fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Ahh bú-gúddbæ jelló brikk ród


Skilaði mínu í kveld. Spilaði eins og ég mögulega gat. Það er alltaf skrítið að spila á annarra manna sett. Ég var soldið gleið. Langt á milli hihats og bassatrommu. Meira hvað sum statíf þurfa að vera með langa fætur sem flækjast fyrir út um allt þannig að það er engan vegin hægt að draga þau nær sér. Svo náttúrulega allt hitt. Hvað um það.

Bumbi svaf rólegur. Er eitthvað að pota í mig núna. Elsku krúttið. Nú fer veröldin virkilega að snúast um bumba. Ég hlakka til þess að hverfa inn í annan heim í smá stund. Prufa eitthvað nýtt. Ekki sjónvarpsfólk eða tónleikar. Bara einka upplifun sem maður á fyrir sjálfan sig. Þetta er svo þannig einhvern veginn. Kannski lærir maður líka að hugsa um sjálfan sig í leiðinni. Það fer oft forgörðum.
Nú ætla ég að hvíla mig og endurnæra blogghausinn svo hann bloggi eðlilega.

miðvikudagur, febrúar 23, 2005

Síðasta giggið mitt í bili


Annað kvöld ætla ég að paufast í gegnum eins og eitt prógram með elskunum mínum í Brúðarbandinu eins vel og ég mögulega get og svo ætla ég bara að fara í fæðingarfrí. Ég veit að ég og bumbi eigum eftir að sakna þess að spila. Bumbi sefur eins og steinn á meðan ég spila en þegar ég set diskinn okkar á "fóninn" þá dillast bumban villi vekk. Brúðarstúlkur halda ótrauðar áfram með massa-trommuleikara hana Dísu. Ég er mjög montin með substitjútið því annan eins dugnað sem hún hefur sýnt er vonum framar. Það er ekki auðvelt að hlaupa inn í hljómsveit tveimur vikum fyrir heilan Ameríkutúr. Hún á svo sannarlega skilið hrós. Svo er hún bara með réttu tilfinninguna fyrir því hvað er að gerast. Massatalent.

Hjá mér er að mörgu að huga, fullt af bókum um börn og barneignir út um alla íbúð og svo þarf ég að gera lista yfir það sem mig vantar. Ég veit ekki einu sinni hvað það er. Það eru engar búðir í göngufæri í þessari borg. Ekki ætla ég að rúnta með strætó út um allt til þess að leita að hagstæðustu kaupunum. Kæmist ekki yfir neitt svosem hvað þá að ég myndi nenna að bera hlutina heim. Böhh...

Systir mín er búin að lofa að koma og fara með mig í bíltúr og bruðla. Hún er með þriggjabarna reynslu. Annað en ég. Ég á kött. Maður skal ekki vanmeta þá reynslu. Vonandi get ég komið barni eins vel á legg og kettinum. Ég hafði þó nokkuð fyrir því að halda henni á lífi eftir að hafa fundið hana blinda og skjögrandi í einhverjum kassa út í rusli. Ég kenndi henni reyndar ekki að sleikja á sér rassgatið eins og sannri kattarmóður sæmir. Ég hef heldur ekki hugsað mér að reyna að kenna neinum það.

Svo ætla ég mér að setja tærnar upp í loft, lesa bækur, borða mikið (ljósó ekki ánægð með hvað ég þyngist lítið undan farið, aldrei ánægð) og njóta þess að vera til síðustu vikurnar sem ég er bara bumbumamma. Bráðum verð ég svo miklu meira og ég hlakka rosalega til. Samkvæmt fræðunum er auðveldara að ganga í gegnum kvalirnar sem bíða manns ef mann hlakkar til. Ég á eftir að ríghalda í hárið og skeggið á manninum mínum. Ég er meiraðsegja búin að heimta að hann komi með mér ofan í vatnsbaðið svo ég geti kúrt andlitið inn í bringuna á honum þegar mér líður sem verst. Ég á svo góðan mann.

Við erum ekki laus við sjónvarpsfólkið. Það ætlar að koma á morgun og athuga hvernig við höfum staðið okkur. Svo erum við vonandi blessunarlega laus við þau. Nó hard fílíngs en við nennum ekki meiru pöbblisitíi.

mánudagur, febrúar 21, 2005

Heimskan og hormónastríð
Ég er orðin svo einangruð eitthvað að ég er farin að óttast að fá heimskuna. Þá á ég við að allur skilningur hverfi eins og dögg fyrir sólu og ég verði vitlaus. Ég er hætt að nenna að lesa mér til um hluti eða reyna að fatta einföldustu gátur. Ég hef verulega áhyggjur af rökhugsuninni hvort hún ætli bara að fara í ferðalag án mín.

Ætli að það sé ekki stríð í gangi á milli hormóna og rökhugsunar og hormónarnir hafa tekið völdin. Meiriháttar Star Trek þáttur og ég er plánetan Skrudda. Hormónar og Rökmónar berjast og nú er svo komið að þegar ég hef áhyggjur af rökhugsuninni þá er það vegna þess að Rökmónar hafa myndað neðanjarðarhreyfingu sem ætlar að berjast fyrir tilvist sinni með andspyrnu af einhverjum toga. Til dæmis með því að fá mig til þess að setjast niður með bók á borð við Sögu Tímans. Ef Rökmónar ætla sér að ná árangri þá verð ég að leggja skilning í það sem ég er að lesa. Hvernig ætla þeir að leysa úr því?

Það væri frábært ef konur gætu mælt í sér hormónamagnið daglega á svipaðan hátt og sykursjúkir. Það gæti komið í veg fyrir fullt af óskynsamlegum hlutum sem skaða mann persónulega og aukið öryggi vegna þess að vitneskjan um líkamlegt ástand er til staðar. Maður væri ekki kafandi í því hvað olli því að maður væri kvektur. Maður drægi ekki rangar ályktanir heldur væri viss.

Mér skilst að á ákveðnum tíma í tíðarhringnum séu konur með betra rúmskyn en ella. Eiga þar af leiðandi auðveldar með að meta fjarlægðir og gengur betur t.d. í stærðfræði.
Þannig mætti síðan ákveða hvenær maður fer í stærðfræðipróf með einfaldri mælingu (lesist með rödd Sigurðar H. Richter).
Svo veit maður hvernær manni er hollast að þegja nú eða a.m.k. hafa stjórn á því sem maður segir.

Eins og staðan er nú er ég ekki með neinn tíðarhring þannig að ég hlýt að vera stórhættuleg umhverfi mínu. Gæti sýnt klærnar á ólíklegustu stundum af því að ÉG held að ég sé beitt óréttlæti eða farið að gráta af því að ÉG held að fólk vilji mér vel.
Dómgreindarlaus með öllu.
Skelflilegt!!!

laugardagur, febrúar 19, 2005

Hádegismatur


Svei mér þá. Haldiði að við séum ekki búin að rygksjúga og þurka af í dag! Ég spurði manninn minnn í hverskonar frík við værum að breytast í. Hann átti engin svör en sagði þó með stolti að þetta hefði bara tekið 20 mínútur. Ég sagðist bara vera hrædd við þetta nýja fólk.

Partý niðri í alla nótt og þangað til ellefu í morgun. Engin músik en mikið talað og stundum hristist húsið aðeins. Ég ber kvíðboga fyrir því þegar litli anginn okkar fæðist ef það á að vera mikið fjör um helgar. Reykingar niðri berast nefnilega upp til okkar og inn í svefnherbergið. Að öðru leiti er þetta hinn ágætasti nágranni. Vonandi á ég ekki eftir að þurfa að sjá eftir að hafa sagt það.

Sofnuðum yfir I, Robot í gær. Pizzan var mjög svo góð en fór greinilega alveg með okkur.

Heimilislífið hér er að taka algerum stakkaskiptum. Berti er að elda HÁDEGISMAT. Það er alveg nýtt á nálinni. Ég er líka að pína hann í að taka sig á í sykursýkinni sinni. Er að reyna að vera soldið vond. Sykursýkin er líka að reyna að hjálpa mér í átakinu með því að vera með leiðindi við hann. Við erum alveg í áttina að vera reglusamir foreldrar.
MATUR!!!

föstudagur, febrúar 18, 2005

Huggulegheit framundan

Við horfðum á Resident Evil 2 áðan. Hún var ekki góð en Milla var æði. Mér finnst að hún ætti frekar að leika Löru Croft frekar en Angelina. Milla er svo mega töff. Skítt með útlitið. Lara er töffari en ekki sætur furðufugl með varir yfir öllu andlitinu.

Svo verður bara kósí föstudagskvöld með kalli, ketti og megavikumat. Það er bara einn kassi sem þarf að fara með í ruslið. Núna erum við með hreinsunareld í augum. Ég fékk alveg tilfelli þegar ég sá tannburstunarslettur á baðherbergisspeglinum. Þarf að fá mér svona mittisveski þar sem ég get
gripið í raka tusku og úðabrúsa. Ég vona að ég missi ekki vitið og verði með sífelld þráhyggjuköst. Það er eitthvað viðkvæmnitímabil í gangi núna. Gæti farið að gráta yfir stafsetningar- og málvillum sem eru ekki af ásetningi.

Við erum búin að finna eitt og annað sem var búið að "fela" fyrir okkur. T.d. skærin og kertastjakan sem Berti hafði mikið fyrir að búa til fyrir jólin. Tungan hans náði alveg út að eyrnasnepli einbeitingin var svo gríðarleg. Mósaíksnilld.
Nú þarf ég að finna java-nálina svo ég geti haldið áfram með sængurgjöfina hennar Beddu. Hún er horfin frá sínum vísa stað en ég geymdi hana í kertastjaka.

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Aðskilnaðarkvíði

Íbúðin lítur nú út eins og það sé búið í henni. Mér líður ennþá frekar skringilega eftir allt fjörið. Þori ekki að lesa bók nema skila henni aftur í hilluna. Svo eru komnar dósir inn í eldhús og ég er alveg stjörf yfir því. Langar mest til að henda þeim. Verst er þegar ég missi hluti í gólfið því það er svo rosalega erfitt að beygja sig með rúm tólf kíló framan á sér og lífbein sem sveiflast út og suður eins og pendúll með tilheyrandi kvölum. Ég vona að það verði ekki einhver taugahrúga sem skröltir upp á Skaga til þess að fæða eitt stykki unglamb.

Það er hins vegar hægt að ganga frá hlutunum núna án þess að fara í tilvistarkreppu yfir því hvar á að setja þá. Meira hvað fullkomnunarárátta getur skemmt í manni heilann. Hann steikist alveg.

Hins vegar má ég ekkert þrífa. Berti verður að gera það aleinn. Mér finnst það svo sorglegt eitthvað. Furðuleg viðkvæmni sem fylgir óléttu að þurfa að gera allt saman. Ég vil helst leiða hann hvert sem ég fer. Meiraðsegja þegar ég geng örna minna vil ég að hann haldi í hendina á mér. Ef hann þarf að skreppa út í búð er ég alveg miður mín yfir að missa hann í 5 mínútur. Aðskilnaðarkvíði dauðans.

Mér til mikils happs hefur það aldrei verið til siðs í minni fjölskyldu að loka að sér klósetthurðinni þegar maður situr þar inni nema rétt þegar það eru gestir til þess að særa ekki blygðunarkennd þeirra. Ég get beðið hann um að standa yfir mér rétt á meðan svo mér finnist ég ekki vera ein.
Þegar sjónvarpsfólkið fór spurði ég það hvort það þyrfti þess nokkuð.

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

AfeitrunEr komin 35 vikur og einn dag. Nú fer að styttast verulega í að heimurinn breytist forever. Fékk eitthvað norskt fæðingarvídíó lánað hjá ljósmó og horfði á það með manninum mínum. Konan í vídíóinu var í eldrauðum hnésokkum sem fóru rosalega í taugarnar á mér. Svo var alltaf verið að þrífa hana úr nærbuxunum svo hægt væri að hlusta á bumbuna! Ég náði ekki alveg gildi þess að þurfa að sýna á konunni sköpin við það eitt að hlusta á hjartslátt barnsins. Ekki hef ég þurft þess hingað til. Nóg að sjá barnið koma út. Það var geðveikt krúttlegt hins vegar.Hún fékk barnið beint í fangið. Ég vil soleiðis! En mér leist ekkert á það að horfa á hana kveljast í marga klukkutíma eftir einhverri útvíkkun. Ojj. Og þetta er svo gamalt vídíó að klobbinn var rakaður takk fyrir! Ég hélt á tímabili að það ætti að sýna þá framkvæmd og varð um og ó en þá var bara verið að gá að útvíkkuninni. Ég er samt engu nær eftir þetta. Þarf að fara útbúa spurningalista því næsti ljósmó-fundur á að fara í spjall.

Ákvað að sumarvæða bloggið mitt svo allt sé fínt og bjart. Hitt var eitthvað svo dimmt og ódó legt. Sumardagurinn fyrsti er vel á undan áætlun hjá mér.

Sísí kom og afeitraði húsið með því að vera fyrsti gesturinn sem kemur inn í fínheitin. Mér finnst ég alveg eiga heima hérna eftir að hafa fengið gest. Ég ætla að öfundast út í hana alla helgina af því að hún fær svo rosalega rómantíska ammælisveislu...reyndar með sex karlpeningum að mér skilst. Eins konar ofurrómantík.

Á eftir ætlum við að tíma að elda inni í eldhúsi. Við höfum ekki þorað að vera þar inni fyrir fínheitum. Kjúlli í matinn. Nammi namm.


Þokkalega mar!!!
Ég get SVARIÐA!!!
Þegar við gengum upp stigan þá mætti okkur þriflykt út um allt! Það má sleikja hvern einasta vegg í húsinu. Svalirnar voru lausar við allt dósaruslið og þau voru sko búin að fara í endurvinnsluna og færðu okkur tæpar 3000 krónur. Eldhúsið er gjörsamlega tómt og veggirnir þar sem voru víst hvað verstir og fengu Thunderball efni eru algert æði. Borðstofan er geðveik og ju minn og ju minn.
Stofan er geðveikt fín en ég þarf að endurraða þar aðeins. Ég á ennþá soldið mikið dót sem þau áttu greinilega í erfiðleikum með að koma fyrir. Svefnherbergið er alger draumur og við fengum óvænta gjöf og ég brast í grát í beinni. Fór að háskæla því við fengum hvorki meira né minna en VÖGGU handa litla kút....sniff.
Ryk sem ég var búin að gefast upp á á milli ofnanna er farið. Þeim tókst einnig að breyta eins og ég vildi og það tókst miklu betur heldur en ég átti von á. Það er tómahljóð í íbúðinni hún er svo fín. Tómar plastdollur fyrir hveiti og sykur voru fylltar. Endurraðað í skápa. Það sem þau vissu ekki hvað þau áttu að gera við var bara sett í kassa fyrir okkur seinna að fara í gegnum í rólegheitunum.
Það sem miður fór ætla ég ekkert að vera að blogga um því þegar á heildina er litið var þetta bara frábær hugmynd. Ég er samt með skrítna tilfinningu því nú eru hlutirnir ekki alveg á sínum stað og við þurfum að leita að hinu og þessu. Svo er náttúrulega þetta að nú á eftir að sýna þáttinn. Eins og ég segi þá ætla ég EKKI að horfa. Ég ætla að bíða þangað til þið eruð búin að sjá hann og segja mér að mér sé óhætt að horfa....úff. Það er eitt og annað sem mér finnst gagnrýnisvert en það er ekki víst að áhorfendur komi auga á það sem við Berti upplifðum. Og svo finnst mér ég ekki alveg vera heima hjá mér ennþá. Það er verst. Sváfum ekki nógu vel af því að það er svo mikið breytt. Það er nú meira hvað ég er íhaldssöm. En ef ég hefði gert þetta sjálf þá liði mér fullkomlega. Hræðslutilfinningin er ekki alveg farin úr kroppnum. Ég ætla taka tímann á hana.
Svo koma þau aftur eftir hálfan mánuð og tékka á málunum.
Þetta var meiriháttar fólk og almennilegt í alla staði. Allir voru kysstir og faðmaðir þegar þau fóru.
Eins og ég segi það er frábært að koma hérna inn! Ræ ræ ræræ.
Nú er það bara mæðraskoðun: Pissa í bolla, bumban mæld, hlustað á hjartslátt, nöldrað yfir foreldrafræðslunni sem ég ætla ekki í og kostar 12 þúsund krónur og ég kvödd með þeim orðum að ég sé dugleg.
Heyrumst.
Skruddi

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Ræræræræ

Ég er svo þreytt að ég er hálf drukkin af þreytu.
Þarf að skreppa til Sísí og Benna og svo nenni ég kannski að blogga og kannski geri ég það bara á morgun. Þetta var skrítin lífsreynsla.

Kominn tími til að halda heim

Jæja gott fólk...nú fer að líða að því að við skötuhjú rúllum heim c.a. hálftími þangað til.
Ég er skíthrædd við mitt eigið heimili og hlakka bara ekkert til að fara heim. En þetta kemur allt í ljós eftir örskamma stund.

Ég er alveg dauðuppgefin eftir þennan dag. Við vöknuðum kl. hálf átta í morgun eftir að hafa verið að rumska í alla nótt. Það er ekki beisið að hafa hleypt bláókunnugu fólki inn í íbúðina sína til þess að stjórnast ossona. Séð og heyrt vill ólmt koma og taka myndir og blanda sér í veisluna. Mér var sama svo lengi sem við Berti fengjum bara frí og að Heiðar og Margrét væru númerið. Ég er komin með nóg af fjöldaopinberun.

En eins og þetta hefur verið óþægilegt einhvern vegin og það að vita ekkert hvernig við komum út eða hvað við bulluðum í viðtölunum þá sá ég, eftir að hafa horft á auglýsingarnar á Skjá einum úr þáttunum hennar Sirrý, að við vorum alla vega ekki þarna með geggjaðar reynslusögur eins og t.d. að við værum argastir klámhundar með ofvirkni og athyglisbrest heldur bara fólk sem nennir ekki að ganga frá eftir sig því það er svo margt spennandi sem bíður manns þegar maður er búinn að elda. Tölvuleikir, tónlist, bókalestur og handavinna sem dæmi. Kannski finnst einhverjum drasl og óþrifnaður vera meiri skömm en t.d. helgarferðir í eitthvað mansion þar sem hópkynlíf er stundað.

Ég hélt að þetta væri ekki alveg svona erfitt og kannski ekki fyrir ólétta manneskju að standa í svona því að við höfum þurft að þvælast svo óskaplega mikið. Svo er þetta soldið mikið andlegt óþægilegt. En ég hefði aldrei getað tekið til sjálf með þetta blessaða grindarfokkings gliðnun og mér finnst bara ömurlegt að hugsa til þess að maki minn eigi að standa í hárinu á draslinu aleinn. Þess vegna var þetta bara alveg ágætis lausn þó að allir landsmenn horfi upp á þetta.

Það sem ég óttast mest er að þessir þættir verið sinkt og heilagt að benda karlpeningnum á að hann eigi að gera þetta og gera hitt. Auðvita er pottur brotin í hvernig kynin líta á hlutina en manni langar ekkert að maki manns sé blammeraður fyrir hitt og þetta í sjónvarpinu. Við sjáum yfirleitt alveg um það sjálfar án þess að heilt sjónvarpskrjúf sé uppi í andlitinu á manni. Hitt er bara að gera lítið úr einstakling en ekki því að hann sé karlmaður sem geri ekkert heima á þeim forsendum að hann sé karlmaður.

Mamma benti mér á að það væru konur sem ala upp syni sína og margar sögur hef ég heyrt þar sem systkinum var mismunað út af kyni. Strákarnir dúlluðu sér en stelpurnar vöskuðu upp og þrifu! Ef þær mölduðu í móinn þá var þeim bara sagt að það væri svo mikið að gera hjá bræðrum þeirra í áhugamálapakkanum! Þeir þyrftu nú að mæta á fótboltaæfingar ossona...

Æi mér finnst þetta bara óþægilegt. En núna þarf ég að haska mér af stað til þess að skoða hvernig heimilið mitt lítur út.
Óskið mér og mínum lukku.
....pffffff.....

mánudagur, febrúar 14, 2005

Lifandi dauð

Er komin til Beddu og við erum lifandi dauð eftir daginn. Þetta var ógeðslega erfitt ég er ekki að grínast. Minnir mig á frystihús sem ég vann einu sinni í og þurfti að fara í bað á hverju einasta kvöldi einungis til þess að geta mætt í vinnuna daginn eftir. Núna ætlum við bara að fara að kúra hjá eðlu og skaldbökum. Getum ekki meir og verðum alla vikuna að jafna okkur. Á morgun förum við heim og vonandi fáum við fljótt heimilið okkar út af fyrir okkur.

zzzzzzzzzzzZZZZZZZZZzzzzzzzzzzzzZZZZZZZZZZZZZZZZZZZzzzzzzz

JJÆÆÆKS!!!!!Jæja, þá er dagurinn runninn upp. Við vöknuðum klukkan fimm í morgun enda sofnuðum við um kvöldmatarleytið í gær. Það var ekki ætlunin en svo fór sem fór. Nú er bara að halda út daginn.

Nú eigum við eftir að bíða í ofvæni eftir 4 tiltektarmanneskjum 2 þáttastjórnendum og tökukrjúi ef ég hef skilið hlutina rétt. Nú er ég alveg að skíta á mig. Draslið er orðið ansi mikið og ógeðslegt. Ég á sjúklega erfitt með að taka ekki til áður en ég fæ þessa "gesti". Ég dauðskammast mín. Svo þegar sonur okkar fæðist þá á hann eftir að sjá hvernig mamma og pabbi lifðu áður en hann fæddist. Sá á eftir að skammast sín maður! Eða hitt þ.e. neita að taka til vegna þess að við pabbi gerum það aldrei. Svo skal böl bæta og benda á eitthvað annað.

Við megum heldur ekkert segja. Heimilið okkar á að representera okkur eins og við erum dags daglega en það er ekki allt sem sýnist. En það er ekkert gaman að þessu ef allt er tipp topp. Þá er tilgangi þáttarins engan vegin náð. Við eigum að sýna fólki að það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Mér skilst að þessi Margrét sé svo fær að það ætti að senda hana í tiltekt eftir eitt stykki Tsunami-hamfarir. Hól af þessari stærðargráðu róar mig aðeins í þeirri trú okkar hjóna að það sé ekki nokkur leið að skipuleggja hér inni. A.m.k. ekki án þess að þurfa að kaupa og kaupa eitthvað eins og fleiri skúffur og skápa.

En eins og ég segi nú er bara að ganga um gólf þangað til síminn hringir til að tilkynna væntanlega innrás Sagafilm.

Ég geri ekki ráð fyrir að horfa á þennnan þátt. Þoli mig ekki í sjónvarpi né í blöðum. Oj...ætli ég þurfi eitthvað að vera að gera mig fína? Nenni því ekki. Heimta sminku á svæðið!

sunnudagur, febrúar 13, 2005

Allt í drasli-kvíðinn


Ég vaknaði klukkan sjö í morgun! Hvað er að gerast? Lá uppi í rúmi til hálf átta þá gafst ég upp.

Þegar fólk fer að sofa kl. ellefu á laugardagskvöldi er það þá ekki orðið gamalt?
Ég hugga mig við það að þetta sé undirbúningur fyrir það sem koma skal eftir einn og hálfan mánuð. Við erum bæði í þessum pakka við Berti. Sem betur fer því annars værum við að deyja úr leiðindum myndum aldrei hitta hvort annað því hitt væri sofandi.

Svo er ég farin að kvíða ansi mikið fyrir morgundeginum. Ji dúdda mía! Ég ætlaði bara að sýna alþjóð að ég ætti mikið dót en ekki að ég væri sóði. En ég má ekki taka til. En ætli ég megi ganga frá eftir mig ef ég snerti ekki það sem fyrir var þegar íbúðin var skoðuð? Svo má náttúrulega taka dótið og fela það. Setja það síðan á sinn stað þegar tökur hefjast.

Ég get alveg lofað ykkur því að ég á ekki sjö klukkutímana sæla fyrr en þessu er lokið. Hjálp!

föstudagur, febrúar 11, 2005

Að mega ekki taka til


Það að taka til er kvöl en það að mega ekki taka til er miklu meira kvalræði. Ég er orðin þunglynd af því að horfa upp á draslið. Hins vegar höfum við svindlað en af mikilli nauðsyn. Eldhúsið mitt er nefnilega svo lítið að það er ekki hægt að elda nema taka til fyrst. En við ætlum að passa okkur og elda vel á sunnudagskvöldið svo við getum skilið eftir dót til tiltektar.
Ég er farin að hafa áhyggjur af þessu.

Var að lesa Birtu áðan og sárnaði ummæli Guðrúnar Gísla að þjóðin væri að láta Þjóðleikhúsið grotna niður. Ég hélt að Árni Johnsen hafi átt að sjá um þetta hús fyrir hönd þjóðarinnar á sínum tíma. Það fór eins og það fór Guðrún mín. En ef hún á við þjóðina sem situr á Alþingi þá eru allir að spá í Íraksmálið þar.

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Niðurstöður úr skoðanakönnun


Sex manns greiddu atkvæði (nohh)
Atkvæði fóru sem hér segir:


Já þeir eru bara að tjilla og er alveg sama um kaupið okkar 67%

Þetta er ekki þeim að kenna heldur Þjóðarsáttinni 0%

Nei þeir eru bara að bíða rólegir eftir að fá gott kaffi 33%

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Liðin tíð?

Það er spurning hvort ég sé endanlega laus við óreiðuna á heimilinu. Ég sendi inn umsókn um þátttöku í ALLT Í DRASLI þætti sem Skjár einn ætlar að sýna og viti menn! Ruslakompan mín var valin í þáttinn. Fólkið ætlar að mæta hingað galvaskt eldsnemma á mánudagsmorgun í herlegheitin. Það á að drífa íbúðina mína af áður en litli bangsinn okkar Engilberts kemur í heiminn. Það er sko hugsað um mann. Svo verður maður niðurlægður á léttu nótunum fyrir alþjóð. Ekkert að því. Við þrjú þurfum að flýja. Sísí ætlar að taka loðnu hvítu frekjuna okkar og Bedda ætlar að hýsa okkur skötuhjúin. Við eigum nefnilega að verða hissa þegar við komum til baka og ég get nú ekki séð það gerast nema að það sé alvöru.

Bedda er líka búin að bjóðast til þess að vera "vinurinn" sem segir hvað við erum miklar druslur en ég veit ekki hvort ég eigi að þora að hleypa henni í kameruna með það. Hún myndi toppa þáttastjórnendur í niðurlægingunni og ég færi sjálfsagt aldrei út á meðal fólks eftir slíka útreið.

Mamma var nú ekki hrifin þegar ég sagði henni fréttirnar. En þar sem hennar nýtur ekki við vegna veikinda er þetta barasta lausnin. Mamma er nefnilega snillingur í að taka til.

Okkur Berta hlakkar til og kvíðir fyrir. Við erum frekar spennt að sjá hvort fólkinu tekst að gera eitthvað hérna. Það er nefnilega ekki hægt að mínu mati nema henda öllu og byrja algerlega frá grunni. Svo er það sjónvarpið...úff. Hvernig kemur maður eiginlega út?mánudagur, febrúar 07, 2005

Engu stoliðFarin á fætur á svokölluðum kristilegum tíma. Það hlýtur að þýða að nú sé árið 6 eða eitthvað. En þar sem tölvan er hérna ennþá passar það ekki alveg.

Ruslatunnunni minni var ekki stolið eftir allt saman. Alla vega ekki af einhverju fullu fólki út í bæ heldur af sorphirðumönnunum sjálfum. Það kom í ljós að skrifstofan átti tunnuna eftir allt saman. Við nutum bara góðs af því. Mér finnst það bara allt í lagi þar sem tunnan fékk að vera inn á OKKAR lóð. Reykjavíkurborg hætti nefnilega að hirða sorp af fyrirtækjum eins og frægt er orðið.

Við eigum s.s. að passa það í framtíðinni að skrifstofan setji ekki rusl hjá okkur heldur fái sér tunnu.
Hvernig passar maður það? Fær sér ruslavörð?

sunnudagur, febrúar 06, 2005

Mér leiðist

Sit alein vakandi klukkan rúmlega fjögur um nótt. Svaf í allan dag og allt kvöld af því að ég var svo rosalega þreytt. Rotaðist algerlega.


Böggar mig geðveikt að ég skuli vera með járnskort því að ég þarf að borða einhverjar ferlegar járnforðatöflur sem valda því að kúkurinn inn í mér þarf að fara í sjúklega tollskoðun og fær ekki að fara sína leið. Líklega eru þetta einhverjir fordómar að hálfu "tollstjóra" hver sem hann nú er því kúksi er svo voðalega svartur á litinn. Hann minnir á lakkrísrör sem hefur verið lengi ofan í kóki, loksins þegar hann fær litið dagsins ljós. Ég er að reyna að redda honum fölsuðum vegabréfum með því að borða sveskjur sem mér finnst alveg hryllilega vondar og drekka sorbitól en það ætlar ekki að vera nóg. Nú væri bara allt í lagi mín vegna að fá smá ræpu bara ekki á meðan ég sef og ekki ótímabæra þ.e. ef ég skildi standa við kassann í Bjánus.

Hmm....svo leiðist mér bara. Er farin að verða óþolinmóð og vil fara að fá kroppinn minn aftur svo ég geti lifað lífinu. Soldið langt þangað til það gerist. A.m.k. 6 vikur eftir í krúttið mitt litla. Maður þarf eiginlega að hafa bíl til umráða þegar maður er svona lamaður í lífbeini og nára. Ég hef komist einu sinni í baddnastúss og ég skreið upp í rúm dauð eftir það. Var orðin svo rugluð að ég keypti fyrirburableyjur. Get kannski notað þær sem dömubindi nú eða fundið dúkku svo Berti geti æft sig.

föstudagur, febrúar 04, 2005

Allt í rusli
Sorptunnu nágranna míns var stolið fyrir um tveimur vikum síðan. Ég ákvað að gera ekkert í málinu því ég lít svo á að við vitum bæði tvö hvort okkar "á" hvaða tunnu. Mín tunna stendur sem sé eftir. Nágranni minn ætlar greinilega ekki að bjarga sér um nýja tunnu og ég safna rusli inni í eldhúsi hjá mér því hann er búinn að fylla tunnuna (með tölvu meiraðsegja svo ruslið verði alveg örugglega ekki fjarlægt í næstu umferð!).

Mér finnst þetta rosalega hvimleitt. Ég velti því fyrir mér hvort einhver úrræði séu fyrir mig önnur en að tuða í nágrannanum. Má ég til dæmis læsa tunnunni að því tilskyldu að ég hafi opnað fyrir sorphirðumönnunum á tilteknum tíma?
Hvað gerir fólk í svona ruslatunnuerjum yfirleitt?
Báðir nágrannarnir mínir, gaurinn niðri og gaurinn sem á búðina búnir að níðast á ruslinu mínu mér til mikillar skelfingar. Ég finn hvernig blóðið þýtur upp í haus á met hraða þegar ruslið er annars vegar. Ef það væru tvær tunnur núna og hann búinn að fylla sína þá setur hann bara í mína. Fólk virðist ekki gera sér grein fyrir því að maður er að borga gjöld fyrir ruslatunnuna.

Veit fólk ekki hvað má og hvað má ekki fara í ruslið? Hvað haldið þið að það séu miklar líkur á að ruslið yrði tæmt ef þið settuð til dæmis ísskápinn ykkar ofan í tunnuna? Sorphirðumenn taka ekki ruslið ef það er svona dót í tunnunni.

Ef ég fæ nýja ruslatunnu og verð komin með rusl dauðans inn til mín þá fylli ég bara á báðar. Ég ætla ekki í ruslastríð og langar ekkert til þess að vera með fýlu út af rusli eins og einhver kelling.
En ég nenni ekki að vera dippló lengur. Nú bjarga ég mér á sama hátt og aðrir í þessu þjóðfélagi. Hugsa ekkert um náungann, veit ekki einu sinni af því að hann er til og hefur þarfir.

Það er eins gott að úr þessu leysist því ekki vill nágranni minn að ég noti hans tunnu fyrir allar bleyjurnar sem eru á leiðinni.

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Hin íslensku tónlistarverðlaun...ðökkidíðökkÉg er bara hreint ekki sammála "bróður" mínum hvað varðar íslensku tónlistarverðlaunin. Leim dót:
Ragnheiður Gröndal var drullu léleg með rok í röddinni og söng illa. Fyrir utan að mér hefur aldrei þótt hún skemmtileg hún er svo karakterslaus. Kannski var hún stressuð það er alveg inn í myndinni. Ég ætla ekkert að drulla yfir fólk hérna eða hátíðina perse bara hátíðina í ár.

Mezzoforte...uhh....jú jú menn kunna að spila það er ekki laust við það en þeir eru svo vel spilandi að mússikin er flatlæner á hjartaskanna. Ég bjóst við einhverri stemningu í tónlistinni en það voru bara einhverskonar Corký-feis á öllum nema Gumma Pé. Skilaði sér engan vegin í tónlistinni, Corkýlúkkið.
Söngvarinn í Hjálmum gleymdi átótjúnernum sínum í stúdíóinu hans Rúnna Júl við erum jú sammála um það. Hann var Falskur Jónsson.

Verðlaunin...Páll Rósinkrans besti söngvarinn á síðasta ári? Af hverju ekki að fara bara alla leið og láta Bjögga fá þau alveg eins? Eru þetta einu karlarnir sem sungu á síðasta ári með góðar raddir? Sama gamla stóðið alltaf. Er kominn tími á Bubba í þennan flokk? Hann er þokkalega úldinn. Hefur hann nokkurn tíma fengið verðlaun fyrir söng sinn?
Það var eitthvað meira sem fór fyrir brjóstið á mér í samb. við úthlutun verðlauna (ég er svo viiiiiðkvæææm) en Mugison, Bryndís Halla og Þórður Megasar, ég var mjög sátt.

Alveg kominn tími á Þórð þó hann sé í atlaheimi og ég eigi aldrei eftir að botna neitt í mússíkinni hans. Ég veit að hann hefur samið verk sem sprenglærðir söngvarar ætluðu engan veginn að ráða við svo hann og Bryndís voru að spá í að flytja það bara sjálf en mér skilst að það hafi reddast. Vonandi á hann ekki eftir að reyna að drepa óbóleikara að gamni sínu með því að skrifa verk sem sprengir æðar í hausnum á óbóleikaranum. Kæmi mér ekkert á óvart þó svo að hann gerði það það er svo mikill púki í honum sbr. verkið sem fólkið ætlaði ekki að geta sungið.


Svo velti ég því fyrir mér hvort ekki hefði mátt skipta þessu niður. Í staðinn fyrir að keyra klassíkinni fyrst, síðan djassinum (þegiðu Gísli Marteinn) og svo poppinu að hafa þetta saman. Besta klassíska platan, síðan djassplatan og svo popp, dægur rokk hvað þetta var kallað. Ég er alla vega þeirrar skoðunar að það hefði verið skemmtilegra fyrir MIG. Ég veit ekki hvað ykkur hinum finnst. Ég held einnig að svona uppröðun hefði verið betra sjónvarpsefni og sameinað meira íslenska mússík og mússíkanta sem slíka visjúalt því að það er verið að brúa bilið milli tónlistartegunda með því að slá tónlistarstefnum saman (fatiði hvað ég er að fara hérna? Ég skil mig en veit ekki hvort ég sé skiljanleg fattiði) svo allir tónlistarmenn á Íslandi burt séð frá því í hvaða geira þeir eru séu undir sama hatti. Þau eru jú öll að berjast fyrir því sama eins og tónlistarhúsi og að þau séu viðurkennd sem atvinnumenn en ekki áhugafólk um tónlist sem spilar/semur tónlist á kvöldin og fer í frystihúsið á morgnanna. Ég er samt pínu lítið hrædd um að Sinfó fái tónlistarhúsið og ekkert "ósæmilegt" fái að berast þangað inn nema Það + Sinfó.

Metallinn virðist ekki falla undir tónlist samkvæmt þessari hátíð sem mér finnst frekar hallærislegt því sá geiri geymir ótrúlega færa hljóðfæraleikara og meiriháttar tónsmíði. Ekki það að ég sé eitthvað að metalfrík en ég er heldur ekkert rosalega hrifin af íslenskum FÍH djassi heldur.

Svona á heildina þá fannst mér ekki nógu gaman að þessu. Einhver slikja og dauflegheit. Líklega vegna þess að það er miðvikudagur. Ekkert djamm neitt.

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Videógláp sökkar feittVið þræluðumst í gegnum ruslið sem við tókum á leigunni. Usss....Georg og drekinn reyndist vera barnamynd. Ekkert nema fíflalæti og vitleysa. Colin Firth drullaði upp á bak í Trauma. Eina myndin sem var semigæt var Artúr konungur og kom á óvart svei mér þá. Ég var alveg búin að gefa henni falleinkun en svo var þetta bara allt í lagi. Ekkert lík Excalibur svo maður fékk sögu sem maður kannaðist ekkert við. Alveg sleppt ástarleiðindaþríhyrningnum á milli Gunnvarar, Lanselots og Artúrs. Gunnvör og Artúr ætluðu að fara að kela og við hjónin dæstum en þá kom Lancelot og truflaði þau. Ég hélt virkilega að ég væri að fara á klósettið að kúka í fimm ár á meðan á keleríinu stæði en Lancelot reddaði því. Ef þið eruð að hugsa um hraðspólið þá var það ekki í boði. Bara hægspól a la DvD.

Framundan eru breytingar á svefnherberginu. Nú þarf að fara að koma fyrir litlu rúmi fyrir lítið kríli. Vonandi verður ekki mjög ljótt hjá okkur. Það er svo leiðinlegt að hafa allt troðið inni í einu herbergi. Risa tölvuborð sem við þurfum að færa. Svo er það skúringafatan. Mig langar til þess að reinbó-ryksjúga allt hérna og krúnuraka köttinn en sterelíseringar eru ekki leiðin þó maður haldi það alltaf einhvern vegin. Það er þessi brigðula dómgreind. Ályktanir sem maður er alltaf að draga út frá engum rökum.
Loftið inni í íbúðinni er samt soldið mikið þurrt. Ég var soldið lengi að venjast því þegar ég flutti inn. Nebbilíus var soldið þurr og eftir nokkrar nætur var ég komin með sár í nefið. Fiskarnir sem eru í pössun hérna þurfa endalaust að fá áfyllingu af vatni í búrið sitt. Það er ekki fúi í þessu húsi. Það er Sahara. Svo ef maður væri tuskubilaður þyrfti maður að vera með kuskuklút á 12 tíma fresti því það safnast á mettíma lóin góða sem ég ætlaði að búa til lopapeysu úr þegar ég væri búin að fá mér rokk.
Þreytt, svöng og glöð yfir því að stelpurnar mínar HETJURNAR mínar eru komnar heim eftir mjög vel heppnaða en erfiða ferð. Velkomnar elskurnar mínar. Knús knús knús. Nú bara dúndra ég krílinu út og vonandi leyfir hann mömmu sinni að rokka smá.

Mikið blogg
Bloggaði svo mikið í gær að það ætti að vera nóg fyrir aðra að lesa.
Videógláp dauðans bíður mín. Rusl á borð við George and the Dragon (einn af mínum uppáhalds Gary Larson bröndurum fjallar einmitt um þá hetju), King Arthur og einhver sálfræði þriller með vini mínum Colin eitthvað....Firth já.

Hilsen
Skruddi

þriðjudagur, febrúar 01, 2005

Getraun mánaðarinsEf þið vitið hvaða KALLAR þetta eru þá eru þið snillingar! Djísúss og manni fannst þetta sætt og var skotinn í þessu! Dem...

GlæpahverfiðVið hjónin vorum rétt í þessu að upplifa eitthvað skrítið af því við erum hætt að sofa á nóttunni (sem er reyndar búin).
Við heyrðum stutt vvvvvvv-hljóð og svo kom sprengihljóð og glerbrotahljóð og þjófavarnakerfi fór í gang. Einhver búð á Laugaveginum rétt hjá okkur. Kannski sjoppan eða...úrabúðin. Vitum það ekki.
Einhver kom og slökkti á kerfinu fyrir 3 mín. síðan.

Hmmm.....
Við erum nefnilega alltaf að upplifa hitt og þetta út um gluggann og inn um eyrun sem kemur aldrei í blöðin svo ég segji bara frá þessu hér ef blöðin ætla ekki að gera það.

Rétt fyrir jól gerðist nefnilega eitthvað skrítið á Hverfisgötunni. Götunni var lokað. Rannsóknarkallar með myndavélar mættu á svæðið. Einn skór á götunni ásamt nammipoka og nokkrum metrum frá bíll sem var með brotna framrúðu. Menn voru lengi að mæla og skoða. Götunni var lokað í a.m.k. 2 tíma frá Vitastíg að Snorrabraut. Við misstum af því hvað gerðist sjálfsagt út af því að við vorum að hlusta á eitthvað en sátum samt fyrir framan gluggann þannig að við hefðum getað séð hvað hefði gerst ef við hefðum ekki verið niðursokkin í mósaík-límíngar.
Þetta kom aldrei í fréttirnar. Við vitum ekkert hvað gerðist á horni Barónstígs og Hverfisgötu. Kannski var eitthvað grey að koma úr 10-11 og einhver auli ekki stoppað á rauðu ljósi heldur bara klesst á manneskjuna! Og aðeins einn skór...

Eitthvað fyndið

Ég er alltaf að uppgötva eitthvað fyndið en svo gleymi ég því þegar ég ætla að blogga. Til dæmis þá kaupi ég alltaf sömu tegundina af klópappír og það stóð eitthvað utan á pokanum sem var svo fyndið en núna er ég búin að henda pokanum og það eru komnar nýjar umbúðir svo ég get ekki sagt ykkur frá því.

Mig dreymdi að Sísí væri búin að kaupa sér búð sem seldi allskonar skemmtilegt dót. Föt og sona. Hún var svo mikil bissnesskona og tók sig mjög vel út sem verslunareigandi. Auk þess að selja dót var hægt að setjast og fá sér kaffisopa og Sísí-skonsur. Ástæðan fyrir því að Sísí keypti þessa búð var sú að Brúðarbandið gat troðið upp í portinu. Við gátum spilað hvenær sem við vildum.
Svo kom allt í einu snjófok og vont veður og ég fór að gráta af því að mér var svo kalt.

Fólk á virkilega ennþá flugelda. Rétt í þessu var einn að springa. Nema einhver hafi verið að reyna að drepa drykkjufélaga sinn...það er alveg inn í myndinni í þessu hverfi. Við hjónin bíðum eftir einhverju drama frá nágrananum. Það er alltaf eitthvað að gerast þar eins og ég hef sagt áður. Í síðustu viku var kærastinn hennar búinn að setja innisnúrur fyrir útidyrahurðina svo hún komst ekki inn til sín. Löggan kom og við heyrðum að hún var að reyna að fá þá til þess að hjálpa sér. Þeir vildu það ekki og reyndu að keyra í burtu en hún hélt þeim einhvern veginn og á endanum fór hún með þeim. Einhversstaðar varð manneskjan að sofa.
Berti segir að hún þyrfti að vera með heimasíðu.
Ég er búin að brjóta einnar-bókar-regluna. Þær eru orðnar soldið margar...
  1. Ice
  2. Ertu viss-brigðul dómgreind í dagsins önn
  3. Guns, Germs & Steel
  4. Kóksalinn frá Bakúl (djók)
  5. Brjóstamjólkurfræðari einhver
  6. Joan of Arc (hundraðasta tilraun)
  7. Konur og vígamenn
  8. Dauðar sálir (já já ég er alltaf að byrja upp á nýtt hvað er þetta...?)
  9. Beethovens Hair
Kannski ætti ég bara að finna mér nýja bók að lesa? Hvað finnst ykkur? Vantar ekki í staflann?
Ég hef ákveðið að fyrst ég er svona furðuleg með þetta þá er ég í minnisleik. Ég á að muna eftir 3 vikur hvað var að gerast í bókinni síðast þegar ég las hana. Þá er ég kannski ekki með sérlega góða einbeitingu en gott minni engu að síður. Allt til þess að réttlæta staflann. Niðurstöðu er ekki að vænta.