miðvikudagur, janúar 29, 2003

Hahh við sigruðum helvítis Pjallana.
Hvur veit nema að Íslendingur kunni að halda á litlum bolta útklíndum í lími og ógeði? Ég er ekki stoltur Íslendingur í dag heldur er ég stoltur íþróttamaður í dag. Ég er heilsufrík sem á engan netabol en ég á smá bjór.

Ég get samt ekki horft á handboltann í sjónvarpinu heldur verð ég að hlusta á hann í útvarpinu. Það er miklu betra að hlusta heldur en að horfa. Mæli með því fyrir þá sem eru hjartveikir. Adolf Ingi fær langt prik frá mér fyrir frábæra lýsingu á ljóshærðum mönnum í Pjalla liðinu, fyrir skítkastið í dómarana sem dæmdu aldrei rétt (?) og að sjálfsögðu fyrir að nenna ekki að segja frá því þegar Pjallarnir skoruðu mörk og viðurkenna það í bráðustu beinni. Hlakka til að hlusta á morgun Dolli.

Ég er nú þannig gerð að ég myndi helst vilja hlusta á sjónvarpið alveg sama hvað. Mér finnst best að hlusta á hluti heldur en að horfa á þá. Ég er ekki viss um að þátturinn, sem ég er svo rosalega hrifin af þessa dagana og búin að komast að hvað heitir en man það ekki, myndi líta nærri eins illa út ef ég heyrði bara í honum, nákvæmlega eins og handboltaleikur. Það er rosaleg sorg að horfa á leikmenn landsliðsins missa boltann, það er miklu betra að heyra það frá honum Dolla. Þá kemur spurning:

Ef ég er svona hrædd um að það kvikni í sjónvarpinu myndi hræðsla mín gagnvart sjónvarpinu hverfa ef ég losaði mig við myndlampann og hefði bara hljóðið? Þá kemur enn ein spurning: Er hægt að losa sig við íkveikjuhættu á þann hátt? Og þá kemur sú þriðja: Þarf ég að borga afnotagjöld af sjónvarpinu? Og enn sú fjórða: Borga blindir afnotagjöld af sjónvarpinu (þ.e. ef þeir eiga sjónvarp)? Ég á svo nóg af spurningum í þessu lífi. Kannski fæ ég svör við þeim á minni lífsleið.

Nóg um bolta og blinda. Ákvað að fara í smá fegrunaraðgerðir í kvöld. Litaði á mér hárið alveg sjálf. Mér tókst að reka höfðuðið í risið inn í íbúðinni minni og búa til myndarlegan fjólubláann blett í hvítt eldhúsið. Svo þurfti nú að losa blessaðan litinn úr hárinu (fullt af æfingum i n og nn) Þá kom upp vandamál. Átti ég að fara í sturtu til þess að aðstoða mig við að sletta lit út um allan sturtu"klefann" eða átti ég að taka þá áhættu að festa hárið í niðurfallinu í baðvaskinum? Ég tók áhættuna á klósettvaskinn. Viti menn hér sit ég og skrifa blaður. Mér finnst nóg að skíta út eldhúsið með hausnum. En ég vissi líka að ef í hart færi þá gæti ég kannski klippt mig lausa með tánaglaklippum.

Ég er ekki komin að fræga kaflanum hans Fjodors. Gleymdi nebblilega að segja frá því að ég er enn í fyrsta bindinu. Vildi heldur ekki segja annað en það er nú það að ég var á gangi ein míns liðs upp Bankastrætið, rann á svelli með þeim afleiðingum að hægri fóturinn felldi vinstri fótinn og þar sem ég var með hendur í vösum datt ég alveg svakalega. Beint á andlitið og allt út í blóði frá nebba litla. Þetta var svo rosalega vont að ég vona að bíllinn minn verði bara góður. Ég ætla að ganga sem minnst. Nebbi meikar ekki meir! Hann er búin að fá rosaleg Mæk Tæson. Einu sinni hnerraði ég aðeins og skallaði bjórglas sem var ekki gott því glasið brotnaði og bjórinn fór út um allt (hey þetta var ókeypis bjór! Very vital), nokkrum tímum síðar (var með flensu inn á bar) fór ég á klóið með vinkonu (að sjálfsögðu). Það var aðeins of lítið pláss fyrir konu með kvef og mín skallaði nebba litla beint á áldraslið sem þekur klósettrúlur skemmtistaða og það var sko vont. Hef ekki andað almennilega síðan. Kórónaði svo allt með því að detta á andlitið.
Ég er eins og landsliðið, dugleg. Ég held að ég sé alveg að fara til læknis. Fer þegar ég á pening. En ég var hrikalega heppin. Það sér varla á mér. Ekki skráma en smá gulur blettur á nebbes. Önnur ummerki eru þau að ég bora rosalega mikið í nefið til að ná í drasl því það er auðveldara að bora heldur en snýta.

Mæli með: Gleði yfir sigri landsliðsmanna. Þátt fyrir allt þá verðum við að viðurkenna að þeir eru íslenskir og spila leiki sem endurspegla líðan þess íslenska þegar í hart fer sbr. grein Þráinns sem ég vitnaði í um daginn en henti því bloggi því mér fannst það of persónulegt.

Mæli með: syrgja Bráðavaktina í kvöld. Nú ríkir sorg á mínu heimili því ég er fíkill í ER svo lengi sem það er ekki mitt nef heldur einhvers annars. Enda var það ekki í stöðunni að skreppa þangað...kostar peninga...ég er enginn Mækll Djakkson.þriðjudagur, janúar 28, 2003

Ég er hætt við að pæla meira í Kárahnjúkavirkjun. Ég held að ég sé komin með nóg af virkjanahugleiðingum í landanum. Las fyndna grein í vikugömlum mogga og sá ljósið. Best að vera ekki að væla meir.

Fóbíur dagsins: Dagurinn sjálfur, að bíllinn færi ekki í gang og kæmi mér ekki frá a til ö og frá ö til a, að ég færi í fýlu þegar ég kæmi heim yfir engu og að það kvikni í sjónvarpinu

Mæli með: Karamazov bræðrum hans Fjodors. Það er rosa fútt í því að lesa um karlmenn á tilfinningaflippi. Eitthvað sem maður upplifir mjög sjaldan. Fyrir utan fræga kaflann sem ég er ekki en komin að en hlakka mikið til að lesa.

Mæli sérstaklega með: hræðilegum þætti á Skjá einum sem heitir Leap of eitthvað. Ótrúlega vondur þáttur. Eitthvað til þess að tryllast yfir af ógeði. Minnir mig á þegar ég og Sísí lásum ástarsögur og hentum þeim reglulega í vegginn af ógeði. Bókasafnsbækur...ég held að þær hafi ekki hlotið mikin skaða af.

Alla vega þá er þessi þáttur á við veggbækur. Heimskulegar samræður á milli vina um Woody Allen og konur auk dónaatriða til þess að sýna hvað þetta fólk spilaði nú djarft í ungdómnum. Svo er hoppað (leap) svo skemmtilega inn i nútíðina þar sem litið er til þessara vina og stöðu þeirra í dag, hver fékk hvern ossona. Þetta hopp er sérdeilis flott. Maður áttar sig ekki á því fyrr en þátturinn er búin að maður var að horfa á framtíðina hjá vinunum. Einn vinurinn var t.d. búin að ná í flottu gelluna en svo allt í einu er hann á hótelherbergi með hóru! Ég skildi þetta bara ekki. Var nýbúinn að gleðjast með vinum sínum yfir því að hafa náð til erfiðu ríku gellunnar sem hin vinurinn gerði ekki, splæsti bjór á liðið af því að hann átti ekki fyrir kampavíni og endar síðan upp á hótelherbergi með hóru í gleði sinni! Þvílíkur fagnaður. Ég átti ekki til orð.

En svo fór ég að púsla saman. Hóran var í framtíðinni. Og það sem hann sagði við hana ( hórið) það var alveg draumur. Rausaði út úr sér hvað hún hefði verið ömurleg, að hún hefði feikaði fullnæginguna og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta er alveg til þess að hrista upp í tilfinningalífinu.
Þáttur sem er svo vitlaus að maður þarf að reyna á hvelin. Þetta er rusl sem verðugt er að fylgjast með.

Annars man ég ekkert fyndið í augnablikinu. Ég ætlaði að vera rosalega skemmtileg skrudda í dag. Kannski fæ ég flippið ef ég rugla nógu lengi í þessari tölvu minni. Stundum er ég fyndin í vinnunni. Það finnst mér vera algert kraftaverk ef það gerist. En ég ætla að skoða Fjodor og passa upp á sjónvarpið.

mánudagur, janúar 20, 2003

Allt ónýtt. Skrifaði svo mikið og eyðilagði snildina! djöhh!!!

fimmtudagur, janúar 16, 2003

...halló...á ég að segja eitthvað núna? Já Kárahnjúkavirkjun. Þegar ég keyrði heim úr vinnunni í dag og hlustaði á Spegillinn þá fór ég að gráta. Og þegar ég kom heim þá hélt ég áfram að gráta og hugsaði um allar heiðargæsirnar sem eiga heima uppi á hálendinu.

Það er ekkert auðvelt að taka afstöðu í þessu máli. Maður situr og hugsar um allt aumingjans fólkið á Austfjörðum sem vantar vinnu, alla Austfirðingana sem vilja eiga heima heima hjá sér. Ég get vel skilið það að maður vilji eiga heima þar sem maður er borinn og barnfæddur.

En hvað kemur það álveri við? Álver er álver. Til hvers er álver? Jú fólki vantar potta og pönnur. Stríð, það þarf að berjast með hinum ýmsu vopnum. Bílar, það er sjálfsagt ál í þeim. Mamma kom með ágætan punkt hvað varðar umhverfismatið: maðurinn þarf að þrífast og lifa, dýrin aðlagast breyttum aðstæðum, af hverju ekki að nýta landið í þágu mannsins. Ég var nefninlega að benda henni á það að ég skildi ekki af hverju maðurinn hugsaði alltaf fyrst og fremst um sjálfan sig en ekki dýrin sem geta ekki greitt atkvæði. Það væri frábært ef dýrin gætu greitt atkvæði. Það væri svo spennandi að sjá útkomuna. Kisu væri alveg sama svo lengi sem ég kæmi heim.

Manneskjan er svo frek. Sjáiði Bússið!!! Sniðugt hjá ríkisstjóranum að afnema dauðarefsingar í fylkinu sínu (man ekki hvaða kall eða hvaða fylki) meðan Bússi er á kafi í utanríkisolíupólitík. Þvílíkt innlegg!!!. Bússi hefur ekki tíma til að spá í hvað er að gerast í sínu eigin landi fyrir olíu.

Ég vildi að við hefðum svona flotta leiðtoga í sveitastjórninni. Sem gerðu eitthvað frábært fyrir okkur almenning á meðan ríkið er á kafi í Kárahnjúkavirkjun.

Við sitjum uppi með fullt af menntuðu fólki sem fær ekki vinnu og ríkið skapar fleiri störf fyrir láglaunaðann verkalýðinn!!! Sem í staðinn fær ekkert útborgað því það er búið að hækka skattana, hækka allt svo að hægt sér að virkja. Maður fær skítlega 3% hækkun sem fer í vasann á virkjun! Þetta land er aumingi. Sjáum svo bara til...hverjir fá vinnu á Austfjörðum. Verkalýðsforystan er nefnilega úti að skíta líka. Hætt að berjast fyrir félagsmenn. Rukkar þá bara. Það vantar nefnilega svo mikið útlendinga sem vilja vinna þau störf sem Íslendingar vilja ekki. Til dæmis álverið á Austfjörðum.

Ég er að vinna með stelpu sem á heima á Austfjörðum. Hún varð voðalega æst þegar hún komst að því að ég væri á móti virkjuninni (ég bar mig þannig). Það voru þessi blessuðu rök um að það vantaði vinnu fyrir fólkið á Austfjörðum og að hana langaði ekki til að flytja þaðan, hún vildi eiga þar heima í framtíðinni. Þetta er nefnilega allt spurning um það. Að geta átt heima heimahjásér. Ég spurði hana hvort hún ætlaði að vinna í álverinu. Hún svaraði ekki spurningunni. Mamma spyr nefnilega þessarar spurningar (því hún er eins og ég, veit ekki hvaða afstöðu hún á að taka í þessu máli) en ætla allir Austfirðingar að vinna í álverinu? Og hún spyr enn fremur hvort unga fólkið vilji eiga þarna heima og vinna í álverinu? Er það framtíðin? Aldrei fór ég suður söng Bubbi út af fiskinum. Nú fer enginn suður vegna álvers.

Er virkilega ekki hægt að gera neitt annað en að virkja? Hverjum datt þetta í hug þetta með að búa til álver? Var það Austfirðingur? Er þetta eina lausnin? Af hverju mótmæla allir þessari virkjun og koma ekki með lausn fyrir Austfirðinga? Ef ég væri Austfirðingur, kæmi ég auga á lausn? Eða er þetta pólitískt mál þar sem lausn er í sjónmáli en menn kjósa að fara ekki þá leiðina vegna pólitískra ástæðna? Ég held að ég lumi á slíkum upplýsingum að það er til önnur leið menn vilja bara ekki fjármagna þá leið...kona sem ég er að vinna með sagði mér frá henni... og eins og vinur minn sagði: Ef að landsvirkjun á svona mikla peninga sem eru penignar sem landsmenn eru búnir að borga í formi orkuverðs...af hverju fáum við ekki að sleppa við það að borga orku í eitt ár sem verðlaun fyrir að borga alltaf? Það erum við sem eigum þessa peninga ekki Landsvirkjun. Landsvirkjun væri ekkert án okkar landsmanna ekki satt?

föstudagur, janúar 03, 2003

Ókei, ég er til í bloggið. Mitt eigið og fyrsta. Vonandi verður þetta skemmtilegra en sjónvarpið er akkúrat í kvöld. Föstudagur og vinkonur minar eru að hittast í kvöld langt í burtu frá mér. Ég verð bara að sætta mig við félagskap við mig...en elsku kisa er nú ekki langt frá.