fimmtudagur, mars 29, 2007

Lummudagur

Í gær fór í ritgerðasmíð en síðan sótti ég drenginn og við Bedda
héldum okkar vikulega leikfund. Við bökuðum lummur, blésum í sápukúlur og átum pizzu. Mjög gaman. Síðan héldum við heim í háttinn við Dagur. Hann fékk að horfa á Samma brunavörð á meðan mamman las í bók. Pabbi fjarri góðu gamni. Mikið að gera í hljómsveitarbrasi.

Ég er eitthvað hálf slöpp. Væri til í að sofa í nokkrar klukkustundir í viðbót.

miðvikudagur, mars 28, 2007

Blöðrur þekkingar


Fyrst ég er nú byrjuð á einhverri reglu hérna þá er að reyna að halda henni áfram.
Í dag er svo fallegt veður að það er synd að eyða honum inni í ritgerðasmíð. En ég ætla að klára hana. Tók smá pásu frá þekkingarfræðilegum pælingum eftir árshátíðina. Þurfti að jafna mig eftir hana. En mér til mikillar ánægju fékk ég vinning á happadrættismiðann sem var undir disknum mínum. Birting eftir Voltaire, þokkalega. Get sum sé skilað bókinni á bókasafnið sem ég er með í láni. En nú tekur alvaran við og engin brjóstbirta á næstu vikum takk fyrir.


Það er rosalega gaman og leiðinlegt í þekkingarfræði. Stundum er maður komin kriss og kross en svo smella sumir hlutir ótrúlega. Þrátt fyrir að virka á stundum sem bölvað bull er þekkingarfræði alger undirstaða alls. Að færa rök fyrir hinu augljósa er einhvern veginn jafn undarlegt og það er nauðsynlegt. Samt sem áður er þekkingarfræðin þannig úr garði gerð að maður situr með tóma blöðru í tíma, blæst lofti í hana og þegar maður gegnur út úr tíma fer loftið úr blöðrunni eða hún svífur á braut til allra hinna þekkingafræði- blaðrnanna. Og eins og fuglabúrið hans Platóns þá kemur fyrir að það liggi ein blaðra fyrir utan stofuna næst þegar maður mætir í tíma, hálf loftlaust og krumpuð, og maður getur tekið hana með sér og bætt í hana lofti. Ekki þar með sagt að maður tapi henni ekki að tíma loknum.

Þekkingarfræðin er full af sjálfsögðum hlutum sem maður nennir ekki að færa rök fyrir.
Af því bara.

þriðjudagur, mars 27, 2007

Flutningur from one o one

Þá er mér óhætt að gera það hér með offissíelt að við erum að flytja úr 101 Reykjavík. Einhver maður sem er að kaupa alla út úr húsunum sínum í kringum mig hefur kufft mig líka. Fyrir þann péning kaupi ég aðra eign sem við fáum afhenta í maí. Ég hlakka til því þessi íbúð er að springa utan af okkur. Ég má teljast afar heppin með að losna undan öllu því oki sem fylgir timburhúsaviðhaldi enda þarf að gera ansi margt. T.d. einangra á milli hæða. Ég losnaði samt við nágrannann "góða" í fyrra og frétti bara nýlega að hann hefði sest fullur upp í bílinn sinn fljótlega eftir að hann losaði íbúðina sína og keyrt sig í klessu, blessaður. Held að hann hafi samt lifað það af. Veit ekki meir um afdrif hans.

Kaupverðið er trúnaðarmál. Það er svosem eitt að selja á frálsum markaði og annað ef einhver er að falast eftir byggingarreit svo fólk getur bara lagt saman. Reyndar má ekki rífa húsið en kannski kviknar í því fljótlega eftir að við flytjum. Eða eigandinn kaupir lóð í litla-Skerjó og flytur það.

En nú er bara að krossa putta því flutningnum fylgja nágrannar. Held að þeir séu í rosknari kantinum og ekki mikið í dópi eða fyrir að keyra fullt. Ég fæ sumsé eldhúsið sem ég get setið í með blað fátækra skuldara og kaffi, ég get farið í bað, og svo get ég valið um nokkur herbergi að ekki sé minnst á dyrnar sem hægt er að loka og ég þarf ekki að fara út til þess að þvo af okkur fötin heldur bara í þvottahúsið á næsta gangi. Mikið ætla ég að syngja daginn sem ég flyt.

föstudagur, mars 23, 2007

Frídagur


Veðrið leyfði enga sundferð í gær sem var bara í góðu lagi. Okkur var boðið í heimsókn í staðinn. Fengum pizzu og bjór. Svo fórum við bara snemma að sofa. Vöknuðum í morgun, fengum okkur epli og horfðum á Pingu. Svo fór litlinn í leikskólann en ég heim að þvo árshátíðarfötin. Síðan ætla ég að skoða smá aðferðafræði og dúlla mér þangað til kl. 17. Þá ætlar litla 3 manna heimspekiklíkan að hittast, skola smá fordrykk niður saman og svo er bara árshátíð. MATUR!!!

Litli maðurinn ætlar að vera hjá ömmu sinni í nótt sem sækir hann líka á leikskólann. Ómælanlegur lúxus það. Mikið er dásamlegt að eiga einn alvöru frídag. Lang langt síðan það var. Skrítið hvað börn taka í raun ofsalega mikið pláss. Það er ekki einu sinni hægt að lesa eina litla grein í dagblaði. Eins gott að njóta sjálfs sín þangað til að hitt sjálfið kemur attur.

Síðan er matarboð fyrir litlu fjölskylduna annað kveld. Ja hérna.

Þar sem Sundhöllin býður ókeypis sund í dag og veitingar er aldrei að vita nema ég geri kroppnum mínum greiða og syndi nokkrar ferðir fríkeypis með nýjum sundgleraugum.

fimmtudagur, mars 22, 2007

Banani í sokk


Ritgerðin skrifar sig nánast sjálf. Á meðan þarf ég að fara í aðferðafræði I og siðfræði. Kant er til umfjöllunar og ef öllum finnst Kant óskiljanlegur þá er eins gott að missa ekki af einu né neinu. Dauðkvíði því að lesa hann.

Áður en ég fer í skólann ætla ég að skúra eldhúsgólfið. Það er með ólíkindum hvað það þarf oft að skúra það. Lítill sullumaður. Hlakka mikið til þess dags þegar ég get notað eldhúsið af einhverju viti. T.d. setið inni í því með kaffibolla og blöð fátækra skuldara.

Litli sullumaðurinn uppgötvaði sér til mikillar skemmtunar að einhver hafði sett banana í sokkinn hans Lúlla og brauð á hausinn hans. Bækurnar um Lúlla klikka ekki. Í morgun þurfti hann að segja öllum sem hann mætti í leikskólanum: "Banani í sokk!" en þar sem samhengið var ekki ljóst fékk hann engin viðbrögð nema hjá mömmu sinni. Hann ætlar að verða eins og mamma sín og hugsa á undan sér. Hugsa fyrst og segja svo hálfkláraða setningu sem endapunkt hugsunarinnar og enginn botnar neitt í neinu og heldur að maður sé eitthvað klikk.

Í lok dagsins förum við mæðginin í sund ef veður leyfir. Eitthvað fúl spá. Alla vega er það orðin regla hjá okkur að reyna að komast a.m.k. einu sinni í viku í "stóra baðið".

miðvikudagur, mars 21, 2007

Platón, Dúpló og Múmíndalur


Í dag ætla ég að skrifa eins og eina ritgerð í þekkingarfræði um skynjunarkenningar Prótagórasar og Heraklítosar, segja frá kostum þeirra, göllum og hvernig þær tengjast kenningu Þeaítetosar um að þekking sé skynjun. Síðan ætla ég að sýna fram á hvernig Platón notar rök gegn skynjunarkenningum Prógó og Heró til að hrekja kenningu Þeaítetosar á að þekking sé skynjun. Rosalega dugleg.

Langar í sund en held að ég ætti að bíða með það. Veikindi vofa yfir að mér finnst.

Síðan ælta ég að fara og kaupa einn kassa af Dúpló-kubbum fyrir soninn sem er afmælisgjöf frá ömmu á Akranesi og kubba með honum þangað til að við nennum því ekki meir. Þá hefst líklega mikil umræða um Morra og Kæluna miklu í Múmíndal en það ku vera vinsælast hér á bæ um þessar mundir.

þriðjudagur, mars 20, 2007

Djaamm

Ég ætlaði bara að segja að ég væri að fara á árshátíð með heimspekinemum á föstudaginn og borða góðan mat.

Sonurinn varð 2 ára á föstudaginn og fékk Mikka mús "sjúkara-bíl". Mjög spenntur og glaður með nýja bílinn. Þarf aðeins meira pláss fyrir hann en það er allt til bóta.