sunnudagur, janúar 29, 2006

Gary Larson-hausHæ allir. Ég er með kvíðakast dauðans vegna þess að ég get varla mætt í skólann og ég get ekki lesið og ekki lært og ekki neitt. Hringdi í dagmóður í gær og krossa fingur. Hún ætlar að hugsa málið en þá fæ ég kannski 3 daga vikunnar til kl 13. Í þessu þjóðfélagi er ekki hægt að eiga barn.

Ég er alvarlega að hugsa um að segja mig til sveitar og taka hlé á skólanum. En það væri svo dæmigert að um leið og ég tæki þá ákvörðun fengi ég prýðisgott leikskólapláss með det hele og þá er ég búin að taka drastíska ákvörðun og fer á bömmer. Ég er bara svo kvalin á sál yfir þessu að ég sé ekki skóginn fyrir trjánum. Svo er halló að vera á féló.

Það er algerlega útséð fyrir mig að læra á nóttunni. Þá eru batteríin búin auk þess sem Dagur er farinn að vakna helst til snemma á morgnanna.
Ég ætti kannski að heimsækja einhvern fyrir neðan mig og kaupa kók og prins...
Hvernig er hægt að vera í svona mikilli kaos alla daga? Ég skil ekki að hausinn á mér skuli ekki vera eins og Gary Larson-brandari. Liggjandi á hlið í formi loftlausrar blöðru.
Bedda ætlar að bjarga mér á þriðjudagsmorguninn. Fjúkkitt.

Þetta er bara svo fúlt af því að stundataflan býður upp á svo rosalega gott skipulag í lærdómi. Synd að fá ekki að njóta þess.
En ef dag einn lyki þessari pressu sem á mér er...þá munið þið sjá manneskju í blárri og hvítri úlpu með helíumhaus svífandi um alla Reykjavík. Svo mikill yrði léttirinn.

laugardagur, janúar 28, 2006

Blogg um ekki neitt


Skíta fæerfox. Búin að skrifa inn allt klukkið sem ég varð fyrir og svo er allt ónýtt.
GRrrrrrr. Hef ekki hugmynd um lengur hvað ég á að segja í klukkuleiknum! tja...

Um daginn var ég að horfa á OC með hinu auganu og í þeim þætti kom lag sem ég hef ekki heyrt í langan tíma. Garfaði í gömlum geisladiskum til að hlusta og svei mér þá það er hægt að hlusta á þetta enn...er að hlusta skoh. Þetta mun vera hið ástralska band The Church sem við vinirnir hlustuðum geipilega mikið á í denn. Skipti á Iron Maiden-Number of the Beast og þessum. Ekki sé ég eftir því. Fékk Iron Maiden bara seinna attur í Skaufunni fyrir slikk og nikkett.

fimmtudagur, janúar 26, 2006

Líf mitt í hnotskurn

ð3t 34 qof34 ð75 8 qö wið84q kb þdb vdfjg djjert þj j auq pqæ34 h9ii74öo uqð9
j3jj8 3ki8 qð f3r4 q 58o 9gt æa elef jql ek

Þannig er nú það...

þriðjudagur, janúar 24, 2006

Þræll breytinga


Það er nokkuð ljóst að skólinn hjá mér er byrjaður í öllu sínu veldi. A.m.k. sé ég mér ekki fært að blogga nein ósköp. Ég er strax komin með rugluna og skammtímaminnið er ekki að virka. Ég legg frá mér hlut og 60 sek. síðar þegar ég ætla að nálgast hann aftur man ég ekki hvar ég lagði hann frá mér.

Óskipulagið er algert enda hef ég ekki gefið mér tíma til að negla niður skipulag á þetta heimili. Maður er alltaf að lenda í nýjum og nýjum aðstæðum sem krefjast þess að maður sé sífellt að breyta og bæta og sleppa. Kerfin ná aldrei að verða full mótuð fyrr en önn lýkur. Svona er að vera í skóla og vera ég. Maður sér eitthvað eftir á sem nýtist ekki næst af því að þá byrjar ballið upp á nýtt. Enda kennslustund, fyrir mig, að læra að höndla breytingar. Ég er eitthvað biluð þegar kemur að breytingum hvort sem þær eru góðar eða slæmar fyrir mig. Fer alveg úr sambandi. Voða heit fyrir kerfum sem eru fyrir og þurfa lítilsháttar viðbætur á löngum tíma.

Klukkið verður að bíða aðeins...ég er eitthvað svo æst í dag. Vaknaði fyrir allar aldir eða árið 700 f. Krist sem sköllóttur þræll í Arabíu.

föstudagur, janúar 20, 2006

A-LSD-sjónvarp!

Það er komið Adsl sjónvarpið. Jiminn. Og vitiði hvað klikkaði? Það þurfti að prufa tvo myndlykla.

Eitt sem ég uppgötvaði í núna rétt í þessu. Meiri líkur á að einhver vilji passa fyrir mann. Alveg búin að gleyma þessum faktor. Man rétt eftir því þegar ég fæ pössun hvað sjónvarpið er ömurlegt og dauðskammaðist mín fyrir það en í augnablikinu er þessi þáttur í lagi á heimilinu. JIIIIBBBÍIÍÍÍÍÍÍ!

Ungbarnaeftirlit í dag og svo ætla ég að kaupa mér bækur fyrir skólann...en á ég eftir að lesa eitthvað? Ég er með billjónir stöðva í einn mánuð!

tRÓJUHESTAR í mússíkdiskum?!

Ju minn. Var að lesa ótrúlega furðulegt um Sony geisladiska. Tékkið á þessu. Það er varasamt að geisladiska tölvuna!

fimmtudagur, janúar 19, 2006

Skattamál-Blönni

Er það ekki skrítið hvað ríkisstjórnin verður alltaf reið og sakar fólk um lygi þegar talað er um að við með 100 þúsund krónurnar til að moða úr um mánaðarmót erum sögð skattpínd? Ég held að því sé heldur ekki trúað að við séum til yfir höfuð.


Tvisvar búin að missa af honum Blönna mínum. Á sunnudaginn fannst mér afskaplega afleitt að geta ekki séð hann í þættinum hans Jóns Ársæls og í kvöld var ég að kjötíkarrí-ast þegar hann var að bulla í Kastljósi. Mátti ekki vera að því að hlusta á hann en ég get svo sem kíkt á rúf.is. Hann var víst bara svo leiðinlegur að ég nenni því ekki. En mig langaði svo að fá að kíkja inn í ísskápinn hjá honum.

Takandi til

Og svo heldur lífið áfram og áfram og alltaf þarf maður að gera sömu hlutina aftur og aftur og ekki nóg með það heldur er best að maður sé með bros á vör alveg sama hvað svona til þess að létta manni tilvistina. Eins og það er erfitt þá er það samt ótrúlega þægilegt þegar manni tekst það. Stundum þarf maður að lyfta 7 tonna lóðum til þess eins að hugsa jákvætt og vera bjartsýn. En svo er maður svo stoltur af því að hafa tekist það að maður er að springa.

Fór í fyrsta tímann minn í dag og það var bara nokkuð gaman. Gott að komast út og sjá annað fólk. Ég er duldið stressuð, veit ekki hvernig ég á að kovera dagana sem Berta nýtur ekki við. T.d. 2 dagar í næstu viku og allt fyrstu tímarnir í námskeiðunum. Vont ef maður missir af fyrstu tímunum. Þá er nefnilega upplýsingaflæmið. Svo þarf ég að kaupa bækur! Ji, ekki þurfti þess síðustu önn. Mikið slapp maður nú vel þá.

Og á morgun er duldið spennandi dagur. Og ég er spennt dauðans...ADSL-kall kemur á morgun og ég krossa fingurna. Því það er nú svo oft þannig að þegar tæki eru annars vegar þá klikkar alltaf eitthvað. Sjónvarpið ekki með tengi fyrir þessu, snúrurnar vitlausar, ekki skilyrði fyrir bla bla bla...svo ég er ægilega spennt. Er ég laus við loftnetið og þær hörmulegur sendingar sem frá því koma? Fæ ég að horfa á tært sjónvarp næstu mánuði og ár? Vá. Kannski get ég skipt á milli rúf og skjáseins! Tvær stöðvar, enginn draugur, ekki prumpuhljóð þegar hvíti liturinn dómínerar skjáinn, ekki trufl þegar strætóskrímslin keyra fram hjá. Bara alger tærð! Ég finn fyrir gleði í maganum. Svo ætla ég að taka tímann á það hversu lengi þessi sæla varir þangað til mig vantar eitthvað nýtt.

mánudagur, janúar 16, 2006

Sjúkrakallar í dag

Vaknaði við koss á kinn í morgun. Maðurinn kom alsæll heim úr vinnunni. Sagðist ætla að hvíla sig aðeins en bað mig um að fylgjast með sér.

Ég fór framúr. Gaf drengnum morgunverð og svo vorum við bara aðeins að sísla þegar ég heyri skrítin hljóð úr svefnherberginu. Slengi drengnum á bak mér og finn manninn í kóma upp í rúmi.

Bjallaði á sjúkrabílinn en hann var eitthvað lengi. Fóru til nágrannans í næsta húsi enda eru sjúkraflutningamenn orðir svo vanir því að þurfa að koma þar við nokkrum sinnum í mánuði að það er ekki að furða þó þeir meinlokist fyrir húsnúmerum.

Meira hvað sykursýki er viðkvæm. Það má ekki breyta pínu lítið út af vananum og þá fer allt í klessu.

Dagur var bara hissa. Tveir kallar í skrítnum fötum mættu með girnilega rauða tösku og fullt af smádóti. Svo bættust þrír við í viðbót. Tveir voru alveg nóg.
En þetta gekk bara fínt og að sjálfsögðu er maðurinn útkeyrður eftir reynsluna og steinsefur. Vonandi verður hann hress og tilbúinn á næstu vakt í kvöld. Og vonandi verð ég ekki að hringja aftur á sjúkrakalla í fyrramálið.
Best væri ef að það væri hægt að lækna sykursýki.

Bloggfriður

Nú ríkir loksins friður í húsinu. Granni hrýtur (já ég heyri það líka), sonurinn sefur í sakleysi sínu, og maðurinn að vinna fyrir okkur. Ég er ein með sjálfri mér og myndi njóta þess stórkostlega ef ég væri ekki frekar lúin og með varaþurrk efst á efri vörinni.

Kíkti á bloggið hjá henni Hörpu og las mér til um það sem er að gerast í kláminu á Barnalandi. Fann tengil í tengil og hló að fyrstu færslunum svo nennti ég ekki að lesa mikið meir. Í rökræðum af þessu tagi, ef hægt er að fella slíkar umræður undir hugtakið rök (líklega ekki hægt), þá er nokkuð ljóst að ég á í erfiðleikum með að taka alvarlega manneskju sem ritar orðið eitthvað, eikkað.

Eikkað?! Eikkað kað?

O kað me manninn? Er ann iggi sekur físt hann drap sig?!
Ætli kennarar fái slíkt á prenti í ritgerðasmíðum?

Fullt af siðfræðilegum pælingum handa Íslandsfólki til að glíma við í kjölfarið á þessu DV máli.
Hvað t.d. ef DV hefði lent á manni sem væri skósmiður á Sauðafriði og það kæmi forsíðufrétt með mynd af honum og skó sem hann hefði gert illa við og hann væri svikaskósmiðurinn í þorpinu og maðurinn myndi fyrirfara sér í kjölfarið? Skósmiðurinn hefði ekki höndlað slíka umfjöllun um sig.

Er munur á því hvort maður sé meintur barnaníðingur eða meintur óvandaður skósmiður? Það er ekki einu sinni víst að fólk myndi tengja sjálfsvíg skósmiðsins við forsíðufrétt á DV. Kannski var hann bara þunglyndur.

Sá til að mynda mann klökkna í Kastljósi í kvöld yfir að hafa misst vinnuna sína. Hann grét fyrir framan alþjóð yfir því. Ég fann til með honum.
Kannski er ómögulegt að starfa með honum ég veit ekkert um það. Ég fann samt til með honum.


Kannski er þetta ótrúlegt bull sem ég birti hér með. Ætti að segja sem minnst. Hef ekkert sett mig inn í þessa hluti eða spjallað við neinn um þessi ósköp. Tók ekki þátt í kosningunni um illmennin á Dé Vaff vegna þess að ég bara gat það ekki. Það gerðist allt svo hratt að ég var rétt farin að átta mig á að einhver hefði dáið af því að hann birtist á forsíðu þeirra (lesist með hissískum tón og glenna vel upp augun, hressa upp á hrukkurnar á enninu, koma so, einn, tveir þrír, fjór).

Ji ég er farin að sofa...eitt sjókúddú...svona til að hressa hausinn fyrir aðferðafræðina.

sunnudagur, janúar 15, 2006

Veikin að fara

Hana, þá er það versta af staðið. Hálsbólgan farin og ég er nokkuð hress.
Ætla í afmælisveislu á eftir hjá frænku hans Dags Mána sem er 10 ára. Búin að finna til litlu fötin handa krúttinu mínu. Hann verður ægilega fínn (jólafötin skoh) með slaufu og í skyrtu og vesti. Mannaskyrtu eins og synir systur minnar kölluðu köflótar skyrtur. Mjög svo alvöru.

Annars er deyfð yfir því árið byrjaði ekki vel fyrir vinafólk mitt og ég er svona að díla við sorgina eins og allir sem þau þekkja. Fer ekki nánar út í það hér. Hjartað í manni er vel kramið og stutt í tárin.

Nú er bara að reyna að brjóta upp daginn með því að hitta fólk. Ég er alveg búin að fá ógeð á íbúðinni minni eftir að hafa þurft að hanga inni veik og ég er löngu flutt í huganum út á götu. Akkúrat á svona stundum þarf maður að fá sér eitthvað nýtt í húsið sem er verulega praktískt og tekur af manni erfiði. Stundarhamingju til að kópa hérna. Ég vona að ég sjái einhverja lausn á málunum fljótlega. Ég nenni ekki þessum hávaða lengur. Gaurinn niðri er alveg æstur í að kaupa allt húsið svo ef hann getur það er honum velkomið að hirða þetta spýtnarusl fyrir mér. Sambúðin hefur skánað eftir að ég hef hitt hann og spjallað um daginn og veginn en hávaðinn er sá sami. Ég er alla vega búin að klappa alkanum í staðinn fyrir að klóra í hann.

Jám...

laugardagur, janúar 14, 2006

Veiiiik

Veik, veik veik.
Skárri í dag en í gær. Búin að reyna að gera ekki neitt svo mér batni. Fjandi erfitt.
En veik.
Vonandi vakna ég ekki veik.

fimmtudagur, janúar 12, 2006

Veik í þriðja veldi

Var inni í allan dag (gær) og leið illa. Slíkt fylgir því ástandi sem er á mér núna. Og ég er í massa fúlu skapi yfir því að vera ekki í keyji. Reyndar brjáluð. Gæti klórað.

þriðjudagur, janúar 10, 2006

Veik

Fjandans veik. Ógeðlsegt bragð af slíminu og svo er ég með stingi í maganum og hausverk. Þori ekki að ofreyna mig af ótta við að verða fárfár-veik.

Mikið var Sí Ess Æ skemmtilegur í gær. Maður fann bara til með gaurnum þar sem hann lá fastur ofan í kistu með fullt af maurum étandi sig. Það var ekki laust við að ég fyndi fyrir tómleika þegar þátturinn var búinn.

Ég er orðin svo leið á hvað sjónvarpið sést illa hjá mér að ég pantaði mér ADSL sjónvarp. Engin loftnetavitleysa þar. Miklu ódýrara heldur en að fá kall til þess að fara upp á þak að snúa loftneti og skipta um snúrur. Krossa fingur ef tæknilegir örðuleikar fylgja símatengingunni minni. En í staðinn er ég ekki háð drengnum sem býr fyrir neðan. Hann á það til að taka magnara örbylgjuloftnetsins úr sambandi og þá sjáum við ekki neitt sjónvarp. Sem betur fer sér hann ekki heldur neitt sjónvarp svo hann verður að stinga aftur í samband. Ég vil ekki hugsa til þess að hann geri slíkt og fari síðan í ferðalag. Svo ég kem í veg fyrir það með þessari skynsemi minni.
Svo vantar mig þurrkara, sófa, fleiri hirslur, stærra hús og ýmislegt fleira góðgæti. Minni mig hér með á hvað nægjusemi er ágætis eiginleiki. Þolinmæði líka.

mánudagur, janúar 09, 2006

Í dag var dagurinn í dag og hann var þreyttur.

Ætlaði svoleiðis að blogga á hverjum degi núna en jiminn ég var svo þreytt í gær að ég gat það ekki. Einhver veikindi í mér sem vilja ekki koma fram af fullum krafti heldur er ég bara slöpp unnhvernvegin.

En ég var dugleg í gær. Fór í heimsókn alla leiðina í Kópenvogen, smá rúnt um Havenfjorden og svo fór ég í Smárenlinden og kuffti kerru undir Dag. Svo var ég bara búin áðí eftir þetta allt saman.

Í dag var eitt námskeið í bókasafnsfræðinni sem tók nánast heilan dag og var ótrúlega leiðinlegt. Við fengum að vita allt það sama og alla síðustu önn og hver einasti fyrirlesari tók fram sömu hlutina. Frekar sorglegt. Svo fórum við ENN einn hringinn í kringum bókhlöðuna. Hvað ætli við eigum að fara marga hringi þau árin sem við erum í þessari fræðigrein og fá að vita hvað er á 3ju og 4ðu hæð bókhlöðunnar? Sýna okkur útlánadeildina og handbókasafnið? Þetta er brandari!
Síðan eigum við að skrifa skýrslu um einhverja af deildunum og þar með klárar maður eina einingu í safnið sitt.

Nú bíð ég eftir Berta mínum og Sí Ess Æ. Vona að ég sleppi ódýrt frá flensu. Er með frunsu og illt í augunum.

laugardagur, janúar 07, 2006

Blogg dagsins í dag

Ætlaði með dekkið í viðgerð í gær. Klukkan hálf þrjú rölti ég af stað. Kom að hurðinni þar sem stóð: Kem kl. 14. Fór því í Skaufuna til að kanna hvort þar væri eitthvað að skoða á meðan ég biði eftir því að dekkjabúðin opnaði en hugsaði með mér að miðinn gæti hafa verið uppi alla vikuna. Sneri því aftur að dekkjabúðinni sem var enn lokuð. Fór heim í fýlu.

Hringdi í morgun og viti menn allt galopið. Dekkið er sprungið og ég sæki það eftir smá stund. Fjúkkit ég get ekki hugsað mér að komast ekki út í göngutúr.

Sonur minn étur allt sem kjafti kemur. Skrifborðsstóllinn minn þarf nýtt utan um sig og girnilegur svampur gapir á Dag og segir: Sjáðu, ég er alveg eins og seríós á litinn, koddu og smakkaður smá bita úr mér. Hárflókar úr mér og Berta eru líka girnilegir til munns en sem betur fer tekur Dagur þá fljótlega út úr sér. Oj. Helvítis hár. Þegar ég verð rík þá ætla ég alltaf að vera með stutt hár. Það er ódýrara að vera með sítt. Fólk veit s.s. hvenær ég verð efnuð. Það mun sjást á hárinu.

Afskaplega fallegur snjór sem fellur í augnablikinu. Kornflex snjór eins og á Stjörnum í skónum- plötunni sem ég spilaði gat á þegar ég var lítið stúlkubarn.

föstudagur, janúar 06, 2006

Ohhh það er komin helgi. Mig langar að fara aftur upp á Skaganes alla vega yfir helgina. Nenni ekki partí standi.

Þarf að fara með vagndekkið í viðgerð helst á eftir. Hélt að það væri ægilegt mál en ég þarf bara að tölta til gaursins í Borgarhjólum á Hverfisgötunni. Það er nú léttir. Hélt ég þyrfti að fara alla leið á eitthvað dekkjaverkstæði fyrir risa hjólbarða.

Fékk lánaðar DVD myndir um daginn (engin nöfn Bedda engin nöfn) og ein af þeim var Dæ Hard tvö. Hún var all sérstök fyrir þýðingarnar: Come on = komm on, Fuck = fokk, Oh my god = ó mæ gad o.s.frv. Ég man ekki eftir þessu þegar ég sá þær á sínum tíma. Mjög vel þýdd (!).

Mig langar í eitthvað gott að borða. Mmm Berti eldaði svo gott í gær....ég vil borða það aftur. Svínahakk í Tikka Masalasósu og ananas og belgbaunir og gúrka og hrísgrjón og mmmm.

Komin tími á smá Sukodu.

fimmtudagur, janúar 05, 2006

Shudoku

Alger snilld þetta shiddikú! Nú þegar sonurinn þarf að vera í bandi og maður þarf að hafa auga á honum öllum stundum getur maður notað hitt augað til að gjugga í sjódúkófið...amk léttu gáturnar...best að geyma hinar þangað til hann sofnar.

Skóli á mánudaginn og svo ekki skóli fyrr en 17. jan. Þá byrjar fjörið. Mér sýnist sem ég þurfi ekki að fara í nema tvö próf þessa önn. Fjúkkit. Heimta létta önn. Nenni ekki að vera eins og síðustu önn.

Hildigunnur, ég er alveg að fara að hringja í þig ég þarf bara að leysa eina gátu í viðbót...

miðvikudagur, janúar 04, 2006

Matarlyst og hjólbarðar

Fór í göngutúr í dag til að viðra soninn og auka matarlystina hans. En það stóð ekki lengi því eitt dekkjanna er sprungið svo ég sneri heim frekar fúl yfir dekkjum nútíma vagna sem þarf að pumpa í og fara með á dekkjaverkstæði. Meira bullið.

En það er viss léttir að vita að ég get tekið dekkið af og sett það í poka og gengið í næsta verkstæði. Það geta bíleigendur ekki. En þeir geta keyrt yfir fólk og drepið það. Ætli einhverjir ökumenn séu með dauðalista í bílnum sínum? Í formi ilmspjalds? Lavender-dauðalisti.

Nú ætla ég að glíma við smá sjókúdó. Svo fer ég til Baldurs Rökkva.

þriðjudagur, janúar 03, 2006

Blogging tvæs

Af því að ég gleymdi að blogga 1. jan sem ég ætlaði að gera verð ég að blogga tvisvar í dag.
Ég náði öllu! Ha ha hah hahahahahhahhhahh. Lægsta einkun 7. Glætan spætan mar. Ég?!

Bara til að blogga um eitthvað

Klukkan ellefu var farið á fætur hér í morgun. Var að hugsa um að sjö væri fínt en svo ákvað ég að það væri full snemmt. Lék mér við soninn þangað til að hann var orðinn þreyttur en vildi samt ekki leggja sig svo ég stakk feðgana af út í Bjánus og verslaði þar fyrir allt of mikin péning. Bleyjurnar eru svo dýrar eftir að júró-vörurnar komu inn. Hann passar ekki í júróbleyjur ennþá litli granni.

Dagur er svo léttur og grannur að hann er farin að geta ansi mikið. Í gær tókst honum næstum að príla ofan í leikgrindina sína og svo gat hann prílað upp á Svíkea-koll sem við eigum. Nú eru hætturnar alls staðar. Við þurfum að fara í innkaupaferð sem fyrst og kaupa öryggis þetta og hitt. En pælið í því að okkur vantar peninga til þess. Ju en skrítið...!

Eins og það er til ægilega mikið af péningum í þessu landi. Svo mikið að ráðamenn ríkisins geta fíflast með þá eins og til að mynda Falún Gong vesenið sem Bjöddn Bjaddna kom okkur í og svo 6 millurnar sem við þurfum að borga út af veseninu í Áddna. Svo borgum við fyrir þetta, skattgreyin við. Svona menn eiga að segja af sér. Hvað ætli Baugsmálið kosti okkur?
Jé, Dúdda og Mía.

mánudagur, janúar 02, 2006

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamlaSæl öll sömul...skrítið orð sömul...en jæja þá er árið búið og ég gerði margt markvert á árinu:

Ég tók þátt í heimskulegum sjónvarpsþætti, eignaðist ótrúlega fallegan dreng sem verður yndislegri og yndislegri með hverjum deginum (en tekur á taugarnar þegar hann á að fara að sofa blessaður) hitaði upp fyrir Sonic Youth og síðast en ekki síst drullaði mér í skóla. Ég held að þetta sé svona hvað mest áberandi á árinu mínu.

Strengdi engin áramótaheit því maður stendur ekki við þau og þegar lengra líður á árið þá er maður komin með sektarkennd dauðans og farin að pressa þvílíkt á sig að fara að redda áramótaheitinu fyrir áramót. Svona er geðveikistegundin þráhyggja sem ég á til að detta í.

Hins vegar er stefnan tekin á jákvæðar breytingar: EEEEeeeelska nágrannann og fíla mússikina hans í botn. Við ætluðum að vera svo ægilega sniðug að hanga fram yfir áramót á Skaganesi til að sleppa við áramótavitleysuna hjá elskunni. En við fengum gleði í nótt í staðin. Reyndar fór sonurinn að gráta sem varð til þess að það lækkaði í græjunum og maður veltir því fyrir sér hvort einhver viðhorfsbreyting hafi átt sér stað en ég veit að það var bara tilfellið í gær. Alkinn skiptir um ham sínkt og heilagt.
Tónlistarsmekkurinn drengs á dauðalista nr. 1 er hins vegar með ólíkindum: Billí Ædol, Bítlarnir, nýji diskurinn hans Helga Björns, Robbí Wiljams, Alanis Morri-sett, athugið að ef það eru stelpur hjá honum setur hann á fóninn það sem hann telur við hæfi kvenna) Bubbi Morteins, að fokkíng sjálfsögðu, Stuðmenn (oj bara), Métallika, Guns and Roses og fleira ótrúlegt ótrúlegt. Ég held að hann skrifi allt sem kjafti kemur nema...þungarokk og þar komum við sko þokkalega sterk til leiks! Enda er hugmyndin sú að ef við ætlum í stríð að þá er að taka hátalara niður úr hillunni, skella þeim öfugum í gólfið og svo er bara hevví métall á gaurinn þar sem hann sefur svefni hinna ranglátu.

Dagur fékk frábæran disk í gjöf, Pottþéttur Baldur Rökkvi, og við erum að hugsa um að skella því í gang líka! Pósturinn Páll, pósturinn Páll, pósturinn Páll og kötturinn Njáll...træ ræ ræ ræ ræræ....