miðvikudagur, september 19, 2007

Spili spili


Pjjjanó-kennarinn minn er á leiðinni heim til mín! Víííííí gamaaan.

mánudagur, september 17, 2007

Blati lær


Og svo rignir bara...
Var í algeru letikasti í dag og eftir smá píanó-pikk kom ég mér fyrir í sófanum mínum í þægilegustu stellingu í heimi og lá í henni í tvo tíma. Djöfull er gott að hvíla sig. Hefði viljað vera aðeins lengur en Bjánus og Dagur biðu mín svo ég varð að haska mér af stað.

Svo er íþróttastuð í gangi í sjónvarpinu. Latibær að sjálfsögðu og sonurinn stjarfur fyrir framan. Fyrst situr hann stjarfur og svo þegar hann fer að kunna þættina utan að byrjar hann að reyna að gera eins og íþróttaálfurinn. Hoppar og leggst einhvern veginn niður...segir sömu orðin og hvað eina. Æpir á mig einhverju óskiljanlegu (snuðið er fyrir) um Glanna glæp þegar hann birtist. Sagði í leikskólanum á föstudaginn að hann ætlaði að drepa Batmann og í einhverri hávaðasennunni sagði hann krökkunum að þegja! Þegar ég spyr hann hvort hann ætli ekki að koma á leikskólann segir hann: Auðvitað ekki!

Þegar ég á að knúsa hann segir hann: Mamma, vittu koma hein ti mín? Og þegar við löbbum inn á deild í leikskólanum segir hann: Mamma, vittu leiða mi? En þegar hann apar eftir Múmínpabba og æpir: stórkostlegt! Það er best.

sunnudagur, september 16, 2007

Mér líður eitthvað svo undarlega. Það er eins og eitthvað vofi yfir...dauði einhvers eða eitthvað. Blómin eru náttúrulega að deyja. Það er sjálfsagt það sem er einhvers dauði...

Allir veikir í kring. Einhver ógeðsleg pest að ganga. Mamma varð rosalega veik og það þurfti að færa hana niður á sjúkradeild. Alltaf dettandi. Ég vissi ekki að hún væri svona veik. Hringdi í hana og hún talaði ekki í símann. Það var bara þögn á hinum endanum. Ég kallaði: mamma, mamma, ertu þarna...ekkert svar. Hún er víst brattari núna en það er skrítið að tala við ekki neitt í símann. Ég veit aldrei hvenær er best að hringja lengur. Yfirleitt liggur vel á henni á kvöldin en þetta fannst mér voðalega skrítið. Hún talaði tóma steypu líka.

Eins og ég segji þá er ég bara tóm inn í mér og kannski er það bara hausttómið.

föstudagur, september 14, 2007

Óska eftir....


...bloggörum sem eru í háskólanámi. Vantar 3 stykki til viðtals við mig vegna rannsóknar sem ég er að gera. Koma sohhh!

fimmtudagur, september 13, 2007

Bach-man


Ég er alveg ógeððslega montin með mig í dag. Sat sveitt fyrir framan píanóið í morgun og klóraði mig svona helvíti vel áfram. Eitthvað eftir Bach...ósköp simpilt, Minuet í G eftir Bach. Það má krydda hlutina soldið með að segja Bach.

Elska þetta píanó í tætlur. Maður lokast algerlega frá umheiminum og er bara upptekinn við þetta eina dæmi. Massa góð slökun. Sérstaklega þegar ég er nánast hætt að spila tölvuleiki sem mér þótti svo skemmtilegt en það er bara enginn tími fyrir slíkt því þeir taka svo langan tíma þ.e. þeir sem ég vil spila. En píanóið er algerlega að taka við. Mig bráðvantar hins vegar upphitunaræfingar. Einhver þarna úti sem getur reddað mér soleiðis?!

miðvikudagur, september 12, 2007

Blogg um ekki neitt


Ég er með finnsk nöfn á heilanum þessa dagana:

Aki Kaurismaki
Mika Hakkinen (veit ekki hvernig maður setur punktana yfir a-ið)

og svo þegar heilinn man ekki meir koma nöfn eins og
Akira Kurosava
Haruki Murakami...

Veit ekki af hverju...ég er í fornaldarheimspeki, gagnrýnni hugsun, stjórnmálaheimspeki, eigndlegum rannsóknaraðferðum og ekkert þessara nafna koma fyrir þar. Kannski bara af því að Kaurismaki er að koma til landsins.

Annars varð ég að sleppa fyrirlestri hjá nóbelskáldi í dag út af móðurhlutverkinu og þótti það miður þar sem mælt var með því að við sætum hann út af stjórnmálahesi. Á meðan frægir kallar eins og Pétur Gunnarsson aka Punktur kommur og strik, brunuðu upp tröppur Aðalbyggingar (hristandi dropana úr regnblautu hárinu) til að missa nú ekki af og Hátíðarsalur var troðinn út úr dyrum þá var ég á leiðinni út! Oj bara. Stundum er það synd að eiga sig ekki alveg sjálfur. Kannski hefði ég getað tæklað þetta en ég bara hugsa stundum ekki skýrt fyrir öllum verkefnunum sem bíða mín.

laugardagur, september 08, 2007

Hold me now!

Ju...nostalgían yfirgefur mann inte!

Endurminningar


Það er ekki bara Múmínpabbi sem getur sest niður og skrifað endurminningar...
ég sé fyrir mér herbergið sem var alger launhelgi þangað til að systir æskuvinkonu minnar flutti í burt og við litlurnar fengum að upplifa þessa launhelgi...og nú hlusta ég á Tracy Chapman's Fast Car og Revolution og minnist þessa litla herbergis sem vísaði að glugga míns eigins heimilis...sem var bar lítil kompa full af gersemum fyrir litlur...
bött! Júf gott a fast kar...bött is it fast ínöff só ví kan flæ avei?


...So remember we were driving driving in your car
The speed so fast I felt like I was drunk
City lights lay out before us
And your arm felt nice wrapped ’round my shoulder
And I had a feeling that I belonged
And I had a feeling I could be someone, be someone, be someone...

laugardagur, september 01, 2007

Nokkrir vinnufélagar ætla að mæta í kveld og ég er á fullu að koma draslinu mínu fyrir sem á að fara í sorpu en sökum þess að skrjóðurinn helv...djöhh...já, þá verð ég bara að koma því fyrir hingað og þangað um eignina. En það var ekki það sem ég ætlaði að tala um.
Sonurinn er nefnilega að góna á Múmín og allt í einu heyri ég Snúð segja að einhver líti illa út að neðan! Það má mistúlka það! Ég flissaði lítið eitt með moppuna...reyndar var Snúður að tala um bátskrjóð sem þau fundu.

Skólus

Duldið spennandi en Hannes H. Gissurarson verður einn kennaranna sem koma til með að birtast í stjórnmálaheimspeki. Ég hlakka mikið til að sitja í tíma hjá honum. Ég sat einu sinni í tíma hjá leigjandanum hans og svo dó hún skömmu síðar.
Ég vona samt að Hannes deyji ekki.

Gamli framhaldsskóla-kennari minn mun líka birtast, hann Atli frændi bróðir hans Bjarna frænda. En ekki sem stærðfræði kennari heldur heimspeki kennari. Það er líka spennandi. Hlakka mikið til. Kannski finnst mér ég vera komin heim til mömmu bara og kannski held ég að ég sé 18 ára í smá stund. Hlakka til að sjá hann setja hökuna í bringuna og þramma fram og til baka við töfluna. Ég vona að ég skilji hann líka betur en forðum daga...ég þori kannski að spyrja líka ef ég skil ekki. (Það er nefnilega svo skrítið við að spyrja kennara að þeir svara manni og maður skilur ekki svarið svo maður reynir að útfæra svarið betur af því að mann grunar þá um að vita ekki hvað maður er að spyrja um og þá kemur ennþá skrítnara svar út úr þeim svo maður hættir bara að spyrja. Ég gruna að þegar svona kemur upp þá hefur kennarinn í raun, ekki skilið upphaflegu spurninguna hjá manni.)

Kannski tek ég upp á því að fara að skrópa eins og vitleysingur, svo mikil verður nostalgían!