föstudagur, mars 24, 2006

Steypuhaus

Hann lýsir sér þannig að það kemst ekkert inn í hann. Ég er með svoleiðis haus. Hef aldrei lent í því áður. Ég á erfitt með að böggla út úr mér hlutum líka. Allt fast. Ef Berti spyr mig hvar eitthvað sé fæ ég mynd í hausinn um staðsetningu þess sem spurt var um en get ekki sagt í orðum hvar hluturinn sé. Fyrir nokkrum mánuðum gat ég sagt að hlutur væri í vinstri vasa þessarar úlpu á tilteknum snaga. Nú sé ég bara úlpuna fyrir mér í hausnum, snagann, vasann og hlutinn en þegar kemur að því að mynda hljóð og setningar kemur tafs...eins og uhhh....það er í...uuuuuuuuuuuu....þaddna á hillunni...nei ég meina....úlpan...gáðu bara. Get þetta ekki. Ég held að heilann skorti nokkur gíg.
Á morgun, ef ég man sem er ekki líklegt því ég man örugglega ekki eftir að hafa bloggað, ætla ég að kaupa mér steinselju. Hún ku hafa eitthvað minnisefni sem verið er að rannsaka til að þróa lyf við Allsheimis-minnisleysi.

mánudagur, mars 20, 2006

Skilgreining

Ef ég get ekki bloggað þá á ég ekki mikið líf. Þá ályktun má draga af færsluleysinu.

Ég er þreytt þreyttanna.

Afmælisveislan gekk fínt. Rosa góðar kökur og salöt. En ji hvað mig langar ekki til að halda fleiri afmælisveislur. Ég kann ekki svona fjölskyldu hluti.

Æfingin skapar meistarann svo það er spurning hvort ég haldi ekki nokkar í viðbót.

Búin að sækja um tvær sumarvinnur sem ég á ekki von á að fá en mér er alveg sama.
Helv. skattasskýrsla í kvöld svo LÍN verði ekki óþægt en miðað við hve þessi önn var og er mér enn strembin vegna þess að ekkert passar saman hvorki strætó, né dagmóðir né skóli né hópavinnur v.s. einstaklingsnám, svefn, barn heimili, fjölskylda neitt... að þá má ég þakka fyrir ef ég næ nokkru þessa önn.

Djöfuls fátækt. Ef ég væri ekki fátæk þá væri ég ekki í LÍN og ekki undir neinni helv. pressu út af því að heimili og skóli eru að keyra mig til helvítis.
Ég lofa að ég er búin að reyna finnast staða mín geðveikt rómantísk. Sorrí hún er það bara ekki.

Vá ég gat bloggað án þess að allt færi í bál og brand.
Hmm...ágætt.

þriðjudagur, mars 14, 2006

Jiminn eini

Hef gert þrjár heiðarlegar tilraunir til þess að blogga en alltaf þurft að hætta í miðju kafi. Þetta er fjórða skiptið. Sem segir mér að ég hef ekki tíma. Hvar er tíminn? Hvernig væri nú að vísindamenn færu að finna upp möguleikann á að teygja aðeins á klukkustundunum?! Hvurslags nútími er þetta eiginlega?

Annars segi ég allt gott. Ætla að halda upp á afmæli sonar míns á laugardaginn. Krútti á afmæli á fimmtudaginn. Það er komið heilt ár og ég klappa mér á bakið fyrir að hafa afrekað þetta. Ég man hvað þetta var vont.

Svo finnst mér hundleiðinlegt í skólanum. Ég er miður mín yfir hvað þetta er leiðinlegt fag. Um daginn var ég að skila bókum í Lbs sem fjölluðu allar um bókasafns-eitthvað og var spurð af bókasafnsfræðingi hvort ég væri að læra bókasafnsfræði. Þegar ég jáaði á hann sagð'ann: aumingja þú! Ég sagðist alveg eins geta étið pappír svo þurr væru þessi fræði. En vinnan á víst að vera algert æði.

Rosa hasslykt sem kemur upp um gólffjalirnar.

Við móðursystir mín fórum í menningarfíl á sunnudaginn. Fórum að elta einhverja kvennasýningu sem hún hélt að væri haldin Listasafni Reykjavíkur. Svo kom á daginn að sú sýning er í Reykjanesbæ. Við fórum því í Þjóðminjasafnið og töltum í gegn um gersemana þar. Dagur var með í för og var ekki sérlega hrifinn.

...ég er svo þreytt að ég held að ég geti ekki myndað frekari setningar. Finnst eitthvað skrítið að skrifa eftir allan þennan tíma. Það er óhollt að blogga svona sjaldan. Ég kann ekki einu sinni að stafsetja lengur...ég sem ætlaði að blogga á hverjum degi í ár!

Helvítis kötturinn er búinn að gera eitthvað af sér inni í svefnherbergi.