laugardagur, desember 15, 2007

Próf

Ég á að mæta í próf eftir 3x 15 mín. Og ég er gjörsamlega tóm í kollinum. Ég held að ég verði að leggja mig eftir prófið. Búin að vera að nánast í alla nótt.

Krossa putta og vona að ég geti svarað einhverju. Kennarinn er snillingur og veit svo mikið að maður verður hræddur. Spurningarnar verða í samræmi við hvað hann veit mikið um efnið. Og það væri ekki ónýtt að fá snefil af hausnum hans í dag.

Góðar stundir

föstudagur, desember 14, 2007

Mont-eða ekki...

Verð að monta mig. Ég er stolt af þessum hæfileika en ég er með soldið gott tónminni. Var að pikka upp á píanóið Air eftir J.S. Bach og svo fór ég að gá hvort ég ætti það á safndiski og viti menn ég hitti á réttan stað á píaóinu. Ji hvað ég er stolt af mér að geta munað tóna. Hef til dæmis stillt gítar eftir minni.

Kannski var ég bara heppin...það er líka alveg inní myndinni... :) En það er ekkert gaman að hugsa svona. Það eflir ekkert hæfileika manns. Bara held áfram að halda að ég sé svona helvíti klár. Kannski ætti ég bara að bjóðast til að syngja C-nótu fyrir kennarann á morgun og hann útskrifar mig úr námskeiðinu með hæstu einkunn.

Tásur

Mér er svo heitt á tánum að ég get ekki sofnað.

fimmtudagur, desember 13, 2007

Laus við bull skull rull og vatn

Pabbi kom eins og hvirfilbylur og fór eins og hvirfilbylur.
Tók ofninn af, tók af ofninum hluta, tengdi hann aftur og fór, bless, farinn norður. Og við bara horfðum á.

Ég græt þetta er svo fyndið - Takk Bedda/Svaný

My loony bun is fine Benny Lava!

Þreytt og sifjuð

Jæja, þá eru tveir sólahringar liðnir af vatnsdallaveseni. Því líkur vonandi seint í kveld. Ég sé eftir því að hafa ekki talið lítrana en ég held að það séu ca 5 lítrar á klukkustund sem við erum búin að setja ofan í klósettið. Það er frekar pirrandi að þurfa að standa upp úr prófalestrinum til þess að hella vatni. En hvernig haldið þið að það sé að sofa innan um drippiríið?! Hvað þá að þurfa að vaka yfir þessu?!

Heilinn á mér funkerar frekar illa en ég viðurkenni þó að frummyndakenning Platons og bullu-kvíarnar hans Aristótelesar heilla mig fyrir vikið. Verst að þurfa alltaf að rjúfa tengslin vegna þess að allt í einu fær maður tak í hjartað yfir því að vera að gleyma sér í bókum þegar fossinn er handan herbergisins.

Ég sver það ég held að ástandið sé alltaf að versna. Það er eins og ókunn öfl séu að reyna að passa upp á það að ég útskrifist ekki á réttum tíma eða hafi súperléilegar einkunnir þannig að ég þurfi að taka upp fullt af fögum til þess að hækka meðaleinkunina mína. Það er alltaf eitthvað.

Hvers konar líf er það ef maður á alltaf að vera að spá í hvað geti hugsanlega farið úrskeiðis þegar maður þarf síst á því að halda? Til dæmis þegar ég fór í prófið í vor og þurfti að hlaupa út í bíl með barnið í fanginu og 20 kíló af glósum (gagnapróf sko) og það var loftlaust eitt dekkið. Þetta sagði mér: ekki fara af nöglunum fyrr en prófin eru búin. Frekar að fá sekt hjá löggunni nappi hún þig. Ég hélt ég yrði ekki eldri þar sem ég stóð þarna úti í vorinu, klifjuð lífveru og gögnum. Fyrir utan það að þegar ég fór glöð að skipta voru sumardekkin ónýt og ég þurfti að gera svo vel að versla ný! Þakkaði Vísu mikið fyrir að vera til þá.

Get ég ekki bara sleppt þessu og farið að þýða fúlar ástarsögur sem lífsviðurværi? Sitja bara heima og forðast veröldina í kringum mig? Ég er orðin soldið þreytt á að fá alltaf einhverja tilgangslausa verkefnapoka þegar ég á að vera að sinna mér.


Svei mér þá...best að kíkja í balann og hella sér út í frummyndir: hugtök óháð tíma.

miðvikudagur, desember 12, 2007

Pasta frá Nokrr

Ég er orðin svo rugluð á þessum leka. Ég eldaði mér pastagutl frá Nokrr með öllu gsm-kryddinu í, og svo smakkaði ég til þess að gá hvort pastað væri hart. Svo var ekki. Gleymdi að fá mér á disk. Er alltaf að standa upp frá tölvunni til þess að fá mér smakk upp úr pottinum.

Ég hef verið í svo miklu netsvelti að ég hangi bara á blogginu og feisbúúk í stað þess að lesa Pladda og Ara og Plodda og Þalla og Anaxa og Anaxe og Demmó og alla þessa kalla sem gátu setið á rassgatinu og pætl út í bláinn af því að þeir voru frjálsir karlar í grískum borgríkjum. Og svo kom maturinn fljúgandi upp í munninn á þeim í spjallpásum. Og þeim fannst líkaminn svo æðislegur (Grikkjum) að þeir voru allsberir við íþróttaiðkun sína! Sjáiði fyrir ykkur maraþonhlaup og konfektið á fullu eins og þyrla? Ætli böllurinn og rest hafi ekki náð niðr'á gólf hjá eldri Ólympíu-meisturum? Síkkað? Þeir hafa ekki gegnið heilir til skógar heldur dregið skinnsekk á milli fótanna! Það hefur náttúrulega þótt fallegt líka, reyndir kappar og mikil virðing borin fyrir þeim.

Sumt var alveg voðalega frábært og skemmtilegt sem kom út úr þessum körlum en halló! Þeir héldu að konan væri hýsill fyrir barnið sem þeir potuðu inn í hana. Þeir töldu virkilega að þeir væru ábyrgir eingönu fyrir krakkið í bumbunni! Alveg út að skíta af hroka þessir frjálsu karlar.

...og lekur/vaktaskipti

Ég sit grútsifjuð við lyklaborðið, með núðlur til að fá kraft. Það er komið að mér. Að vísu klikkaði síðasta vakt lítillega og ræsti mig í angist yfir stórkostlegum vatnspolli sem hreiðrað hafði um sig á gólfinu. Öll tiltæk handklæði voru sótt og svo hófust djúpskúringar. Ég sé ekki fram á að fá að fara að sofa fyrr en um kvöldmat. Spurning hvort það sé einhver þarna sem getur bent á dall sem tekur ca eitt tonn af vatni svo fólk geti amk lagt sig.

Það er ótrúlegt hvað dropar verða fljótt að flóði. Eins og mér finnst taka langan tíma að láta renna í bað þá er þetta með ólíkindum fljót að fylla dall. En í staðinn fyrir að þurfa að tæma á 1-5 mín. fresti hefur okkur tekist, með hjálp svarta steikarpottsins (fæst í Hugkubb), að kaupa okkur ca 30 mín. En sá tími virðist eitthvað vera að styttast...

Og ég þvæ handklæði svo það séu hrein og þurr handklæði tilbúin ef annað slys ber að garði. Þyrfti í raun bara að setja þau í vindingu og svo í þurrkara. Hugsið ykkur orkuna sem maður sparar ekki. Bæði er ég að tapa vatnsmagni dauðans og nýta raforku á fullu, af dýrustu sort (þurrkarinn) til þess að þurrk'upp bleytu.

Annars langar mig að segja frá hugmynd sem ég fékk í fyrra dag. Það var verið að nudda á mér hálsinn og það streymdi svo mikil vellíðan upp í haus að mig langaði í tæki sem ég myndi tengja við heilann og tölvuna, síðan gæti ég submittað heilaskilaboðin á heilalesningarsíðu á netinu og fengið til baka hvaða vellíðunarefni heilinn hefði búið til og hvaða áhrif það hefði mér til góðs eða ills. Væri þetta ekki snilld? Ég heimta að Google bjóði upp á sona ukkað: "Já þetta hefur mikil og jákvæð áhrif á serótónínin, aukning, þarft ekki að endurnýja geðtöflurnar þínar næsta mánuð". Mjög gaman. Svo gæti maður leikið sér með tækið og gáð hvað heilinn væri að gera þegar manni finnst maður vera að búa viljandi til straum í allan líkamann. Alls konar furður.

Af hverju ætti maður ekki bara að lesa í heilann á sér eins og að vera með kameru og vinkað bróður sínum út í útlöndum á meðan maður spjallar við hann?

þriðjudagur, desember 11, 2007

Og það lekur og lekur...

...og lekur. Hringdi í pabbann aftur. Hélt kannski að ofninn myndi losa sig við allt vatnið svo maður gæti séð fram á að geta hætt að fylgjast með þessu. Nei segir pabbinn, það leki endalaust. Gaman að þessu. Hér hefur verið endalaust brotið heilann yfir því hvaða apparat við getum notað svo við þurfum ekki að standa upp á 3 mín. fresti til að losa skálar. Héðan fer enginn út á næstunni.

Hringdi í pípara sem sagðist ekkert geta hjálpað mér. Benti mér ekki á neinn einu sinni. Svo hringdi ég í eitthvað fyrirtæki sem hýsir pípara. Það kostar 20 þúsund að fá slíkan karl heim til sín. Það er verð fyrir 3 tíma hvort sem maðurinn er í tvær mínútur eða 20 mín. Útkallið er tuttugu þnúúsun krónur. Auk þess var enginn pípari til þess að koma og redda málunum. Mér skilst að sé maður tryggður fyrir svona útvegi tryggjó pípara um hæl. Svo segir daddý amk. En hér verður sum sé vakað í nótt. Spurning um að slá öllu upp í kæruleysi og fara bara á nokkra daga fyllerí inni í herbergi með kassettutækii. Taka upp dropahljóð og búa til sampl þegar pabbi loksins getur komið.

Mér finnst skrítið að fá "nei" þegar hætta er á vatnsskemmdum. Verð að segja það. Skítapakk.
Paaaabbiiii, fljóóótur!

Og svo prussar ofninn

Í morgun þegar ég vaknaði beið glaðningur á gólfinu fyrir neðan ofninn í svefnherberginu. Ég hélt að glugginn hefði lekið um nóttina en þegar betur var að gáð kom þessi agnarsmáa og fíngerða buna út úr ofninum í ljós. Hann lekur hreinlega. Það er bara gat! Ekki meðfram röri eða neitt heldur bara gat á ofninum!.

Vatnið er ekki heitt og engar skemmdir eru sjáanlegar. Það er eins og ofninn hafi tekið upp á þessu einhverntíma snemma í morgun. Ég hringdi í pabba sem ekki svaraði og ég átti æilegt bágt. En svo hringdi elsku karlinn, heyrði ekki í símanum sínum nýja, er eitthvað voða flottur samlokusími sem frúin færði honum. Hann sagði æ æ æ, að hann kæmist ekki til mín fyrr en á fimmtudaginn. En hann sagði mér að vera róleg og halda áfram að læra. Setja bara skál undir: "Og leyfðu drengnum að sulla svolítið í þessu".

Hann spurði hvort ég væri ekki tryggð. Ég er ekki tryggð. Ég er að bíða eftir því og hef verið lengi, að einhver læknir láti tryggingarfélagið fá eitthvað svo ég geti fengið einhvern tryggingarpakka sem ég óskaði eftir. Á meðan er ég ekki tryggð, eða hvað. Djöfuls vitleysa er þetta. Að það velti á lækninum manns hvort maður fái tryggingu í ákv. pakka eður ei! Mér skilst meiraðsegja að minn læknir "sé mjög sein að skila". Frábært.En ég er í prófalestri og verkefnavinnu. Þetta er auka álag. Ætli maður sé tryggður fyrir slíku hjá LÍN? Heimilisáföllum? Eða á maður yfirleitt að vera á kúlinu: "Ja, ofninn minn sprakk og það var allt út í vatni en ég má ekkert vera að spá í það. Verð bara í vöðlunum upp í rúmi", eða "Ja, mamma dó í bílslsysi í gær en ég er í prófum. Get ekkert verið að pæla í því núna. Verð að ná annars fæ ég ekki námslánin".

föstudagur, desember 07, 2007

Ótrúlega hamingjusöm

Merkilegt nokk miðað við síðustu færslu. En ég er svo glöð. Ég er búin að hanga á netinu í allan morgun frá því að Dagur fór á leiksskólann. Með kaffibolla, á náttfötunum, í morgunmyrkrinu, inn í fallegu stofunni minni. Á kafi í einhverju Facebook að leita að vinum og senda þeim krúttlegheit. Ji maður getur svo sannarlega gleymt sér í þessu. Og það er alveg rosalega gaman.

Ég nenni ekki neinu. Mig langar að dúlla mér í allan dag við eitthvað svona. En nú ætla ég að dúlla mér í verkefni sem er hreint ekkert leiðinlegt. Kíkja svo á Facebook öðru hvoru. Mér finnst að Kisa ætti að lesa fyrir heimspekiprófið og gera verkefnin mín svo ég geti bara verið áfram á tásunum með kaffið. Já svo á ég piparkökur sem ég kuffti í Svíkea í gær! Namm.

Góðar stundir

þriðjudagur, desember 04, 2007

Hið freka líf

Það er svo undarlegt þetta líf. Í hvert einasta skipti sem ég þarf virkilega á því að halda að sinna mér sjálfri, eins og að læra fyrir próf og klára lokaskýrslu, þá koma alveg undarlegir hlutir upp á.

Um miðja önn tókst mér að verða veik svo ég komst ekki í 50% lokapróf sem þá voru haldin. Fæ að taka 100 % í öðru námskeiðinu. Svo átti ég að skila ritgerð til þess að öðlast rétt til þess að taka hitt prófið auk þess að fara í munnlegt próf. Þá varð sonurinn lasinn svo ég var með hann í fanginu í stað þess að pikka inn ritgerð. Þannig að þar fauk það námskeið til fjandans.

Nú þegar ég hef hugsað mér gott til glóðarinnar og hef þó nokkuð marga daga framundan til þess að lesa á meðan barnið er á leiksskólanum...þá eru svo mikil veikindi á leikskólanum að óskað er eftir því að ég sæki hann fyrr en vanalega.

Hvað næst?

Stundum held ég að ég sé eitthvað biluð að hafa haldið það að nám og barn sé frábær blanda. Hvað var ég að pæla að fara í skóla með lítið barn? Ég er eitthvað klikkuð og kann ekki alveg að forgangsraða hlutunum. Mig langar helst til þess að loka augunum og opna þau aftur og allt er bara í góóðu standi. Að minnsta kosti líkja ekki stöðu minni við helvíti.

Ég er að hugsa um að baka bara köku yfir þessu öllu saman. Og skafa skítinn á milli tánna. Nenni ekki bölinu. Þetta væri allt svo frábært, ef ekki væri fyrir Lánasjóð íslenskra námsmanna. Að standa í skilum við bankann og mega ekki einu sinni verða veikur heldur manni algerlega stífum og tæpum á geði. Ég ætla samt að segja það að það er ótrúlegt að ég skuli hafa náð svona langt eins og það er búið að vera erfitt í kringum mig. En ég er heldur ekki með einkunnir upp á tíu. Þær bera þess alveg merki að ég er að klóra í bakkann hverja einustu önn.

En stundum er bara eins og hlutirnir hafi tilgang. Kannski gerist eitthvað ótrúlegt t.d. það að í millitíðinni á meðan ég er að grenja og vola yfir þessu, að félagsvísindadeild drullist til þess að viðurkenna BA gráðu upp á 2x 60 og ég geti tekið heimspeki til 60 eininga. Það væri óskandi. Nú eða eitthvað annarskonar mannlegt kraftaverk sem er mér hliðholt. Þetta snýst allt um það sé mér hliðholt. Hvað annað?! Ég trúi því að ég sé heppin...já sem minnir mig á það...ég lottaði og fékk 3 rétta. Eins gott að leysa það út.

Og þá baka ég marmaraköku (ekki bumbuköku!)

mánudagur, nóvember 19, 2007

Svíkea-dagur

Vaknaði kl. 9 og ætlaði í skólann. En það er einhver starfsdagur svo ég fór ekki í skólann. Kuffti kaffi í Sunnubúð. Verð að taka það fram hvar ég verslaði í morgun. Nú er Sunnubúð svo fræg. Sys kíkti í stutta heimsókn. Svo fórum við Dagur í endurvinnsluna. Honum fannst það allt voðalega merkilegt. Hann fékk að rétta konunni í búrinu miðann með flöskutalningunni og fannst feikilega gaman að fá pening til baka. Kallaði bless á alla inni í endurvinnslunni. Allir kvöddu hann. Sjáumst á eftir, sagði Dagur þá. Við fengum einn seðil og klink. Dagur leit ekki við seðlinum heldur tók bara klinkið. Veit ekkert um gildi seðilsins. Svo fórum við í Svíkea. Ég var búin að lofa honum einhverri grímu. Þar gátum við dólað okkur talsvert. Mikið að skoða. Prufa rúmin og príla á kössum, pota í dótið og svo fundum við piparkökur sem við hámuðum í okkur. Síðan ætlaði ég að plata hann í sund. Reyna að halda honum vakandi en það mistókst. Best að slappa af í smá stund fyrir kvöldið.

Kuffti ekki jóladót í Svíkea.

sunnudagur, nóvember 18, 2007

Að ganga heill til skógar.

Í íþróttafréttum Rúf í kveld kom það fram að Birgir (golf-kylfingur) hefði ekki gengið heill til skógar í morgun vegna slæmsku í hálsi!

Við skulum rétt vona að hann fái vitið til baka vegna bötnsku í hálsinum.

fimmtudagur, nóvember 01, 2007

Bib

Aldrei þessu vant er ég bara ein í myrkrinu. Dagur sofnaður og næturvakt. Svei mér þá ætli ég verði ekki bara að fara í tölvuleik. Hmm...kannski bara ég geri það. Svo er fullt af spennandi hlutum á netinu...sörfa soldið. Það er gaman.

miðvikudagur, október 31, 2007

Tíu litlir negrastrákar

Ég viðurkenni það að ég er ein af þeim sem varð ægilega hneyksluð á móðurinni sem er æf út af endurútkomu bókarinnar um negra strákana. Áðan las ég grein í blaði fátækra skuldara sem fjallaði um bakrunn bókarinnar sem er ógeðslegur, vægast sagt. Svo ógeðslegur að Íslendingar breyttu endinum.

Ég man vel eftir þessari bók þegar ég var lítil. Mér fannst hún rosalega skemmtileg. Mér fannst ekki skemmtilegt það sem kom fyrir drengina, mér fannst það frekar óhugnanlegt. En vísan og hvernig þeir töpuðu tölunni afturábak, það var svo spennandi, svona eins og tíu grænar flöskur. Það var einhver önnur bók sem lýsti einhverjum svona hrakförum þar sem fólk dó ekki en eitthvað annað kom fyrir þannig að talið var afturá bak en ég man ekki hvað sú bók hét. Aðalatriðið fyrir mér sem barni var hvernig tala fór úr 10 niður í 1. Svo var maður voðalega feginn þegar allir negrastrákarnir birtust aftur þrátt fyrir það sem kom fyrir. Ég leit ekki svo á að síðasti negrastrákurinn hefði hitt stelpu og búið til nýja. Ég leit svo á að hrakfallabálkarnir hefðu komið ferskir og heilir til baka. Þannig leit ég á málalok.

Hvort ég kaupi þessa bók fyrir minn son er svo annað mál. Ég sjálf væri alveg til í að eiga hana. Sérstaklega þegar ég veit núna, eftir að hafa lesið blað fátækra skuldara, þann viðbjóð sem býr að baki þessarar bókar.

Fyrir einhverjum árum síðan (og kannski enn ég veit að ekki) komst það í hámæli að ungt fólk í grennd við Ausvits, vildi losna við safnið, láta loka því. Ekki hefur slíkt verið gert. Í Ausvits má sjá gleraugnafjöll látinna gyðinga, tennur úr þeim, gasklefana sem þeir voru drepnir í og fleira. Eitthvað líkt safninu sem greinarhöfundur nefnir í blaði fátækra skuldara.

Með endurútgáfu þessarar bókar minnist ég æsku minnar en nú hefur sú vitneskja, sem greinarhöfundur segir frá, bæst við til að minna á að bak við þessa barnabók er harmleikur í sögu mannkynsins sem ætti ekki að gleyma frekar en harmleik seinni heimstyrjaldarinnar.

Börn líta allt öðru vísi á innihald bóka heldur en við hin fullorðnu, við skulum ekki gleyma því. Svart fólk klæðist ekki lendarskýlum á götum Reykjavíkurborgar. Hinn pólitíski áróður selsins Snorra skilaði sér ekki til mín og hefur enn ekki gert. En séu foreldrar að kaupa þessa bók fyrir börnin sín skulum við rétt vona að þegar börnin vaxa úr grasi og eru tilbúin til að vita harmleikinn á bak við þessa bók, að foreldrarnir upplýsi þau um fortíðina. Við verðum því að treysta á skynsemi foreldra fyrst bókaútgefendur hugsuðu ekki lengra en að heiðra Mugg með endurútgáfunni.

fimmtudagur, október 25, 2007

Anaximenes hét sá þriðji...


Ég er með kerfi sem er afskaplega sniðugt og dúkkar upp einmitt þegar maður þarfnast þess. Næsti heimspekinur heitir nebblilega Anaximenes. Og vitiði hvernig ég rugla þeim ekki saman Anaximandros og Anaximenes. Anaxima- og Anaxime-. Sá sem kom á undan er á undan í stafrófinu. Ég er svo sniðuuuug.

Anaximenes var ekki á sömu skoðun og Anaximandros, sem talið er að hafi verið lærifaðir -A-menes. Hann einmitt, tók eftir því veseni sem fylgir því að eitthvað sé óbreytanlegt. Svo hann sagði að allt væri úr lofti. Sem er snilld því loft er óendanlegt en breytanlegt. Hlutir breytast í kringum mann. Loft verður gufa þegar maður andar í köldu lofti, þéttist og verður að vatni og alls konar allskonar skemmtilegt sem gerist...ský ossona. Vatn til dæmis á það til að frjósa. Pælið í því. Þó nokkuð mikið varið í þessa loft-útgáfu við útskýringu á heiminum.

miðvikudagur, október 24, 2007

Næsti karl...hann Anaximandros!!!


Ég var búin og blogga heil ósköp um næsta kall! En það PÓSTAÐIST EKKI! Sést hvað ég er reið yfir því?
Maður hefur heil ósköp fyrir að skapa þetta bla bla á bloggi og svo fer allt í fýlu út af kerfisvitleysu.
Kemur allt í einu eitthvað riiisastórt error kjaftæði og skemmir fyrir manni fullt af skrifum! Jiminn hvað ég er hneyskluð

Taka tvö. Ég verð að ná þessu fjandans prófi!

Anaximandros
Hann var nú ekki sammála Þalesi um vatnið og kom með undarlegt orð, to apeiron, til að útskýra heiminn. To apeiron þýðir óendanlegt og óbreytanlegt...mjög dularfull veröld það. Til er sum sé eitt efni sem allt er úr. Vandamál Anaximandrosar var eiginlega að ef hlutir eru óendanlegir og óbreytanlegir þá er manneskjan soldið mikið meira en manneskja. Hún er líka stóll og allskonar drasl. Líkist sandskrímslinu í Spiderman 3 sem er með fullt af drasli í sér en aðaluppistaða skrímslisins er sandur. Þetta er alveg gáfulegt svona miðað við tímatal þessarar hugmyndar. Svona amöbu-hugmynd. Soldið erfitt að átta sig á hvernig hlutirnir verða það sem þeir eru. Sjálfsagt hefur to apeiron einhverja eiginleika.

En ef það er eitt og óbreytanlegt og óendanlegt...þá hjótum við að vera ein risastór klessa öll sömul ásamt húsgögnum tækjum og þvílíku. Ég er pillan sem ég gleypti í dag. Hvernig hefði Anaximandros útskýrt það að mér liði illa af því að drekka ónýta mjólk ef við erum báðar to apeiron? Það er varla hægt að tala um hlutföll efnis ef allt er í einni kássu eða hvað? Kannski er ég á villigötum hérna. Hvað um það. Það er holt að pæla. Maður fær síður alzheimer ef maður lætur hugann rembast. Sjuddúkú ossona.

Koma sohhh Blogger! Publish ðis shitt!

miðvikudagur, október 17, 2007

Þetta er hann Þales...hann var fyrsti heimspekikallinn segir Aristóteles.


Ég er að hugsa um að fara að blogga bara um forverana svo ég læri nú eitthvað og bloggi eitthvað. Missti soldið áhugann vegna þess að ég er að gera rannsókn á bloggi og datt algerlega úr blogggír. Til að hressa samt upp á bloggus ætla ég að skella inn myndum svona fyrir mig, til að minna mig á hvað ég á líka að vera að gera fyrir utan bloggrannsóknina og talsvert erfiðara að átta sig á...held ég...amk öðru vísi en eigindleg rannsóknaraðferð. Og það er fornaldarheimspekin. Ó mæ gad hvað þetta eru óráðin dýr.

En uppruni alls er vatn samkvæmt Þalesi og seglar hafa sál. Mjög skynsöm ályktun svo ég geri smá grín að honum. Þá kannski man ég frekar af hverju þetta þykir vera alger snilld í dag, samt sem áður.

Sumir tala um krabbamein, aðrir um sprautufíklasyni sína, ég væli öðru hvoru um hvað ég sé geðveik...best að væla hvað mér gegnur illa að skilja forvera Sókratesar. Ég græði kannski á því sjálf. Svo er aldrei að vita nema að það slæðist inn kennari á bloggið mitt og geri betur grein fyrir hlutunum heldur en gerist og gengur í tímum...hehehehheheh...
Mér gengur allavega ekki vel í skólanum þessa önn enda að fara að líða að lokum námsins...það er einmitt þá sem ég fer að klikka...þegar ég er alveg að fara að klára.

P.s. ég er orðin duldið góð með minuettinn hans Bach!

miðvikudagur, september 19, 2007

Spili spili


Pjjjanó-kennarinn minn er á leiðinni heim til mín! Víííííí gamaaan.

mánudagur, september 17, 2007

Blati lær


Og svo rignir bara...
Var í algeru letikasti í dag og eftir smá píanó-pikk kom ég mér fyrir í sófanum mínum í þægilegustu stellingu í heimi og lá í henni í tvo tíma. Djöfull er gott að hvíla sig. Hefði viljað vera aðeins lengur en Bjánus og Dagur biðu mín svo ég varð að haska mér af stað.

Svo er íþróttastuð í gangi í sjónvarpinu. Latibær að sjálfsögðu og sonurinn stjarfur fyrir framan. Fyrst situr hann stjarfur og svo þegar hann fer að kunna þættina utan að byrjar hann að reyna að gera eins og íþróttaálfurinn. Hoppar og leggst einhvern veginn niður...segir sömu orðin og hvað eina. Æpir á mig einhverju óskiljanlegu (snuðið er fyrir) um Glanna glæp þegar hann birtist. Sagði í leikskólanum á föstudaginn að hann ætlaði að drepa Batmann og í einhverri hávaðasennunni sagði hann krökkunum að þegja! Þegar ég spyr hann hvort hann ætli ekki að koma á leikskólann segir hann: Auðvitað ekki!

Þegar ég á að knúsa hann segir hann: Mamma, vittu koma hein ti mín? Og þegar við löbbum inn á deild í leikskólanum segir hann: Mamma, vittu leiða mi? En þegar hann apar eftir Múmínpabba og æpir: stórkostlegt! Það er best.

sunnudagur, september 16, 2007

Mér líður eitthvað svo undarlega. Það er eins og eitthvað vofi yfir...dauði einhvers eða eitthvað. Blómin eru náttúrulega að deyja. Það er sjálfsagt það sem er einhvers dauði...

Allir veikir í kring. Einhver ógeðsleg pest að ganga. Mamma varð rosalega veik og það þurfti að færa hana niður á sjúkradeild. Alltaf dettandi. Ég vissi ekki að hún væri svona veik. Hringdi í hana og hún talaði ekki í símann. Það var bara þögn á hinum endanum. Ég kallaði: mamma, mamma, ertu þarna...ekkert svar. Hún er víst brattari núna en það er skrítið að tala við ekki neitt í símann. Ég veit aldrei hvenær er best að hringja lengur. Yfirleitt liggur vel á henni á kvöldin en þetta fannst mér voðalega skrítið. Hún talaði tóma steypu líka.

Eins og ég segji þá er ég bara tóm inn í mér og kannski er það bara hausttómið.

föstudagur, september 14, 2007

Óska eftir....


...bloggörum sem eru í háskólanámi. Vantar 3 stykki til viðtals við mig vegna rannsóknar sem ég er að gera. Koma sohhh!

fimmtudagur, september 13, 2007

Bach-man


Ég er alveg ógeððslega montin með mig í dag. Sat sveitt fyrir framan píanóið í morgun og klóraði mig svona helvíti vel áfram. Eitthvað eftir Bach...ósköp simpilt, Minuet í G eftir Bach. Það má krydda hlutina soldið með að segja Bach.

Elska þetta píanó í tætlur. Maður lokast algerlega frá umheiminum og er bara upptekinn við þetta eina dæmi. Massa góð slökun. Sérstaklega þegar ég er nánast hætt að spila tölvuleiki sem mér þótti svo skemmtilegt en það er bara enginn tími fyrir slíkt því þeir taka svo langan tíma þ.e. þeir sem ég vil spila. En píanóið er algerlega að taka við. Mig bráðvantar hins vegar upphitunaræfingar. Einhver þarna úti sem getur reddað mér soleiðis?!

miðvikudagur, september 12, 2007

Blogg um ekki neitt


Ég er með finnsk nöfn á heilanum þessa dagana:

Aki Kaurismaki
Mika Hakkinen (veit ekki hvernig maður setur punktana yfir a-ið)

og svo þegar heilinn man ekki meir koma nöfn eins og
Akira Kurosava
Haruki Murakami...

Veit ekki af hverju...ég er í fornaldarheimspeki, gagnrýnni hugsun, stjórnmálaheimspeki, eigndlegum rannsóknaraðferðum og ekkert þessara nafna koma fyrir þar. Kannski bara af því að Kaurismaki er að koma til landsins.

Annars varð ég að sleppa fyrirlestri hjá nóbelskáldi í dag út af móðurhlutverkinu og þótti það miður þar sem mælt var með því að við sætum hann út af stjórnmálahesi. Á meðan frægir kallar eins og Pétur Gunnarsson aka Punktur kommur og strik, brunuðu upp tröppur Aðalbyggingar (hristandi dropana úr regnblautu hárinu) til að missa nú ekki af og Hátíðarsalur var troðinn út úr dyrum þá var ég á leiðinni út! Oj bara. Stundum er það synd að eiga sig ekki alveg sjálfur. Kannski hefði ég getað tæklað þetta en ég bara hugsa stundum ekki skýrt fyrir öllum verkefnunum sem bíða mín.

laugardagur, september 08, 2007

Hold me now!

Ju...nostalgían yfirgefur mann inte!

Endurminningar


Það er ekki bara Múmínpabbi sem getur sest niður og skrifað endurminningar...
ég sé fyrir mér herbergið sem var alger launhelgi þangað til að systir æskuvinkonu minnar flutti í burt og við litlurnar fengum að upplifa þessa launhelgi...og nú hlusta ég á Tracy Chapman's Fast Car og Revolution og minnist þessa litla herbergis sem vísaði að glugga míns eigins heimilis...sem var bar lítil kompa full af gersemum fyrir litlur...
bött! Júf gott a fast kar...bött is it fast ínöff só ví kan flæ avei?


...So remember we were driving driving in your car
The speed so fast I felt like I was drunk
City lights lay out before us
And your arm felt nice wrapped ’round my shoulder
And I had a feeling that I belonged
And I had a feeling I could be someone, be someone, be someone...

laugardagur, september 01, 2007

Nokkrir vinnufélagar ætla að mæta í kveld og ég er á fullu að koma draslinu mínu fyrir sem á að fara í sorpu en sökum þess að skrjóðurinn helv...djöhh...já, þá verð ég bara að koma því fyrir hingað og þangað um eignina. En það var ekki það sem ég ætlaði að tala um.
Sonurinn er nefnilega að góna á Múmín og allt í einu heyri ég Snúð segja að einhver líti illa út að neðan! Það má mistúlka það! Ég flissaði lítið eitt með moppuna...reyndar var Snúður að tala um bátskrjóð sem þau fundu.

Skólus

Duldið spennandi en Hannes H. Gissurarson verður einn kennaranna sem koma til með að birtast í stjórnmálaheimspeki. Ég hlakka mikið til að sitja í tíma hjá honum. Ég sat einu sinni í tíma hjá leigjandanum hans og svo dó hún skömmu síðar.
Ég vona samt að Hannes deyji ekki.

Gamli framhaldsskóla-kennari minn mun líka birtast, hann Atli frændi bróðir hans Bjarna frænda. En ekki sem stærðfræði kennari heldur heimspeki kennari. Það er líka spennandi. Hlakka mikið til. Kannski finnst mér ég vera komin heim til mömmu bara og kannski held ég að ég sé 18 ára í smá stund. Hlakka til að sjá hann setja hökuna í bringuna og þramma fram og til baka við töfluna. Ég vona að ég skilji hann líka betur en forðum daga...ég þori kannski að spyrja líka ef ég skil ekki. (Það er nefnilega svo skrítið við að spyrja kennara að þeir svara manni og maður skilur ekki svarið svo maður reynir að útfæra svarið betur af því að mann grunar þá um að vita ekki hvað maður er að spyrja um og þá kemur ennþá skrítnara svar út úr þeim svo maður hættir bara að spyrja. Ég gruna að þegar svona kemur upp þá hefur kennarinn í raun, ekki skilið upphaflegu spurninguna hjá manni.)

Kannski tek ég upp á því að fara að skrópa eins og vitleysingur, svo mikil verður nostalgían!

föstudagur, ágúst 31, 2007

Latibær, lati bíll, lati bloggari.

Jæja, þá er ég hætt að vinna og skólinn byrjar í næstu viku. Þessa einu viku sem ég ákvað að taka mér frí fór í veikindi sem enn standa yfir. Ég má ekki lyfta litla fingri og þá er ég orðin slöpp. Við mæðginin hjóluðum nú samt á bókasafnið í dag. Ég sótti mér efni fyrir veturinn og Dagur hvarf upp á 5. hæð þegar ég var að ljósrita á fullu á fyrstu hæð. Svo þegar ég fann hann var hann hinn hressasti hlaupandi um allt. Ekki óttasleginn þó hann týni mömmu sinni enda vanur drengur í þessari risa byggingu. En ósköp var ég þreytt og blaut þegar ég kom heim. Sofnaði í sófanum og vaknaði við diskaglamur. Hélt að sumir litlir væru farnir að hugsa sér til sulls í vaskinum en svo kom á daginn að hann var bara að finna sér flottan bolla til þess að drekka úr.

Nú langar mig bara að það komi hvítur stormsveipur eins og í auglýsingunni forðum daga og þrýfi hér allt hátt og lágt. Ekki það að mig langi ekki til að gera það sjálf en þar sem ég er svona slöpp að þá væri ég alveg til í Ajax-stromsveip. Það er líklega ekki gott að vera heima á meðan. Það er svo svakaleg fýla sem fylgir Ajax.

Svo vantar mig ýmislegt skemmtilegt dót sem fæst í Svíkea en bíllinn er bilaður enn og aftur og ég er að missa vitið yfir þessum bíl. Hvað er eiginlega að fjandans bílnum ef hann lætur alltaf svona?! Alltaf það sama með startarann. Ætli ég þurfi nýjan? Svei mér þá.
Það er ekkert að þessum bíl. Hann bara fer ekki í gang. Soldið tilgangslaus setning a tarna. Það er lítið...nei það er ekkert lítið. Það er ekkert gagn í þessum bilaða bíl.

Farðu kvef úr enninu og kinnunum mínum og augunum mínum! Ég þarf á hreinum haus að halda í allri helvítis vitleysunni í kringum mig. Pirrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrr.

föstudagur, ágúst 24, 2007

PÉningar

Það kom ótrúlega frægur rithöfundur í safnið í dag er kenndur er við bláu höndina og skírteinið hans var útrunnið.

Er ekki fáránlegt að rukka fólk sem býr til safnkostinn um 1200 krónur þó svo þa sé ekki mikið pén?

miðvikudagur, ágúst 22, 2007

Kringlusafn og bókabíll

Nú er mín að prufa Kringlusafn. Þar fann ég einn frænda úr móðurætt sem er nú bara mjög merkilegt því að móðurættin er tætt út um allar trissur og enginn veit neitt hvar fólk er eða hvort að það sé skilt manni yfirleitt. Annars heimsóttum við Bjarna Harðar í sumar og okkur var mjög vel tekið. Hann er einmitt skyldur okkur í blessuðu móðurættina, og frænda sem kom í safnið til mín. Bjarni sýndi okkur myndir og þar á meðal mynd af móðursystur minni þegar hún var pínu pons og gat staðið í lappirnar. Skrítið að sjá fullorðið fólk pínu pons.

Kringlusafn er skrítið safn. Skrítið að vera bara á einni hæð. Soldið óþægilegt reyndar. Ég er vön svo ægilegu flæmi. Svo eru ægileg læti þegar fólk gengur fyrir ofan safnið með innkaupakerrurnar sínar. Stundum er eins og það sé lest sem er að fara af stað og þá líður mér eins og ég sé í Danmörku. En síðan er líka krakka-æp og gól og það er fáránlegt að það skuli vera hægt að henda drasli og rusli niður í safnið! Arkitektinn bannar það algerlega að það sé gert eitthvað í því. Hann ætti að borga skaðann sem þetta getur valdið. Hugsið ykkur ef einhver myndi henda sjeik þaddna niður sem myndi splundrast yfir safnkostinn? Sem ég held að sé alveg gert. Íslendingar eru svo tillitsamir, bæði hvað varðar rusl og umferðamenningu. Við getum verið stolt af okkur! Svo er geðveik pizzulykt allan daginn í safninu! Það er eins og maður sé ekki í bókasafni heldur einhverstaðar allt annarsstaðar.

Ég fæ hins vegar að prufukeyra bókabílinn og það í tvo daga! Ég er ógurlega spennt en líka duldið hrædd um að verða óglatt af að hanga í rútubíl. En ji hann er svo flottur!

Hætt að tala, þarf að fara að koma mér af stað í vennuna.

fimmtudagur, ágúst 16, 2007

Kynþáttadrömu og lífsreynsla...

...eru merkingar á dvd myndum hérna í safninu og þar sem sjón mín á það til að blekkja mig sá ég nottlega Kynlífsreynslu út úr þessu tvennu. Og varð duldið sjokkeruð á þeirri flokkun. Sem er alltaf svo gaman. En það eru ótrúlegir hlutir sem finnast í safninu svo þetta kom mér ekki mikið á óvart.

þriðjudagur, ágúst 07, 2007

Balthusarmær Philips Roth


Google-myndaleit er stórkostleg fyrirbæri og nauðsynlegt að hafa við hönd jafnvel þó maður sé bara að garfa í skáldskap.

Ég hef nebblilega oft velt því fyrir mér hvursu upplýst ég myndi verða ef ég fengi að sjá myndir sem höfundar nefna í bókum sínum sér til stuðnings þegar þeir lýsa t.d. manneskjum og bera saman við einhver málverk eftir málara sem ég hef ekki hugmynd um hver er.

Og nú er ég að skoða persónu sem er kennari og er voðalega æstur í skólastelpurnar sem hann kennir og hann segir eina vera eins og Balthusarmeyjarnar. Og ég veit ekkert um þennan Balthus en fékk nokkuð öfluga lýsingu með því að kíkja á eina slíka mey með því að Gúggla. Það er nokkuð ljóst að maður verður að vera soldið vel að sér nú eða gúggla ef maður ætlar að lesa skáldskap! Meiri upplýsingarvesenið þessi heimur.

Viðurkenni að myndin gefur mér miklu meiri hugmyndir um þessa hressu stúlku sem vill endlega sofa hjá kennaranum sínum. Hreint ekki neikvætt heldur. En ég var ekki alveg viss fyrst þegar ég sá myndirnar hvað mér ætti að finnast. Kannski er ég tepra eða vil ekki að kvenfólk láti svona eins og Balthusarmeyjarnar.

föstudagur, ágúst 03, 2007

Lífið og tilviljanir

Alveg merkilegt hvað lífið getur verið skrítið.
Það kom lánþegi í dag og var að leita að Hugleiks-bókum. Hún pantaði eina.
Fyrir nokkrum mín. hringdi lánþegi til þess að framlengja bókum og þar á meðal pantaða Hugleiksbókin. Furðulegt alveg hreint. Eins og þekkingarfræðin.

Rólegt yfir versló helgó vegna bíló

Þar sem bíllinn fór í fýlu þegar ég eyddi aurunum mínum sem ég var búin að safna mér í píanóið góða hef ég hjólað svo mikið að augun eru að springa út úr höfðinu á mér. Í morgun hjólaði ég með drenginn í rokinu og rigningunni sem var allt í lagi en það var bakaleiðin sem ætlaði að drepa mig. Ég er nebblilega á kvöldvakt í kvöld og ég ætlaði svoleiðis að hjóla hress heim og æfa mig á píanóið en í staðinn skreið ég upp í rúm og svaf til 11. Rauk síðan á fætur og þvoði hárið og tók strætó í vinnuna! Ég eeelska strætó fyrir að stoppa fyrir utan heima og koma mér áleiðis. Vildi að hann færi fyrst út á Eggertsgötu og síðan á lækjó.

Ef Dagur fer ekki að fá pláss á leikskólanum þá verð ég að fara að hugsa út strætóleið fyrir okkur. Ég er ekki bjartsýn á að geta borgað viðgerð á startara. Það er óhemjuverk að gera við þá ef þeir eru á leiðinlegum stað. Eins og startarinn á mínum bíl.

Úúooohh. Mig langar að hafa bílinn! Nú kemst ég ekki með góðu móti á Skaganes. Og ég er búin að prufa að fara með dreng og kerru í slíka ferð og hún var fullævintýraleg og endaði næstum því með að við yrðum strandaglópar í Mosó í marga klukkutíma!

fimmtudagur, ágúst 02, 2007

Lati Bær er hættulegur bær ungu fólki

Sonurinn er ekki nema 2 ára og er að reyna að snúa sér eins og mr. Íþróttaálfur. Eins og ég er búin að vera dugleg með Múmínálfana, þá er nokkuð ljóst að þeir eru ekki eins hressir og fara ekki í kollhnísa!

Í gær horfðum við á Múmínsnáðann í sjálfheldu á skíðum...ekki hermdi minn eftir því!
Í dag sjáum við klikkaða snúninga sem eru tölvustýrðir og sonurinn er að reyna að herma eftir...með skrámur á lærunum og skælandi yfir meiddi!

Hvernig útskýrir maður fyrir 2 ára að þetta sé ekki hægt í raunveruleikanum?! Það er ekki hægt. Hann verður bara að reka sig á. En það er allt í lagi. Mamma er vön 112!!!
Þakka Jung fyrir flæðiskenningu sína...ef lesendur eru upplýstir um hana. Nenni ekki að segja frá henni núna. Löööööt.

Spurning um að banna Íþróttaálfshorf! Reyndar...eitt fyndið. Frændi minn sem er 5 ára gisti um daginn. Þegar hann vaknaði sagði hann við mig: Ju Sunna, veistu hvað?! Ég svaf í öllum fötunum...alveg eins og Íþróttaálfurinn. Hehehhehehhe...góð skilaboð til barna að sofa í fötunum sínum en ekki náttfötunum sínum. Svo syngur sá sami frændi: Ég er íþróttaálfurinn og aldrei geri ég neitt. Það er það sem börnin heyra þegar þau horfa á leikritið. Sæææætt.

Hæ Sigga. Kem þegar ég kemst en þú ert ofarlega í huga. Það er bara viss forgangsröð þegar maður eignast barn. Og nú ertu komin í þann pakka...vertu velkomin! Og svo áttu fallegasta dreng í heimi!

miðvikudagur, ágúst 01, 2007

Hér er ég go dag go dag go dag


Það er mikið af ekkerti gera í vinnunni og þegar ég kem heim er ég þreytt út af ekkertinu.
Mig langar í langt frí svo ég er að fara að hugsa um hvenær ég eigi að hætta. Ég nefnilega hef ekki fengið frí síðan einhverntíma.
Ég man það ekki. Kannski síðustu jól.
Man ekki eftir að hafa fengið neina hvíld.
Og nú hjóla ég eins og mófó og er meira þreytt en vanalega.

Bíllinn er nefnilega bilaður svo ég
hjóla út á Eggertsgötu á morgnanna og síðan þaðan
í Tryggvagötu þar sem vinnan tekur við og það er einn staður í vinnunni
sem er talsvert meira þreytandi en nokkur annar staður í húsinu.

Fann rosalega skemmtilega bók og skellti texta upp úr henni inn á bókmenntavefinn.

fimmtudagur, júlí 19, 2007

Silfurtónar

Er með lag á heilanum og heimta kommbakk!

http://www.myspace.com/silfurtonar og Tælandi fögur. Alveg ótrúlega töfft raddanir og læti.

miðvikudagur, júlí 18, 2007

...jæja búnnað selja trommusettið mitt


Sumir kaupa sér föt, aðrir kaupa sér einkaþotur og kampavín, enn aðrir fara í heimreisur og svo eru það þeir sem hugsa í mörg mörg ár um að láta draum sinn rætast.

Hérna er til dæmis minn draumur frá því að ég var 14 ára. Hann lítur svona út og vonandi fer hann að rætast. Ég er alla vega búin að massa einkatíma handa mér og útvega mér þessa feikilega góðu kennslubók og ligg þvílíkt spennt yfir henni. Þykist vera að leika við Dag en er að stúdera hljóma á fullu: do mí so so mí do, einund, tvíund þríund, ferund, fimmund, sexund sjöund áttund hækkanir lækkanir stækkanir og minnkanir...mér líður eins og ég sé orðin smiður.

Allt að gerast. Aldrei of seint að læra neitt í heiminum. Það er of seint þegar maður er dauður hins vegar. En ég nenni ekki að vera fúlt gamalmenni yfir því á Grund.

Gerfið sem ég ætlaði að vera í ammælinu hennar Beddu en svo hélt hún ekki upp á það. Hva fæ ég annars linsur eins og hann á?

mánudagur, júlí 16, 2007

voff


Ég er þreytt og mér er illt í bakinu. Gömul Hofstaða- og Hafralækja-Húsavíkur eymsl að taka sig upp aftur. Ég nebblilega skemmilagði á mér bakið þegar ég gerðist kokkur fyrir 40 manns fyrir mörgum árum því ég var alltaf svo helvíti klifjuð þegar ég verslaði í matinn fyrir allt þetta fólk. Var yfirleitt ein á ferð í matarinnkaupum.

sunnudagur, júlí 15, 2007

Blóm


Fjölskyldan sameinuð á ný.

Kisa er brjáluð af því að hún fær ekkert að eta. Búðin opnar ekki fyrr en klukkan ellefu og það eru ægilegir stælar í henni. Sem er bara fyndið því að um leið og fyllt er í skálina hjá henni borðar hún þrjú korn. Hún er sú alfrekasta kisa sem ég hef hitt. Rétt í þessu sló hún mig og klóraði í tærnar. Stórhættulegt kvikindi. Það er eins gott að hún bíti mig ekki eins og hún gerði forðum daga svo ég þurfti fúkkalyf og stífkrampasprautu. Ég veit ekki hvort hún falli undir flokkin "gæludýr". Enda erum við farin að hafa ansi blendnar tilfinningar gagnvart henni.

Annars hefur verið brjálað að gera og ég má ekki vera að neinu. Ég skil ekki hvernig hægt er að hafa brjálað að gera þegar maður er ekki í skóla. En það eru alltaf einhver verkefni sem þarf að ganga í. Orðin soldið leið á verkefnum.

Eitt verkefni sem ég held að ég geti staðið mig svo ægilega vel í er að eiga blóm sem eru orðin eitthvað lúin í glugganum. Ég kenni mér um að vera ekki nógu dugleg við þau og tel mig ekkert kunna á blóm. Sem er reyndar rétt því þau eru í kolvitlausum glugga. Þau eru í "vökva 5 sinnum á dag" glugganum.
En ég get átt blóm ef ég set þau í réttan glugga.

Var á tímabili að gefast upp því mér fannst ég vera að bæta við mig heimskulegu en fallegu verkefni. En ég gefst ekki upp strax. Það má alltaf fá sér kaktusa og þykkblöðunga sem þurfa ekki vökvun mörgum sinnum á dag.

laugardagur, júlí 14, 2007

Kominn tími á einn Gary

Með þeim betri þessi og er í tilefni af því að Depill sem heitir ekki Depill fékk að kíkja í andyri safnsins.
Annars þurfti ég að hlaupa stjörf úr vinnunni til þess að ná í bassapetal. Alger sauður. Gleymdi honum heima í morgun og Biggi að fara að spila eftir 30 mín. Brunaði af stað og er að jafna mig. Þá er gott að kíkja á einn Gary.

föstudagur, júlí 13, 2007

fimmtudagur, júlí 12, 2007

jibbíjjjjj ein kell

Og svo kom sonurinn heim og nýja húsið breyttist í sóðabæli

Kall og baddnlaus og farin í siglingu með vinnufélugunununum.

föstudagur, júlí 06, 2007

miðvikudagur, júlí 04, 2007

Ég er hýr og ég er rjóð krílið kemur heim

Ég er aðeins farin að jafna mig á barnleysinu enda fer krílið að koma heim bráðum. Mikið óskaplega hlakka ég til og er að hugsa um að búa til skemmtidagskrá því að ég á að passa frænda hans um helgina. Við verðum því þrjú þar sem næturvaktin næturvaktast og ég vonast eftir að hjá okkur verði mikið fjör. Þarf að leggja haus í bleyti...sund og eitthvað soleiðis. Ætli maður verði ekki að fara á Makkdónalds og ná í srekk dót.

Allar tillögur vel þegnar í kommó kerfó en hafið í huga að ég kæri mig ekki um að tæma pyngjuna.

þriðjudagur, júlí 03, 2007

Kramið móðurhjartað

Barnlaus og mér líður eins og það vanti eitthvað á mig og í mig. Loksins þegar maður fær að anda í rólegheitunum án þess að vera á nálum um að krílið manns fari sér að voða þá hætti ég bara anda yfirleitt. Ég sakna hans svo mikið að ég er að springa. Mig vantar svo mikið að knúsa litla krílíð mitt að mér er illt í mömmunni.

Sonurinn er hins vegar í góðu yfirlæti. Búinn að fara á Langasand og hitta krossfisk sem hann reyndi að gefa Svala-súp. Sagði að krossfiskurinn væri með ljótar tennur og ljótan munn. Ég hefði viljað heyra hann segja það.

Ég vona að hann vilji koma heim...sniff.

sunnudagur, júlí 01, 2007

skrítið fólkEr ekki eitthvað skrítið við það að sitja inni á bókasafni og lesa á þessum sólríka degi?
Ég sver þa!

Ég ætti kannski að spyrja lánþegana hvort einhver vilji skipta svo ég geti farið í sund að sprella.

föstudagur, júní 29, 2007

Af gullhömrum með smá hégómlegu ívafi

Ég á 2 susstkin...eftir af 4...og þau eru 12 og 13 árum eldri en ég. Ég er sum sé litlan þeirra en ég er líka stóran því ég á ekki sama pabba og þau. Ég er stóran hans pabba. Ég get því bæði verið stóran systkina minna sem þeim finnst ágætt en ég get líka verið litlan þeirra sem þeim finnst stundum betra að ég sé þegar þeim finnst ég vera orðin einum of stór með mig.

Á laugardaginn hringdi bró í mig frá Kuhhpmannahöbn og spjallaði smá við mig. Svo þegar ég var hætt að tala við hann vildi systurdóttir mín endilega að ég spilaði fyrir sig lag af því að við vorum að skála fyrir engu. Ég vissi ekki hvort ég ætti þetta tiltekna lag svo ég hringdi í númerið sem bró hringdi úr og þá svaraði danskt skroll ...hótel eitthvað. Mér var gefið samband við bró og þegar hann svaraði spurði ég hann hvort ég ætti lagið til. Hann sagð nei og tók það fram að það væri líka bannað að spila þetta lag*. Svo sagði hann að ég væri djöfulli góð að hringja sí svona bara til baka og mér finnst gaman að bróinn minn skuli segja að litlan hans væri"djöfulli góð".

Í gærmorgun var ég að lesa þessa bók sem ég bloggaði um í gær og fékk þessa þvílíku hugmynd. Mig langaði svo að gera eitthvað fyrir hana systur mína af því að hún hefur hjálpað mér svo mikið (lét mig fá bílinn sinn og ég má borga þegar ég get!) og er massa klettur. Ég ákvað að fara og kaupa handa henni þessa bók, hvað svo sem hún kostaði, og senda henni í pósti í gamni og koma henni reglulega á óvart. Fólk er ekki beint að senda í pósti lengur. Ég var beggja blands með þessa hugdettu. Þetta væri nú kannski bara vitleysa og svo eru bækur svo dýrar. Kannski kæmi þetta illa við hana. En bókabúðin opnar kl. 10 og ég ákvað að fylgja instínktinu mínu og rauk af stað í bæjinn svo ég gæti gert þetta áður en ég færi að vinna. Ég fann bókina og tilheyrandi til að setja utan um og þegar ég kom að afgreiðslunni græddi ég amk 3000 krónur því bókin kostaði ekki eins mikið og ég hélt.

Svo hljóp ég yfir á pósthúsið, krotaði með ókunnugri skrift utan á pakkann og fór í afgreiðsluna. Þar voru stúlkurnar með ægilega neon-bleik frímerki að klína á bréf. Og ég spurði: Ó má ég fá svona á pakkann?! Jú það héldu þær nú. En ég sá aldrei frímerkin fara á heldur rauk í vinnuna og nú var bara að bíða spennt eftir að sys hringdi.

Ég hélt að ég þyrfti að bíða þangað til í dag en sys hringdi í gærkvöld og sagði mér þessa dásamlegu sögu:

Hún kom heim af næturvakt og það var einhver miði um það að pakki biði hennar á pósthúsinu. Hún hugsaði mér sér hvaða djöfulsins gjaldfallna rusl þetta gæti nú verið en ákvað að drulla sér á pósthúsið áður en hún færi í bankann til að redda þessu. En henni fannst afskaplega undarlegt að það stóð pakki en ekki bréf eins og er með ábyrgðarbréf með haturstilkynningum. Hún fer á pósthúsið og fær þennan þvílíka böggul. Hún varð alveg gapandi og spurði konuna hvort þetta væri virkilega til hennar. Jú svo var og auk þess frímerki með blómum á og frímerki sem voru svo bleik að hálfa væri nóg, og merkt Kvennréttindafélagi Íslands. Hvað skildu þær vera að senda mér?! Spurði hún sjálfa sig og opnaði pakkann og sá að í honum var bók. Hún var viss um að þetta væri einhver kvennréttindabók þegar hér er komið en þegar betur var að gáð var þetta ekkert kvennréttinda-tengt. "Mikið ógeðslega ertu sniðug", sagð'ún svo við mig og ég varð svo glöð því það er svo gaman að vera "ógeðslega sniðug". Þannig að ég fékk eiginlega meiri og stærri pakka heldur en hún. En henni datt aldrei í hug að svona hlutum gæti ég tekið upp á. Eiginlega ekki ég heldur því ég hef aldrei þorað að akta á instínktinu því ég hef slæma reynslu af því. Oftast nær hefur það mislukkast. Það gat gerst núna þó svo að þetta væri mín eigin systir.
En pakkinn kom víst samdægurs! Hún var bara sofandi þegar póstmaðurinn kom heim til hennar því hún átti næturvaktina framundan.

Það skemmtilegasta við þetta allt er að hún sagði mér söguna af pakkanum eins og ég hefði ekki komið þar nærri og það var rosalega flott og skemmtileg saga hjá henni. Svo við gátum deilt saman sitthvorri sögunni í kringum þennan pakka minn og var orðin algert aukaatriði.

En mikið er rosalega gaman og gefandi að fá svona hrós frá susstkinum sínum. Það er bara allt öðruvísi einhvern vegin. Maður er ekkert sínkt og heilagt að hrósa þeim sem standa manni nær. Það fólk er einhvern vegin svo sjálfsagt og í raun hið mesta klúður að gera það ekki.

*Lagið sem um var rætt er Stairway to Heaven og það er rétt hjá bró að það er STRANGLEGA BANNAÐ að spila það.

miðvikudagur, júní 27, 2007

Furðulegt háttarlag hunds um nóttMæli með henni. Mjög holl lesning, fyndin og skemmtileg.

þriðjudagur, júní 26, 2007

Bara eitthvað..


Bara rólegt held ég. Væri til í að liggja í sólbaði í einhverri laug en ég vinn fyrir mér í staðinn. Held að ég sé að vinna um helgina. Þá vinn ég mér inn nokkra klst. í fríi.

Svo er ég að lesa Furðulegt háttarlag hunds um nótt, Menón, Öxina og Jörðina...ég held að ég sé ekki með fleiri bækur í gangi. Jú ég er með eina enn. Uss...ætla ekki að nefna hana búin að vera svo fjandi lengi með hana. Væri svo til í að fá að vera einhversstaðar að lesa bækur. Vonandi fær sonurinn tilboð um að vera í viku hjá frænku sinni...

In mæ dríms.

mánudagur, júní 25, 2007

föstudagur, júní 22, 2007

Subb á moggabloggi

Þetta er spúkí ógeð

fimmtudagur, júní 21, 2007

Nottlega


Fjölskyldan fór í frábæran hjólarúnt í fyrra dag sem endaði með því að mamma datt af hjólinu og barnið grét af hræðslu fast í stólnum og á hliðinni. Fyrst héldum við að hann hefði skemmilagt á sér hend en sem betur fer þá er hún í lagi.

Hjóluðum í Fossvogskirkjugarði sem er hreint frábærasti garður til að vera í á sumrin í Errvíkinni. Fullt af fuglum, dauðu kyrrlátu fólki og risastórum trjám. Alveg eins og í útlöndum.

Við komum við í Nauthólsvíkinni áður en slysið varð og litli fékk að busla í litlu lauginni sem þar er.

Ég er farin að lengja eftir því að fá frí alein með sjálfri mér og bók. Er að reyna að njóta þess nú áður en ég fer í vinnu um hádegi. En svo nottlega er ferlega gaman að kíkja á önnur blögg fyrst maður kveikir á græjunni.

Engin er fluttur í gamla bústaðinn minn. Keyrði framhjá í gær. Ég sakna þess ekki að búa þarna en ég sakna innviðarins stundum. Það var gott að koma heim. En það er líka gott að koma í stóra plássið og sitja inn í eldhúsi með tölvu og kaffibolla. Það er eitthvað alveg nýtt fyrir mér.

Ætla að halda áfram að lesa Menón.

fimmtudagur, júní 14, 2007

Brandari

Verð að segja frá krúttlegasta brandara sem mér og vinnufélögum mínum var sagt frá í gær.

Herdís Egilsdóttir sér um ritsmiðju fyrir börn í Borgó og áður en hún fór niður að sinna sínu kom hún upp á kaffistofu og sagði okkur brandara:

Það voru þrjár systur. Ein var 98 ára, önnur var 96 ára og sú þriðja var 92 ára.

Sú sem var 92 ára ákvað að fara í bað. Hún gekk upp stiga sem var á heimili þeirra og lét renna í baðið. Eftir smá stund brá henni heldur betur. Hún vissi ekki hvort hún væri að fara ofan í baðið eða koma úr baði. Svo hún kallaði á þá systur sem var 96 ára. - Ji minn, kallaði sú 96 ára, -ertu orðin svona kölkuð, sagði hún, og lagði af stað upp stigann. Allt í einu stöðvaðist sú 96 ára upp í miðjum stiga. Hún vissi ekki hvort hún væri á leiðinni upp eða niður. Svo hún kallaði á 98 ára gömlu systur sína. -Ég veit ekki hvort ég er á leiðinni upp eða niður! Kallaði hún. Sú 98 ára sló í borðið og kallaði: Uss eru þið orðnar svona kalkaðar, en bíðiði aðeins, það er einhver að banka.

Ég að syrgja gamla húsið mittÉg í gamlus hjá gula litnum og svarta ofninum og furugólfborðinu og hlöðnum skorsteini...sniff.

14. júní hæ hó jibbíjeijj

Viðburðalítill dagur og kemur á óvart. Afskaplega rólegt allt. Kom heim og greinilega búið að gera fínt. Veit ekki nákvæmlega hvað en það hefur eitthvað með gólfin að gera.

Ég er að reyna að trappa mig niður en er svo æst í að klára að taka upp úr kössum henda og svo framvegis að ég kann mig ekki. Auk þessa þykist ég ætla að lesa bækur sem ég lauma með mér heim og bæti í staflann. En ég get ekki lesið bækurnar fyrr en ég er búin að klára verkefni sem tekur alla ævi. Tiltekt og skipulag. Sum sé ég er ekkert að fara að lesa þessar bækur. Nema að ég hætti að horfa á kassana. En ég hef alla ævi til að plana hvuddnin ég vil hafa hlutina hérna.

Eitt sem er verulega farið að bögga mig og það er hvað þessi íbúð er ferlega hvít öll. Hvítt út um allt. Ekkert sérlega hómí fyrir minn smekk. Mála þegar buddan hressist og höndin vill pennsla út um allt. Ef ég væri rík kelling þá myndi ég fá kalla til að gera þetta bara. Og eiga bjór. Málarar drekka bjór á meðan þeir mála. Veit það. Vann í glundurbúð þar sem málarar komu og kufftu sér einn og einn öllara í einu.


Dagur er að horfa á Bangsímon og bryðja gúrku. Hann þarf sko að fara í klippingu. Og fá nýja skó. Og samfellur. Og mig vantar föt. Og klippingu. Og sund og brúnku.

Sendi bestu kveðjur til afmælisbarns dagsins sem er æskuvinkona mín og leikfélagi til margra ára. Til hamingju með daginn! Ekki Tsjé Gevara samt.

miðvikudagur, júní 13, 2007

8 ára og ábyrgðarlaus

Nú er ég ægilega fín ófrúuð með þráðlaust internet. En að sjálfsögðu gat það ekki reddast án þess að búa til nokkrar svitaperlur.

Ég sum sé gat reddað því að afsalsfundurinn myndi ekki byrja kl. 1 svo ég þyrfti ekki að fara úr vinnunni en þá hringdi símamaðurinn og vildi endilega koma og laga internetið hjá mér hálftíma fyrir afsal. Svo ég gat verið í svitabaði út af tímasetningum. En það massaðist.

Kannski er ekki hægt að búa í þessari borg. Hún er rugluð af æsingi. Allir þurfa að gera allt núna núna núna. Það væri kannski ráð að flytja upp í sveit. Það er ekkert lát á veseni. Hvaða vesen bíður mín næst? Úff hvað ég þarf að komast í burtu þar sem þarf ekki að hugsa. Einu sinni gat ég farið til mömmu og hætt að hugsa en það er liðin tíð. Nú þarf ég að hugsa fyrir hana líka. En ég er ekki ein um það. Samt...ég sakna þess alveg rosalega að fleygja mér upp í sófa og góna á fréttirnar með henni og spjalla og hneykslast út í loftið og tala um bækur og heyra sögur úr fortíðinni.

Skíta breytingar alltaf hreint. Ef ég mætti ráða þá væri ég 8 ára.

föstudagur, júní 08, 2007

Mr. Evil Diabeticus strikes again

Fékk ekki leyfi til að birta myndir af ferlíkinu sem mætti mér í gær eftir vinnu en kannski get ég gúgglað góðri eftirlíkingu. Ég sum sé mætti Braveheart í allri sinni mynd nema hann var hærri en Mel. Næturvaktin leit út eins og hann hefði slátrað nokkrum Englendingum árið 1200 og eitthvað.

Fésið var eitt blóð og eins og í myndinni glóðu augun vegna þess að hvítan er svo hvít þegar andlitið er þakið blóði. Ég var mest hrædd um að hann þyrfti að mæta í vinnu vegna þess að klukkan var orðin svo margt og maður hringir ekki á ómögulegum tímum til að redda næturvakt.

Ég held að næturvaktin ætti að fara að segja upp starfi sínu. Þetta er ekki að ganga.

Díabetikus er diabollic father mocker og krefst miklu meiri reglu en ruglsins sem næturvaktir bjóða fólki. Næturvaktir eru ekki sæmandi lífsklukkum fólks að ég tel. Óhollt fyrirbæri eins og að fljúga á milli tímabelta.

Það er skítalykt af hendinni minni því Kisa var að rassgatast í henni með skítugan rass.

OOOOjjjj.

P.s.
fann ekki Breifheeaart mynd sem lýsti fyrirbærinu. Censored að öllum líkindum (melindum).

Hressandi viðburðir í lífi bogs

Ef ég má þá ætla ég að birta mynd af afleiðingum atburðar sem átti sér stað í gær þegar ég var ekki heima.

sei nó mor!

fimmtudagur, júní 07, 2007

Taka til

Þetta er leikur sem Dagur kallar "taka til" og ég festist stundum í.

Hverfur hús við Hverfisgötu?

Kyssti gamla kofann minn bless í dag og tók myndir af honum tómum með tár í augum og hvörmum og kinnum og neimitt.

Bless eeeelsku falleginn minn.

...sniff...

Fiskabúrus tilbúus til notkunus

Nýbúin að massa fiskabúrið. Og klukkan er orðin ansi margt en...ég massaði fiskabúrið. Nú þarf bara að ná upp réttu hitastigi fyrir fiskus litlu og skella þeim í búres. Ætla að kynda herbergið í botn og loka öllum hurðum (3 hurÐAR og einstaklega undarleg beygjing).

miðvikudagur, júní 06, 2007

Nauðsyn þess að hafa skítadjobbareynslu.

Þó svo að ég hafi stundað mörg skítadjobbin á minni stuttu ævi nýtast þau öll hér á bókasafninu. Þannig að af skítadjobbum má græða.

Fiskvinnsla:

Þar lærir maður hröð handtök til að plasta bækur

Glundurverslun:

Þar lærir maður að höndla kúnna sem eru svo erfiðir að lánþegar allir með tölu eru með geislabaug miðað við glundurkúnnana og ég brosi sætt og sýni ómælda þolinmæði og þjónustulund. Fer næstum heim með kúnnunum til þess að kenna þeim að senda tölvupóst.

Leikskólar:

Elsku krúttin sem koma á barnadeildina og fá bækur og klæða sig upp í sæta búninga og ég kann að tala við þau á mannamáli sem ekki er á færi margra fullorðina.

mánudagur, júní 04, 2007

Nýtt kerfi í borgarbókasafni aðalsafni

Hæ allir.

Það er komið sjálfsafgreiðslukerfi í bókósafnó. Allir þurfa ný kort og læra á tækið.
Gjössövel að mæta.

fimmtudagur, maí 31, 2007

Jasuss

Ég held að ég eigi nafn en það er spurning hvort ég muni það.

Allla veeena þá mössuðum við rusl dauðans af háaloftinu, ég, Birgir Baldursson og Engilbertus Maximus. Svo bauð Bix okkur út að borða á Á næstu grösum og við dóum úr hamingju við borðið með lífrænt ræktað engiferöl við hönd. Jususs hvað það var gott.

Hentum nokkrum kössum út í bíl, kufftum bjór og við erum að drekka hann núna.

Ég er með augu...ætli þau sjái eitthvað?

miðvikudagur, maí 30, 2007

Duuuuhhhh

meira af lífi og klst.

...ekki ætlar því að linna, veseninu. Haldiði að leikskólastjóri hafi ekki dáið og það á að jarða hana á morgun. Ég þarf að sækja drenginn í fríinu mínu 12 á hádegi.


FRÁBÆÆÆÆRT!!!!

Ég verð bara að skilja ruslið eftir í húsinu. Það er nokkuð ljóst.

En ef einhver sem les þetta þekkir téða konu þá samhryggist ég.

Alltaf leiðinlegt þegar fólk deyr þó svo að svona sé lífinu háttað.

Lífið og klukkustundirnar fara ekki alltaf saman

Það er alltaf gaman að vera til. Fullt af skemmtilegum verkefnum sem reka á fjörur manns. Hér er dæmi um eitt slíkt:

Í síðustu viku var móðir mín, sem er ferlega veik, búin að ákveða að heimsækja mig á þriðjudegi. Ég var því búin að plana notalega stund með henni í nokkra daga og slá því þar með á frest að ganga frá íbúðinni á Hverfisgötu. Mamma treysti sér ekki til að koma þegar ég tala við hana á mánudagskveldi. Á þriðjudegi býðst mér að byrja að vinna fyrr en ég ætlaði og ég þáði það. Fyrst mamma ætlaði ekki að koma þá myndi ég ganga frá íbúðarmálum í vikunni og mæta síðan fersk til vinnu.

Mamma hætti við að hætta við. Ég er sum sé komin í klípu því mamma var hjá mér í marga daga og ég er bara í vandræðum með að púsla saman þeim 3 dögum sem ég hef til þess að skila af mér auk þess sem ég hef nú ekki marga klukkutíma aflögu á þessum 3 dögum. Svona elska ég hana móður mína. Ég get ekki sagt nei við sjúklinginn.

Í gær átti ég að mæta í vinnu kl. 9 en svaf yfir mig. Vaknaði klukkan 9 og reyndi að hringja í síma vinnustaðarins sem aldrei er svarað í. Svo ég rýk í drenginn og þríf af honum bleyjuna. Það er kúkur! Og hann klínist út um allt. Degi tókst að pota stóru tánni í kúkinn upp í rassinum. Ég pússa bossann og ætla að skella bleyju á rassinn á honum en þá er allt í einu kominn kúkur á hnéð og sköflunginn. Ég leita að þessum kúk og finn hann upp í sófa í laki sem ég tek af í skyndi og pakka saman. Klæði drenginn og út. Þegar ég var búin að skila honum lenti ég í dæmigerðum framkvæmdar veseni miðbæjarins og bílastæðarugli.

Ég sagði yfirmanni mínum frá vandræðunum í kringum mig (ekki þó þetta með kúkinn heldur íbúðina) og hún var svo ótrúlega almennileg að hún gaf mér frí á fimmtudaginn.

Á fimmtudaginn verð ég að:

Henda fullt af rusli í risastórann bíl og senda hann í sorpu
þrýfa allt hátt og lágt.

Setjast niður með geðveikisglampa í augunum og stara út í loftið.

Góðar stundir

sunnudagur, maí 27, 2007

Frekkles

Je je jeah

Var í sólbaði úti á hlaði.

Je je jeahh

föstudagur, maí 25, 2007

Gleði!

Ég vil þakka móður hans Berta fyrir að vera ávalt til staðar þegar ég þarf á henni að halda.
Takk tengdó! Náði öllu heila helv... klabbinu.

AAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAA

éG ER GLÖÖÖÖÖÖÖÖÖÐ Í DAG Á NÝJU HJÓLI OG BÚIN AÐ DREPA Á MÉR LAPPIRNAR.

farin í heitt heeiiittt bað.

fimmtudagur, maí 24, 2007

Svo bregðast plön sem önnur

Mér er óhætt að fara að vera dulítið stressuð. Ég fæ hvergi kassa neins staðar. Hringdi í gamlan yfirmann minn síðan úr Holtagörðum þ.e. glundurbúðin og hún ætlar að safna fyrir mig. Ég þarf hins vegar að fara til Garðabæjar í glundurbúðina þar og sækja þá. Það er nuffninlega búið að rótera verslunarstjórum glundurbúðanna og henni var úthlutað útibúið í Garðabæ.

Ætli ég verði ekki að væla út kvöldpassanir fyrir Dag fyrst ég fékk vinnuna svona fljótt. Ætlaði svoleiðis að dúlla mér við restina af draslinu og henda og henda. Furðulegt hvað plönin manns splundrast fljótt.

Mamma treysti sér ekki til að koma í heimsókn eins og við vorum búnnar að ákveða. Síðan var óskað eftir mér fyrr í vinnu. Þá vildi mamma koma og er hjá mér núna. Þá fór flutningplanið í vitleysu. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta eilítið spennandi uppákoma þessi lífsþrengsli.

Iss ég verð þá bara geðveik. Það er nú ekkert nýtt fyrir mér. Er alltaf í geðveiklum. Fæ mér bara hjól og hjóla þetta úr mér.

miðvikudagur, maí 23, 2007

Trommusett til sölu

Trommusettið mitt er til sölu. Mér vill fá 30 þnús fyrir.
Man ekki tommur ossona í augnablikinu en það eru fín skinn á því og það lítur stórkostlega út vegna vannotkunar.

1 flortomm
2vær tomm tomm
sner
pedall
hæjatt
basstromm
glataðir diskar
rætstatíf
snerstatíf
stólgarmur
Heitir sónor og kufft í tónastöðinni 2004 vor

Vinna

Byrja vinna fyrr en ég gerði ráð fyrir svo ég þarf að taka trylling á hverfisgötunni. Vona að ég verði búin 1. júní en ég byrja að vinna á þriðjudaginn næstkomandi. Eiginlega rosalega glöð með það. Hlakka svo til að fara að vinna.

Hef ekki fengið fleiri einkunnir svo ég get verið róleg. Ægilega hjartsláttatruflandi þessar einkunnir.

mánudagur, maí 21, 2007

Spurning til foreldra með eitt barn

Hvenær fæ ég að gera eitthvað annað en að ná í barn upp á borðum? Maður getur ekki endalaust verið í eltingarleik og keyra bíla! Klukkan hvaða ár fæ ég að lesa 5 bls í bók í friði?

Svaka fínt hóm

Íbúðin er að taka á sig mynd....ég trúi því varla að ég eigi heima hérna. Mitt dót, mínar druslur líta svo vel út hérna að ég gef skít í innlit útlit. Kaupa og kaupa hvað?! Bara gömlu góðu Ívar-Svíkeurnar. Ekkert rugl.

föstudagur, maí 18, 2007

Evil Mr. Diabeticus


Evil mr. Sykursýki hefur tekið völdin á þessu heimili. Einn sjúkrabíll á þriðjudaginn, einn í gær og svo næstum því sá þriðji í dag. Kannski er það rétt að flytji maður á mánudegi inn í nýtt hús sé það til mæðu. En við reyndum að vígja húsið á laugardegi. Þetta er lygi þessi vísa þarna!

Mér var vorkent svo mikið að vera að standa í þessu að ég fékk að senda Dag til systur minnar og dóttur hennar. Þær ætla að massa eitthvað skemmtilegt meðan ég rek út illa anda.

Sit með bjór í danska herberginu mínu og ískápurinn er afar danskur að innan. Fullt af mat og svo er smá bjór inni í honum. Ég elska þetta.

Er alein því næturvaktin sefur úr sér. Stór dagur á morgun hjá herranum og mig langar til að taka þátt í því með honum. Eina sem ég veit er að það eru mikilvægir tónleikar fyrir Ask the Slave sem þeir eiga að spila á. Veit ekki einu sinni hvar, fyrir sykursýki, ekki tími til að ræða þetta, bara það að svo á að frumsýna einhverja mynd. Sjáiði hvað ég er upptekin?!

Á milli þess sem næturvaktin var skammaður, fyrir að vera þreyttur og borða ekki og mæla ekki í sér blóðsykurinn, af mér og konunni sem ól hann, gat ég óað og æjað yfir símtali í miðju ruglinu á heimilinu. Hes-klíku-vinur minn hann Grétar hringdi til þess að óska mér til hamingju með að hafa náð þekkingarfræðinni. Og vitiði hvað? Hann hafði rétt fyrir sér. Ég gat þekkingarfræðina! AAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAhhhh- ég er rosalega stolt af mér fyrir það. Djísús. Enn og aftur velti ég því fyrir mér hvað ég sé að gera í bókasafnsfræði sem aðalgrein. En ekkert svona. Praktískt er praktískt og vinnan er skemmtileg þó námið sé STUPIIIIID nánast alla leið.
heimspeki heimspeki heimspeki rúlí lúlí.

Það er svo gaman að vera til í augnablikinu að ég er að hugsa um að halda í þetta augnablik í augnablik. Vonandi er ég laus við sjúkara bíla í bili. Allir í nágreninu fóru út að gera voða mikið í görðunum sínum og labba framhjá íbúðinni okkar. Ég sagði við næturvaktina að nú værum við Systa hverfisins. Alltaf einhverjir geimkallar fyrir utan hjá okkur.

Eitt alveg ótrúelga fyndið. Í gær fór næturvaktin út í sjoppu og ég hringdi í Indókína til að panta mat. Svo kom næturvaktin heim í tómu tjóni og vissi ekki neitt og slasaði sig á höfðinu og það kom fullt af blóði, ég hringi í sjúkarabílinn og svo þegar þeir sáu að þeim var óhætt að fara aftur kom Indókína-sendillinn með fullt af mat og spurði hvort við hefðum pantað'ann. Við hlógum bara að þessu. Sjúkara-kallar og matarsendill í einum graut fyrir utan hjá okkur. Mjög kómískt eftir alveg ótrúlega dramatík á undan. Stundum kemur hlátur eftir skelli-grátur.

miðvikudagur, maí 16, 2007

Dauf í dálkinn

Hana, þá erum við flutt. Aðeins háaloftið og smádrasl eftir. Ég ætla að vera löt fram að hádegi en svo ætla ég að taka smá skúrk.

Allir fluttir. Steinunn frænka flutti til mömmu sinnar, mamma flutt, ég er flutt og elsku bróðir minn er fluttur og er bara farinn til Seyðisfjarðar þar sem Norræna tekur á móti honum og flytur hann út í heim. Mikið óskaplega eigum við eftir að sakna hans. Hann ætlar að búa í Svíþjóð. Mér finnst eins og það sé búið að taka af mér hendurnar. En einhvern vegin koma stafir hérna á.

Miklar breytingar sum sé í fjölskyldunni. Það er rosalega skrítið að mamma manns skuli vera komin á vistheimili fyrir aldraða. Svo seljum við ábyggilega húsið hennar í haust. Ji minn hvað allt er skrítið. Maður vill helst hafa móður sína ferska og spræka en það er ekki allt fengins í þessum heimi. Þá tapa ég sum sé æskuheimilinu mínu. Ég er alveg ferlega viðkvæm fyrir þessum timburkofum sem ég hef alið manninn í. Hvað ætli þetta sé með timbrið? Eins og það brakar í þessu.

Ég ætla aðeins að loka augunum mínum í sófanum með bók á bringunni.

fimmtudagur, maí 10, 2007

Eitt próf tú gó

Síðasta prófið á morgun og ég á eftir að lesa fuuulllt. Mill og Kant. Mill er lítið mál en Kant er bara ruglaður þó frábær sé. Enda þurfti hann að gefa sömu bókina út tvisvar á sínum tíma því enginn skildi baun í fyrri útgáfunni. Ótrúlega fyndið. Það er gott að vita að ég er ekki ein um að botna ekkert í karlinum. Skil glósurnar úr tímum.

Við erum með rosalega mikla heimþrá. Vanafestan er alger. Í gær sagði Dagur að við ættum að fara heim. Mikið erum við sammála honum. Samt er rosalega gott að sofa hérna. Ég sef mikið betur. Engin vindlalykt sem kemur upp um gólfið í svefnherberginu frá nágrannanum. Svo eru fuglar syngjandi úti núna. Mér finnst eins og ég sé flutt til Danmerkur. Ég held að ef ég mála gula litinn minn sem er inni í stofunni á Hverfó á veggi hér komi allt til með að lagast. Og þegar ég hugsa til þess hvað það er erfitt að þrífa lítinn mannaskít sem á það til að detta niður úr litlum rassi og milli raufanna á furugólfborðinu, þá hressist ég ögn.

Enn eigum við eftir að ná í sófann og rúmið. En við höfum það fínt á vindsæng og Dagur á svo gott ferðarúm að það væsir ekki um okkur hér. Nægjusemin er alger.

Best að klára Mill snöggvast og kíkja í Kant.
Hmmm er svo ekki undankeppni í Júró í kveld? Spennandi!

þriðjudagur, maí 08, 2007

Sólskin í Hlíðum

Í gær fór ég yfir á sumardekkin. Í morgun þegar ég var búin að tækla soninn svo ég kæmist á réttum tíma í próf var ekkert loft í einu af glænýju dekkjunum sem ég þurfti að splæsa á mig. Ég var rosalega hress með það. Brosti alveg út að eyrum. Þetta er einmitt sem maður þarf á leiðinni í lokapróf í aðferðafræði. Hringdi í leigubíl með barnapúða. Bíllinn kom og drengurinn trylltist þegar ég setti hann á púðann. Hélt ábyggilega að hann væri að fara einn í bíltúr.

Komst í prófið en féll á tíma. Þurfti að sleppa 20%. Ussssssss.

Er að fara að sækja drenginn litla. Kuffti handa honum innflutningsgjöf. Hann fékk púsl og einn pleimó-grillkall. Svo er ég búin að fara í sólbað út í garðinum mínum fína nýja.

Við erum flutt sum sé en eigum eftir að sækja fuuuullt af dóti: Rúmið, sófann, sjónvarpið og köttinn. Ég á eitt próf eftir og svo mössum við rest.

Jibbí kóla. Bjór og kjöt á ettir handa mér.

fimmtudagur, maí 03, 2007

Íbúð

Fáum íbúðina í kvöld!!!

Jibbíkólaaaaaa

mánudagur, apríl 30, 2007

eitt...

Úff, eitt próf búið.
Tvú tú gó.
Fór í þekkjó próf í dag og eitt svar minna var 3 korter að lengd.

Á frí í dag og veit ekkert hvað ég á að gera af mér. Taka til? Fer kannski í kassaleiðangur.

fimmtudagur, apríl 12, 2007

Prófalestur og bloggpása

Nú fer að líða að prófum, flutningum og látum þannig að þetta blogg er farið að sofa í nokkra daga.

zzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZzzzzzzzzzzzzzz

miðvikudagur, apríl 11, 2007

Tóta tætubuska

Svo agalega ánægð með soninn en hann kann eftirfarandi vísu:

Tóta góa, tættu ehhkki
Tóta behtta, enga hrekki
Ærahh mamma óhhgöp hreytt
Aldei deppa neitt!!!

Eða, Tóta góða, tættu ekki
Tóta besta enga hrekki
Æðrast mamma ósköp þreytt
Aldrei lagast telpan neitt.

þriðjudagur, apríl 03, 2007

Átta níuÁ föstudaginn skrifuðum við undir allt sem þarf að skrifa undir þegar maður kaupir íbúð. Formlega mín eign ásamt íbúðalánasjóði og barnsföður. Síðan kíkti ég í Skaufu-markaðinn og kuffti mér einn PJ Harvey.

Skrapp síðan á Skaganesið sem er ekki frásögufærandi en hitti mömmu mína ferska. Hún bíður spennt eftir að fá að koma í heimsókn í nýju íbúðina sem er miklu þægilegri fyrir hana að koma í heldur en sú sem ég á núna fullborgaða í nokkrar vikur.

Svo var leiðindapróf í morgun í aðferðafræði, siðfræði Kants tók við eftir það og svo er bara páskafríið hafið. Og ég væri alveg til í að sofa í svona 8 klst. samfellt. Afskaplega þreytt eitthvað.

Það þýðir lítið, þegar lítill prakkari er í kringum mann, að vola yfir þreytu. Drengurinn talar svo mikið að bráðum fer hann að froðufella. Ótrúlegur orðaforði hjá barninu: Einn, tveir, frír, fimm, sjö, átta níu tíjhjuu. Minn er farinn að telja! Út í loftið að vísu en ja hérna. Hann byrjaði fyrst að koma heim frá leikskólanum með átta níu. Hann sum sé byrjaði ekki á einum þegar hann lærði að telja.

fimmtudagur, mars 29, 2007

Lummudagur

Í gær fór í ritgerðasmíð en síðan sótti ég drenginn og við Bedda
héldum okkar vikulega leikfund. Við bökuðum lummur, blésum í sápukúlur og átum pizzu. Mjög gaman. Síðan héldum við heim í háttinn við Dagur. Hann fékk að horfa á Samma brunavörð á meðan mamman las í bók. Pabbi fjarri góðu gamni. Mikið að gera í hljómsveitarbrasi.

Ég er eitthvað hálf slöpp. Væri til í að sofa í nokkrar klukkustundir í viðbót.

miðvikudagur, mars 28, 2007

Blöðrur þekkingar


Fyrst ég er nú byrjuð á einhverri reglu hérna þá er að reyna að halda henni áfram.
Í dag er svo fallegt veður að það er synd að eyða honum inni í ritgerðasmíð. En ég ætla að klára hana. Tók smá pásu frá þekkingarfræðilegum pælingum eftir árshátíðina. Þurfti að jafna mig eftir hana. En mér til mikillar ánægju fékk ég vinning á happadrættismiðann sem var undir disknum mínum. Birting eftir Voltaire, þokkalega. Get sum sé skilað bókinni á bókasafnið sem ég er með í láni. En nú tekur alvaran við og engin brjóstbirta á næstu vikum takk fyrir.


Það er rosalega gaman og leiðinlegt í þekkingarfræði. Stundum er maður komin kriss og kross en svo smella sumir hlutir ótrúlega. Þrátt fyrir að virka á stundum sem bölvað bull er þekkingarfræði alger undirstaða alls. Að færa rök fyrir hinu augljósa er einhvern veginn jafn undarlegt og það er nauðsynlegt. Samt sem áður er þekkingarfræðin þannig úr garði gerð að maður situr með tóma blöðru í tíma, blæst lofti í hana og þegar maður gegnur út úr tíma fer loftið úr blöðrunni eða hún svífur á braut til allra hinna þekkingafræði- blaðrnanna. Og eins og fuglabúrið hans Platóns þá kemur fyrir að það liggi ein blaðra fyrir utan stofuna næst þegar maður mætir í tíma, hálf loftlaust og krumpuð, og maður getur tekið hana með sér og bætt í hana lofti. Ekki þar með sagt að maður tapi henni ekki að tíma loknum.

Þekkingarfræðin er full af sjálfsögðum hlutum sem maður nennir ekki að færa rök fyrir.
Af því bara.

þriðjudagur, mars 27, 2007

Flutningur from one o one

Þá er mér óhætt að gera það hér með offissíelt að við erum að flytja úr 101 Reykjavík. Einhver maður sem er að kaupa alla út úr húsunum sínum í kringum mig hefur kufft mig líka. Fyrir þann péning kaupi ég aðra eign sem við fáum afhenta í maí. Ég hlakka til því þessi íbúð er að springa utan af okkur. Ég má teljast afar heppin með að losna undan öllu því oki sem fylgir timburhúsaviðhaldi enda þarf að gera ansi margt. T.d. einangra á milli hæða. Ég losnaði samt við nágrannann "góða" í fyrra og frétti bara nýlega að hann hefði sest fullur upp í bílinn sinn fljótlega eftir að hann losaði íbúðina sína og keyrt sig í klessu, blessaður. Held að hann hafi samt lifað það af. Veit ekki meir um afdrif hans.

Kaupverðið er trúnaðarmál. Það er svosem eitt að selja á frálsum markaði og annað ef einhver er að falast eftir byggingarreit svo fólk getur bara lagt saman. Reyndar má ekki rífa húsið en kannski kviknar í því fljótlega eftir að við flytjum. Eða eigandinn kaupir lóð í litla-Skerjó og flytur það.

En nú er bara að krossa putta því flutningnum fylgja nágrannar. Held að þeir séu í rosknari kantinum og ekki mikið í dópi eða fyrir að keyra fullt. Ég fæ sumsé eldhúsið sem ég get setið í með blað fátækra skuldara og kaffi, ég get farið í bað, og svo get ég valið um nokkur herbergi að ekki sé minnst á dyrnar sem hægt er að loka og ég þarf ekki að fara út til þess að þvo af okkur fötin heldur bara í þvottahúsið á næsta gangi. Mikið ætla ég að syngja daginn sem ég flyt.

föstudagur, mars 23, 2007

Frídagur


Veðrið leyfði enga sundferð í gær sem var bara í góðu lagi. Okkur var boðið í heimsókn í staðinn. Fengum pizzu og bjór. Svo fórum við bara snemma að sofa. Vöknuðum í morgun, fengum okkur epli og horfðum á Pingu. Svo fór litlinn í leikskólann en ég heim að þvo árshátíðarfötin. Síðan ætla ég að skoða smá aðferðafræði og dúlla mér þangað til kl. 17. Þá ætlar litla 3 manna heimspekiklíkan að hittast, skola smá fordrykk niður saman og svo er bara árshátíð. MATUR!!!

Litli maðurinn ætlar að vera hjá ömmu sinni í nótt sem sækir hann líka á leikskólann. Ómælanlegur lúxus það. Mikið er dásamlegt að eiga einn alvöru frídag. Lang langt síðan það var. Skrítið hvað börn taka í raun ofsalega mikið pláss. Það er ekki einu sinni hægt að lesa eina litla grein í dagblaði. Eins gott að njóta sjálfs sín þangað til að hitt sjálfið kemur attur.

Síðan er matarboð fyrir litlu fjölskylduna annað kveld. Ja hérna.

Þar sem Sundhöllin býður ókeypis sund í dag og veitingar er aldrei að vita nema ég geri kroppnum mínum greiða og syndi nokkrar ferðir fríkeypis með nýjum sundgleraugum.

fimmtudagur, mars 22, 2007

Banani í sokk


Ritgerðin skrifar sig nánast sjálf. Á meðan þarf ég að fara í aðferðafræði I og siðfræði. Kant er til umfjöllunar og ef öllum finnst Kant óskiljanlegur þá er eins gott að missa ekki af einu né neinu. Dauðkvíði því að lesa hann.

Áður en ég fer í skólann ætla ég að skúra eldhúsgólfið. Það er með ólíkindum hvað það þarf oft að skúra það. Lítill sullumaður. Hlakka mikið til þess dags þegar ég get notað eldhúsið af einhverju viti. T.d. setið inni í því með kaffibolla og blöð fátækra skuldara.

Litli sullumaðurinn uppgötvaði sér til mikillar skemmtunar að einhver hafði sett banana í sokkinn hans Lúlla og brauð á hausinn hans. Bækurnar um Lúlla klikka ekki. Í morgun þurfti hann að segja öllum sem hann mætti í leikskólanum: "Banani í sokk!" en þar sem samhengið var ekki ljóst fékk hann engin viðbrögð nema hjá mömmu sinni. Hann ætlar að verða eins og mamma sín og hugsa á undan sér. Hugsa fyrst og segja svo hálfkláraða setningu sem endapunkt hugsunarinnar og enginn botnar neitt í neinu og heldur að maður sé eitthvað klikk.

Í lok dagsins förum við mæðginin í sund ef veður leyfir. Eitthvað fúl spá. Alla vega er það orðin regla hjá okkur að reyna að komast a.m.k. einu sinni í viku í "stóra baðið".

miðvikudagur, mars 21, 2007

Platón, Dúpló og Múmíndalur


Í dag ætla ég að skrifa eins og eina ritgerð í þekkingarfræði um skynjunarkenningar Prótagórasar og Heraklítosar, segja frá kostum þeirra, göllum og hvernig þær tengjast kenningu Þeaítetosar um að þekking sé skynjun. Síðan ætla ég að sýna fram á hvernig Platón notar rök gegn skynjunarkenningum Prógó og Heró til að hrekja kenningu Þeaítetosar á að þekking sé skynjun. Rosalega dugleg.

Langar í sund en held að ég ætti að bíða með það. Veikindi vofa yfir að mér finnst.

Síðan ælta ég að fara og kaupa einn kassa af Dúpló-kubbum fyrir soninn sem er afmælisgjöf frá ömmu á Akranesi og kubba með honum þangað til að við nennum því ekki meir. Þá hefst líklega mikil umræða um Morra og Kæluna miklu í Múmíndal en það ku vera vinsælast hér á bæ um þessar mundir.

þriðjudagur, mars 20, 2007

Djaamm

Ég ætlaði bara að segja að ég væri að fara á árshátíð með heimspekinemum á föstudaginn og borða góðan mat.

Sonurinn varð 2 ára á föstudaginn og fékk Mikka mús "sjúkara-bíl". Mjög spenntur og glaður með nýja bílinn. Þarf aðeins meira pláss fyrir hann en það er allt til bóta.

föstudagur, janúar 26, 2007

Heimspekinöldur

Það var svo frábært gærkvöldið að ég má til með að blogga um það. Móðursystir mín hringdi og ég bauð henni í mat, lambalæri takk fyrir. Hún mætti með 3 litlar rauðvínsflöskur og svo sátum við fjögur við kertaljós og góðan mat. Svo fannst mér að við ættum að fara út og skjóta upp rakettum þetta var svo frábært.

Núna er ég að rugla fram og til baka með hvað ég eigi að gera um helgina. Á ég að skreppa á Skaganesið eða á ég að hanga í Reykjavíkinni? Ég er þó búin að ákveða lærdóm frá kl. 11 til 16. Mér finnst ég búin að vera svo dugleg að læra að ég er að springa og á erfitt með að leggja frá mér bækurnar. Algerlega nýtt fyrir mér þessi lærdómsþrá. Þetta á sérstaklega við um aðferðafræðina og sætir mikilli undrun yfir því hjá mér. Ég er ekkert sérlega spennt fyrir Siðfræði Nikómakkusar hans Aristótelesar þó svo að ritið sé stórmerkilegt og innihaldið lærdómsríkt. Ég bara legg ekki í það að hjóla í þær flækjur sem þar eru. Það tók kennarann 160 mínútur að útskýra fyrir okkur hvað orð eins og dyggð, farsæld og ánægja þýddu hjá Aristótelesi og hann er ekki búinn enn. Er að lesa Birtíng mér til skemmtunar fyrir svefninn og sú lesning er svo létt að ég er hrædd við heimspekingana eins og er.

Siðfræði kúrsinn er bara þræl erfiður. Ekki er Aristóteles bara flókinn heldur situr maður troðfullur af eymd og volæði = samviskubiti yfir því að að vera ekki farsæl og dyggðug. Hvurskonar kúrs er það? Svo sagði samnemandi minn við mig: Bíddu bara því svo kemur Kant með fullt af sektarkennd handa þér.

Ég hlýt að verða þroskaðri og betri manneskja eftir þessi óðððsköp.
Takk o ble

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Getum við trúað því...

...að barnakynlífsglæpamaður sem svindlar á geðprófi svo hann sjálfur fái betri meðferð meðal samfanga sinna en hlífir ekki öðrum við sjálfum sér, sé breyttur og betri maður?
Getum við trúað því að sami einstaklingur sé breyttur og betri maður vegna trúar sinnar og þunglyndislyfjanna?

Getur hann sannfært okkur með þessum orðum sínum, manneskja sem trúir því sjálf að 13 ára gamall einstaklingur geti hugsað sér að blinda sig og fylla eyrun af tónlist, skríða upp í rúm nakinn og bíða þess að einhver út í bæ komi og geri við sig hluti fyrir skrifaðan klámdisk á meðan mamma og pabbi eru í bíó?

Er eitthvað sem gæti sannfært mann um að kynferðisglæpamenn séu breyttir og betri menn? Hversu margir þurfa að fara 4 sinnum á Vog? Eða 100 sinnum?
Ég bara spyr.

miðvikudagur, janúar 24, 2007

Ó mæ gat


Ef ég gúggla mínu eiginnafni fæ ég t.d. þessa mynd upp!
Ætti ég að setja hana í prófílinn í Blogger prófíl?!

No connection blogger to

Þori ekki að skrifa langar færslur

Núna

Núna er núna búið

fimmtudagur, janúar 18, 2007

Hvað er eiginlega að þessu ruslans forriti? Ég er búin að skrifa heilu færslurnar sem hafa farið í ruslið út af connection bulli einhverju?

Helvítis skíta!!!

sunnudagur, janúar 14, 2007

Þetta er tilraun 1000000000 til þess að koma með færslu hér inn en blogger virkar bara eftir því hvað eitthvað

mánudagur, janúar 01, 2007

1. janúar

Er á Skaganesi og hér eyddi ég áramótunum. Fórum á brennu í gær og horfðum á flugeldasýningu í boði einhverrar stórverksmiðju. Dagur var svakalega hress með sprengjurnar, sprengja sprengja, sagði hann. Síðan flúði unga fólkið út að vitja einhverrar gleði sem haldin var í gamla íþróttahúsinu en við mæðgurnar horfðum á As goood as it gets í 4 eða 5 sinn. Svo fleygðum við okkur í bælið.

Ég fæ enn furðutilfinningu þess eðlis að ég skuli ekki vera tvítug á leiðini á eitthvað jamm upp úr miðnætti á gaml-ný-ári. Sit heima eins og eldgömul kelling fyrir framan sjónvarpið og það sem meira er þreytt gömul kerling. En ég velti því líka stundum fyrir mér hvort ég eigi eftir að taka trylling nr. tvö þegar sonurinn verður eldri. Mér sýnist það svona í kringum mig að þegar börnin eru orðin duldið eldri að þá taki slíkt við. Sjáum til.

Ekki enn búin að fá niðurstöður úr prófum. Rosalega er það nú pirrandi. Mér finnst ég ekki hafa lokið neinu og vera í lausu lofti. Engu að síður er ég farin að læra fyrir næstu önn. Fer í inngang að siðfræði og er feikilega spennt yfir einhverri skruddu sem stiklar á stóru um þau efni.

Annað var það nú ekki. Mig langaði eiginlega bara að hafa 1. janúar færslu af því að ég hef sofið svo marga 1. jan af mér í ungdómnum. Man ekki eftir því að hafa verið vakandi svona snemma á þessum degi.

Svo ætla ég að fara að rúlla heim fljótlega.

Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla.
Knús
Sunni