laugardagur, apríl 30, 2005

Heimasíðugerð

Það sem ég get gert á meðan aðrir djamma er þetta hér. Frábæra heimasíðan mín. Er greinilega í vinnslu og ég veit ekkert hvað ég er búin að gera! Sit með kennslubók í fanginu og botna ekkert í henni. Njííhh.

föstudagur, apríl 29, 2005

Fjör á Akureyri

Sólin er farin (jibbí kóla). Var að lesa Orra segja frá Akureyringum. Merkilegt hvernig fólk hugsar. Ef maður er Íslendingur þá hatar maður útlendinga og ef maður er frá Akureyri þá ber maður kala til fólksins í suðrinu því sunnanmönnum fylgir viðbjóður og ofbeldi.

Mig langar í kjútlíng í kvölmatinn. Ammminamm.

Allir að beina hugarorku sinni að bumbunni hennar
Beddu. Þetta er orðið gott. Nú er bara að feisa heiminn litli minn. Það er ekki endalaust hægt að kúra í legvatninu góði. Nú er að hjúra sig upp að mömmu og tittsunum hennar.

Horfði á óótrúlega leiðinlega mynd í gær eða Ósjöns tvelf. Djöfulli leiðinleg. En ég sagði af fullri alvöru við einu atriðinu sem ber vott um stórkostlegan næringaskort: Hva af hverju fer hann svona í töskuna? Það rennur allt hausið upp í blóð á honum!!! Ég er rugluð. Hvaða efni vantar mann þegar maður er farinn að rugla saman orðum?

Svo er kallinn að fara að spila í kvöld á Rand Grokk. Ég segi eins og Megas mig langar svo mikið að Mééér langar. Sohohorrí Sunnus nott posíbluh.

Um sólskinið

Það eru einhver helvítis æp og fagnaðarlæti einhversstaðar...ætli það sé sjónvarpið niðri?
Veðrið leikur við mann og ég sit inni. Eins og sólin er nú dásamleg þá fæ ég alltaf þá óþægilegu tilfinningu að ég þurfi endilega að vera úti þegar það er sól. Myndast ægileg togstreita inn í mér við það eitt að sólin skuli sjást. Ég verð með eindæmum fegin þegar ég uppgötva að það sé svo kalt úti að það er ekki nokkur leið að vera þar þó að sólin skíni. Þá er komin afsökun fyrir því að vera bara heima hjá sér þrátt fyrir sólskinið.
En það er ekkert kalt í dag svo ég fæ bara minn vanalega skammt af tremma þangað til að það kvöldar. Þá léttist á mér lundin og ég hugsa með mér að á morgun skuli ég sko fara út að spássera. Svo endurtekur sagan sig daginn eftir ef sólin skín.
En ég er innipúki og hef alltaf verið. Það sem mig langar til að gera er allt inni. En þegar Dagur má fara í sund...þá er sko Laugardalurinn á næsta leiti. Þar vil ég eyða mínu sumri.

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Sjónvarpsblogg

Ég ætlaði nú ekki að fylla fólk ranghugmyndum um Berta minn. Ég var bara að vitna í auglýsingu í sjónvarpinu sem heldur því fram að kallinn geti ekki skorið hvaða kjöt sem er. Veit ekki betur en að karlar séu í meirihluta kjötiðnaðarmanna. Ég þoli ekki auglýsingar þar sem kynin eru notuð gegn hvort öðru og manni á að þykja fyndnar og hugsa "já einmitt, kallinn minn er alger í eldhúsinu" og hlægja hástöfum (hástafir=HAHAHAHHAHAHA). Berti sér alfarið um eldamennskuna núna. Mjög góður kokkur meiraðsegja. Við erum bara uppiskroppa með hugmyndir skohhh og eins og ég bloggaði um um daginn þá þykir þetta drepleiðinleg iðja sama hvort okkar á í hlut. Takk fyrir usskiptirnar. Ég á einmitt þorsk í frysti.
Merkilegar þykja mér auglýsingarnar þar sem kall er að sýna konu hvað þvottaefni eru frábær! Bara sorrý. Flestar konur sjá um þvottinn. Fyrir utan að eins og mamma mín segir þá eru karlmenn alveg frábærir á takka og tól en ekki takkana á þvottavélinni!
Meira um auglýsingar. Fjandans dömubindin. Nýjasta auglýsingin er stúlka að segja að hún sé svo fersk. FERSK?! Í klofinu þá eða? Dömubindi eru viðbjóður og ekkert annað. Breytist í gróðrarstíu á mettíma og svo fylgja þeim viðbjóðsleg lykt. Mér eru minnistæðar auglýsingarnar þar sem dömubindið "dugði alla leið" þ.e.a.s. manneskjan var með sama dömubindið í klofinu í sex klukkustunda hestaferð. Oj bara. Olveis Últra sem hefur þá einstaka eiginleika að draga í sig allan vökva og sjálfsagt var stúlkan komin með sveppasýkingu eftir hestaferðina af allri bleytunni í bindinu því þessar auglýsingar sjást ekki lengur. Nú erum við bara ferskar.
Innlit/útlit...hvað er með útlitið á kvennfólkinu í þættinum (kven eða kvenn-fólk eníboddí?).
Þær kunna ekki að klæða sig það er nokkuð ljóst. Svo er spurning um að þær fari að finna fleiri orð. Kannski þær ættu að fara fylgjast með íþróttafréttamönnum og vita hvort þeir geti ekki hjálpað til. Það er allt svo sniðugt og skemmtilegt. Rými hefur a.m.k vikið fyrir orðum eins og eldhús, baðherbergi o.s.frv. En hafiði tekið eftir því hvað Vala er mikið við stjórnvölin? Það er eins og hún sé að leyfa hinum að tala í myndavélina. Mjög merkilegt. Ég hjó eftir því þegar strákarnir voru með henni þeir Frikki og Kommi að það var greinilega eitthvað gröts á milli Völu og Komma. Skein í gegnum skjáinn. Núna sér maður að það er Vala og svo stelpurnar hennar sem fá að vera með. Ein af auglýsingunum um Innlit/útlit var þannig að þær stóðu tvær saman og horfðu í myndavélina, Vala sagði eitthvað...munið þriðjudagskvöld eru innlits/útlitskvöld og svo lítur hún til hinnar sem segir ekkert en það var eins og hún ætti að gera það. Mjög skrítið.
Vala var nú svo slöpp í íslenskunni í einni af auglýsingunum að hún sagði að þriðjudagskvöld væru innlit/útlit kvöld. Slakaði algerlega á beygjingunum.
Minni fólk í kjölfarið á að nota fallbeygingar þegar það er að segja frá systkinum sínum í kringum mig. Ekkert fjandans "systir mína" neitt.
Svo var ægilega krúttlegt í fréttunum í gær. Það var verið að fjalla um örorkubætur og með fréttinni voru sýndar myndir úr miðbænum...fætur af fólki. Einn vegfarenda var í inniskóm og sárabindi utan um stórutánna sína. Enda fjallaði fréttin um hvað það væri auðvelt að komast á örorku. Mjög kómískt.
Ég þoli ekki þegar Blogger leyfir mér ekki að hafa greinaskil þegar ég sendi frá mér ritræpublogg. Helvítist rassgata-kúkur þessi Blogger.

þriðjudagur, apríl 26, 2005

Óska eftir...

...mataruppskriftum sem eru ódýrar, geðveikt góðar og fljótlegar í framkvæmd. Umfram allt hollar, brjóstamjólkurvænar og að kallinn eigi auðvelt með að "skera" þær svo ég geti setið á rassgatinu.
Koma sohh. Látið þær dynja á kommentakerfið.

Fékk sko ekki að leggja mig

Ég var búin að koma mér vel fyrir upp í rúmi og færa Dag í vögguna sína...vaknaði ekki kallinn. Svo ég skellti nýrri bleyju á bossa, klæddi lítinn mann og rauk niðrí bæ grútsyfjuð og svöng. Byrjaði á Bæjarins bestu og svo beint í bókasafnið. Vá...ofstuðlun eða hvað.
Tók bækur um barnið, heimspekiritgerðir eftir Kristján Kristjánsson og einhverjar tölvubækur um vefsíðugerð. Ekki hress bókasafnskona sem afgreiddi mig. Ég sem er að spá í að fara í Há Íj að læra bókasafns og uppl.fræði (sagnfræði fór eitthvað þvert ofan í mig svo ég ætla ekki að reyna aftur. Ég er ennþá með herðatré í hálsinum eftir það ævintýri í formi hálfrar milljónar). Hún var fúl dauðans. Svo fúl að hún sneri úthverf. Tilkynnti mér óhlýrri röddu að ég væri með sekt. Já og hvað er hún há, spurði ég bara og dró upp budduna.
Síðan var að finna snuð til þess að kaupa sér frið frá totti. Jullurnar eru besta snuðið og ég er orðin duldið þreytt á að láta plata mig. Kuffti pússíkatt snuð (búin að prufa MAM og NUK). Minningarnar að mér streymdu enda var það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim og tók snuðið úr pakkanum var að þefa af því.
Ég var nefnilega snuðfíkill sem barn og lét ekki af þeim sið fyrr en ég varð sex ára. Þurfti meiraðsegja tvö. Eitt í munninn og eitt fyrir nefið til að þefa af. Það sem var fyrir nefið varð að vera notað. Það var sérstök lykt af notuðu snuði. Nýtt snuð virkaði alls ekki.
Jæja, Berti sauð snuðið, og Degi lá við köfnun við fyrstu prufu. Barnið er ekki með nógu stóran góm fyrir snuð. Ég verð bara að sætta mig við það að snuðfíkn erfist ekki. Mamma er best (jækjs). Svo strunsuðum við heim til þess að lesa allt um svefnvenjur ungbarna.
Núna ætla ég að athuga hvort ég fái að sofa í tvo tíma. Síðan ætla ég að líta í heimspeki svo heilinn á mér hlaupi ekki aftur í kekki.


Vá fann þessi ógeðslegu snuð!!! Ég verð að eignast svona í dag!!!

mánudagur, apríl 25, 2005

Ég hélt...

...að ég yrði svo dugleg að fara út að labba þegar ég væri búin að eignast Dag. Ég er alveg komin í skóna og búin að vara Beddu við innrás. En núna liggja feðgarnir saman rólegir sofandi yfir Gufunesradíói og mig langar ekki til þess að skemma þessa fegurð. Mig langar til þess skríða uppí til þeirra. Dauðsyfjuð sjálf. Svaf nánast ekkert í gær. Nenni ekki að fara grútsyfjuð í heimsókn og göngutúr.

sunnudagur, apríl 24, 2005

Ljúlí ljúlíGleðilegt sumar. Ég gleymdi að óska ykkur þess.
Fann ótrúlega leiðinlegt blogg í gær. Það fjallar um hvað manneskjan át yfir daginn. Ein í grennslu. Eitt epli og ab-mjólk. Einstaklega skapandi skrif. Enginn linkur handa ykkur. Langar ekki að ganga of langt í að skíta út fólk út í bæ.

Hversu boring verður þessi dagur? Af hverju leiðist mér sona? Kannski af því að ég er með horstíflur í hausnum til viðbótar við kögglana. Hausinn á mér er þungur hnífur.

Horfðum á mynd í gær sem var ekkert sérlega skemmtileg. Max. Djonn Kjúsakk var samt alveg ágætur. Mér finnst svo gaman að myndum þar sem fólk talar rosalega mikið og er uppfullt af pælingum. Ég náði engum tengslum við þennan karakter sem Hitler átti að vera...

...svo kom bara Birgir sjálfur Baldursson í heimsókn og bjargaði deginum. Kjöftuðum um barnauppeldi, taugasálfræði, tónlist og hvernig Íslendingar hugsa til náungans og eru lítilsigldir eins og Birgir orðaði það. Hausinn freskaðist við umræður okkar. Kögglarnir í hausnum leystust upp eins og sévítamíntöflur í vatni og ég finn fyrir hauslétti. Þetta er allt spurning um að hitta fólk og já rétta fólkið. Biggi er í réttafólks-pakkanum. Hann er vinur minn. Ég á vini.

laugardagur, apríl 23, 2005

Fokk fokk fokk

Ég vildi að ég væri í HELVÍTIS Svíþjóð að drekka HELVÍTIS bjór. Djöfullinn mar. Hvað á það að þýða að tækifærin komi þegar maður tekur ákvörðun um að eignast baddn?!
Æi mér leiðist mar...fokk.

Skjóta fugla eða eitthvað...nágrannann mar. Fokk.

HugsihugsÉg er stöðugt hugsandi um allt.
Þegar maður er hugsandi um allt fyllist heilinn af litlum kögglum og stíflast. Kögglarnir hrannast upp og pompa niðrí maga á manni og búa til illt í hann.
Það er svo margt sem mig langar til þess að gera, finnst ég þurfa að gera og get ekki gert. Ég er orðin hálf úrræðalaus. Það er ekki hægt að slappa af fyrir svona endalausum hugsunum. Hvað er með þetta hugs endalaust. Það er eins og maður bjargi hlutunum ef maður hugsar stöðugt um þá. Eins og maður sé að koma í veg fyrir sektarkennd yfir því að gera ekki eitthvað í málunum. Maður er alla vega að hugsa þá og getur réttlætt fyrir sjálfum sér.

En þegar hugsanirnar eru komnar í kraðak (hvaðan í ósköpunum er orðið kraðak?) og streyma inn í hausinn á manni eins og auglýsingar á very fast forward myndi ég halda að um algert stjórnleysi væri að ræða. Maður verður bara hræddur við þetta streymi. Þori ekki að slappa af til þess eins að eyða þessu ef ég skildi vera að horfa fram hjá einhverju sem þarf að gera og ég er að gleyma mér í einhverri afslöppun. Samt veit ég að það kemst ekki lag á hugsanakögglana ef ég slappa ekki af. Óþægilegur vítahringur.

Það væri nú gott ef að maður hefði on/off takka á svona stundum. Slökkva í svona klukkustund á hausnum á sér. En skildi maður geta ýtt aftur á on ef maður slekkur á heilanum sínum? Úff...nýtt verkefni til þess að vinna úr...hvernig get ég ýtt á on?!!!

fimmtudagur, apríl 21, 2005

AAAAaaarrrgggghhhh...


...eru hljóðin sem hljóma með hléum úr íbúðinni minni. Elsku litli er búinn að vera brjálaður síðan aðfararnótt miðvikudags af kvölum. Þvílíkt og annað eins. Við þekkjum ekki barnið. Litla skinnið er að hvíla sig á sjálfum sér og sefur eins og steinn en rumskar öðru hverju með sorgarkveinum. Ég svaf nánast ekkert í gær en náði blundi í morgun. Ju hvað það var góður svefn. Ég veit ekki hvort ég át eitthvað ógeðslegt, en sá grunur læðist að mér, eða hann sé með sömu pest og ég. Fékk einhverja fjandans kviðverki með drullu og tilheyrandi. Úff fyrr má nú aldeilis. Hef ekki tekist að plata snuði í drenginn. Það sem veldur mér hins vegar áhyggjum er að hann drekkur ekki mikið og tekur annað brjóstið illa. Ég ætla að pumpa jullurnar aðeins svo Mjólkurbú Skruddumanna fari ekki á hausinn.
Það var mjög merkileg frétt Fréttablaðinu frá því á sunnudaginn. Tveir hundar drápu eiganda sinn sem var 74 gömul kona og á eftirlaunum. Ég er að velta því fyrir mér hversu alvarlega maður eigi að taka þessari frétt. Ekki nóg með að eigandinn hafi verið gömul kona heldur var hún á eftirlaunum líka! Helvítis hundarnir. Vissu þeir þett'ekki?!
Löggan skaut annan hundinn í sjálfsvörn...atburðinum er lýst eins og góðum Gary Larson brandara.

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Lars Ulrich

Sá Lars Ulrich í sjónvarpinu áðan. Hann er orðinn söngvari í hljómsveit sem heitir Kung Fú. Nokkuð góður í íslenskunni kallinn. Gaurinn er allavega alveg eins og Lars...

Vegna svefnleysis...

...hef ég ekki getað bloggað. Og þegar ég er ekki sofandi er lítill kútur sem vill BARA vera á handleggnum mínum. Mér dettur í hug skáldsagan Ilmurinn og hvort það sé hægt að framkvæma það sem söguhetjan reyndi. Las aldrei alla bókina á sínum tíma. Fékk einhvern leiðindasting í kokið eftir nokkrar blaðsíður. En núna væri ég alveg til í ilmvatn sem hefði mína lykt og ég gæti spreyjað til dæmis á köttinn svona rétt á meðan ég skrepp í sturtu til þess að þrífa mig nú eða knúsa kallinn minn.

Ég er svo ný mamma að ég veit ekki alveg hvernig maður snýr sé í svona "háðu-málum". Ég er aðeins farin að fatta hvernig hann er farinn að nota brjóstið á mér fyrir svefnmeðal. Gaurinn er að springa eftir matinn en heimtar samt brjóst og brjóst annars neitar hann að loka augunum. Snuð vill hann ekki sjá. Þykist vera að kafna geðveikt þegar ég reyni að plata það upp í hann. Það er ekkert svo stórt þetta snuð...

Svo vill hann alls ekki sofa í vöggunni. Ég veit ekkert af hverju. Hann vill vera í rúminu okkar með og án okkar og núna sefur hann á teppi í sófanum inni í stofu en í vöggunni vill hann ekki vera. Hvað gera Danir þá? Það er ekkert hægt að sofa með lítið barn í rúminu sínu. Það er ekkert pláss. Ég hef sko fært hann en þá vaknar hann bara. He's in contról.
En þar sem dýrið litla sefur akkúrat núna ætla ég ekki að eyða tímanum mínum lengur í tölvunni. Finna eitthvað annað skynsamlegt að gera. Til dæmis knúsa kallinn sinn.

fimmtudagur, apríl 14, 2005
Blönni sparari

Horfði á Sirrý í gær út af hjónunum sem hafa uppgötvað hvernig á að spara og eiga peninga. Varð fyrir miklum vonbrigðum. Ég gat ekki séð að það væri fyrir láglaunafólk að spara. Mjög gróflega áætlað þá erum við í 930 krónur í mínus á þessu heimili hver mánaðarmót. Mínusinn er örugglega meiri. Ég sem þarf svo hrikalega að komast til tannlæknis. Ég er með svakalegar holur eftir að það brotaði úr tönnum tveim á meðgöngunni. Úff fyrir utan fataskápinn...ég er alveg búin að ganga tuskurnar í tætlur.
Ég sakna Blönna...hann myndi segja mér að fá mér aukavinnu. Get ég ekki fengið vinnu hjá honum bara? Hann borgar örugglega vel duglegri stelpututlu eins og mér. Sá glitta í hann í sjónvarpinu um daginn þar sem hann var að skamma samgönguráðherra fyrir að rugla með peninga almennings. Elsk'ann. Ohh svo talaði hann so hratt...

Annars held ég að það verði Vinstri grænir sem fá atkvæði mitt næst. Steingrímur gjörsigrar mig á persónutöfrunum einum. Kýs á honum munninn og dásamlegu orðlokurnar sem hann spýtir út úr sér. Skítt með stefnuskrá. Bara viðhalda fjöri á hinu háa Alþingi.

Hvenær skyldum við losna við flokkapólitíkina og kjósa fólk?

þriðjudagur, apríl 12, 2005

Snilldar auglýsingar!


Íslendingar þola ekki sannleikann í sínu eigin samfélagi og hafa aldrei gert.
Las í fréttablaðinu í gær nöldur um auglýsingar Umferðastofu sem mér finnast nokkuð góðar og lýsa íslenskum sósíalrealisma mjög vel. Ég blóta heil ósköp þegar ég er pirruð að keyra og þó svo að ég eigi ekki bíl í augnablikinu þá á sonur minn eftir að heyra heil ósköp af blóti og pirri þegar ég fer út með vagninn þar sem það er ekki nokkur leið að komast neitt fyrir bílum sem lagt er upp á gangstétt.

Ein auglýsing sem ég hélt mikið upp á var látin hverfa mjög fljótlega eftir sýningu. Hún var áróður gegn jólaglögginu og sýndi blóðdropa falla í takt við falska jólavísu og svo fékk maður að sjá konu liggjandi í blóði sínu út á stýri inni í bílnum sínum þokkalega dauða. Önnur aulýsing sem mér fannst frábær prýddi strætó heillengi og fékk að hanga þrátt fyrir sjokkeraða Íslendinga sem eins og ég segi þola ekki sannleikann. Smokkur fullur af dópi og kúk-kámaður og titillinn var ÚR HVAÐA RASSI? Ég væri til í að eiga svona plakat.

Sjálf var ég eiginlega búin að loka á "húsmæður í Vesturbænum"-syndrómið þangað til við tókum þátt í Allt í drasli-seríunni. Þá uppgötvaði ég hvað það er mikið til af sjallóf liði sem þykist vera svo fullkomið og frábært. Það er kannski fínt inni hjá þessu fólki en ég er ansi hrædd um að það sé allt í drasli inni í höfðinu á því fyrir utan allt hitt sem það er að reyna að fela aðallega fyrir sjálfum sér.

Ég vona að fólkið í auglýsingageiranum láti þetta ekki ganga nærri sér og geri fleiri skemmtilegar auglýsingar sem storka áhorfendum sjónvarpsins. Vonandi standa sjónvarpsstöðvarnar sig líka og láta ekki almenning þrýsta á að sýningum verði hætt. "Lýðurinn er heimskur og gleyminn" sagði Adolf Hitler. Gyðingar hafa hins vegar engu gleymt svo Dilli þarf að éta þessi orð sín. Stalín hampar þeim í staðinn ásamt pólitíkusum af hvaða þjóðerni sem er.
Þeir Íslendingar sem eru hræddir við veruleikann jafna sig og gleyma...ja þangað til næst.

mánudagur, apríl 11, 2005Nágranni minn?Drama á neðrihæðinni á laugardagskvöldið. Ég gat ekki kynnt mér málin nánar þar sem ég var með barnið í fanginu og Berti víðsfjarri góðu gamni. Hann fór á Grand Rokk að spila og drekka bjór. En alla vega var hurðum skellt og hrópað og æpt (flott orð...æpt...pæliðíissu...ÆPT, Æ-PÉ-TÉ...það má dunda sér við þetta í dag). Húsið hristist af skelfingu. Þætti það mjög leitt ef nágranninn er að reyna koma sér á dauðalistann minn. Hann er nefnilega svo stuttur að það er stutt í dauðann. Fyrirlitning mín vex dag frá degi. Það er orðið spurning um að hringja á löggutíkurnar.
Slapp við Kvíín.

laugardagur, apríl 09, 2005

Ég þoli ekki...


...matarkaup og eldamennsku. Ég fæ grænar ef það þarf að fara út í búð og mér hundleiðist að standa fyrir framan eldavélina. Á hverjum einasta degi þarf maður að taka þessa hundleiðinlegu ákvörðun um hvað eigi að vera í rassgats matinn. Svo þegar maður eldar með þessu hugarfari eyðileggst maturinn. Við hjónin elduðum til dæmis uppáhalds grænmetissúpuna okkar um daginn og hún var ógeð. Vantaði "sálina" í súpuna. Svo veit maður aldrei hvað mann langar í.

Nú hugsa margir sem svo að við ættum bara að hugsa fram í tímann og kaupa inn fyrir nokkra daga í einu en vandamálið sem kemur upp þá er að það sem mann langaði í fyrir þremur dögum og asnaðist til þess að kaupa ha það langar mann ekkert sérstaklega í þegar kemur að kúkkíng-dei!

Ég þarf greinilega að breyta einhverju. Voðalegt pirr í mér þessa dagana.

föstudagur, apríl 08, 2005

Göngutúr


Okkur tókst sum sé að púsla vagninum saman sem systurdóttir mín lánaði okkur en ferlíkið sem ég pungaði út fyrir er meiriháttar þraut sem ég ætla mér að stúdera eftir að ég hef sápuþvegið og sterelíserað. Fór að ráðum Hildigunnar og leitaði uppi Avent brjóstapumpu sem mér var seld með glöðu geði.

Við vorum ægilega sallí með vagninn úti þangað til sá stutti fór að gráta þessi ósköp. Þá urðum við frekar vandræðaleg í framan og vorum að hugsa um að fara heim. En eftir að hafa hossast aðeins skánuðu hljóðin sem komu innan úr vagninum. Mér leið á tímabili eins og mannsmorð væri að eiga sér stað. Fékk stingi í móðurhjartað, heilinn lamaðist og mikil geðshræring fór að gera vart við sig. Mig langaði helst til þess að þrífa Dag úr vagninum og knúsa hann. Húfan var alltaf að flækjast fyrir honum af því að hann gat ómögulega verið kyrr með höfuðið sem gerði hann ennþá meira pisst yfir þessari sorglegu gönguferð.

Bruðlaði aðeins meira en brestpömp. Kufti mér Nick Cave og Portishead á 2 fyrir 2000. Portishead er sona Kaffibarsnostalgían mín. Minnir mig á tímabil í lífinu þar sem mér leið eins og ég væri stelpunörd innan um "sæta, fína innliðið" sem stundaði Kaffibarinn á seinni hluta síðustu aldar. Gott að geta sagt að það hafi verið á síðustu öld. Ég held að mér hafi aldrei liðið eins mikið eins og gangstétt og glervegg. Á meiraðsegja sögu í smíðum einhversstaðar um þetta tímabil.

Nick Cave var bara algert möst. Hef ætlað að fjárfesta í Murderballads lengi lengi lengi lengiiiii.
Í tveir fyrir tvöþúsund-rekkanum rak ég augun í duldið sem vakti hroll. Það voru diskar með Kvíín út um allt. Ég hef aldrei þolað Kvíín. Fyrirgaf þeim ekki tilveru sína þó svo að Freddí hefði dáið. Svo gerðist eitthvað inn í mér sem varð til þess að mig langaði til að endurskoða þessa skoðun mína þar sem Freddí hefur/hafði þessa svakalegu rödd. En nágranninn rústaði þeirri ætlan minni með því að spila Kvíín kl. 6 um morguninn síðustu helgi. Þess í stað uppgötvaði ég að hljómsveitin Kvíín væri í raun söngleikjakvak og hundleiðinlegt prump. Þannig að nú þurfa að líða a.m.k. 10 ár þangað til ég fer að endurskoða Kvíín-Freddí.

Komin með lifandi brjóstapumpu í fangiðbless!!!

...Flöskudagur nágrannans???


Hvernig verður helgin í þessu húsi er spurning dagsins í dag. Mækal Djakkson er í græjunum niðri að syngja Bítit. Bítt'ann sjálfur!

Við ætlum í göngutúr snöggvast svo ég hafi eitthvað til þess að blogga um. Nú er að feisa heiminn í foreldrahlutverkinu.

fimmtudagur, apríl 07, 2005

Kvara gerast?!
Mér finnst eins og heilinn á mér sé að breytast í leðju. Slikjukennd tilfinning alveg aftur á hnakka. Startrekk-ævintýrið er að líða undir lok og heilinn greinilega í rjúkandi rúst eftir baráttu Hormóna og Rökmóna. Ég verð að fara að ná svefni af einhverju viti. Mig svimar. Svo finnst mér eins og andlitið á mér sé að breytast í eyðimörk...bráðum fer ég að hugsa um skútu eins og Þorsteinn Guðmundsson
.................
....................
.... zzzZZZZZZZZZzzzzZZZZzzzz.....


Brúðarbandið er að fara að spila á Hróarskeldu. Ætli ég geti spilað með þeim eða verð ég að vera heima? Mig dauðlangar að spila. Þarf ekkert að vera alla helgina. Bara skreppa og spila, fara heim daginn eftir eða eitthvað. Svona eins og sönn rokkstjarna...Ha. Passa í kjólinn núna og allt.
Kva segiði? Eriggi fullt af fólki úti í Danmörku sem vill endilega halda á barni í c.a. 40 mínútur?
Mig langar so mig langar so að lyfta mér á kreik. Kíkja kannski á eitt eða tvö víkingaskip. So flott safn þarna sem mig langar að skoða. Ég spyr þær í ungbarnaeftirlitinu.

miðvikudagur, apríl 06, 2005

Partí martí

Þetta er nú meira forritið. Maður getur ekki bloggað þegar manni sýnist. Ætli það fari eftir veðri eða hvað?

Eitthvað krassandi? Já já. Það er alltaf partí niðri hjá nágrannanum. Rifist og allt. Það er hreint ekki verið að drekka eingöngu neinei það er eitthvað meira til þess að halda sér gangandi í 48 KLUKKUSTUNDIR. Ég fer að verða soldið fúl út í þá þarna...fer niður þegar kjarkurinn kemur og held litla ræðu um gildi friðhelgi einkalífsins og eitthvað. Djöfuls dóp mar. Einhver vinur hans kom að heimsækja hann í gærdag að mig minnir. Hann bankaði og bankaði en enginn svaraði. Svo gaurinn fór að sparka í hurðina. Eins og að það væri einhver frekar heima ef hann sparkaði. Ég get svariða. Það vantar í vel í HAUSINN á þessu liði sem heimsækir kauða. Sem er í raun besta skinn en eins og ég hef sagt áður veikur fyrir víninu. Honum þykir soldið gott að vera ekki í raunveruleikanum. Það er líka hægt að spila tölvuleiki og fara þannig út úr raunveruleikanum. Honum finnst það kannski ekkert skemmtilegt. Samt held ég að hann eigi tölvu dauðans og sörrándsystem. Ég heyri mússik núna. Dúmp dúmp.

Ég hef ekkert nöldrað yfir Fisher eða símasölu eða neitt. Enda sér maður það alltaf betur og betur að ef maður fylgist of grant með pólitík verður maður brjálaður yfir heimskunni sem er í gangi. Ég hef hins vegar verið að velta því fyrir mér að ef síminn verður seldur get ég þá farið fram á að adsl áskriftin mín detti niður þar sem að ég hafi gert samninga við ríkið en ekki einkaaðila. Svona svo ég geti fært mig yfir til Hive eða eitthvað annað. Hver er réttur manns í þessari stöðu? Eins og manni komi ekki hlutirnir við HA?! Það er ekkert verið að spyrja rétta eigendur hvað þeir vilja gera?

Svo er það Rúf-bullið. Nú þegar á að nefskatta fólkið í landinu þá ætla ráðamenn að taka af 16 ára unglingum og upp! Hvað eru menn að pæla? Færðu þeir ekki sjálfræðisaldurinn hérna í denn upp í 18 ára? Ég skil ekki alveg. Ég er löngu hætt að botna í þessu.

Hjúkkan fær 10 í einkunn fyrir daginn í dag. Dreg til baka skítafýluna í mér frá því síðast. Hún sagði nefnilega að við mættum fara út í næstu hlýjindum. Takk esskan. Svo var hún hæst ánægð með þyngdina á barninu. Best að þyngja hann meira. Ég söng fyrir hann í dag um Gunnar og Geir. Litlir fiskar sem syntu um allt. Honum fannst það æði. Skellti Brúðarbandsdiski í tækið í fyrra dag til þess að athuga ríflexið. Jú hann kannaðist eitthvað við þetta, var ekki viss en fór í sælumók í fanginu á mér þrátt fyrir lætin. Ég held að Lítil Vísa hafi heillað hann mest. Samt spiluðum við það ekki mikið á meðgöngunni. Á óskalistanum mínum er Megasardiskurinn með öllum barnavísunum. Aravísur eru nefnilega í mestu uppáhaldi hjá mér. Grunnskólakennarinn minn sagði að ég hefði verið alger Ari og stórskemmtilegt barn. Alltaf að spyrja af hverju við þyrftum að gera þetta eða hitt.
Já og brjóstapumpa tjú tjúhh. Hún er á óskalistanum.


sunnudagur, apríl 03, 2005

Brjóstagjafanojan og fleiri fóbíur.Þetta er alveg stórmerkilegur heimur sem fylgir því að verða foreldri. Eitt af mörgu sem ég hef gengið í gegnum er brjóstagjafafasisminn. Sonur minn fékk nebblilega guluna og honum því nauðsynlegt að vera alltaf að drekka og drekka. Ég á helst að vekja hann á 3 tíma fresti en ég á líka að passa mig á að borða sjálf og sofa. Hugsa um sjálfa mig. Ég sé það ekki alveg vera að gerast undir þessum brjóstagjafatíma því það tekur sinn tíma að setja barnið á brjóstið og klípa í hann þegar hann hættir að sjúga. Duldið latur stundum.

Svo skil ég ekki hvað allt skarast. Hvað verður þá um þennan svefn sem er barninu svo nauðsynlegur til þess að þroska heilann ef ég er alltaf að rjúfa hann? Síðan rignir yfir mig hversu lengi ég á að hafa hann á brjósti. Sumir segja 30 mín aðrir 15 mín svo eru það þeir sem segja mér að fylgjast með barninu en ekki klukkunni. Ég hef frekar áhyggjur af því að missa mjólkina undir pressu annarra um hvað ég eigi að gera og ekki gera heldur en gulunni hjá barninu sem er nánast horfin.

Svo er það annað. Af hverju eru brjóstin ekki glær á meðan maður er í þessari aðstöðu?. Það er einhver mjólk sem kemur fyrst til þess að svala þorsta barnsins og síðan kemur seinni mjólk sem er einhverskonar þykkmjólk til þess að seðja hungur barnsins. Hvernig veit maður hvernær þessi er búin og hin kemur? Hvernig veit maður að brjóstið er tæmt? Bla bla bla bla bla bla blahh?

Er ekki soldið mikið verið að stuðla að sturlun frekar en afslöppun í kring um ungabarn? Hvað hefur orðið um brjóstvitið?

Á Akranesi eru 11 ljósmæður og þrískiptar vaktir. Nánast 3 ljósmæður á dag! Það var komið risastór sótað ský yfir höfuðið á mér af 3 mismunandi útgáfum af hvað væri best fyrir barnið og brjóstagafafræðslum á dag. Ég var í næstum viku. 11 ljósmæður. Reikniði svo. 3 nýjar á hverjum degi. Mig langaði til þess að garga og fara heim eftir 3 daga = 9 ljósmæður. Of mikið af upplýsingum fyrir of mikla hormónastarfsemi. Fyrir utan óöryggið sem þetta skapaði. Ég verð brjáluð ef heimahjúkkan fer að koma með einhverjar fleiri tuggur. Ég vil fá nytsamar upplýsingar en ekki að fólk sé endalaust að rugla í manni. Ég er ekki að segja að ljósmæðurnar hafi verið vondar. Ég er að segja að þær séu MAAARRGAR. Enda sagði ég það við eina þeirra sem er náfrænka mín og tók meiraðsegja á móti manninum mínum þegar hann fæddist. Já vel á minnst. Sú sem tók á móti syni mínum tók líka á móti mér þegar ég fæddist. Skemmtilegt.

Svo er það heima-hjúkkan. Mig langaði til dæmis að vita hvenær ég mætti fara með barnið út. Mér fannst eins og hún hefði hneykslast á spurningunni. Eins og ég ætti ekkert að vera að spá í það strax. Af hverju má ég ekki vita slíkt?! Hvaða máli skiptir hvað barnið er gamalt hvenær ég má fá ákv. upplýsingar? Hún ropaði út úr sér að það væri miðað við 4 kíló. Svo sagðist hún ekki geta komið svona snemma í næstu viku. Ég sagði að klukkan tvö væri fínt. TVÖHHHH!!! sagði hún hneyksluð. Ég get ekki komið þá! Mér dauðbrá. Hvað kallar hún þá seint ef þetta er dauðseint. Hvaða hugsanir átti ég að lesa núna? Ég bara skil ekki fólk lengur. Mig langar til að halda grillveislu og éta það bara. Þið lesendur eruð meira en velkomin.

Og svo er það blessuð foreldrafræðslan. Hjúkkan sem kom til mín í síðustu viku spurði mig að sjálfsögðu hvort ég hefði ekki farið í foreldrafræðslu. Nei ég fór ekki í neitt slíkt. Það kostar 12.000 krónur fjórir tímar. Fyrir utan það að það gleymist alltaf að ég var með grindarlos dauðans og var ekki að spássera um göturnar í einhveri gleði. Stundum þurfti ég hreinlega að snúa við heim eftir að hafa paufast upp Vitastiginn. Hjúkkan var ekki hrifin af því að ég hefði sleppt foreldrafræðslunni. Djöfuls bull er þetta!
Ég er orðin svo leið á að hanga heima. Búin að hanga heima síðan í október. Er það skrítið þó mig langi út að spássera með krógan fljótlega? Ég ætla ekkert að fara að brjóta í bága við það sem mér hefur verið ráðlagt nema kannski brjóstagjafatímann. Ég bíð róleg eftir að sonur minn verður 4 kíló og fjögurra vikna. En fjandinn hafiða það er allt í lagi að fá upplýsingarnar.


föstudagur, apríl 01, 2005

Í fýlu

Sonur minn er í fýlu og það var somþíng æ eit! Maginn er á hvolfi. Hvað ég borðaði það er stóra spurningin. Böggless eða laukur steiktur upp úr smjéri (svo mikið smjör) svo kemur ávaxtasafi til greina. Ég er alveg miður mín yfir því að vera eitra fyrir barninu. Hvað má maður borða eiginlega? Ekki drekk ég mjólk. Mér finnst hún VIÐBJÓÐUR og hef alltaf þótt hún vera það síðan ég man eftir mér. Fólk varð sjúklega hneykslað þegar ég sagðist ekki drekka mjólk. GGvvvööööð minn góður drekkur barnið ekki mjólk?!!!!
Mér skilst að mjólk og mjólkurvörur geti haft slæm áhrif á litla unga og óþroskaða maga.

Fitudrulla sem breytist í ógeðslegt hvítt slím upp í munninum á fólki. Mér skilst að maðurinn sé eina spendýrið sem drekkur mjólk á fullorðinsaldri. Svo eru það frávikin en maðurinn er þar að verki. Gefandi köttunum sínum kúamjólk sem er alls ekki hollt fyrir ketti. Kisan mín er eins og ég. Drekkur ekki mjólk. Ekki einu sinni vatn nema að það leki beint úr krananum. Lætur sko hafa fyrir sér prímadonnan.

Kröftug mótmæli í vöggunni. Illt í maganum. Mamma farin að bjarga syninum.