miðvikudagur, mars 30, 2005

Bara bissí























Ég á ekkert að vera að blogga. Ég á að vera að sofa. En birtan er svo kær að ég tími ekki að sofa í henni. Sit með Bjánus-Bjór við tölves. Ég verð þá bara fúl og skítleg þegar þar að kemur. Meira hvað maður fær móral yfir að sofa til tvö á daginn þó svo að maður hafi vaknað nokkrum sinnum yfir nóttina til þess að hrista fram jullurnar. Það hefur eitthvað með stofnanir að gera. Allir á fullu á meðan maður er bara horfandi út um gluggann. Tíminn stendur kyrr inn í húsinu mínu en þeysist áfram fyrir utan. Skrítið að þegar einhver deyr í fjölskyldunni finnst manni tíminn eiga að stoppa og það gerist líka þegar barnið manns fæðist. Áður en ég veit af er ég farin að vinna. Eftir einn risastóran og langan dag. Ég verð að flýta mér að hafa það gott.

Held að ég sé orðin áskrifandi af þvagleka. Fór í Bjánus áðan og pissaði í buxurnar við innkaupaáreynsluna...held ég. Gott að komast út í smá stund þó það væri bara Bjánus.
Grindarbotnsæfingar...? Getur maður ekki bara fengið sér dr***?! Á maður ekki bara að nota tækifærið þá í sona æfingar ha? Ekkert gaman að þessu aleinn í sófanum heklandi teppi.


miðvikudagur, mars 23, 2005

Og svo kom hann með látum!

Já já bara rólegur.
Fæðingin mín var ALLS EKKI eins og ég átti von á. Svei mér þá. Ég fékk ekkert tóm til þess að hugsa mig um. Minn mætti bara á svæðið af fullum krafti. Nennti engan veginn að bíða í viku.
Allt sem ég var búin að ákveða fór forgörðum. Ég ætlaði svoleiðis að fá nýburamyndir af allsberum bumbubúanum öllum út í blóði og fósturfitu en nei það var ekki í boði. Við gleymdum myndavélinni heima og ætluðum að fá svona fína digital lánaða en við vorum ekkert komin með slíkt í hendurnar.

Mér var sagt að ég ætti að fá í bakið og svo túrverki og eitthvað. Það kom ekkert soleiðis. Eins og ég óttaðist þá hafði ég ekki hugmynd um að ég væri með hríðir. Það varð bara allt svo vont allt í einu að ég ákvað að hringja upp á spítala af því að þetta voru ansi skrítnir túrverkir. Ljósan vildi hitta mig svo ég skraunglaðist í föt klukkan hálf fjögur um nótt og rölti upp á spítala. Þá var mín bara komin með 4 í útvíkun. Ég hafði bara ekki hugmynd um hvað var að gerst. Trúði því engan vegin.

Hann átti ekki að koma fyrr en 22. mars en þann 16. kom hann. Uppfyllti þá ósk móður sinnar að eiga ekki afmæli 20 og eitthvað af því að ég man ekki afmælisdaga eftir 20. hvers mánaðar en skemmilagði í staðinn þá ósk að hann yrði Hrútur því ég er að safna kindum muniði.

Skelli mynd af honum eins flótt og ég get en ég kann bara ekki að birta myndir úr tölvunni minni á netið. Klúður. Sísí lumar á nokkrum. Kannski skellir hún einni sætri á síðuna sína.

Ég er svo hamingjusöm með litla stýrið. Hann er allt það sem ég átti ekki von á að fá. Gullfallegur og sléttur þegar ég bjóst við gömlum kalli með pylsuaugnlok, rólegur og afskaplega vær í staðinn fyrir stöðugan grát og andvökunætur. Ég er bara asskoti heppin með drenginn. Ef einhver er óþekkur þá er það ég að sofa ekki með honum svo ég nái fullum kröftum. Ég keyri mig út eins og skepnu og þegar ég er búin með batteríin grenja ég út af engu.
Dagur heitir hann Engilbertsson og fær eftir góða um hugsun seinna nafn.

....djöfull var idda vont samt. Ég er því miður geymt en ekki gleymt týpan. Ef ég eignast annað einhverntíma þá kem ég sjálfri mér á óvart.

sunnudagur, mars 13, 2005

Þetta er allt að koma




















Jæja, nú styttist í drenginn minn. Hann ætlar að koma eftir viku. Svo getur vel verið að þetta sé stelpa nú eða tvítóla. Maður veit aldrei hvað náttúrunni dettur í hug þó að sónarinn hafi sagt drengur.
Ég ætla að bola honum út í öðru kjördæmi þar sem manni er ekki hent út eftir 36. klst. heldur fær að liggja í huggulegheitum í friði og ró í a.m.k. fjóra daga. Þannig að honum er eins gott að hafa sig hægan þangað til ég er komin á staðinn.

Mig dauðlangar til þess að sitja ofan í hlýju vatni á meðan kvalirnar dynja yfir en svo veit maður ekkert hvað maður vill þá stundina. Það er ekki hægt að skipuleggja neitt í þessum efnum. Hvílík ófullkomnun. Svo er það verkjalyfjamatseðillinn. Ég er alveg í losti yfir hvað það er hægt að velja úr miklu. Ég er að hugsa um að fá margrétta og svo smakka ég bara eftir þörfum. Þær sem hafa reynsluna hvetja mig til þess að velja mænudeyfinguna strax vera ekkert að tvínóna við hlutina en miðað við grýluumfjöllunina sem mænudeyfingin hefur fengið er ég á báðum áttum. Lýst best á glaðloft og baðkar eins og er.
Yfirgef pleisið fljótlega og blogga ef ég kemst í tölvu. Kannski verð ég heppin og get skellt mynd af prinsinum, krumpuðum, rauðum og bólgnum eftir leguna í legvatninu ef ég fæ myndavél lánaða og get lært að setja hana á netið.

Blog off
Skrudda.




fimmtudagur, mars 10, 2005

Gary

Skelli einum til að gleðja mig. Ég er svo sár yfir því hvað það er mikið til af ljótu fólki á Íslandi. Enn sorglegra að það skuli vera kynsystur mínar. Ég sem er að reyna að breyta áliti mínu á þeim.


miðvikudagur, mars 09, 2005

....uhhh....

Nó blog túdei
mæ mænd has gon avei
and þínks abáta vei
tú kóp ðis öglí dei


þriðjudagur, mars 08, 2005

Meira skemmtilegt

Kusu-vídíó geðveikt krúttlegt

Loksins

fann ég bloggið hennar Hörpu. Hún er snillllllldar penni.
Svo fann ég þennan fína bol!

Meira af Öllu í Drasli







Dr. Gunni vakti mig í morgun. Vildi spjalla við mig um þáttinn og ossona. Hann hefur látið draum minn rætast en sá er að Kisa fái mynd af sér í blöðunum. Þannig að nú er ég í "Séð og Heyrt" sjónvarpsþætti og "Séð og Heyrt"-hluta DV út af ruslinu heima hjá mér. Rokkdruslan ég.

Undanfarið hef ég verið að lesa um ljótar fæðingasögur í einhverri útvíkkunarbók. Mér líst ekkert á blikuna. Ég get fundið mér eitt og annað til þess að kvíða fyrir. Verkir og sársauki eru ekki það allra skelfilegasta sem ég les um heldur ljótar og leiðinlegar ljósmæður. Ég vona að ef ég lendi í slíkri forynju að ég verði svo reið með verkjunum að hún flýr af hólmi. Hafi eitt og annað við höndina til þess að grýta í hana. Ég þoli ekki vont fólk í augnablikinu. Ég er nákvæmlega eins og íslenskt veðurfar þessa dagana.

Systir mín sagði mér frá einni druslu sem hún lenti í sem skammaði hana sínkt og heilagt og í einni sögunni sem ég las var sussað reiðilega á konu sem þurfti nauðsynlega að öskra eitt öskr. Ljótar ljósmæðrasögur. Bumbubúi er að hughreysta mig hérna með því að gefa mér mjúkar hreyfingar í bumbunni.

Það sorglegast sem ég hef lesið sem af er er kona sem fæddi "kínverja" en var svo sagt að hann væri með Downs-heilkenni. Konan fór að hágráta en litli anginn bræddi náttúrulega hjartað hennar og hún þrýsti honum bara fastar að sér full af verndartilfinningu. Foreldrar hennar komu og sögðu að þeim þætti þetta leitt. Leitt!!! Elsku litla krúttið! Þá fór ég að gráta.
Ohhh það er svo goootttt. Verð reyndar eins og bjúga á eftir í framan og fæ "ljótuna". Reyni að takmarka pylsuútlit við bjúgaðar tær.

Heimta að bloggararnir mínir drullist til þess að blogga svo ég hafi eitthvað að lesa. Þó ekki væri nema ein lína. Ég sakna ykkar. Umheimur minn er einungis við netið.

mánudagur, mars 07, 2005

What?!!!!

























Ég verð aldeilis undrandi. Þetta finnst mér merkilegt. Ef ég á svona vin vil ég helst ekki vita það ég er svo hrokafull og andstyggileg. Gæti undir kringumstæðum Hrokmóna (nýjir íbúar plánetunnar Skruddu ásamt Hormónum og Rökmónum en Rökmónar eru í útrýmingarhættu) sagt ljótt eins og að viðkomandi væri heimskingi. Það ku vera bannað í dag að segja að fólk sé heimskt. Samt er ég alltaf að hitta svoleiðis fólk þ.e. sem ég vil kalla heimskt.
Stundum breytist ég í Hroka Hrokson. Innibyrgð reiði úr æsku....pláneturnar verið í þessu og þessu húsi...en ég er dugleg og sit á mér. Maður skildi ekki eyðileggja svona dásamlegar skoðanir annarra. Og hvað er svosem rétt og satt í tilverunni?
Ég er sömu skoðunar um stjörnumerki og trúna á þau en ég held að ég þekki engan sem er heltekin af þeim.

Í raunvísindum hjá meistara Hannesi var okkur tjáð að þar sem við værum öll úr sama geimrykinu og kúlurnar úti í geim væri nær í lagi að við fæddumst í "lækninum"sem væri viðstaddur en ekki í einhverju stjörnumerki þar sem læknirinn stæði okkur mun nær heldur en stjörnumerkið sem við fæðumst undir. Fjarlægðin sjáiði til.
Mannskepnan breytist ekki neitt en staða himintunglanna gerir það og í raun er ég ekki í Vogarmerkinu heldur Sporðdreki þar sem kúludraslið hefur fært sig um c.a. mánuð.

Amma sagði einu sinni við mig reiðilega að ég skildi ekki gleyma guði eins og pabbi minn hefði gert.
Afi sagði: Guð blessi Toyota.

sunnudagur, mars 06, 2005

Jæja þá vitiði það












Eins og þið sáuð þá er maður engu nær um hvernig eigi að taka til. Maður á bara að fá svona þátt heim til sín og svo heldur maður hlutunum við. Síðan þarf maður að leita að öllu og finnur það undir rúmi og uppi á lofti.

Fiskabúrið var ekki skítugt fyrir fimmaura. Við ætlum ekki að láta þau hafa kredit fyrir að hafa þrifið það. Þau fá eitt mínusstig í kladdann fyrir að hafa gleymt bakarofninum sem fékk sérstaka athygli. Og kötturinn er KISA en ekki KISI og ég hef oft beðið hana um að taka til eftir sig án árangurs.

Þetta var ágætis skemmtun.
Ég hélt samt að það ætti að kenna manni að þrífa. Það er greinilega allt of tímafrekt...spurning hvort þessi þáttur þjóni tilgangi sínum? Tilgangslaus eins og viðtal í Séð og Heyrt með fólki sem vill verða frægt fyrir hvað sem er.
Ég horfði a.m.k. á þáttinn í þeim tilgangi að sjá hvað þau gerðu t.d. við gólfið og með hverju þau þrifu lakkað timburgólf. Hmm...

Klósettið fékk ekki að vera með vegna þess að það var svo fínt auk þess sem það er allt of lítið til þess að heilt tökulið komist þar fyrir ásamt tuskuliði. Ég er samt stolt af því að vinkonur mínar hafa komist þrjár þar inn á trúnó þegar Prumpufélagið hélt síðast fund hér einhverntíma á síðustu öld.

Undirbúningur fyrir ellina














Mig dreymdi svo furðulegan draum í nótt um hana Bergþóru. Þar sem ég er búin að tapa emilnum hennar þá verður hún bara að lesa um hann hér:

Ég var að keyra á rauðum Hummer í áttina að risastóru húsi sem var vel girt. Girðingin náði vel upp að húsinu en húsið hefur áreiðinlega verið nokkrir hektarar að stærð og átti ég í nokkrum erfiðleikum með að reka ekki bílinn í girðinguna. Það var mjög tómlegt um að litast. Húsið var eins og það væri yfirgefið.

Ég fór út úr bílnum þar sem hann komst ekki í kringum húsið. Ég læddist að einu horninu og þar sá ég stól eins og einhver hefði verið þarna á undan mér og myndavél hékk utan á húsinu. Ég prílaði upp á stólinn og kíkti inn um glugga. Þá sá ég hana Bergþóru inn um gluggan og hún lítur í áttina til mín frekar flóttalega. Ég varð strax vandræðaleg fyrir að vera svona pípíng-tom og með einhverskonar kíkisgleraugu á nefinu og var fljót að kynna mig: Sæl þetta er bara ég Berþóra mín. Hún sagði mér að koma fyrir framan húsið en fara mjög gætilega.

Þegar ég kem að dyrunum er lítil stúlka í þann mund að dingla svo ég reyni að fela mig. Hurðin opnast en skellist strax aftur. Ég er hrædd um að stúlkan sé búin að skemma eitthvað fyrir mér en hún fer sína leið og ég læðist inn í húsið. Það er ansi dimmt þar inni.

Bergþóra tekur á móti mér. Ég segi henni að ég hafi komið fyrr um daginn en þá hafi enginn verið í húsinu. Hún sagði mér þá að hún hefði farið "upp" í dag í ákveðnum erindagjörðum. Hvað þetta "upp" var fékk ég svo útskýringu á. Hún segir mér að hún ætli að segja sig úr samfélaginu því það sé svo hræðilegt að verða gamall í því. Hún hafi því farið í leynilega sendiferð til þess að ná í teikningar af húsinu sínu til þess að fjarlæga þær af skrá s.s. þurrka sig út af kortinu.

Síðan er Berþóra allt í einu komin í læknaslopp og segir mér þessa hræðilegu sögu til að undirstrika mál sitt af gamalli konu sem hafi farið til tannlæknis og tannlæknirinn verið svo dónalegur og hræðilegur við hana. Heimtað að hún opnaði vel munninn því ef hún gerði það ekki þá yrði að setja hana í þar til gert tæki til þess að glenna á henni munninn og hún þyrfti að fá sérstaka deyfingu á meðan. Ég reyni eitthvað að koma til móts við hana og segi já að það sé nú líka hræðilegt þegar gamalt fólk liggi inni á spítala og eina prívatið sem það fær eru einhver tjöld sem eru dregin fyrir þegar það þarf að segja því eitthvað hræðilegt en allir í kring heyra í gegnum tjöldin. Berþóra var ekki alveg að ná því sem ég sagði og fannst mér ég algerlega mislukkast að sýna henni skilning.

Berþóra er nú komin úr læknasloppnum og við sitjum inn í stofu þegar maðurinn hennar stormar inn með fullt af pappírsrúllum. Hann er mjög ákafur og sýnir okkur hvað hann hefur undir höndum. Það eru myndir af húsinu þeirra sem honum hefur tekist að koma undan auk þess sem hann er með sýnishorn af loftmynd sem hann hefur látið gera sem sýnir að þar sem húsið þeirra stendur er nú risavaxið skóglendi. Honum hefur sem sagt tekist að fela fyrir umheiminum húsið þeirra. Þeim hefur tekist að segja sig úr samfélagi sem fer illa með gamalt fólk.
Til að undirstrika það að þeim tókst ætlunarverk sitt var landareignin á skrá sem einkaeign þannig að yfirvöld gætu ekki fyrir nokkurn mun nýtt sér landið.

Það merkilega við þennan draum var að þau hjónin voru a.m.k. 30 árum yngri en þau eru í dag. Kornung að undirbúa sig fyrir góða elli.
Svo vaknaði ég við að Kisa kom á brjáluðu tilfinningaflippi og heimtaði knús.

laugardagur, mars 05, 2005

Heimsóknir















Fór að heimsækja Agranesið. Nú ætla ég að jafna mig eftir þá ferð. Frekar stór andlegi tollurinn þar. Það er gott að ég fæ að eiga barnið og liggja í friði og ró inni á stofnun í fjóra daga frá umheiminum. Fólk er engu að síður velkomið ég meina það ekki þannig. En ég á mjög merkilegt foreldri. Segi ekki meir.

Komin heim til þess að ganga frá lausum endum og svo förum við til Agranessins að bíða eftir bumbulíus. Hann er orðinn afar hress. Finnst gaman að hljóðunum í bílum og er að reyna að synda út úr mömmu. Honum finnst einstaklega gaman að vera til á næturna þegar maður á að sofa. Kannski leiðist honum að heyra ekki í mömmu sinni sem talar stanslaust nema á þessum tímum.
Ég er farin að finna fyrir fyrirboðum um komu hans. Hlakka til að skola honum út með vorinu.

Ég er ekkert skemmtileg í dag. Mér finnst það fínt. Ég væri til í að nöldra og nöldra núna. Helvítis þetta og helvítis hitt. Ég væri til í að segja fullt af ógeði og ljótu. Vera virkilega vond eins og Láki jarðálfur.

þriðjudagur, mars 01, 2005

Bubbmennar tryggingar

Sjóvá-Almennar hringdu í mig og hótuðu að kveikja í húsinu mínu ef ég drullaðist ekki til þess að borga þeim brunatrygginguna. Ég sagði þeim að éta skít og hringja í útvarpið og biðja um óskalög með Bubba.

Fátæk í Helvíti-Trommusett vs. Barn















Einn af ókostum óléttunnar eru tennur. Ég er komin með tvær risastórar holur og buddan er tóm.
Fyrsti í helvíti er í dag og þá borgar maður upp allt og þá er ekkert eftir. Síst af öllu fyrir tönnum. Ég hef ekki farið á klippistofu síðan fyrir ári eða meira. Klippi lýjurnar orðið sjálf. Fötin mín eru götótt en góði parturinn er sá að grindarlosið hefur komið í veg fyrir að ég sé mikið á meðal fólks svo ég hef ekki þurft að hafa áhyggjur af því að ég líti út eins og drusla þó að ég geri það.

Mér finnst alveg ótrúlega sorglegt að eyða peningum í sokka og nærbuxur. Litlar pjöllur í dýrari kantinum. Held að ég hafi meiraðsegja bloggað um það áður. Eftir að ég flutti að heiman kaupi ég helst ekki slíkan fatnað. Sokkar og nærbuxur eru líka eitthvað sem mamma sá hreinlega um og maður þurfti aldrei að spá í. Það eru ekki bara strákar sem sleppa við þau kaup.
Núna geld ég þess að mamma hafi látið slíkt birtast inn í skáp en stelst í sokkana hans Berta sem mamma hans keypti handa honum.

Undanfarið hef ég verið að velta því fyrir mér hvort ég sé biluð. Hvað í ósköpunum það eigi að þýða að eignast barn og eiga ekki krónu. Það vantar eitthvað í mann. En á móti kemur upp sú hugsun hverskonar samfélag er það sem mismunar fólki hvað snertir barneignir. Ég veit að ég er nógu greind til þess að sleppa því fjárhagslega að eignast barn en ég hugsaði ekkert út í peningahliðina þegar ákvörðunin var tekin. Ég hugsaði um að mig langaði til þess að búa til litla fjölskyldu. Að fá lífið til þess að snúast um eitthvað annað en það hefur gert undanfarin ár. Læra eitthvað nýtt og fá verkefni í hendurnar sem væri meira virði heldur en allt annað.

En nú þegar nær dregur er ég á nálum. Ekki gangvart litla lífinu. Ég fæ tár í augun af tilhlökkun. Heldur út af fjárhagslegum skuldbindingum sem ég er ekki að standa mig gangvart. Mamma er að kaupa á krílið en ekki ég. Sjónvarpsþáttur er að gefa krílinu en ekki ég. Ég dauðskammast mín. Ég skammast mín fyrir launin mín. Þau ljúga hreinlega til um starfskrafta mína. Segja mig starfsmann vel undir meðallagi.

Systir mín reyndi að hughreysta mig með því að segja mér að það væru ábyggilega ekki nema 10% þjóðarinnar sem skipulegði sínar barneignir. Hún sagði jafnframt að ég myndi aldrei eignast barn ef ég hugsaði svona og ætlaði mér einhverjar fyrirfram gefnar forsendur. Hvað mig varðar þá væru skilyrðin heldur aldrei nógu góð ef ég ætlaði mér skipuleggja barneignir. Ég þyrfti að vera komin með þessa og þessa gráðu og launin að vera a.m.k. þetta há og ég yrði að vera komin með þessa vinnu. Myndi finna eitthvað nýtt sem stæði í vegi fyrir litlu lífi á hverjum degi.

Ég hef meiraðsegja velt því fyrir mér hvað ég er að gera þessum einstaklingi með því að fæða hann inn í þennan heim. Ef ég væri forsjál hefði ég kannski losað mig við móðurlífið um tvítugt. Kannski full forsjált og full neikvætt.

Á hinn bóginn gæti nýja hlutverkið haft þau áhrif að ég fyllist fídónskrafti og bjartsýni um eigin framtíð. Kannski er það lítið barn sem rekur mann áfram til þess að láta óskir sínar rætast. Hamingjusamir foreldrar er sterk ávísun á hamingjusamt barn. Ég ætti að hafa það að leiðarljósi.

Svo má alltaf selja trommusettið fyrir barnavagn. Sonur minn á aldrei eftir að fyrirgefa mér það.
Brúðarbandið ekki heldur.