sunnudagur, nóvember 21, 2004

Menningin inni í stofuAkkúrat núna eru tveir blindfullir stráklingar að syngja Læónel Rizí á fullu inn í stofu þannig að þar ríkir smá ómenning. Ég er að reyna að reka þá út áður en þeir detta um allt.


Eins og þeir voru nú dannaðir klukkan tuttugu tvö. Stórkostleg breyting hefur orðið þar á. Bráðum springa hátalar og tvíderar fjúka ef ég verð ekki aggressíf. Neitaði því að fleira fólk fengi að koma inn í húsið fyrr í kvöld af ótta við helvíti. Nenni ekki þessum látum á meðan ég get ekki tekið þátt í þeim. Svo þegar undrið skjögrast heim einhverntíma í nótt þá fylgir honum vonandi ekki neinn. Ég fæ alveg grænar af tilhugsuninni af því að vakna klukkan fimm á eftir við þungarokk og fullt af fólki.
Svo fæ ég vonandi sögur á morgun ef minnið bregst ekki.

Ég er búin að vera svo helvíti menningarleg í dag án þess að fara út úr húsi. Mogginn var stútfullur af áhugaverðu efni og ég held að ég hafi aldrei eitt eins miklum tíma í Moggann á ævinni.

Ég paufaðist í gegnum grein e. Milan Kundera af miklum móð. Hann skrifar eins og maður viti nákvæmlega hvaða kalla hann er að tala um. Ég þekkti suma eins og Kafka og Stravinskí. Skildi flest það sem hann var að fjalla um en sumt var svona ekki alveg að fara í gegnum fattarann. Kaflar úr einhverju tónverki t.d. eftir tónskáld sem ég þekki ekki og gat ekki gert mér í hugarlund hvernig verkið hljómaði fyrir og eftir fikt. Milan var að velta því fyrir sér af hverju tónverkum er breytt þó svo að tónskáldið sjálft hefði ekki vilja að svo yrði gert og af hverju vinur hans Kafka hefði ekki farið að ósk Kafka um að brenna ritverkin hans eftir sinn dag þó svo að Kafka hefði tekið skýrt fram hverju ætti að halda og hverju ekki. Greinin var soldið að vaða úr einu í annað við fyrsta lestur. Kannski er hún einhverjir bitlingar úr ritgerð eftir Goðið sem Friðrik Rafns er búin að fikta í. A.m.k. er framhald í næstu lesbók.

Svo var skemmtilegt viðtal við Katrínu Marju Baldurs. Ég vissi ekki að hún væri svona mikil gella. Svakalega flott. Hún var að segja frá nýju sögunni sinni og hvernig sagan var unnin. Mér finnst ótrúlega spennandi hvernig rithöfundar vinna vinnuna sína og hvernig hugmyndir að sögum verða til. Sérstaklega skemmtilegt hjá henni en hún fékk eitthvað málverk upp í hendurnar sem hún þurfti að komast að hver hefði gert og upp úr því kemur heil saga um hvernig það er að vera kona, uppi á ákveðnum tíma og ætla sér að gerast listamaður og hvernig hlutirnir breytast þegar ástin tekur völdin. Svo er spurning hvað verður um listakonuna. Ótrúlegt hvað hlutverk kvenna þurfa alltaf að skarast nefnilega þegar þær verða mæður og svona. Ég held að það sé samfélagsvandamál ef konur þurfa að fórna sjálfri sér alltaf hreint fyrir karl og börn. Sem einstaklingur gæti ég ekki hugsað mér að fórna draumum mínum þó svo að líf mitt taki breytingum að einhverju leiti. Ef ég þarf barnapíu til þess að spila Baldur's Gate í friði þá geri ég það.


Svo kom Philp Roth. Hann er rithöfundur sem mig langar til þess að tékka á. Ég kynntist honum (ekki persónulega) lítillega á námskeiði sem ég fór á. Hann ásamt Kurt Vonnegut útskrifaðist úr einhverjum svakalega flottum rithöfundaskóla sem er erfiðara að komast inn í en læknadeildina í sama skóla. Ég er ekkert sérlega hrifin af sögunum hans Kurts en mig langar til þess að kynna mér Roth og vita hvernig fólk skrifar sem fer og lærir að vera rithöfundur. Það var sagt frá nýjustu sögunni hans. Ég held að ekkert hafi verið þýtt eftir þennan kall á ísl. Það er þá bara að skella sér á bókó og ná sér í útlenskt eintak. Kannski er þetta bara einhver sem skrifar á bullísku og maður skilur ekki baun. Það eru til svoleiðis rithöfundar. T.d. þeir sem ég hef þegar nefnt eins og Thor og Björn.

En nú ætla ég að halda áfram að reka fulla kalla út úr íbúðinni. Tom Jones hljómar nú um allt hús. Þeir eru á ofurrómantíska-trippinu þessi krútt. Meðan engir ælir út um nefið eins og gerðist síðast þegar þessir tveir kappar háðu drykkjuskap þá er allt sæmilega gúddí.

föstudagur, nóvember 19, 2004

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Dugleg stelpa

Ég er búin að vera alveg rosalega dugleg í kvöld og sofa og sofa. Nú er ég alveg í banastuði og ef ég væri ekki að gliðna í sundur myndi ég bera húsgögn út um allt.

Maðurinn er fastur í Grand Theft Auto. Hann er einhver svertingi sem drepur fólk og hjálpar spilltum löggum við að "losna við" óþekka blaðamenn. Hann er eins konar rappdrepari. Mér finnst þetta frekar óhugnanlegur leikur. Enda er hann bannaður innan 18 ára. Mér finnst þetta frekar ógeðslegt allt. Hann fékk svona missjón þar sem hann átti að drepa verkamann; henti honum ofan í grun og fyllti með steypu! Það er allt hægt í þessum leik. Ðökk! Ég þarf ekkert að fara í undirheimana á Íslandi. Þeir eru í tölvunni hans Berta.

Ef þið viljið heyra "kisusögu" þá er ég stöðugt með nábít eða vélindabakflæði. Man ekki hvort er nábítur eða vélindabakflæði. Ég held að þetta sé það sem fólk kallar brjóstsviða en þar sem mig svíðir ekki í brjóstið heldur í hálsin og vélindanu nota ég ekki það orð yfir þetta ógeð. Stundum er eins og að barkinn sé hreinlega að brenna upp í sýru!
Svo erða grindarlosið! Kynlífinu hefur verið pakkað í plast og sett ofan í skúffu á meðan svo er. Setti smá lyktarkúlu með svo það myndi ekki gjósa upp kynlífsmyglufýla. Ef kallinn ætlar að springa þá er alltaf hægt að hlaupa í klámbúlluna og ná sér í plastkuntu. Fann ekki mynd af slíku fyrirbæri en ég fann þessa ógeðslegu læknasíðu með myndum af sýktum kynfærum ofl.


Ég ætlaði að vera rosalega dugleg og skila tösku sem ég fékk lánaða hjá henni Beddu einhverntíma í sumar áður en við fórum í "kisukeppni" og drukkum eins og svín. Tók töskuna og setti við stigann svo ég myndi örugglega muna eftir henni á leiðinni út. Kisa var eitthvað voðalega mikið að bisa við töskuna í gær og ég var hálf undrandi hvað hún var mikið að sísla en þar sem hún hefur alltaf verið mjög hrifin af töskum og elskar að liggja á þeim var ég ekkert að spá frekar í þetta. Fór bara að sofa. Svo tók ég töskuna með mér í vinnuna og þar beið hún á vísum stað þar til í lok dags þegar ég rétti Beddu töskuna. Við ákváðum að kíkja ofaní og þá kom þessi rosalega undarlega lykt. Þá hafði Kisa pissað í töskuna fyrir langa langa löngu og hafði þess vegna verið svona mikið að klóra í töskuna kvöldið áður. Þetta var svo mikið ógeð að við hentum töskunni í ruslið. Þegar ég kom heim þá hélt ég ræðu yfir Kisu fyrir að vera ógeðsleg. Hún horfði bara á mig. Í allt kvöld hefur mér klígjað við Kisu greyjinu fyrir verknaðinn.
Annað ðökk.


Byrjaði á Gogol í fimmta sinn í gær. Hef aldrei lokið við hann eins og hann er nú frábær. Ég er alveg í skýjunum. Nú er að sjá hvort ég haldi mig við efnið.
Kannski að ég baki vöfflur snöggvast...nammi namm.

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Jólaskapið


Hæ! Ég er alveg komin í jólaskapið. Mig langar til þess að baka smákökur ekki til þess að borða þær heldur bara til þess að búa til lykt í íbúðina mína. Svo langar mig að föndra helling af krúttlegu dóti til þess að klína í alla glugga og kaupa fullt af ljósaseríum og hengja út um allt hús. Mig langar að senda jólakort sem ég er hætt að gera því ég fer aldrei með þau í póstkassa- eða hús. Mig langar virkilega til þess að breyta síðunni minni í jólaundur yfir hátíðarnar...og það sem mér finnst algjört möst: kveikja í þurkuðu greni til þess að finna jólalyktina. Nú vantar bara smá fé milli handanna og nenna í strætó til þess að sækja allt það sem mig vantar.

Eftir að kennaradeilan leystist magnast spennan. Hvað ælta leikskólakennarar að gera? Kennarar eru búnir að þurrausa verkfallssjóðinn og því spurning hvort að það sé ekki í raun búið að lama leikskólakennarana til þess að semja um hvað sem er. 16 börn á einn starfsmann og fá smá hækkun í staðin. Þær sömdu svoleiðis síðast. Bættu við sig börnum fyrir pening og þar er varla hægt að gera neitt af viti með þessum litlu krúttum nema vera varðhundur. Urrrrrrr....voff. Að sjálfsögðu vona ég að þær hafi vaðið fyrir neðan sig. En ég vil endilega að þær fari í verkfall! Vera í huggulegheitum á launum og gera eitthvað skemmtilegt. Þokkalega!

Ég verð nú samt að vera duldið dómhörð...mér finnst það nú ekki merkilegt að mennta sig í uppeldisstörf og vera bara hálfan daginn og missa af flestu því sem gerist á vinnustaðnum. Ég held að þetta eigi við í heilbrigðisgeiranum líka t.d. hjá hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum. Mér finnst ég ekkert vera inn í málunum þegar ég er hálfan daginn.
En þetta er mín skoðun.

Nenni þessu ekki
farin að gera eitthvað jóló.

mánudagur, nóvember 15, 2004

Bókalesturinn og bullað við sjálfa sig


Gaf skít í staflann sem er við rúmið og fann Alkemistann í hillunni. Ágætis saga um lífspeki.
Ég er búin að hafa hana í láni hjá mömmu hundlengi en þorði ekki að lesa hana út af þýðandanum. Var skíthrædd um að Thor myndi bulla mann í kaf. En hann lét sér nægja að þýða bókina.
Hei, ég var búin að gleyma því! Ég hef boðið Thor upp í dans! Við vorum bara alveg eins og englar á dansgólfinu! Merkilegt...

Ég ætlaði einu sinni að lesa Grámosann hans Thors af því að ég fékk Einar Ben-dellu en hljóp hratt í burtu eftir nokkrar blaðsíður. Ég kann ekki að lesa svona fínerí. Fangar mig engan veginn enda gat ég ekki alveg séð Einar fyrir mér takandi einhverja konu upp á eldhúsborði. Svo hef ég líka reynt að lesa Björn Th. en hann er allur í því að sletta yfir mann dönskum frösum sem einhverjir amtmenn og stiftamtmenn töluðu fyrir mína tíð. Síðan hef ég forðast þessa menn.


Áhugi minn á Einari var ekkert út af ljóðunum hans heldur Sólborgarmálinu og Reynisstaðabræðrum. Einar var ungur lögmaður í Sólborgarmálinu og er (var?) í sömu ætt og Reynisstaðarbræður. Hann mátti s.s. ekki ganga í grænu og varð sjúklega hræddur við drauga e. Sólborgarmálið. Mamma greyið þurfti að fá ævisögur Einars frá mér í jólagjöf út af þessum áhuga mínum. Ég las fram að Sólborgarmálinu og missti síðan áhugan. Mamma hefur ekki fengið síðasta bindið í tríólógíunni. Ég kunni ekki við það að gefa henni Einar Ben þrenn jól í röð. Klúðrar sörpræsinu.

sunnudagur, nóvember 14, 2004

Fúla helvíti


Mamma gat dottið og brotið einn hryggjaliðanna sinna svo ég er ekkert í banastuði. Það er nefnilega eitthvað sem er búið að plaga hana síðustu 11 árin og læknar finna ekki neitt og vita ekkert hvað þeir eru að gera. Hins vegar á annar fóturinn hennar það til að gefa undan þegar hún stígur í hann svo eitthvað hlýtur að vera að. Þess vegna datt hún. Fóturinn neitaði að hlýða. Hún gat valið um að detta aftur fyrir sig og brjóta úr bakinu nú eða fljúga fram fyrir sig niður stigann sem er stórkostlega brattur. Vonandi valdi hún rétt. Núna liggur hún bara á spítala og verður send heim fljótlega því það kostar að liggja á spítala. Ég er alveg spreng fúl yfir þessu. Hvar endar þetta? Ég vil fá mömmu mína til baka. Ég vil að hún fái að vera heilbrigð eins og annað fólk. Ég og mitt hyski er alveg búið að fá nóg af því hvernig lífið leikur okkur! Mig langar í falleg og góð jól í faðmi fjölskyldunnar ekki sorg og sút (sniff, sniff).

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Ekki einungis leti


Það er ekki vegna þess að ég er að deyja úr leti að ég hef ekki bloggað heldur er ég orðin hundleið á að bíða eftir að Blogger nenni að opna sig yfir höfuð. Það er alveg með ólíkindum hvað hann á erfitt með það. Ég fékk mér adsl til þess að blogga hratt og vel en það virðist ekki ætla að vera svo.


Ég er ekki í neinum stórkostlegum pælingum en ég er að jafna mig á fjölmiðlahatrinu sem hefur umlukið mig svo lengi. Hef engan vegin getað fylgst með blöðum eða útvarpi án þess að fá gubbupest. Það er ekkert nema leiðinlegar fréttir út um allt. Ég veit ekki hvað triggeraði þolið en sú frétt sem kemur sterkust til greina er þessi með teppið. Þegar íslensku hermennirnir voru að passa upp á kall sem þurfti svo ofboðslega að kaupa sér teppi! Mér finnst þetta það albesta í heimi. Svo sprakk bara allt í loft upp. Mikil hermennska þarna. Íslendingar sendir til þess að vera hermenn og passa upp á aðra hermenn í verslunarleiðangri. Dæmigert fyrir bananalýðveldið okkar. Það er ekkert verið að hugsa um afleiðingar þess að þeir séu á svæðinu. Um leið og hermenn sjást þá er að sjálfsögðu reynt tilræði. Mér skilst að þrátt fyrir sprengjuna hafi kallinn heimtað að fá sitt teppi en það hafi ekki gengið eftir...
Svo komu þeir heim þrír saman í einhverjum bolum með yfirlýsingu um að shit happens. Það hefði átt að bæta við: venn jú ar bæing teppi in átlend.

Blönni hefur heldur ekki verið mikið í sviðsljósinu sem útskýrir töluvert bloggleysið. Um daginn var ég að hlusta á útvarpið og það var hringt í hann. Ég var ekki viss hvort að þetta væri hann í raun og veru því hann talaði svo hægt og yfirvegað. En jú það kom á daginn. Hann er greinilega rólegri þegar hann þarf ekki að gjamma með fleira fólki. Það var verið að spyrja hann út í olíufélögin. Ég botna ekkert í þeim málum ennþá. Veit ekki betur en að það séu fullt af fyrirtækjum sem eru í nákvæmlega sama sukkinu og olíufélögin. Til dæmis bankar og tryggingafélög. En þar sem Blönni er partur af fjölmiðlum og birtist mér yfirleitt þar þá nær fjölmiðlaógeðið mitt yfir hann. Spurning hvort ég sé læknuð af því og fari að fylgjast aftur með af fullum krafti.

Ég nennti alla vega að hlusta á Þórólf segja af sér. Ágætis fordæmi handa bananalýðveldinu þar.
Það verður gaman að sjá hvort að ráðamenn þjóðarinnar ásamt þjóðinni sjálfri þroskist eitthvað í framhaldinu. Það er áreiðanlega sægur af skít til þess að grafa upp. Meira meira.

Shopping therapy in Kabul