laugardagur, desember 15, 2007

Próf

Ég á að mæta í próf eftir 3x 15 mín. Og ég er gjörsamlega tóm í kollinum. Ég held að ég verði að leggja mig eftir prófið. Búin að vera að nánast í alla nótt.

Krossa putta og vona að ég geti svarað einhverju. Kennarinn er snillingur og veit svo mikið að maður verður hræddur. Spurningarnar verða í samræmi við hvað hann veit mikið um efnið. Og það væri ekki ónýtt að fá snefil af hausnum hans í dag.

Góðar stundir

föstudagur, desember 14, 2007

Mont-eða ekki...

Verð að monta mig. Ég er stolt af þessum hæfileika en ég er með soldið gott tónminni. Var að pikka upp á píanóið Air eftir J.S. Bach og svo fór ég að gá hvort ég ætti það á safndiski og viti menn ég hitti á réttan stað á píaóinu. Ji hvað ég er stolt af mér að geta munað tóna. Hef til dæmis stillt gítar eftir minni.

Kannski var ég bara heppin...það er líka alveg inní myndinni... :) En það er ekkert gaman að hugsa svona. Það eflir ekkert hæfileika manns. Bara held áfram að halda að ég sé svona helvíti klár. Kannski ætti ég bara að bjóðast til að syngja C-nótu fyrir kennarann á morgun og hann útskrifar mig úr námskeiðinu með hæstu einkunn.

Tásur

Mér er svo heitt á tánum að ég get ekki sofnað.

fimmtudagur, desember 13, 2007

Laus við bull skull rull og vatn

Pabbi kom eins og hvirfilbylur og fór eins og hvirfilbylur.
Tók ofninn af, tók af ofninum hluta, tengdi hann aftur og fór, bless, farinn norður. Og við bara horfðum á.

Ég græt þetta er svo fyndið - Takk Bedda/Svaný

My loony bun is fine Benny Lava!

Þreytt og sifjuð

Jæja, þá eru tveir sólahringar liðnir af vatnsdallaveseni. Því líkur vonandi seint í kveld. Ég sé eftir því að hafa ekki talið lítrana en ég held að það séu ca 5 lítrar á klukkustund sem við erum búin að setja ofan í klósettið. Það er frekar pirrandi að þurfa að standa upp úr prófalestrinum til þess að hella vatni. En hvernig haldið þið að það sé að sofa innan um drippiríið?! Hvað þá að þurfa að vaka yfir þessu?!

Heilinn á mér funkerar frekar illa en ég viðurkenni þó að frummyndakenning Platons og bullu-kvíarnar hans Aristótelesar heilla mig fyrir vikið. Verst að þurfa alltaf að rjúfa tengslin vegna þess að allt í einu fær maður tak í hjartað yfir því að vera að gleyma sér í bókum þegar fossinn er handan herbergisins.

Ég sver það ég held að ástandið sé alltaf að versna. Það er eins og ókunn öfl séu að reyna að passa upp á það að ég útskrifist ekki á réttum tíma eða hafi súperléilegar einkunnir þannig að ég þurfi að taka upp fullt af fögum til þess að hækka meðaleinkunina mína. Það er alltaf eitthvað.

Hvers konar líf er það ef maður á alltaf að vera að spá í hvað geti hugsanlega farið úrskeiðis þegar maður þarf síst á því að halda? Til dæmis þegar ég fór í prófið í vor og þurfti að hlaupa út í bíl með barnið í fanginu og 20 kíló af glósum (gagnapróf sko) og það var loftlaust eitt dekkið. Þetta sagði mér: ekki fara af nöglunum fyrr en prófin eru búin. Frekar að fá sekt hjá löggunni nappi hún þig. Ég hélt ég yrði ekki eldri þar sem ég stóð þarna úti í vorinu, klifjuð lífveru og gögnum. Fyrir utan það að þegar ég fór glöð að skipta voru sumardekkin ónýt og ég þurfti að gera svo vel að versla ný! Þakkaði Vísu mikið fyrir að vera til þá.

Get ég ekki bara sleppt þessu og farið að þýða fúlar ástarsögur sem lífsviðurværi? Sitja bara heima og forðast veröldina í kringum mig? Ég er orðin soldið þreytt á að fá alltaf einhverja tilgangslausa verkefnapoka þegar ég á að vera að sinna mér.


Svei mér þá...best að kíkja í balann og hella sér út í frummyndir: hugtök óháð tíma.

miðvikudagur, desember 12, 2007

Pasta frá Nokrr

Ég er orðin svo rugluð á þessum leka. Ég eldaði mér pastagutl frá Nokrr með öllu gsm-kryddinu í, og svo smakkaði ég til þess að gá hvort pastað væri hart. Svo var ekki. Gleymdi að fá mér á disk. Er alltaf að standa upp frá tölvunni til þess að fá mér smakk upp úr pottinum.

Ég hef verið í svo miklu netsvelti að ég hangi bara á blogginu og feisbúúk í stað þess að lesa Pladda og Ara og Plodda og Þalla og Anaxa og Anaxe og Demmó og alla þessa kalla sem gátu setið á rassgatinu og pætl út í bláinn af því að þeir voru frjálsir karlar í grískum borgríkjum. Og svo kom maturinn fljúgandi upp í munninn á þeim í spjallpásum. Og þeim fannst líkaminn svo æðislegur (Grikkjum) að þeir voru allsberir við íþróttaiðkun sína! Sjáiði fyrir ykkur maraþonhlaup og konfektið á fullu eins og þyrla? Ætli böllurinn og rest hafi ekki náð niðr'á gólf hjá eldri Ólympíu-meisturum? Síkkað? Þeir hafa ekki gegnið heilir til skógar heldur dregið skinnsekk á milli fótanna! Það hefur náttúrulega þótt fallegt líka, reyndir kappar og mikil virðing borin fyrir þeim.

Sumt var alveg voðalega frábært og skemmtilegt sem kom út úr þessum körlum en halló! Þeir héldu að konan væri hýsill fyrir barnið sem þeir potuðu inn í hana. Þeir töldu virkilega að þeir væru ábyrgir eingönu fyrir krakkið í bumbunni! Alveg út að skíta af hroka þessir frjálsu karlar.

...og lekur/vaktaskipti

Ég sit grútsifjuð við lyklaborðið, með núðlur til að fá kraft. Það er komið að mér. Að vísu klikkaði síðasta vakt lítillega og ræsti mig í angist yfir stórkostlegum vatnspolli sem hreiðrað hafði um sig á gólfinu. Öll tiltæk handklæði voru sótt og svo hófust djúpskúringar. Ég sé ekki fram á að fá að fara að sofa fyrr en um kvöldmat. Spurning hvort það sé einhver þarna sem getur bent á dall sem tekur ca eitt tonn af vatni svo fólk geti amk lagt sig.

Það er ótrúlegt hvað dropar verða fljótt að flóði. Eins og mér finnst taka langan tíma að láta renna í bað þá er þetta með ólíkindum fljót að fylla dall. En í staðinn fyrir að þurfa að tæma á 1-5 mín. fresti hefur okkur tekist, með hjálp svarta steikarpottsins (fæst í Hugkubb), að kaupa okkur ca 30 mín. En sá tími virðist eitthvað vera að styttast...

Og ég þvæ handklæði svo það séu hrein og þurr handklæði tilbúin ef annað slys ber að garði. Þyrfti í raun bara að setja þau í vindingu og svo í þurrkara. Hugsið ykkur orkuna sem maður sparar ekki. Bæði er ég að tapa vatnsmagni dauðans og nýta raforku á fullu, af dýrustu sort (þurrkarinn) til þess að þurrk'upp bleytu.

Annars langar mig að segja frá hugmynd sem ég fékk í fyrra dag. Það var verið að nudda á mér hálsinn og það streymdi svo mikil vellíðan upp í haus að mig langaði í tæki sem ég myndi tengja við heilann og tölvuna, síðan gæti ég submittað heilaskilaboðin á heilalesningarsíðu á netinu og fengið til baka hvaða vellíðunarefni heilinn hefði búið til og hvaða áhrif það hefði mér til góðs eða ills. Væri þetta ekki snilld? Ég heimta að Google bjóði upp á sona ukkað: "Já þetta hefur mikil og jákvæð áhrif á serótónínin, aukning, þarft ekki að endurnýja geðtöflurnar þínar næsta mánuð". Mjög gaman. Svo gæti maður leikið sér með tækið og gáð hvað heilinn væri að gera þegar manni finnst maður vera að búa viljandi til straum í allan líkamann. Alls konar furður.

Af hverju ætti maður ekki bara að lesa í heilann á sér eins og að vera með kameru og vinkað bróður sínum út í útlöndum á meðan maður spjallar við hann?

þriðjudagur, desember 11, 2007

Og það lekur og lekur...

...og lekur. Hringdi í pabbann aftur. Hélt kannski að ofninn myndi losa sig við allt vatnið svo maður gæti séð fram á að geta hætt að fylgjast með þessu. Nei segir pabbinn, það leki endalaust. Gaman að þessu. Hér hefur verið endalaust brotið heilann yfir því hvaða apparat við getum notað svo við þurfum ekki að standa upp á 3 mín. fresti til að losa skálar. Héðan fer enginn út á næstunni.

Hringdi í pípara sem sagðist ekkert geta hjálpað mér. Benti mér ekki á neinn einu sinni. Svo hringdi ég í eitthvað fyrirtæki sem hýsir pípara. Það kostar 20 þúsund að fá slíkan karl heim til sín. Það er verð fyrir 3 tíma hvort sem maðurinn er í tvær mínútur eða 20 mín. Útkallið er tuttugu þnúúsun krónur. Auk þess var enginn pípari til þess að koma og redda málunum. Mér skilst að sé maður tryggður fyrir svona útvegi tryggjó pípara um hæl. Svo segir daddý amk. En hér verður sum sé vakað í nótt. Spurning um að slá öllu upp í kæruleysi og fara bara á nokkra daga fyllerí inni í herbergi með kassettutækii. Taka upp dropahljóð og búa til sampl þegar pabbi loksins getur komið.

Mér finnst skrítið að fá "nei" þegar hætta er á vatnsskemmdum. Verð að segja það. Skítapakk.
Paaaabbiiii, fljóóótur!

Og svo prussar ofninn

Í morgun þegar ég vaknaði beið glaðningur á gólfinu fyrir neðan ofninn í svefnherberginu. Ég hélt að glugginn hefði lekið um nóttina en þegar betur var að gáð kom þessi agnarsmáa og fíngerða buna út úr ofninum í ljós. Hann lekur hreinlega. Það er bara gat! Ekki meðfram röri eða neitt heldur bara gat á ofninum!.

Vatnið er ekki heitt og engar skemmdir eru sjáanlegar. Það er eins og ofninn hafi tekið upp á þessu einhverntíma snemma í morgun. Ég hringdi í pabba sem ekki svaraði og ég átti æilegt bágt. En svo hringdi elsku karlinn, heyrði ekki í símanum sínum nýja, er eitthvað voða flottur samlokusími sem frúin færði honum. Hann sagði æ æ æ, að hann kæmist ekki til mín fyrr en á fimmtudaginn. En hann sagði mér að vera róleg og halda áfram að læra. Setja bara skál undir: "Og leyfðu drengnum að sulla svolítið í þessu".

Hann spurði hvort ég væri ekki tryggð. Ég er ekki tryggð. Ég er að bíða eftir því og hef verið lengi, að einhver læknir láti tryggingarfélagið fá eitthvað svo ég geti fengið einhvern tryggingarpakka sem ég óskaði eftir. Á meðan er ég ekki tryggð, eða hvað. Djöfuls vitleysa er þetta. Að það velti á lækninum manns hvort maður fái tryggingu í ákv. pakka eður ei! Mér skilst meiraðsegja að minn læknir "sé mjög sein að skila". Frábært.En ég er í prófalestri og verkefnavinnu. Þetta er auka álag. Ætli maður sé tryggður fyrir slíku hjá LÍN? Heimilisáföllum? Eða á maður yfirleitt að vera á kúlinu: "Ja, ofninn minn sprakk og það var allt út í vatni en ég má ekkert vera að spá í það. Verð bara í vöðlunum upp í rúmi", eða "Ja, mamma dó í bílslsysi í gær en ég er í prófum. Get ekkert verið að pæla í því núna. Verð að ná annars fæ ég ekki námslánin".

föstudagur, desember 07, 2007

Ótrúlega hamingjusöm

Merkilegt nokk miðað við síðustu færslu. En ég er svo glöð. Ég er búin að hanga á netinu í allan morgun frá því að Dagur fór á leiksskólann. Með kaffibolla, á náttfötunum, í morgunmyrkrinu, inn í fallegu stofunni minni. Á kafi í einhverju Facebook að leita að vinum og senda þeim krúttlegheit. Ji maður getur svo sannarlega gleymt sér í þessu. Og það er alveg rosalega gaman.

Ég nenni ekki neinu. Mig langar að dúlla mér í allan dag við eitthvað svona. En nú ætla ég að dúlla mér í verkefni sem er hreint ekkert leiðinlegt. Kíkja svo á Facebook öðru hvoru. Mér finnst að Kisa ætti að lesa fyrir heimspekiprófið og gera verkefnin mín svo ég geti bara verið áfram á tásunum með kaffið. Já svo á ég piparkökur sem ég kuffti í Svíkea í gær! Namm.

Góðar stundir

þriðjudagur, desember 04, 2007

Hið freka líf

Það er svo undarlegt þetta líf. Í hvert einasta skipti sem ég þarf virkilega á því að halda að sinna mér sjálfri, eins og að læra fyrir próf og klára lokaskýrslu, þá koma alveg undarlegir hlutir upp á.

Um miðja önn tókst mér að verða veik svo ég komst ekki í 50% lokapróf sem þá voru haldin. Fæ að taka 100 % í öðru námskeiðinu. Svo átti ég að skila ritgerð til þess að öðlast rétt til þess að taka hitt prófið auk þess að fara í munnlegt próf. Þá varð sonurinn lasinn svo ég var með hann í fanginu í stað þess að pikka inn ritgerð. Þannig að þar fauk það námskeið til fjandans.

Nú þegar ég hef hugsað mér gott til glóðarinnar og hef þó nokkuð marga daga framundan til þess að lesa á meðan barnið er á leiksskólanum...þá eru svo mikil veikindi á leikskólanum að óskað er eftir því að ég sæki hann fyrr en vanalega.

Hvað næst?

Stundum held ég að ég sé eitthvað biluð að hafa haldið það að nám og barn sé frábær blanda. Hvað var ég að pæla að fara í skóla með lítið barn? Ég er eitthvað klikkuð og kann ekki alveg að forgangsraða hlutunum. Mig langar helst til þess að loka augunum og opna þau aftur og allt er bara í góóðu standi. Að minnsta kosti líkja ekki stöðu minni við helvíti.

Ég er að hugsa um að baka bara köku yfir þessu öllu saman. Og skafa skítinn á milli tánna. Nenni ekki bölinu. Þetta væri allt svo frábært, ef ekki væri fyrir Lánasjóð íslenskra námsmanna. Að standa í skilum við bankann og mega ekki einu sinni verða veikur heldur manni algerlega stífum og tæpum á geði. Ég ætla samt að segja það að það er ótrúlegt að ég skuli hafa náð svona langt eins og það er búið að vera erfitt í kringum mig. En ég er heldur ekki með einkunnir upp á tíu. Þær bera þess alveg merki að ég er að klóra í bakkann hverja einustu önn.

En stundum er bara eins og hlutirnir hafi tilgang. Kannski gerist eitthvað ótrúlegt t.d. það að í millitíðinni á meðan ég er að grenja og vola yfir þessu, að félagsvísindadeild drullist til þess að viðurkenna BA gráðu upp á 2x 60 og ég geti tekið heimspeki til 60 eininga. Það væri óskandi. Nú eða eitthvað annarskonar mannlegt kraftaverk sem er mér hliðholt. Þetta snýst allt um það sé mér hliðholt. Hvað annað?! Ég trúi því að ég sé heppin...já sem minnir mig á það...ég lottaði og fékk 3 rétta. Eins gott að leysa það út.

Og þá baka ég marmaraköku (ekki bumbuköku!)