyndilegu fötlun sem helltist yfir mig.Ég settist í stól og greip næstu bréftusku og fór að háskæla eins og lítið barn. Námsráðgjafinn var ekki sestur niður einu sinni. Tók ekki einu sinni eftir því fyrr en hún (hún ráðgjafinn er alveg satt samkv. íslenskri tungu þó svo að það sé kannski ekki málfræðilega rétt) sneri sér við og sagði: Nú! Er það svona?! Eftir nokkur skæl og væl (svo ég geri nú lítið úr sjálfri mér og því uppnámi sem staða mín hefur valdið mér) fékk ég að vita að ég væri algerlega á rangri hillu í skrifum mínum. Fullkomnunaráráttan er komin út í svo miklar öfgar að ég skrifa ekki línu í ritgerðar-ræfli nema setningin sé fullmótuð í höfðinu og pörfekt! Fyrr fær hún ekki viðurkenningu sem birtingarhæf í word-skjali. Ég sver það! Ég er sum sé ekki í lagi.

Ég fékk því það skemmtilega verkefni að rembast við: meðan ég skrifa ritgerð sem ég þarf að skila svo ég fái nú námslánin og bankinn verði glaður og allir glaðir og sál mín hálfa leið úr hreinsunareldi skuldasúpu, á ég að taka mig í hugræna atferlismeðferð. Sem fellst þá í því að ég kvelji fullkomnunaráráttuna með því að skrifa það fyrsta sem kemur upp í höfuðið í stað þess að ganga um gólf í leit að hinni fullkomnu setningu. Og vitið þið bara quað? Mér finnst þetta vera mest spennandi verkefni sem ég hef tekist á við í langan tíma! Mjög tilvistarlega heimspekilegur sjálfskoðunar fyrirbæra og verufræðilegur spenningur fyllir hjarta mitt. BA-verkefnið mitt verður alsælt ef mér tekst að yfirvinna þennan fjanda.

föstudagur, maí 14, 2010

Vá hvað þetta er gaman. Víííí. Blogg blooooggogogogogogogogogog.

Blogg, jibbíí.

Ef Levinas velti fyrir sér hvernig í ósköpunum eftir 2500 ára sögu siðferðis gátu hlutir átt sér stað eins og útrýmingabúðir nasista, þá velti ég því fyrir mér hvernig góðar hugmyndir og góð hugmyndafræði eða kenningar, t.d. eins og hugmyndin um réttlæti, geti bara átt sér stað inn í höfðinu á fólki en ekki í praxis.

föstudagur, október 30, 2009

Er að setja í gang

Ég er bara að hlakka til þess að hugurinn fari á flug. Það hlýtur að gerast. Ekkert er betra en að blogga soldið. Pólitík algerlega búin að hertaka þennan vettvang.