þriðjudagur, desember 21, 2004

Það lítur út fyrir að flestir ætli í fyrirjólabloggfrí. Ég ætla að gera slíkt hið sama þar sem að jólunum verður flýtt á mínu heimili. Við ætlum að halda jól 23. des vegna þess að einhver þarf að vinna á aðfangadag. Maður fær fleiri jóladaga í staðinn.

Ég þarf að fara að pakka niður drasli sem ég ætla að taka með mér til Akranessins. Nenni ekki soleiðislöguðu. Á ég að taka Kisu með? Á ég að taka með mér tölvuna?

Ég tek alltaf allt of mikið með mér og gleymi öllu þegar ég sný til baka. Mínímalisminn verður að vera í fyrirrúmi. Nú svo má náttlega gera lista...líta svo yfir hann áður en ég fer heim og gá hvort ég sé að gleyma einhverju.

Svo eru það helvítis fiskarnir sem eru alltaf í pössun. Búnir að vera í pössun síðan í sumar. Geta þeir ekki bara étið skít á meðan?

Jæja, bless í bili. Það hefur enginn tíma til þess að lesa blogg núna...Gleðileg jól og étum yfir okkur. Síðan fáum við öll líkamsræktarklisjuræpuna yfir okkur. Nútímatrúboðið.

föstudagur, desember 17, 2004

Ég á svo mikið dót!


Vitiði að ástæðan fyrir því að konur eru settar af stað á 42. viku er ekki vegna þess að barnið á að koma út. Heldur er ástæðan sú að legvatnið er fullt af barnaskít! Þess vegna er ekki beðið endalaust eftir að barnið ákveði að koma út. Alltaf lærir maður eitthvað nýtt.

Vaknaði klukkan hálf sjö í morgun! Ég! Mér finnst það alger óþarfi fyrst ég get ekki tekið til heima hjá mér. Ég get gert ýmislegt annað svo sem eins og að lesa um hann Struensee en ég þoli ekki drasl í kringum mig þegar ég er að gera eitthvað krúttlegt. Ég á náttúrulega allt of mikið dót en ekki nægar hirslur. Eftir að hafa stúderað mikið og pælt hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ástæðan fyrir óreiðu á heimilum almennt er vegna hirsluleysis. Hlutir eiga þar af leiðandi ekki sinn stað og þá er ekki hægt að ganga frá þeim eftir notkun. Og við þetta myndast óreiða (lesist með röddu Sigurðar H. Richter).

Ég á hins vegar tvær óhreinatauskörfur. Ég á alveg svakalega erfitt með að nota þær einhverra hluta vegna. Gólfið er alltaf tilvalinn staður fyrir skítugu fötin mín. En þegar kemur að því að þvo þá eru fullt af fötum horfin af gólfinu. Leyndardómurinn á bak við horfnu fötin er ekki ýkja merkilegur. Fötin færast undir rúm þegar íbúar þessa heimilis eru að fóta sig fram og til baka í svefnherberginu. Það má svo sem líta á jákvæðu hliðarnar og segja sem svo að þetta fyrirkomulag ýti undir líkamsrækt. Ég efast samt um að hún teljist holl.

Mér hefur dottið í hug að taka upp mínímalisma og henda öllu furðulegu dóti sem ég nota aldrei nokkurn tíma. Nú eða skreppa í sorpu þar sem Góði Hirðirinn er með gám. Gallinn er sá að með því að tæma íbúðina tapast töluverð hljóðeinangrun á milli hæða.

Á morgun segir sá lati er bók sem ég fjárfesti í. Vondur titill á annars ágætis bók þ.e. miðað við innihald. Þar er manni kennt eitt og annað í sambandi við að geta hreinlega ekki hent hlutum. Til dæmis á maður að fara í gegnum draslið sitt og flokka. Setja í kassa, geyma í hálft ár og athuga hvort maður saknaði eða þurfti nauðsynlega á hlutunum að halda að þeim tíma liðnum. Taka þá drasdísku ákvörðunina um að henda helvítis ruslinu nú eða gefa. Ég sakna tombólu-krakkanna sem komu einu sinni alltaf og dingluðu...

Gallinn við þessa bók er sá að ég var komin með svo örann hjartslátt yfir öllum verkefnunum sem biðu mín að ég gafst upp á öllum frábæru úrræðunum vegna skelfingar. Hvar átti ég svo að geyma þessa kassa? Ef ég færi með þá upp á loft þá myndu þeir dala þar uppi eins og svo margt annað dót sem er þar fyrir. Hvernig átti ég að flokka dótið? Hvað á ég að gera við teiknibóluboxið sem ég nota aldrei? Eða alla litlu límmiðana sem ég þurfti svo endilega þegar ég var í skóla og notaði aldrei. Að ekki sé minnst á pennakaupin min yfir árin...

Ég veit alla vega að næst þegar ég kaupi mér íbúð þá er alveg á hreinu að ég verð að vera með hausinn vel skipulagðan. Eitt af stóru vandamálum þessa heimilis eru nefnilega snúrur og staðsetning innstungna. Simalínan er á hrikalegum stað og ég dett um hana í sífellu. Svo eru ekki innstungur á þeim stöðum þar sem þær ættu að vera. Því eru fjöltengi út um allt sem skapa hættu á íkveikju. Fjöltengi í fjöltengi í fjöltengi. Ég get endalaust flækt hlutina með því að ætla mér að skapa reiðu úr óreiðu. Ég rekst alltaf á hindranir þegar ég ætla mér að skipuleggja og yfirleitt er lausnin í formi einhvers peningaútláts. Kaupa þetta til að geta gert svona o.s.frv.

Svo fer maður út í búð og kaupir hlutinn sem mann vantaði svo ofboðslega en þegar heim kemur verður manni ljóst að hann passar ekki og bætist þar af leiðandi við í safn hluta sem voru keyptir í góðum tilgangi en gátu ekki komið að þeim notum sem maður ætlaði sér.

Pælið íðí. Meiraðsegja fataskápar geta gert manni þennan óleik. Þú ferð út í búð, kaupir eitt stykki fataskáp og lendir í stórkostlegum vandræðum með hvernig þú eigir að brjóta saman fötin þín í nýja fína fataskápnum! Ég er með heila kommóðu sem ég veit ekkert hvað ég á að geyma í vegna þess að föt passa ekkert í hana. Upphaflega átti hún að geyma föt. En undanfarið hefur hún verið stútfull af drasli sem ég veit ekki hvað ég á að gera við. Kannski fær hún sitt rétta hlutverk eftir allt þegar pínu lítill kall kemur í heiminn...en hvað á ég að gera við það sem er í henni nú þegar? Mig sárvantar aur til þess að kaupa inn á heimilið hirslu dauðans. Endalaus bastkörfukaup í Svíkea eru ekki að gera sig. Ju að ekki sé minnst á eldhúsið á þessum bæ sem er eldhús dauðans. Ég er að fá hjartsláttinn...

Eins og sjá má er viljinn fyrir skipulagningu gríðarlegur en hæfileikinn er ekki til staðar, hirslurnar ekki til staðar einungis risastór dílemma. Döhh

fimmtudagur, desember 16, 2004

Hversdags Bull

Það er nú meira hvað þetta template mitt er leiðinlegt. Allir linkar horfnir og ég stend frammi fyrir þvi að templeita eina ferðina enn.

Ég kvelst á milli lappanna nánar tiltekið í lífbeininu. Það er nú meira ógeðið. Í dag fékk ég svo mikinn verk að ég sagð ái upphátt. Verkurinn vakti mig af værri leggingu. Ég vaknaði svo óhugnanlega snemma í morgun að ég varð að pína mig í leggelsi svo ég gæti æft í kvöld fyrir tónleikana okkar Brúðarmeyjanna sem verða annað kvöld á Grand Rokkinu. Við ætlum að halda upp á eins árs afmælið okkar. Allir velkomnir með 500 þorska en það er þægilegra að hafa með sér sífilis-karlinn eða einn rauðann. Hann er svo léttur áðí.

Kríli litli fýlar það í botn að mæta á hljónstrængar. Steinsefur allan tímann. Ætli hann verði bilað tónskáld þegar hann verður stór? Hvað ef hann ætlar nú að verða prestur? Ji...það yrði nú duldið furðulegt. Vonandi verður hann ekki villuráfandi sauður eins og foreldrarnir. Hann fæðist allavega sauður...er ekki hrútsmerkið í mars/apríl? Ég er að safna kindum. Hann verður dýrmætasta sauðkindin mín.

Ég er soldið dugleg í bókalestrinum núna. Ég held að það stefni í metár í bókalestri svona miðað við hvernig ég hef verið undan farin ár. Ég er að lesa Líflækninn eftir Svía-kallinn Per Olaf Enquist. Mér finnst það soldið skemmtilegt að Svíi skuli skrifa um danska aðalinn.
Það er eitthvað svo dulmagnað þegar maður les þessa sögu. Það er eitthvað óhugnanlegt sem liggur í loftinu alla bókina. Ég er svo skít hrædd um hann Struensee að ég er alveg að fríka út. Ef ég klára ekki bókina þá er það að ég vil ekki vita hvað verður um hann. Ég veit það nú þegar en ég vil ekki lesa það. Það er stöðugt ódó í loftinu. Kristján 7-undi gjörsamlega út úr kortinu vegna geðbilunnar og grútskítugur aðall að utan sem innan. Ðökk. Ótrúlegt hvað þessi saga dregur fram í manni einhverjar tilfinningar sem maður finnur ekki dags daglega. Svo eru allir í sögunni í uppnámi út af upplýsingamönnum sem er líka svo gaman að upplifa. Maður skynjar alveg hvað aðlinum var ógnað með þessari nýju hugmyndafræði sem breytti sér í lýðræði með tímanum.

Mér finnst þetta svo spennandi. Ef maður ætti tímavél og huliðsskikkju...
Hvernig ætli lyktin hafi verið inni í höllunum eða á götum Kaupmannahafnar? Mig langar svo að vita það. Og mig langar að skoða ógeðslegu hárkollurnar sem voru í tísku með flísatöng og skreppa á tónleika með einhverju frægu tónskáldi. Og sjá hvernig skyrtuermar og kragar litu út ef maður kíkir undir og á bak við. Gult eitthvað. Finna líkamslyktina af þessu fólki. Mig langar að sjá skítugan aðal. Áreiðanlega allt öðruvísi lykt heldur en af gömlu súrufýlufólki.

Vélindabakflæðið er farið að gera mig brjálaða og ég hef misst einbeitinguna. Þoli ekki þetta sviðaógeð öllu lengur.


mánudagur, desember 13, 2004

Læknaðu sjálfan þig - Óheilbrigðiskerfið...

Fór til mömmu í nokkra daga til þess að horfa upp á það hvernig það verður þegar ég og þið sem nálgist sextugs aldurinn verðum trítuð af Óheilbrigðiskerfinu. Hún var bara send heim ekki fær um að elda ofan í sig einu sinni. Hún þarf að skröltast í eitthvað risa belti til þess eins að fara á klósettið. Jú hún getur fengið sendan mat heim en það þarf að fara til dyra...

Eitt af þeim fyrirbærum sem hringja dyrabjöllunni heima hjá henni er vottur Jehóva sem vill svo endilega færa henni blöð. Mamma er búin að segja henni að hún geti ekki farið til dyra en votturinn virðist ekki skilja þetta og kemur alltaf reglulega með Varðturninn. Spurði mömmu hvort hana vantaði ekki eitthvað að lesa! Það er risastór DYRALÚGA á hurðinni ef vottinum er svona mikið í mun að losna við blöðin sín.

Mamma finnur ekki til í beinbrotinu í bakinu sem sætir furðu meðal heilbrigðisstéttarinnar. Hún kvelst svo mikið í þessu gamla sem hefur hrjáð hana í að verða 11 ár og enginn veit hvað er. Það er ekki einu sinni kannað hvort það sé sambandi milli þess og að fóturinn hafi gefið sig sem orsakaði það að hún datt og braut bakið á sér.

Systir mín á líka furðulega sögu. Fyrir nokkrum árum fór henni allt í einu að verða svo illt í maganum. Hún tóraði þangað til að hún gat ekki meir og fór til læknis. Læknirinn skoðaði á henni ristilinn og sagði hann vera fallegasti ristill sem hún hefði nokkurn tíma séð! Segir þetta við alla því þessi sami læknir er líka búin að skoða ristilinn hennar mömmu og segja það sama. En hvað um það. Ekki lagast systir mín og talar við annan lækni sem ákveður að skera hana upp því þetta er svo botnlangalegt eitthvað. Botnlanginn var í fínu lagi en það var hálfur lítri af eldgömlu blóði í kviðarholinu á henni.

Læknirinn tók samt botnlangann fyrst hann var nú að þessu og sá að það voru einhverjir pokar á ristlinum (þessi glæsilegi muniði). Þetta eru ógeðslegir pokar sem geta sprungið. Fullir af skít og ógeði og stórhættulegir. Systir mín mátti hafa þá áfram. Sami læknir og skar hana upp hafði samband við kvennsjúkdómalækni út af blóðinu. Kvenni gat ekki gefið neinar útskýringar aðrar en þær að sennilega hefðu myndast blöðrur á eggjastokkunum sem hefðu sprungið. SENNILEGA! Frábært. Má hún búast við því í framtíðinni að fleiri myndist og springi?

Mamma þekkir konu sem er alltaf að fara á sjúkrahús út af þessum ristilpokum sem eru alltaf að springa. Kvalarfullt dauðans.

Djöfuls viðbjóður er kroppurinn manns að innan! Maður veit ekkert hvað er að gerast þarna inni. Fólk er á kafi í heilbrigði en svo er maður með grútmygluð og fúl líffæri...

Sjálf hef ég ekki lent í neinu svona ennþá nema ég fór einu sinni til læknis út af bakinu á mér. Fokking sérfræðingur sem ég borgði fullt af peningum til þess að fá að vita það að hann VORKENNDI mér ekki neitt! Er bara með fúlt bak síðan sem versnar eftir því sem kúlan á maganum á mér stækkar og fettir upp á mér bakið. Bráðum verð ég eins og önd á tjörninni í laginu.
Kríli litli hefur það fínt á meðan mamma paufast um allt eins og hún sé með 20 tommu kókdós í klofinu. Nú veit ég af hverju ófrískar konur byrja að vagga á 3 mánuði. Það er ekki af því að þær eru að sýna öllum heiminum að þær eru ófrískar og að springa af monti heldur er þetta út af kókdósinni/grindarlosi dauðans.

Það er ekki gott að vera liðugur í liðunum en tannlæknirinn minn er hæst ánægður með það. Ég er svo dugleg að opna...hann getur komið þrettán borum upp í mig í einu!
En læknaðu sjálfan þig...kannski tekur maður upp á gömlum siðum eins og að nota bíld! Það eru nokkrir til á byggðasafninu og lækna alveg jafn mikið og læknar í dag.

Þessari mynd varð ég að plögga. Hvað er þetta græna?

miðvikudagur, desember 08, 2004

Explorer

Ég er búin að skoða bloggið mitt í explorer...djísjúss það er glatað!
Samt er þetta templeit í boði blogger. Ég hef ekki fiktað neitt. Fáránlegt. Hvað er verið að bjóða upp á templeit sem virka ekki í öllum bráserum?

Var í vinnunni í nótt!

Dreymdi vinnuna. Við vorum fjórar með allan leikskólan eða 55 börn. Leikskólastjórinn fékk þessa fínu hugmynd að gefa öllum öðrum frí vegna þess að það var hvort eð er frídagur daginn eftir. Þegar ég innti eftir því hvort ekki væri hægt að kalla einhverjar í vinnu til þess að klára daginn þá sagði Bedda mér að það væri ekki hægt því þær fóru allar í klippingu! Svo kom allt í einu strolla af nýju starfsfólki sem vantaði vinnu.

Flestar fengu þær vinnu en þegar leið á daginn kom ein þeirra til mín með undirskriftalista sem ég vissi ekki til hvers var en það var eitthvað í sambandi við leikskólastjórann. Þetta var rosalega þykk bók og inn í henni voru myndir af þeim starfsmönnum sem ekki fengu vinnu og átti víst að þýða að leiksskólastjórinn hefði verið með fordóma gagnvart þessu fólki. Ein leit út eins og geimvera og svo stóð undir myndinni að hana bráðvantaði meðmæli og vinnu. Svo átti ég að skrifa. Mér var ekkert vel við það. Sá samt nafnið mitt en ég hafði ekki skrifað það svo ég hugsði að þetta væri nafna mín úr þessum risastóra starfsmannnahópi.

Það kom aldrei almennilega fram hvort það væri verið að lýsa yfir vanhæfni. Ég var eiginlega soldið hissa að það væri þessi svaka listi og konurnar ekki búnar að vinna í tvo tíma einu sinni. Svo sá ég að Bedda var búin að skrifa sig á listann svo ég skrifaði mjög illa nafnið mitt á blaðið. Langaði greinilega ekki til þess að taka þátt í þessu nema Bedda væri örugglega með.
Þetta kalla ég nornaveiðar.
Ekki fékk ég að vita meir því ég var ræst af klukkunni og er með skrítna tilfinningu inn í mér. Eins og ég sé að svíkjast undan einhverju...

Svo er ég bara löt. En ég á víst að vera það. Það er skyldan sem ég þarf að fara eftir núna. Létt líkamsrækt og leti. Svo ég er að hugsa um að skella mér í hundleiðinlegan göngutúr upp á Lansa til þess að láta draga úr mér nokkra blóðdopa. Kíkja við hjá Tryggingastofnun og sjá hvernig innviðið er hjá þeim. Eftir þetta fer ég að fá á tilfinninguna að lífbeinið sé að færa sig út á læri svo það er eins gott að hvíla sig þangað til næsta törn kemur.
Þetta verður góður dagur í köldu veðri.

mánudagur, desember 06, 2004

Risaeðlur lifðu greinilega af...

Ég er hérna á risaeðlunni. Hún fékk nýtt stýrikerfi í kroppinn sinn og virkar betur. Hún er ekki útdauð enn. Allir draumar um að breyta blog-síðunni í jólaundur eru horfnar eftir tölvubömmer síðustu daga. Ég ætlaði að gera hana rauða og græna og finna animeited snóf og eitthvað svona kósí fyrir desember...ég veit ekki hvort ég nenni því núna.

Kisa er eitthvað klikkuð þessa dagana. Hún er farin að pissa í töskur og rétt í þessu var hún að sleikja ráterinn! Til hvers?
Í dag fór hún ofan í piparkökuskálina og át leyfar af piparkökum!!! Svo lagði ég frá mér ísskál með Bjánusís og karamellusósu og ég var ekki búin að snúa mér við þegar tungan á henni var komin vel ofan í skálina.

Nú er svo komið að ég get ekki sofið á nóttunni því að það er engin stelling nógu góð. Ef ég sef á bakinu kafna ég út af einhverju sem gerist í hálsinum þegar mar er með badn í maganum plús get ekki stigið í fótinn daginn eftir. Ef ég sef á vinstri hliðinni get ég deffinitlí ekki stigið í fótinn daginn eftir og núna er það svo að þegar ég sef á vinstri hliðinni er ég um það bil að fara úr axlarlið! Ef ég þarf að fara út í búð með budduna og kaupa og kaupa þá er eins og fæturnir séu að reyna að færa sig upp á mjöðm ef ekki detta af í sínhvora áttina. Ég fór til læknis í dag og spurði hana út í þennan aumingjaskap. Hún sagði að þetta væri ekki aumingjaskapur. Svona væri það að vera of liðugur í liðunum. Hormónarnir fara verst með þær konur. Ég er endilega svoleiðis kona. Verst að það eru allir liðir sem verða fyrir barðinu á hormónum.

Er ég að fara fæða barn út um munninn eða hvað? Hvernig ætli það sé ef barnið færi nú öfugt og þyrfti að fara í gegnum meltingarfærin og koma út um munninn? Ég get alla vega tekið mig úr kjálkalið. Ekkert mál!

Ég er samt voðalega fegin að læknirinn sagði að þetta væri ekki aumingaskapur. Nú fæ ég ekkert samviskubit yfir því að vera ekki Ofurkonan.

En ég get bloggað...það er nú fyrir öllu. Nú fer ég að fá tíma til þess að sinna því sem gerist í hausnum á mér út af öllum þessum liðamótum sem vilja ekki í vinnuna.

Fann þennan fína fæðingarkjaft.


miðvikudagur, desember 01, 2004

Bilað helvítis fökkking drasl djöfuls inter-adsl prump!

Eins og titillinn gefur til kynna þá er allt í fúlum skít á þessu heimili. Engin tengsl við netið. Ég er á risaeðlunni (laptop sem er 10 mínútur að bútta sig upp) og er að reyna að bjarga einhverjum málum sem eru óbjargandi.

Við ösnuðumst til þess að formatta nýju tölvuna og misstum fullt af dræverum og dóti út. Diskarnir sem fylgdu tölvunni virðast ekkert eiga sameiginlegt við hardverið sem er í henni. Mér er skapi næst að henda henni út um gluggan og vita hvort hún lagist ekki við það. Maður er gjörsamlega úrræðalaus. Búin að eyða hellings klukkustundum í að ræða við einhverja internet kalla hjá símanum sem vita ekkert í sinn haus. Netið virkaði nefnilega ekki einn góðan veðurdag og við ákváðum að gera allt sem hægt væri áður en við tókum þessa stórkostlegu ákvörðun. Risaeðlan virkar en ekki með Adsl! Ég ætla samt að reyna eina fokking ferðina enn. Kannski hefðum við átt að stækka minnið í risaeðlunni heldur en að kaupa þessa Bé Té druslu. Tæknival rúlar. Ég get svariða.

Líklega verður ekki mikið um blogg næstunni. Nú ef svo verður þá er ég að stelast í tölvur hjá einhverjum öðrum. Ég er alla vega hætt að hafa trú á að hlutirnir lagist sérstaklega þegar um tölvur er að ræða.

Ég meika ekki að geta ekki lesið tölvupóstinn minn...grrrrrrrrrrrrr....

AAAAAAAAAAARRRRRRRRRRRRGGGGGGGGGGGGGGGG!
Lifið heil ef ég sést ekki á veraldarvebbnum næstu MÁNUÐINA!!!