laugardagur, janúar 24, 2004

Ég veit að ég er ekki alveg í lagi en nú fer allt að taka breytingum. Ég er meiraðsegja að hugsa um að fá mér A-LSD tengingu fyrir lítinn pening. Símasurtur auk Og Voðalegur eru allt of dýrir fyrir mína buddu.

Nákvæmlega...blessuð buddan. Henni hefur ekki batnað heldur hefur henni versnað töluvert þar sem ég gafst endanlega upp á Glundurstöðum og yfirgaf allt glundrið. Geðheilsan hins vegar er annað mál. Í staðin fyrir að rokka á milli þess að vera með 3 til 5 í einkunn flesta daga vikunnar þá er hún farin að fá 8 jafnvel 9,5 í einkunn. En með hennar hjálp hef ég lært að lifa með þeirri hugsun að hafa 100 krónur til ráðstöfunar hvern mánuð.

Mér er farið að finnast það fyndið að fara út í búð og kaupa í matinn fyrir það litla sem er eftir þegar búið er að borga fyrir hluti sem maður hefur en áttar sig ekki á að maður þarf að borga svona mikið fyrir. Til dæmis hitann sem skreppur til útlanda í hvert skipti sem kólnar inni hjá mér. Það er nokkuð góður árangur frá því sem áður var.

Mamma lánaði mér rafmangsofn sem steinliggur! Hann er að vísu frá fyrri hluta síðustu aldar þannig að þegar kall eða kelling kemur að lesa af mælinum mínum þá gleðst einhver maður sem heitir A eitthvað og vinnur hjá Orkufrekjunni við að hækka allt út af skemmdu gólfi!

Kannski ætti ég að leggja mig fram við að skemma gólfið hjá mér, taka myndir af því, senda Orkufrekjunni það sem kæmi í heimsókn og legði mat á sorgina og myndi í kjölfarið lækka hjá mér reikninginn vegna þess að gólfið er svo illa farið hjá mér (matsmenn fengju kallt kaffi og blaut brauð).

Mér hefur líka dottið í hug að spara á sumrin með því að slökkva á aðalrofanum og lifa bara á einhverju sem þyrfti ekki rafmagn og væri ekki óhollur og dýr skyndibiti. Það er svona eitt og annað sem mann langar til að prufa en ef ég ætlaði að framkvæma slíkt þyrfti ég að tæma ísskápinn. Ég er alveg viss um að ég myndi gleyma því og lifa í einhverri undarlegri lykt sem ég myndi engan veginn átta mig á fyrr en ég færi inn í hann til þess að fá mér eitthvað.

Þegar ég var lítil þá dauðöfundaði ég mömmu og systkini mín fyrir að fá svona bréf með glugga! Af hverju fékk ég ekki svona flott umslag? Nú á ég nóg af þeim!!!

Svo er alltaf spurningin, hvernig er hægt að spara og jafnvel leggja fyrir þegar það er ekkert eftir til þess að gera það? Mig langar svo til þess að læra það.