sunnudagur, júlí 31, 2005

Menningasvelti


Eitt og annað hefur drifið á daga mína. Fór t.d. í skreppitúr til Akranessbæjar ásamt minni ástkæru móðursystur og syni í dag. Í gær fór sama geingi í bíltúr að Gljúfrasteini. Að sjálfsögðu litum við inn. Mig dauðlangar í sundlaugina og klukkuna sem er í gánginum. Hún tikkar svo yfirvegað að það er með ólíkindum. Klukkuverkið er síðan sautjánhundruð og eitthvað! Namm gamalt. Svo minnir mig að það hafi verið sagt að klukkan kæmi fyrir í Brekkukotsannál.
Mér fannst lyktin inni í húsinu mest áhugaverð. Það er sko eingin safnalykt í húsi Skáldsins heldur heimalykt eins og einhver búi þarna ennþá. Frá eldhúsinu liggur mjög sterk lykt líka eins og Auður sé enn á fullu að matreiða ofan í herskara af gestum. Mjög lifandi safn vegna lyktarinnar. Einginn drúngi né dauði þar á ferð. Svo var látið líta svo út að Halldór væri pínu lítið þarna ennþá. Vindill í öskubakka hálfkláraður, blöð síðan í eldgamladaga á stólarminum og blýantar á stærð við títuprjón við öskubakkan. Mjög notalegt. Ágætis menningarleiðangur.

Mér er eitthvað illt í menningunni þessa dagana. Mig dauðlangaði í Skálholt því mér fannst svo spennandi viðfangsefni þar.
Þess vegna stakk upp á að við frænka færum að skoða Diterot en Gljúfrasteinn varð fyrir valinu. Diterot verður bara að bíða. Ég held samt að Dagur hafi meiri áhuga á draslinu hans Diterot heldur en húsgögnunum hans Halldórs enda fékk hann engin heyrnatól til að hlusta á og var orðinn svolítið pirraður yfir því að vera inni á stað þar sem ekki heyrðist múkk í fólki því það var allt upptekið við að hlusta og hann var því aleinn að hlusta á skóhljóð. Við frænka reyndum samt að segja eitthvað um saumaskapinn og bækurnar svo Dagur fengi mannamál. En maður hafði á tilfinningunni að maður væri að trufla hina ef maður talaði.

Ég verð samt að fara í Skálholt einhverntíma um versló. Vonandi verð ég heppin og fæ að heyra eitthvað spennandi. Lútugutl frá endurreisninni eða eitthvað þvílíkt.

miðvikudagur, júlí 27, 2005

Bjór, svo kaldur og góður, svo fallegur í sólinni...glitrandi fegurð hans...mmmmmSkellti mér á síðu til að taka þátt bjórleik. Það er ekki ónýtt. Maður getur unnið fimm kassa af bjór. Auðvitað tek ég þátt í slíku. Verst með Eyjaferðina. Það má bjóða einhverjum til Eyja. Í kjölfarið skoðaði ég síður og rambaði inn á myndir af fólki að skemmta sér. Þessari mynd verð ég að skella á síðuna mína því hún er svo ótrúlega óvart og geggjuð.
Ég þurfti reyndar að minnka hana aðeins. Hún er flottari aktjúal sæs.
Sjá url með því að setja bendilinn yfir punktana við titil bloggs.

Varúð-Barnablogg.


Þetta er nú meiri bloggletin. Nei nei það er ekki rétt. Ég er á fullu að hafa ofan af barni sem sefur ekki. Það er borin von að svæfa þennan dreng á daginn. Hann tekur bara einhverjar norpur. Hálftíma...tíu mínútur. Svo vakir þetta grey alveg þangað til ellefur á kvöldin. Í gær var hann alveg ferlegur og vildi ekki sofna fyrr en tólf. Ég kann ekki alveg á idda hvað litlinn vill. Hann verður orðin gamall kall loksins þegar ég fatta þetta: "Æ já...ég hefði átt að prófa það..." dæmi.
Um leið og maður heldur að það sé komin einhver regla á drenginn þá breytist allt.
Ég má hafa mig alla við við að læra upp á nýtt einhverjar rútínur. Maður verður geðveikt klikkaður á öllum þessum breytingum. Núna er tilraun. Dagur er virkilega sofandi úti í vagni núna. Hvað skildi það duga lengi? Kannski finnst honum allt of mikill hávaði í kringum sig. Manni finnst maður svolítið ómögulegur þegar maður getur ekki fullnægt þörfum af því að maður skilur ekki barnísku. En að lokum kemst maður að hinu sanna yfirleitt.
Kosturinn við að vera "gömul" og eiga barn er þolinmæðin, ókosturinn er stressið yfir því að maður er kannski að koma upp einhverjum ósiðum án þess að vita af því og halda að maður sé að "skemma" barnið fyrir lífstíð ef það er skilið eftir eitt of lengi. Maður veit ekki alveg hvað er of lengi og hvað er stutt.

sunnudagur, júlí 24, 2005

HeilsubærinnFór til heilsubæjarins og fékk orku í friðsældinni og yndislegheitum móður minnar. Ég á bestu mömmu í heimi. Henni líður svona og svona en það er miklu léttara yfir henni. Ég vona að það endist lengi lengi lengi. Hún er jú að verða sjötug í október. Hún er svo dugleg og ég elska hana svo mikið...ohhh elsku mamma.

Dagur var jafn hamingjusamur og ég. Hann og Kisa finna það alveg á mér hvað mér finnst gott að vera á æskuheimilinu mínu og fíla Akranes í botn. Mig langar stundum til þess að eiga heima þar en ég er ekki viss hvort að það sé skynsamlegt að flytja. No djobs for píbúl læk mí.
Kisa var ekki með í þessari för en hún hefur oft komið þangað. Bjó hjá mömmu um stund þegar ég var í herbergiskitru hjá frænku minni... Ojj...Kisa var að prumpa á mig! Djöfuls fýla öghh...glætan! Ég er að fara að gubba...full mikil ástarjátning fyrir minn smekk skoh.

Mamma var alveg ótrúlega fyndin. Ég held að hún og systir hennar hafi átt að verða rithöfundar. Þær hafa alveg merkilega frásagnargáfu systurnar, þegar kemur að fólki. Mamma sérstaklega því hún litar hlutina með kaldhæðni sem er svo stórkostlega fyndin. Þær taka eftir hlutum sem manni yfirsést. Af hverju í ósköpunum gerðu þær ekki eitthvað?! Systir hennar sagði mér um daginn að það hvarflaði ekki að foreldrum þeirra að koma þeim til mennta. Þær væru nú bara stelpur! (öskr)

föstudagur, júlí 22, 2005

42 þúsund krónur takk fyrirTannsi búinn í bili. Kvaddi mig með orðunum "bæ bæ" sem mér fannst ótrúlega hómí.
Ég mæli svo sannarlega með þessum tannsa. Hann er pottþétt elska. Þó að ég myndi missa allar tennurnar út af honum vegna stórkostlegra mistaka myndi ég fyrirgefa honum það. Brosa tannlaus til hans og segja að hann væri bestur í heiminum. Svo er hann í svo fallegu húsi. Það er ekki ónýtt að ganga inn í svona krúttlegt gamalt hús í Þingholtunum. Skrítið samt að mæta tannlæknalykt en ekki gömluhúsalykt. Jújú auðvitað kostar þetta sitt en við hjónin erum sko alveg á leiðinni inní góð mál. Bráðum verður fátækrafnykurinn farinn af okkur og semí millistéttarfýla tekin við. Græðgisins skítlega eðlið tekur bólfestu í okkur. Vonandi stendur það stutt yfir og lýsi sér í því að ég kaupi óhóflega mikið af pennum í uppáhalds búðinni minni...kannski eina bók...ha...ha...ha...jú látið ekkisins svona!

Eitt af því merkilegasta sem ég hef upplifað gerðist í kvöld þegar litla fjölskyldan mín rölti niður Vitastíginn til þess að eyða nokkrum krónum í mat. Í röðinni á eftir okkur var löggukall í öllum sínum skrúða. Hvað haldiði að byrji í græjunum inni í búðinni? Æ sjott ðe sjerriff með Bob Marley!

Pæliði samt í því að herra Marley samdi fullt af lögum en það hefði alveg dugað honum að semja tvö þrjú lög. Þau eru öll eins! Vuggu; vuggu; vuggu; vuggudojínk; vuggu; vuggu; vuggu;
Það er aðeins eitt lag með Marley sem ég get hlustað á og er algert æði en það er Ziontrain af plötunni Uprising. Önnur lög eru bara booooríng.

Pöblis póst
Skruddi beibí viþ njúf tíþþþþ.

fimmtudagur, júlí 21, 2005

Tannsi alla daga


Bad Tíþ

Í gær fór ég til tannsa. Og daginn þar áður...og hinn og líka í morgun og fer aftur í fyrramálið.
Vikan hefur sem sagt byrjað á því að dagurinn hefst með tannviðgerðum. Rótarfylling í fullum gangi. Það er svo sem fínt að byrja daginn hjá tannsa. Hann talar við tennurnar eins og manneskjur. Þær eru náttúrulega partur af einni slíkri. Í gær sagði hann: Uss þetta er ekki nógu gott, þetta er eins og poppkorn. Ég hélt að hann væri að tala við mig og reyndi að segja ha með bómull, munnvatnssugu, fingur, spegil og einhvern tannpotara til þess að fá útskýringu á hvernig poppkorn hefði getað sest þarna að og þóttst vera tönn. En hann sagði strax: Ég er að tala við tönnina. Mér fannst ég vera útundan í fjörinu.

Þetta tannasísl hefur ekki verið neitt sérlega erfitt fyrr en í dag. Hr. Tanni var að reyna að finna út hvort það væru fleiri gangar út frá rótinni. Til þess að komast að því varð hann að troða þar til gerðum sverfara, sem notaður er til að sverfa rótina, vel upp í, skilja hann þar eftir og drösla mér úr stólnum til þess að taka mynd af húllumhæjinu. Svo stakk hann og stakk til þess að gá hvort ég finndi ennþá til sem ég og þokkalega gerði. Ég gerði tilraunir með fullt af drasli upp í mér til þess að æja en það kom bara eitthvað íl en hann skildi hljóðin og sagði: Sorrí sorrí, í hvert skipti sem ég gaf frá mér þessi harmkvæl.

Nú á eftir að ganga frá rótarfylleríinu og gera við eina tönn í viðbót. Þær voru þrjár í þetta sinn. Svo fæ ég reikninginn þegar þessu öllu er lokið. Ætli deyfingarnar séu ekki dýrastar. Þær eru nefnilega lúxus. Það er ábyggilega ódýrt að fara til tannsa ef maður er masókisti...nema þeir séu rukkaðir fyrir sinn lúxus.

Ég lít svo á að þar sem ég er enn með hið svokallaða óléttulúkk og sé ekki tilgang í því að eyða peningum í föt sem ég kem ekki til með að passa í þegar brjóstamjólkinni sleppir þá er þetta hin besta fjárfesting. Svo ætla ég að vera dugleg í meintönnanns eða meitnans eins og sumir segja það á útlensku, forðast tannskemmtir í lengstu lög.
Ég er rosalega spennt fyrir að fá reikninginn...skildi hann vera 30 þúsund 50 þúsund nú eða 70 þúsund? Ég er að springa úr forvitni. Hvað hefði ég getað keypt fyrir peninginn sem ég þarf að rétta honum ef ég hefði...já verið með tennurnar mínar á heilanum?

Ég er dauðþreytt og klæjar í tannholdið eftir þetta allt saman.

sunnudagur, júlí 17, 2005

Blogg óþol

Ég er komin með blogg ógeð og ætla að taka mér pásu í nokkra daga.

Duglegan á leiðinni?

Ég ætla að reyna að töfra fram dugleguna í dag. Við vorum mjög dugleg í gær. Fórum í þennan fína göngutúr í rigningunni og sáum flott norskt seglskip. Ætluðum að eiga notalega kvöldstund saman og horfa á vídíó en það var ekkert til inni á legunni svo við gáfum skít í slíkt.

Fórum eldsnemma að sofa eða fyrir tólf. Jiminn eini.

fimmtudagur, júlí 14, 2005

Sól sól burt með þig...

ský ský skín á mig
gott er að láta rigna á sig
Sól sól burt með þig

Ég sagði einhverntíma frá þeirri stórkostlegu þvingu sem ég finn fyrir þegar sólin skín. Þegar ég sá að það var sól í dag fékk ég klíp inni í maganum því nú yrði ég að fara í göngutúr í blíðunni. Svo heyrði ég í útvarpinu að þokubakkar væru á leiðinni og vitiði hvað? Það hlakkaði í mér. Nú sit ég inni og bíð eftir að þeir mæti á svæðið.

Engu að síður var ég búin að segja við sjálfa mig að þetta væri krabbameinsvaldandi veður, til að réttlæta félagsfælnina.

Umbreytukelling


Þann 16. september breytist ég úr fátækum launþega yfir í fátækan námsmann. Það er viss léttir yfir því móralskt séð.


Umbreytukellingar?!
Flotta putta!

Til Hamingju Bedda og Hannes

Ef maður setur hæstaréttadóma í rassmolana sína og fylgist með þeim þá fær maður upplýsingar.
Reyndar var Bedda búin að segja mér þetta. En þá er dómarugli þeirra og fasteignaleiðindaviðskiptum lokið. Nú eiga þau hús. Takk.

miðvikudagur, júlí 13, 2005

Um vöggudauða

Verð bara að segja það af því að ég er að hugsa um það akkúrat núna að ég er skíthrædd við vöggudauða. En ég sef alveg fyrir þessari hræðslu og hún er almennt ekki að plaga mig nema þegar ég fer allt í einu að hugsa út í þetta fyrirbæri.
Ég veit að það deyja 1% á ári úr þessu dularfullheitum og ég gæti alveg hugsað mér að fara á Hagstofuna til að kanna hvort þetta 1% sé búið og ég þar af leiðandi sloppin. Það væri ákveðin friðþæging þó svo að maður viti nú alveg að tölum skeikar hingað og þangað.

Tölfræðin er merkileg fyrir það að það er hægt að reikna út lífslíkur sínar miðað við lifnaðarhátt og fá þannig niðurstöðu um hversu lengi maður hugsanlega tórir. Frekar krípí að það skuli jú vera hægt að negla þetta niður. Maður myndi örugglega breyta lifnaðarháttum sínum ef maður væri ekki sáttur við samasemið.

Hins vegar veit ég það líka að u.þ.b. ein manneskja deyr á ári úr engu. Sofnar bara og vaknar ekki aftur. Ég er ekki að tala um gamalmenni heldur fólk sem er kannski ekki nema 25 ára og fullfrískt. Hvað ætli það heiti?
Ég veit um eitt slíkt tilfelli og ég var ekki viss um að mig langaði til að fara að sofa. En manni er sjálfsagt nákvæmlega sama því maður fattar ekki að lífið kvaddi mann í miðjum draumi.

Saga

Þetta er með því betra sem ég hef lesið. Hvernig er hægt að lenda í svona stórkostlega krúttlegum misskilningi?

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Sorg á heimilinu


Ed McBain

Haldiði að uppáhalds sakamálahöfundurinn minn sé ekki barasta dáinn! Þvílík sorg á heimilinu. Ég er ekki frá því að finna fyrir tómleika í hjartanu. En hann var svo duglegur að skrifa kallinn að það er af nógu að taka.

Hann var nú orðin ansi gamall en það var eitthvað svo notalegt að vita af því að maður ætti von á sögu hvað á hverju. Ég er engan vegin að ná upp í allt sem hann hefur gert. Bestu bækurnar hans eru um 87. umdæmi. Dásamlegir karakterar og þó svo að sakamálin sem slík væru ekkert spennandi er alltaf einhver mistík yfir skrifum Eds sem ég fýla. Hann nær að skapa rosa atmósfír í bókunum sínum.

mánudagur, júlí 11, 2005

Tækni og já...meiri vitleysan

Maður kemst að ýmsu þegar maður er í blogginu. Svo virðist sem að ef færsa fer út fyrir einhvern ákv. ramma þá fokkist allt upp og fólk þarf að skrolla endalaust niður. Ég dílítaði því heilli færslu um Foo tónleikana og þá lagaðist bloggið mitt. Ja hérna. Þvílík ófullkomnun.

laugardagur, júlí 09, 2005

Lítið sem ekkert

Ég fór í göngutúr í dag. Gekk Sæbrautina, skoðaði Sólfarið og fór alla leið niður á bryggju. Þar var fólk að veiða og Hvalaskoðunarbátur brunaði framhjá. Sneri heim og ætlaði að labba Lindargötuna en þar eru svo miklar framkvæmdir að ég gat ekki gengið hana á enda. Ótrúlega mörg hús sem eru horfin og ég sá a.m.k. tvö sem eru á leiðinni í ruslið.

Heima beið mín bara drasl sem ég tók til og svo hef ég snúllað í syninum.
Núna er ég grútsyfjuð og ég held að ég sé á leiðinni að hitta Óla Lokbrá. Vonandi á hann gott duft til að sáldra yfir mig svo ég sofi og dreymi vel. Þykist ætla að vakna nógu snemma til að eiga nokkrar klukkustundir fyrir mig eina áður en krútti Engilberts tekur völdin.

Nótt nótt.

fimmtudagur, júlí 07, 2005

Nóbbb noþíng

Neibb ekkert greinilega í þessari viku. Það er ágætt að taka smá pásur frá bloggi.

mánudagur, júlí 04, 2005

Geri geri

Ég er bara bloggblönk og þannig er nú bara það. Ég er að rifna úr eirðarleysi og veit ekkert hvað ég á við mig að gera. Kannski göngutúr lagi ástandið. Viðra heilann eða eitthvað. Óþolandi ástand þegar maður veit ekkert hvað maður á að gera, vill hafa viljann til að gera eitthvað en langar ekki til að gera neitt. Hvað þarf maður alltaf að vera að gera svo sem?

laugardagur, júlí 02, 2005

Alla vena


Í-þrótt A-merki


Komin attur heim í svokallaða menningu en hún er vist öll í Errvíkinni þó svo að öll sveitafélög landsins agíteri grimmt á gufunni fyrir menningarviðburðum á sínu svæði...smá neðanmáls-bull.

En alla vena þá var ég hjá múttu og þreyf og tók til eins og mófó. Dagur var mjög duglegur að hjálpa til með því að horfa og fylgjast með. Enda sagði ég honum það að fylgjast vel með því þetta biði hans. Solla vinkona er mætt á landið og tuskuhugmyndin var algerlega hennar. Ég hefði heldur ekki getað gert þetta án aðstoðar. Ég get vonandi endurgoldið tuskuæði Sollu þegar hún fær íbúðina sína. Mamma veitti mér ómetanlegan stuðning í staðinn fyrir ómakið.

Fór í sturtu með soninn og það var alveg mega drama. Eftir sturtuna var grátið heil ósköp. Gott að vita að ég er ekki að fara með hann í sund strax ef það er svona erfitt að fara í sturtu. Líklega var honum drullu kalt eftir upplifelsið.

Vááf...Aha eru að skíta illilega á sig á Aid tónleikunum. Morten ræður ekkert við syngið sitt. Faaaaaaalskt og allt. En hann drullaði upp á bak fyrir góðan málstað.