þriðjudagur, ágúst 30, 2005

mánudagur, ágúst 29, 2005

Jón er kominn heim

Komin heim eftir rúma vikudvöl á Skaganesi. Ég var veik mest allan tímann svo dagarnir runnu í eitt og mér finnst ég varla hafa staldrað þar við. Frekar fúl yfir því. Ég ætlaði í göngutúra á hverjum einasta degi.

Búin að hringja í dagmóður og láta skrá soninn. Á að hafa samband fyrir 15. nóvember. Mér leyst rosalega vel á konuna svona símleiðis. Vonandi kræki ég í hana.

Svo er ég ekki í bloggstuði lengur. Ég er alveg hætt að hafa gaman að þessu. Segi heldur aldrei neitt af viti. A.m.k. undanfarið. En það mæðir líka hellings á mér sem ég nenni ekki að tala um hér. Þarf að púsla svo mikið saman mér og mínum. Óvæntar uppákomur sem ég nenni ekki að standa í og svona. Ég þyrfti eiginlega að eiga bíl en djísúss hvað það er ekki heillandi.

Uss, ég þarf að kaupa kaffi.

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Gaman á Sonic

Þá er ég búin að hita upp fyrir Sonic og það var bara geðveikt gaman! Ég klúðraði ekki svo stórkostlega að ég gæti ekki fyrirgefið mér það og gekk sátt og sæl upp frá settinu.
Sonic voru bara frábær og ég er hæst ánægð með kvöldið. Hefði viljað komast í eftirpartí með liðinu en það var einhver þreyta í gangi. Sísí hélt hins vegar partí hjá sér og þangað mættu tveir Júþþarar ásamt róturum. Karíókí, viskí og alles þar á bæ. Ég hafði ekki hugmynd um þetta partí enda var ég orðin þreytt og vildi bara komast heim og hleypa barnapíunni út úr húsinu.
Ég á eftir að komast að því hvort fólk fékk eftirpartí í gær með fræga fólkinu.

Nú ætla ég að fara til mömmu og vera hjá henni í viku. Bráðum byrjar skólinn og þá verður ekki eins mikið um ferðir upp á Akranes. Eða ég býst ekki við því. Ætla því að nota tækifærið og kúra mömmulufsuna. Hún er að versna aftur greyið. Eins og hún er búin að vera fín. Vonandi get ég hrisst upp í henni aðeins. Þið hin hafið það gott og upplifið menningarnótt með glans. Ég ætla ekki að hræða son minn frekar. Hann fríkaði gjörsamlega út í Gaypride. Ætla ekki að hræða líftóruna úr honum með rakettum, öskrum og látum. Nóg er nú samt hérna fyrir utan. Ef það eru ekki einhverjar fyllibittur öskrandi hvor á aðra þá mæta einhverjir bílar til þess að mála götuna með tilheyrandi helvíti, eins og til dæmis í nótt!
Lifi frelsið til að velja og hafna.

mánudagur, ágúst 15, 2005

Ííha

Tuttugu og eitthvað tímar í Sonic...
Svaf asnalega á koddanum í nótt og er klemmd í öxlinni.
Vonandi losnar um það á æfingu í kveld. Annars spila ég með eiddni hendi!

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Gömul?!

Hlusta á gufuna. Búin að vera hálf slöpp og hef reynt að liggja það úr mér. Tónleikarnir eru bráðum og ég verð að vera hress og kát svo ég hef bara verið í afslöppun. Svo ætla ég að fara til mömmu og vera þar í góðan tíma. Verð að fara að skipta um umhverfi. Það skiptir svo miklu máli að fá hvíld frá Reykjavíkinni. Mér finnst allt of mikil læti í kringum mig. Bílar með hljóðkúta dauðans ásamt mótorhjólum og við Dagur hrökkvum upp í hvert skipti sem lætin þjóta framhjá.

Ég er orðin ansi þreytt á umferðinni hérna. Hún hefur aukist talsvert enda eru allir á bílum. Það eru bara fimm bílar á heimilinu hennar systur minnar svo dæmi sé tekið. Ég þyrfti að fá mér einn og Berti einn og svo Dagur einn þannig að við verðum eins og allir hinir. Glætan! Fjandans umferðarhávaði.

Borgin á víst að skaffa þrefalt gler í húsið okkar. Svo segir nágranninn. Ég hélt að þeir styrktu mann bara en hann nágranni er alveg á því að við eigum að fá fríkeypis þrefalt. Svo á allt að vera fallið í ljúfa löð hér fyrir utan eftir 2 ár. Vá það er nú soldið langt þangað til. Ég er þegar farin að hugsa mér til hreyfings en ætla að tóra í 3 ár. Kannski verður orðið svo frábært hverfið að ég fer ekki neitt. En ég er alveg að tapa vitinu stundum. Djöfuls læti.
Ég er orðin gömul.

föstudagur, ágúst 12, 2005

Eitt og annað

Horfði á Jakkann í gær og það var bara ágætis afþreyjing. Óskaplega langt síðan ég sá fína mynd. Það er nú meiri ruslahrúgan sem dynur á manni frá Hollywood. Ég er alltaf að lesa vitlaust í treilerana sem ég sé í auglýsingunum og eyði virkilega peningum í dellu. Við óhjónin tókum Alexander mikla einhverntíma og jedúddamía þvílíkt endemis rusl. Fáviti sem eyddi peningunum sínum í þetta ógeð. Þessi mynd er hlægileg. Hvernig dettur leikurum í hug að taka þátt í svona bulli!

Þegar ég leggst upp í rúm sækja að mér fullt af hugsunum og hugmyndum en ekki svefn. Hann lætur á sér standa. Í gær var ég að rifja það upp hvað það var skrítið að eignast lítið barn. Mér fannst að ég ætti að sjá með augum barnsins míns a.m.k. kvart svona eins og ég væri líka inní honum. En mér til mikillar furðu gerðist það ekki. Mér finnst það ennþá jafn fáránlegt að ég skuli ekki búa inn í honum að hluta og geta þannig vitað hvað Degi vantar og hvað honum finnst um þetta og hitt.

Fór og kuffti miða fyrir manninn á Sonic. Síðan kemur í ljós að við eigum boðsmiða. Hana. En það er til kassi með Vivaldi í 12 tónum og ég er að deyja mig langar svo í hann...namm namm...
Það má hugsa sem svo að miðinn væri í raun glataður og láta Vivaldi-kassann eftir sér. Játs!
Hvað segir Hildigunnur við þeim skiptum?!

´Bla bla

Æfingar og knús.
Dagur er farinn að skríða. Það er nú ekkert annað. Gengur hægt en hann mjakar sér um teppið sitt með bossann út í loftið. Algert krútt. Við fórum í göngutúr í dag. Náðum í insúlín fyrir pabba og svo í Aktu Taktu til að horfa á mömmu troða í sig hamborgara. Við fífluðumst á meðan ég át.
Það er nú meira hvað drengurinn er að breytast. Honum finnst ekkert gaman að liggja í vagninum. Helst myndi hann sleppa því að vera þarna ofan í ef hann gæti. Ég reyni að láta hann sitja því hann þarf svo mikið að skoða öll trén og fólkið í kring. Hann fylgdist vel með því þegar starfsmaður Aktu Taktu var að sísla í ruslinu. Það var spennandi.

Jæja ég þarf að fara að horfa á vídíó: Jakkinn.

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Kertafleytingar-7 í Sonic

Það verða kertafleytingar í kveld og ég ætlast til þess að ég nenni ásamt minni litlu fjölskyldu að sjá dýrðina. Veðrið er frábært og þetta er einstaklega fallegt að sjá. Dagur verður bara að sofna í vagninum ef honum líst ekki á þetta.

Æfingar vs. pössun virðast ætla að ganga upp. Þarf ekki að hugsa meira um það. Nú er bara að díla við fiðrildið í maganum því nú er aðeins vika í Sonic. Samkvæmt Fréttablaðinu er að seljast upp á fyrri tónleikana, sem við spilum á. Svo er spurning hvort Sonic Youth ætli að spila lög á tónleikunum eða spila sýru. Það er duldið spennandi. Þau eiga nefnilega til að vera bara með rugl og dellu á sviðinu og ef það eru tvennir tónleikar gætu aðrir farið í rugl og sýru á meðan hinir fara í lög.

Úff, ég þarf að fara á tóarann að gera stórt...hvað ef Dagur vaknar alveg brjál á meðan?

Kisugubb

Óskapleg bloggdeyfð í gangi núna.
Berta tókst að leggjast í kisugubb. Kisa var nefnilega að fá nýja tegund af fóðri og þegar kettir fá nýtt fóður eiga þeir það til að gubba. Berti fékk sem sagt fínerí í hárið sitt því Kisa gubbaði í teppið sem er yfir sófanum okkar. Berti ekki par ánægður með það.

Kisugubberí er alveg óþolandi. Það eru ófá skiptin sem maður hefur klætt sig í hreina sokka og gengið nokkur skref, stigið í eitthvað mjúkt og hlýtt og öskrað af ógeðstilfinningu. En ég get sjálfri mér um kennt. Maður á ekki að láta dýrið sitt éta hvað sem er. En gubb er miklu betra heldur en kúkur út um allt svo ég prísa mig sæla með gubbið.

Ég er bara að æfa þessa dagana með stúlkunum fyrir stórtónleikana á þriðjudaginn eftir viku. Ég verð voðalega fegin þegar þeim líkur því ég er að skíta á mig úr hræðslu. Ég hef ekki spilað á tónleikum síðan einhverntíma í vetur...janúar eða feb. Nú er bara fókusíng í gangi og reddingar. Helgin lítur illa út eins og er pössunarlega séð en sem betur fer er vikan rétt að byrja og það má reyna að finna úrræði fyrir helgina.
Hmm er ekki Hirosima-Nagasaki kertafleytingar annað kvöld?! Mig langar ekki að missa af því ef veðrið verður eins og það er nú (klukkan reyndar orðin nótt).

fimmtudagur, ágúst 04, 2005

Tómleiki


Kannski soldið dramatísk mynd


Þá fer fæðingarorlofið bara að verða búið spil. Ég á eftir að sakna þess að kúra soninn alla daga. Ji hvað tíminn flýgur. Hræðilegt. Dagur er svo ægilega lítill ennþá og núna er allt að gerast. Mér finnst þetta allt of stutt. Svona stjórna peningarnir. Ef ég hefði meira í laun þá gæti ég verið í ár með drengnum mínum. Ljóta samfélagið.
Sem betur fer er ég ekki á leiðinni í vinnu heldur í nám. Þannig að þegar skólanum sleppir í vetur þá er sko hægt að hjóla í kúringar. Eins gott að vera verkefnalaus gaddemit.
Mér líður samt eins og ég sé að fara að skila barninu mínu aftur til baka.

miðvikudagur, ágúst 03, 2005

Konublogg


Fór í Rúmfatalagerinn í gær og eyddi peningum í plasthirslur til þess að fylla af drasli og stinga undir rúm. Þegar maður á amerískt rúm duga skókassar ekki því þeir komast ekki undir rúmið. Eru of háir! Svo er ég engan vegin allaf að kaupa mér skó og á enga slíka kassa. Ég hef gefist upp fyrir fullkomnunaráráttunni sem segir að allir hlutir verði að fá sinn stað hvað sem það kostar, sagt þeim stríð á hendur og ákveðið að sinn staður sé kaos ofan í plastboxi. Ég hef engan áhuga á að vera að kaupa húsgögn undir draslið mitt svo ég geti gengið að einhverju vísu eftir fimm ár þegar mér dettur í hug að nota hlutinn.

Ég komst loksins í bók sem ég tæti í mig af fídóns-krafti. Alger konubók sem er ægilega vinsæl núna. Mamma er áskrifandi að bókum svo hún lánaði mér þessa og ég er hæst ánægð með afþreyjinguna. Þegar ég er búin að lesa slatta finnst mér ég hafa verið ægilega dugleg og gert heil ósköp enda fjallar bókin um konu sem hefur yfirdrifið nóg að gera. Vælið í mér um vandræði með barnapössun er erótískt nudd miðað við það sem persónan í bókini þarf að gera til þess að vera sátt við sjálfa sig enda kona á framabraut. Ég er mjög spennt að sjá hver afdrifin verða í lífi kynsystur minnar í bókinni. Ég vorkenni henni heil ósköp og spyr hvort hún þurfi ekki að fara að velja og hafna áður en hún endar á geðdeild. Spurning hvort hún hefði átt að vera að eiga börn.
Síðan mætir henni algert skilningsleysi af því að hún er kona sem vill vinna. Kynsystur hennar hvað harðastar.


Hana, svona hefur þessi bók áhrif á mig. Stórskemmtilegt lestrarefni fyrir þau sem vilja finnast þau hafa verið dugleg án þess að hafa snert gólfið. Upp í sófa og lesa Móðir í hjáverkum. Hún er svo hröð að heilinn fer á fullt.

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Stressuð og stressuð


Ég er svo mikið að hugsa að ég get ekki bloggað. Nema það eru ógeðlsega margir bílar í Reykjavík og mér líst ekkert á strætókerfið í þessari borg. Hver fer núna t.d. niðrá tónlistarþróunarmiðstöð?

Ég finn hvernig ég er að útúrtjúnast. Verð að fá mér tjúner.
Brúðarbandsæfingar og Baddnapíur eru að gera útaf við sálartetrið í mér. Það er einskonar rafmagnssuð sem fer yfir heilann á mér, fram og til baka eins og skanner, yfir þessu. djuuuuffff, djuffff, djufff. Það eru aallir að vinna eins og skeppnur um þessar mundir. Tónó verður að redda þessu og koma upp einhverskonar pössunarkerfi. Verst hvað það er lítið um einstæða feður í hljómsveitum. Það væri dásamlegt ef ég gæti tekið drenginn með og skellt honum í fangið á einhverri hlýrri umönnunarmanneskju. En þetta gengur yfir. Ég verð bara að læra að njóta þess að hafa svona stuð í kringum mig og finnast þetta alveg ógurlega spennandi verkefni. Ohh hvað það er gott að vera bjartsýnn. Ræ ræ ræ.