þriðjudagur, desember 30, 2008

Ert'ekk'jað grínast?!

Ég er búin að vera alveg vekk undanfarið eins og gefur að skilja. Hef setið og barið saman minningargrein í tvo daga, grátið, staðið upp frá tölvunni og sest niður aftur. Eftir allan grátin og orðin kemur í ljós að ég þarf að stytta greinina mína um 2577 slög! Eins og ég er búin að hafa fyrir því að vera hnitmiðuð. Ekki sátt. Ég held að það sé erfiðara heldur en að gráta og skrifa að setjast niður og meta hvað má missa sig. Það er fáránlegt einhvern veginn að glíma við slíkt í sorginni þegar manneskjan stendur manni svona nærri.

Svo við vinkona mín fórum með tvo litla drengi í sund. Þar fékk ég slatta af súrefni og fersku lofti og líður eins og hreinsuð. Kannski tekst mér að klippa þetta niður í frískleikanum.

Vá hvað ég er geðveik! Ég er að blogga.

föstudagur, desember 26, 2008Er syrtir af nótt, til sængur er mál
að ganga,
– sæt mun hvíldin eftir vegferð
stranga, –
þá vildi ég, móðir mín,
að mildin þín
svæfði mig svefninum langa.
(Örn Arnarson)

fimmtudagur, desember 11, 2008

Lifandi

Það er ég. En fjölskyldu-áföll og drömu ásamt prófum hafa ekki hvatt mig til bloggunar. Frekar leiðinlegt eða erfitt skulum við segja. En ég ætla mér ekki að hætta þessari bulluholu í bráð. Mér þykir hún frekar nauðsynleg svona til að minna mig á tilvist mína og minna fingra. Spontant hugmyndir detta hérna inn mér til mikillar skemmtunar, mér finnst ég meiraðsegja stundum soldið fyndin og það er gaman að finnast maður sjálfur eitthvað skemmtilegur. Hvort sem öðrum finnst það eða ekki þá er sjálfskátína hin mesta skemmtun og mikið hrós fyrir manns einkasjálf að koma sjálfri sér á óvart. Svona eins og að fá 9 á prófi og finnast maður ekki hafa skrifað nokkuð af viti.

Ég hef takmarkað þol fyrir málefnum líðandi stundar og er orðin þreytt á klifinu um breytt þjóðfélag og aðgerðir. Menn tala bara og tala, vara við og svo framvegis. Mig langar meira að vita hvað er að gerast, hvernig menn gera það og hvað er í stöðunni. En allt er á huldu eins og ætíð. Feluleikur.

Síðan eru það nornaveiðarnar: "Áttu ekki að segja af þér af því að þú vissir ekki þetta eða hitt, getur þú setið áfram þrátt fyrir bla bla bla, menn verða að sæta ábyrgð, hver ber ábyrgðina, ætlar enginn að axla ábyrgð, ber þér ekki skylda til að vita allt, ætlar enginn að segja þetta var mér að kenna sorrí ég er hættur farinn?!"

Kreppan leysist örugglega ef menn segja af sér.

Ég heyrði viðtal við viðskiptaráðherra um daginn þar sem einmitt slíkar spurningar voru bornar á borð um einhver tengsl í einhverju máli. Einhverjir Baugskallar og tengls sem voru ekki æskileg og mikið húllum hæ yfir hvort hann hefði vitað af þessum tengslum og svo framvegis. Ég spyr:
Hvað með þá sjálfa? Af hverju sögðu þeir ekki sjálfir frá tengslunum? Vissu þeir það ekki heldur? Þetta er bara frábært. Viðskiptaráðherra að segja af sér/vanhæfur eða ukkað, vegna þess að hann vissi ekki af tengslun sem tengslin vissu væntanlega um sjálf en sögðu ekkert við?
Ég næ þessu ekki alveg. Eru menn algerlega án nokkurs siðvits?

fimmtudagur, nóvember 13, 2008

1.000.000

Tími til komin að láta hárugan nára hverfa. Ekki að ég hafi eitthvað (ukkað er í fríi) að segja en það er aldrei að vita hvað gerist þegar puttarnir manns hamast á lyklaborðinu. Alveg með ólíkindum hvað hugmyndir eiga til að streyma í gegnum kroppinn manns þegar pikkiríið hefst. En ég hef ekki mikið að segja um það sem er að gerast í þjóðfélaginu þar sem mér finnst allt vera svo gloppótt og upplýsingar af svo skornum skammti að maður er ekki í stöðu til þess að hafa neina skoðun!

Og þó, það væri svo sem gaman að vita hvað varð um peningana sem útlendingarnir lögðu inn í bankana. Eru auðkýfingar virkilega svo miklir sauðir að þeir notuðu þá til að fljúga í einkavélum sínum eða fjárfestu þeir í einhverju bullinu? Hvort ætli sé? Eru snekkjurnar keyptar fyrir þessa peninga eða eru þetta fáránlegu laun íslenskra bankamanna sem þeir skömmtuðu sér? Eru peningar þessa fólks starfslokasamningafé? Hver þarf 1.000.000 á mánuði á Íslandi?

Það er vel hægt að komast af með 200.000 þús. Ekkert gaman svo sem, engar leikhúsferðir, utanlandsferðir eða út að borða, bara heimabíó og örbylgjupopp. Ódýrara en að fara í bíó. Hver þarf að fara í bíó? Það er skítkalt í bíó. Flatskjá og græjur; alveg nóg. Ódýrara að kaupa sér bíómynd heldur en að leigja hana...tekur soldið pláss á endanum. Svo má fara á bókasafnið til að ná sér í lestrarefni fyrir 1300 árið og svo kostar 300 kr. að skreppa í sund vilji maður gera sér dagamun...svo má fara til ömmu að sníkja garn til að prjóna og hafa gaman af því...

Líklega er ég ekki með sömu áhugamál og fólkið með 1.000.000. Kemst að því þegar ég fæ ofurlaun hvort áhugamál mín breytast eitthvað. Kannski færi ég reglulega í klobbasnyrtingu, hver veit?

föstudagur, nóvember 07, 2008

Sundferð með kreppuklobbann


Ég kann bara vel við mig í dag. Veðrið er geggjað og ástæða til að fara með soninn í sund eftir leikskóla. Hvaða laug verður fyrir valinu veltur á systur minni ef hún skildi koma með. Annars förum við tvö út á Nes því hún er dásamlega fámenn alltaf. Svo er öðruvísi stemning út á Nesi heldur en í Errvíkinni. Yfirvegunin er með ólíkindum. Mar ætti kannski að flytja þangað...

Hversdags-vesenið er áhugavert og skemmtilegt þegar maður veit um alla sem eru úti að skíta fjárhagslega með manni. Ég veit ekki hvursu mikið ég er úti að skíta en ég á alla vega ekki í matinn. Ég er svo dugleg að borga skuldirnar. En það er til kaffi og barnið fær mat á leikskólanum. Það nægir. Prófamaturinn minn hefur alltaf verið kaffi, sígó og mandarínur. Öðruvísi get ég ekki lært. Enda nálgast mín 46 kílóin hratt á prófatímanum. En ég er með forðabumbu sem situr framan á mér og pressist upp úr buxunum.

Kreppuklobbinn kominn í tísku þannig að ég þarf ekki að skammast mín lengur fyrir að hafa ekki áhuga á að ráðast á dúninn inn í nærbuxunum. Mér skilst að rökunar-tískufyrirbærið sé einfaldlega til að gera karlmönnum þann greiða að vera ekki með hárflóka í munninum meðan verið er að framkvæma ákveðna athöfn. Ég bendi því konum á að í dag geta þær einfaldlega sagt þeim að þetta sé ókeypis tannþráður! Eina sem mér þykir leiðinlegt við kreppuklobbann er að hann skuli endlega þurfa að kíkja undan sundbolnum. Hef alltaf ætlað að kaupa mér sundbuxur svo ég fái að hafa minn í friði og losna við kantskeringar sem valda þvílíkum kláða að maður er eins og fáviti með hendurnar í klofinu í kassaröðum Bjánusbúða svo dæmi sé tekið.

miðvikudagur, október 29, 2008

Skaut mig í fótinn


Það er ekki "svo að" sem er rangt heldur "sem að". Ég læri sum sé...jáf...ekki fljótt og vel.

Dreymdi skrítinn draum og mjög táknrænan að ég held. Ég var að prjóna peysu með mynstri. Ég kann ekki að prjóna mynstur og gengur illa með peysuna sem ég er að prjóna í raunheimum. En í draumnum hélt ég að ég væri að prjóna eins og mig langaði að prjóna þ.e. peysuna í raunheimi en þegar ég fór að fylgjast með mér prjóna var ég greinilega að prjóna mynstur á peysuna. Í draumnum var ég svo hissa að mér var litið á peysuna alla og sá að hún var öll niður njörfuð í mynstri. Svaka flott peysa en ekki peysan sem ég hélt ég væri að prjóna!

Í kreppuástandi eins og nú fer maður óhjákvæmilega að huxa um tölur og stærfræðikunnáttu sína. Frænka sonar míns sýndi mér kennslubók í stærðfræði sem dóttir hennar á...eða ríkið á ég veit aldrei hver staðan er með skólabækur. En hvað um það hún fór að segja mér frá þeirri aðferð sem verið er að tilraunast með í dag en það er að börnin finni sér leið til þess að komast að réttri niðurstöðu á eigin spýtur. Mér varð hugsað til þeirra tíma þegar ég var lítil og uppgötvaði mér til mikillar skelfingar hvað ég kæmi svakalega illa út væri ég í uppgötvunarkennslu í dag.

Ef ég fengi dæmi þar sem ég yrði beðin um að leggja saman fætur 8 hesta og 4 svína myndi ég fara í flækju. Nú er ég að rifja upp eins og ég var sem barn. Það væri alveg sama hvað kennarinn segði mér um að leggja fæturna saman ég myndi ekki heyra neitt af því sem hann segði vegna þess að ég er þegar búin að sjá í hendi mér að fætur á hestum og fætur á svínum eru ekki sömu fæturnir og því ekkert hægt að leggja þá saman! Þetta eru ekki sömu dýrin. Ég fengi því aldrei rétta niðurstöðu því ég væri komin með meinloku þá að reyna að fá fjandans fæturna til þess að líta eins út svo hægt væri að leggja þær saman. Ég væri í mesta lagi komin með tvær tölur, annars vegar fyrir svínafætur og hins vegar hestafætur.

Svona hef ég alltaf verið en skánað með aldrinum. Ég væri hins vegar alveg til í að fá skýringu á hugsunarhætti sem þessum. Gæti komið mér til góða þegar sonurinn fer að erfa þetta eftir mér. Hvað ætli það séu mörg börn núna í þessari klemmu í dag? Ég er örugglega ekki ein í heiminum með þessa fullkomnunarfötlun!

þriðjudagur, október 21, 2008

Ukkað

Ég er algerlega andlaus þessa dagana. Og er frekar fúl yfir því.
Ég rembist við skólann, peysugerð og svo skrepp ég og les hljóðsnældur hjá Blindróbókósafnó.
Afskaplega notalegt líf svo sem. Voða rólegt ukkað.

En ég er alveg glötuð í tungumálinu íslensku. Veit ekki djakk! Fæ sorglegar einkunnir úr textagerðanámskeiðinu! Mikið er það furðulegt að vera lélegur í málinu sínu. Ef ég ætti að fara í gegnum bloggfærslurnar mínar eins og verkefni í textagerð myndi ég eyða öllu af helberri skömm.

Djísjúss...

Ég ætla ekki að eyðileggja pælingar mínar á þeim forsendum. Ósanngjarnt gagnvart mér. En ég ætla að reyna að skrifa ekki "svo að" í framtíðinni. Ég læri sum sé mér til mikillar furðu! Stundum verður samt aðeins að fá að leika sér. Mar má ekki tapa sér. Væri gaman að skella inn færslu í Íslendingasagnastíl. Þa ku vera svo voðalega fín íslenska.

sunnudagur, október 12, 2008

Algjört DarlingTilviljun réði algerlega þessu kodak mómenti.
Hann veit hins vegar að þetta er/var peningur
sem er nokkuð gott miðað við kortamenningu þá
sem hann hefur alist upp við.

laugardagur, október 11, 2008

Þátttaka mín

Sem ég er að skrolla í gegnum blogg Silfurs-Egils fann ég þetta einstaklega skemmtilega blogg. Ég er grenjandi hérna úr hlátri. Þetta er svo dásamleg hugmynd að ég vildi óska að hún væri mín eigin!

Annars sit ég sveitt við prófalestur og verð svo brjáluð í leiðinni að ég þarf að standa upp nánast eftir hvert einasta paragraf og böslótast út í samfélag sem skortir siðferðilega dýpt. Ég er nefnilega að lesa fyrir próf í stjórnmálaheimspeki og hver snilldin á fætur annarri um hvernig skynsamlegt samfélag fúnkerar gerir mig svona kolbrjálaða. Einhverjir karlar eru fyrir löngu síðan búnir að setja á prent fullt af skynsömum leiðum til að halda utan um samfélag en alltaf verður breyskleiki mannsins ofan á.

Núna er ég að undirbúa prófspurningu um Locke og Hobbes og eftir að hafa lesið Locke velti ég því fyrir mér hvort aðgerðir stjórnvalda standist stjórnarskrá og og lög um mannréttindi? Ég er ekkert svakalega vel að mér í stjórnarskrá okkar, á þennan litla bleðling einhversstaðar. En ég velti því fyrir mér hvort þessar björgunaraðgerðir að hálfu ríkisins séu eina leiðin? Að þegnarnir blæði í sameiningu á kostnað einstaklingsmiðaðrar markaðshyggju? Ég skil það ekki alveg. Er sum sé verið að segja manni að einkavæðing sé frábær þangað til að eitthvað svona gerist? Þá eigum við að standa með einkavæðingunni? Þá sé tími til kominn að snúa bökum saman og standa saman? Við erum að tala um fólk sem fær starfslokasamninga þar sem upphæðirnar eru margfalt það sem ég á eftir að vinna mér inn á allri minni ævi!

Ég næ þess öngvan vegin! Á viðskipti er litið sem um ópersónuleg samskipti sé að ræða enda peningar sem teljast vera ópersónulegur og tilfinningalaus hlutur sem stanslaust er tönglast á að séu algert aukaatriði. Þetta sé einungis nauðsynlegt verkfæri innan viðskiptarammans, sem er ópersónulegur og ekkert er illa meint, bara viðskipti, mér er ekkert illa við þig persónulega, kæra þjóð, þetta eru bara viðskipti og þau fóru út um þúfur í græðgi minni.

Þetta er bara bull. Það er ein tilfinning, sem fólk verður að taka sem gefinni. Ætli að þetta sé ekki sú tilfinning sem á hvað erfiðast með að standa í "ópersónulegum" viðskiptum. Og það er traustið. Peningar snúast um traust. Traust er tilfinning. Peningar eru því ekki með öllu ópersónulegir og viðskipti ekki heldur. Það er niðurlægjandi að hafa treyst einhverjum sem fór illa með það traust. Og það er mjög erfitt að endurreisa traust eftir gjaldþrot þar sem slegið er upp að þetta séu bara peningar til þess að réttlæta svik.

Ég óska eftir því að ég sem þegn þessa ríkis að eigur þess fólks sem um ræðir séu FRYSTAR UNDIR EINS! Allar innistæður í öllum bönkum í heiminum, fasteignir, bílar. Í upplýsingasamfélagi nútímans er vel hægt að komast að því hvað fólk átti áður en það varð gráðugt. Setjum það bara á sama level aftur. Það er fáránlegt að bankaliðið sé á sömu launakjörum og það setti sér. Það hefur enginn Íslendingur að gera með 10 millur á mánuði. Hvað þarf svona voðalega mikið að kaupa? Það er vel hægt að komast af með talsvert minna...ja kannski þangað til í dag...
Málefnaæsingurinn er svo mikill að ég meika ekki að pæla í stafsetningu. Ég vona að ég komist í gegnum efnið fyrir próf vegna reiði.

þriðjudagur, október 07, 2008

Ótrúlega hressandi tímar framundan

Það er'að koma próf skúbbí dúahh
það er' að koma proooohhóóóóófff
og ég er komin með í ennisholurnar
það er' að koma próóóf skúbbí dúahh

Ég verð svakalega hress og kát næstu daga og hamingjusöm og allt svo jákvætt sem mögulegt er að finna í heiminum...það er svo gaman að vera til og ég er svo bjartsýn. Svo bjartsýn að ég ætla að fara að fá mér kex með smjöri, sultu og osti.

þriðjudagur, september 30, 2008

Allt of mikið af verkefnum í haus. Hvað á að gera við svona haus?

Ég er að lesa svo mikið af bókum að ég má ekki vera að þessu. Og svo dettur mér ekkert skemmtilegt í hug. Bankamálin ekki til umræðu. Fiskabúrið er orðið skítugt aftur og húsið er smá fatlað vegna framkvæmda. Svo eru að koma próf djísúss minn góður. Og ég er ekki tilbúin.

Kosturinn við að fara í skóla þegar maður telur sig vera orðinn skynsamur í kollinum er sá að maður hefur gaman af því sem maður er að fást við. Ókosturinn er að vera ekki á l'Hotel Mama þar sem hugsað er fyrir öllu fyrir mann, hrein föt inn í skáp og matur á borðinu, gætt að því að síminn sé ekki að svindla á manni, allir reikningar greiddir á tilsettum tíma o.s.frv. Praktískir hlutir í höndum einhvers annars alfarið og maður þarf bara að hafa áhyggjur af að skila verkefnum á réttum tíma eða í mínu tilfelli AÐ SKILA VERKEFNUM!

Ég held að ég sé með of mikið að gera. Kannski ætti ég að fara að taka gulu möppurnar í hausnum á mér og gera það sama við þær og maður gerir stundum við spilastokk: sprauta þeim upp í loft. Helst ekki inni hjá mér samt. Fara út í Gróttu og dæla þeim út í sjó. Keyra svo úthreinsuð heim aftur. Jamm ég væri til í það.

Stóð mig að því um daginn að vera að telja loftbólur í kaffibollanum mínum. Tók eftir því að þær voru mismunandi að stærð svo ég tók að flokka: stóru sér og litlu sér...
Þá er nú einum of langt gegnið!

fimmtudagur, september 18, 2008

Stjórnleysi heilabús míns.

Eins og ég hélt þá er lífið að taka frá mér blogg-dúlleríið. Hér er verið að brjóta allt og bramla út af hundleiðinlegu röri sem lekur. Gólfið hjá mér er heitt og notalegt þar sem lekinn er.

Ég hef því nóg af verkefnum og er að drukkna. Heilinn í mér starfar ekki sem skyldi í öllu þessu kraðaki og flokkar allt í vitleysu. Ég sé fyrir mér yellow folders fljúgandi út um allt höfðuð. Veit ekki hvað er í forgang og er ekki fær um að vinna vel úr þeim örfáu klst. sem eru aflögu.

Ef gulur leki kemur úr nefinu á mér veit ég að ég er að glata upplýsingum af harða drifinu sem ég veit ekki hverjar eru. Sem í sjálfu sér er ekkert slæmt þar sem ég á aldrei eftir að sakna einhvers sem ég veit ekki hvað er.

miðvikudagur, september 10, 2008

Móar

Bloggið mitt er að breytast í íslenskukennslu og því ekki úr vegi að fjalla um sagnorð en frægum bókmenntafræðingi sem ég hef starfað með síðastliðin þrjú sumur datt í hug þá snilld að fallbeygja nafn mitt þannig að það breytist í ja...sagnorð eða lýsingarorð eða eins konar stigbreytingu? Er hreint ekki viss:

Sunna
Sann
Sunnum
Sonnið
Ætlaði að vera með ærlega matarveislu sem breyttist í viðbjóð við eldun (nafnyrðing sagnorðsins að elda). Kjúklingur frá Móum breyttist í blóðbað dauðans ofan í djúpsteikingarpottinum og minnti fjölskyldufólk óþægilega á Rambó 4 sem við horfðum á fyrir stuttu. Rambó 4 fjallar aðallega um kjötflykki úr manneskjum sem dreifast um loftin blá og axlabreiðan dverg með ennisband. Dvergurinn er ekki saklaus af því að taka þátt í kjötflugssýningunni.

Ætlaði mér að taka mynd af kjúllus svona til að benda fólki á að Móar eru ekkert sérlega duglegir við að blóðga almennilega fiðurlaust fé sitt en
Móum til hjálpar kom myndavél hússins
batteríslaus og allt.

Batteríin eru í hleðslu!

þriðjudagur, september 09, 2008

Versl og kaup

Ég er í námskeiði sem nefnist textagerð og við fengum verkefni í dag sem við eigum að leysa fyrir föstudaginn...að ég held. Verkefnið felst í því að í fyrsta hluta eigum við að leiðrétta 4 eða 5 setningar, sjáum við eitthvað athugavert við þær. Í seinni hlutanum eigum við að færa rök fyrir skoðun X annars vegar, sem heldur því fram að setningarnar séu vel skiljanlegar og því þurfi ekki að leiðrétta þær, og Y hins vegar, sem heldur því fram að setningarnar eigi að lagfæra. X og Y fá þrenn rök hvor sér til stuðnings. Ég hlakka ekki til að rökstyðja X...né Y...

En hvað um það. Ein setninging hljóðar svo:

Kona nokkur, sem er kvænt Dana, kvaðst munu færa systir sinni útvarpið sem hún verslaði.
Kennarinn valdi þessa setningu til þess að kynna fyrir okkur í hverju verkefni okkar fælist. Þegar hann fór í gegnum reglur þess að kvænast og giftast gat ég ekki á mér setið vegna þeirra samfélagslegu breytinga sem hafa átt sér stað. Benti honum á að við værum með konu sem menntamálaráðherra svo Daninn hljóti því að vera kona. Kennarinn (sem er karl nota bene) sagði að svo gæti vel verið.

Sessunautur minn (kona) sagði mig vera anal og bað mig vinsamlegast um að þegja í komandi tímum. Vel meint...held ég.....vúpps!

Við komumst ekki lengra með setninguna því tíminn var búinn. En það er nokkuð ljóst að setningin þarf mössunar við. Verslar maður til dæmis útvarp? Kaupir maður ekki útvarp? Ég fór út í búð að kaupa og ég verslaði útvarp og brauð...? WTF?

mánudagur, september 08, 2008

Geit á reit


For viewing Only?! Sem sagt myndin er ekki drykkjarhæf? Er átt við það?
Annars er skólinn byrjaður og það þýðir að bloggfærslur eru kannski það fyrsta sem mér dettur í hug til þess að losna við skyldurnar eða öfugt þ.e. skyldurnar að eta mig lifandi.

Hóf lestur hjá Blindrabókasafni Íslands í dag eftir margra ára hlé. Mjög skrítið að halda áfram með bók sem ég byrjaði á fyrir 12 árum eða ukkað...nei ekki alveg svo slæmt. Klára hana í vikunni og get fengið eitthvað nýtt kræsilegt. Er að lesa Rokkað í Vittula sem er ekkert sérlega auðvelt að lesa upphátt en er mjög skemmtileg bók. Hló nokkrum sinnum og þurfti að spóla til baka til að eyða flissinu og brosinu af "teypinu". Það heyrist strax þegar maður brosir...einnig þarf maður að passa sig að vera búinn að borða því garnagaul lekur léttilega inn á svo næmt er þetta. UUrrrrg heyrist alveg örugglega á einhverjum hljóðskræðum sem ég hef lesið í fátækt og svelti. Vel á minnst:

Þa er kominn matur.

fimmtudagur, september 04, 2008

Vínið og....................................................................... svínið

"Láttu ekki vín breyta þér í svín" segir í auglýsingu þessa dagana. Síðan koma svipmyndir úr lífi nýrrar tegundar sem ég hef aldrei séð áður, einskonar manneskja sem hefur nef og eyru áþekk svínum. Þessi tegund skjögar og pissar utan í vegg, keyrir bíl þrátt fyrir að hafa greinilega einhvern erfðagalla og hefði alls ekki átt að fá bílpróf frekar en blind manneskja og rífst og skammast fyrir framan barnið sitt þrátt fyrir að valda óþægindum. Barnið virðist lítið eiga skylt við foreldrana, er að öllum líkindum ættleitt.

Að vín breyti fólki í svín er ágætis rím...en þegar auglýsingin klikkir út með "drekktu eins og manneskja" fallast mér alveg hendur. Ég veit ekki betur en að það séu einmitt við manneskjurnar sem eigum það til að drekka frá okkur vit og skynsemi og taka upp svipaða hætti þessarar nýju manntegundar. Svín drekka ekki áfengi mér vitandi og því væri það einmitt hvatning að æskja þess að mannfólk drykki eins og svín

...en svín nota ekki hendurnar sínar því þau hafa engar...

Kannski er það þess vegna sem við erum beðin um að drekka ekki eins og þau? Af því að það er ekki mannsæmandi að vera á fjórum fótum og lepja vatn? Hugsaði ekki alveg út í það...

Engu að síður er hér auglýsing sem hittir engan vegin í mark. Góð auglýsing um offarir í drykkjuskap á að vera svo öflug að maður fær timburmenni af því að horfa svo og móralinn. Ég finn enga samsömun með svínslegum manneskjum.

Nær væri að segja okkur að gæta hófs og höfða til skynseminnar (svo lengi sem hún býr með þeim sem horfir) með hjálp góðra og gamalla fræða (t.d. úr Hávamálum, Platon, Aristoteles...) til að benda okkur á að manneskjan er enn, eftir öll þau ár síðan hún uppgötvaði vínvímuna hátt upp í fjöllum Georgíu, að spóla í sömu hjólförunum og komin á 100 tommu dekk í þokkabót til að dýpka almennilega í vandræðum sínum. Ekki útópíu þar sem svín sulla í Sancere.

Ef við hugsum til þess sögulega hvað við erum alltaf að gera það sama þrátt fyrir að halda að við séum í svo agalega mikilli þróun og séum svo miklu betri einstaklingar heldur en fólk sem var uppi fyrir 2500 árum (er mótaði menningu vora og hún hefur ekki mikið breyst síðan þá!) er ágætt að upplýsa fólk að við erum enn að bögglast við nákvæmlega sömu samfélagslegu vandamál og forforforforfeður okkar, hvað varðar menntun, stjórnmál og félagsleg vandamál eins og ja...drykkju. Skynsemin er ekki manneskjum í blóð borin og því er ekkert endilega skynsamlegt að drekka eins og manneskja.

Ég geri ráð fyrir að fara með vinnufélögum annað kveld á Rósarbjarg og ég hef hugsað mér að drekka eins og svín nema hvað ég ætla mér að sitja á stól og nota hendurna til þess arna.

þriðjudagur, september 02, 2008

Bak og vesen

Ég er að drepast í bakinu. Þett'er svona "halda í sér andanum" bakverkur í mjóhryggnum. Bara vont. Eins og þegar maður skellist á bakið í sundi og missir andan...ótrúlega óþægilegt ukkað.

Ætlaði í sund í mína uppáhalds laug sem er út'á nesi því þar er aldrei neinn og nóg pláss en svo fattaði ég að það er bölvað ves þegar maður er í klæða-vesininu. Nenni ekki drakúla-tepokum. Svo hangir alltaf spottinn niður eins og maður sé sprellikerling og er BLÁR á litin í þokkabót! Ómögulegt að fela þetta. Ég myndi ekki kippa mér upp við það að sjá á öðrum konum spotta hangandi neðan úr klofinu á þeim, myndi ekki taka eftir því vegna þess að ég er ekkert voðalega mikið að skoða á konum klofið, og sérstaklega ekki eftir að þær fóru að stílísera á sér skaparhárin, en sjálf er ég ekkert hress með að sýna öðrum konum spottann. Svo myndi sonur minn bara tosa í hann í gamni...hann reynir stundum að klæða mig úr í sundi, reyndar óviljandi, hangir í sundbolnum mínum og allt á leiðini í dagsljósið. Myndi ekki meika spottatosingar líka. En mig langar alveg voðalega í kraftmikinn straum á mjóbakið akkúrat núna. Og hégóma-brúnku!

sunnudagur, ágúst 31, 2008

Breyttir tímarEinhverjir muna þann tíma þegar til þess var ætlast af manni að skrifa dagbók í barnaskóla. Ukkurskonar dulbúin skriftaræfing. Hver einasti dagur var á þá leið:

Ég vaknaði klukkan hálf átta, fór á fætur og svo klæddi ég mig og síðan fékk ég seríjós í morgun mat og svo fórum ég í skólann (með tveimur N-um rembdist maður við að muna) og mamma í vinnuna.

Í dag þegar ég var vakin af þvagblöðrunni góðu (í dag?! Í morgun!) og fór fram með hana varð mér hugsað til þessara einföldu tíma. Núna myndi slík færsla hljóma öllu lengri. Hér er til dæmis ein:

Vaknaði klukkan sjö fimmtíu fimm við að þvagblaðra talaði í gegnum son minn og sagði: Mamma.......eigum vi a koma hramm? Ég samþykkti það en sonurinn ætlaði sér ekki að losa sig við þvagið, heldur fór beint inn í stofu hvar hann fann nammi í poka er gladdi hann mjeg. Ég fór í hótunar-gírinn og sagði að fyrst ætti að pissa morgun-pissið og eftir smá baráttu sagði sá litli: jæja þá. Eftir morgunpiss var kveikt á barnaefni Rúf sem er ótrúlega leiðinlegt sjónvarpsefni. Á meðan sonurinn hámar í sig viðbjóðslegan morgunmatinn fer ég inn í eldhús og laga mér kaffi. Meðan kaffið gerir sig klárt til drykkjar (þvílíkur lúxus) set ég í uppþvottavélina. Þegar kom að því að setja uppþvottaduftið í litla hólfið sitt, laust niður þeirri hugsun að ég sé alltaf að setja í þessa uppþvottavél og hvort ég eigi líf fyrir utan hana; svona hugsanir minna mig á að gefa serótónín-riddurunum mínum að borða og ég opna skáp sem er troooðfullur af fáránlegu drasli og krafla með fingrunum þar til ég finn réttan kassa þar sem búa tvílit hylki, gul og græn.
Skrúfa frá krananum og skelli Hemúlnum (nýji blollinn minn :D ) undir bununa, skelli hylkinu upp í munn, kyngi og minni mig á að tími sé kominn að kaupa meira uppþvottavéladuft.

Ég fer inn í lúxusherbergi heimilisins og kveiki á tölvunni. Þar fer ég að tvístíga vegna þess að litli frændi minn gleymdi tölvuleiknum sínum hjá mér. Ég var búin að finna diskinn en ekki hulstrið. Nú er ég búin að finna hulstrið en tapa disknum.
Ég bölva vísum stöðum í vísri óreiðu og fer að bora í nefið. Það er ekkert að finna í nefinu af viti. Þetta eru litlar horkleprur sem ekki er hægt að snýta og ekki hægt að bora út en eru óþolandi og ég gefst ekki upp. Græði ekkert.

Kaffið er til og ég finn Hemúlinn og fylli hann af ilmandi vökvanum. Tölvan er vöknuð og ég blogga nútíma barnaskóla-dagbókar-færslu með fullorðinslegu ívafi enda tel ég mig ekki vera orðin fullorðin. Veit ekki hvað það er eða hvenær sá hluti hefst þ.e. við hvað er miðað. Aldur? Mánaðarlega reikninga? Eða hugsunarhátt? Veit ekki. Mér finnst það alla vega ekki mjög heillandi hlutverk sem samfélagið æskir af mér, bæði erfitt og flókið. Hvar ætli ég geti sýnt ábyrgðarleysi sem mér yrði fyrirgefið?

Lausn:
Með því að hætta að setja í uppþvottavélina!

föstudagur, ágúst 29, 2008

Hver á fiskinn?


Ákvað að skella gátunni í dag. Man sjálf ekki hver á fiskinn en þetta er ótrúlega skemmtileg gáta

Fengið af Vísindavef HÍ;
Sagt er að Albert Einstein hafi sett fram þessa gátu:

Fimm hús í fimm mismunandi litum standa í röð frá vinstri til hægri. Í hverju húsi býr maður af ákveðnu þjóðerni, engir tveir af því sama. Íbúarnir fimm drekka ákveðinn drykk, reykja ákveðna vindlategund og hafa ákveðið gæludýr. Engir tveir þeirra drekka sama drykkinn, reykja sömu vindlategund eða halda sama gæludýrið. Aðrar upplýsingar:
 1. Bretinn býr í rauða húsinu.
 2. Svíinn hefur hunda sem gæludýr.
 3. Daninn drekkur te.
 4. Græna húsið er næsta hús vinstra megin við það hvíta.
 5. Íbúi græna hússins drekkur kaffi.
 6. Sá sem reykir Pall Mall heldur fugla.
 7. Íbúi gula hússins reykir Dunhill.
 8. Íbúi hússins í miðjunni drekkur mjólk.
 9. Norðmaðurinn býr í fyrsta húsinu.
 10. Sá sem reykir Blends býr við hliðina á þeim sem heldur ketti.
 11. Sá sem á hest býr við hliðina á þeim sem reykir Dunhill.
 12. Sá sem reykir Bluemasters drekkur bjór.
 13. Þjóðverjinn reykir Prince.
 14. Norðmaðurinn býr við hliðina á bláa húsinu.
 15. Sá sem reykir Blends býr við hliðina á þeim sem drekkur vatn.
Sá sem er innan við 15 mínútur að leysa þessa þraut myndi ég halda að hefði einhverja tegund -hverfu :) svona til að réttlæta minn eigin tregleika. Ég tek því fram að Einstein á að hafa haldið því fram að einungis 2% fólks geti leyst gátuna. Maður er því æstur í að afsanna sjálfan Einstein!
Nú eða monta sig af því að vera einn af þessum tveimur prósentum...
Njótið.


miðvikudagur, ágúst 27, 2008

Appelsínuvandinn - Rökfræði og stærðfræðileg huxun...

...er eitthvað sem mig skortir kannski ekki algerlega en ég er ekkert sérlega lagin við að leysa þrautir. Því einfaldari sem þrautir eru á ég erfiðara með að leysa þær. Og ég er lengi að. Miðlungs flóknar henta mér betur svona eins og þrautin góða Hver á fiskinn, ef einhver man eftir henni.

Ég var stödd hjá vinkonu minni um daginn sem sýndi mér kokkabók um hlaupgerð sem hún hafði krækt sér í. Það sem var hvað skemmtilegast við þessa bók var að jukkið í henni var ekki listilega vel gert heldur voru veitingarnar frekar klúðurslegar og litu alveg eins út og maður hefði gert þetta sjálfur. Það var ekkert verið að lítillækka mann með einhverju stórkostlegu skrauti og fögrum útfærslum. Hlaupjukkið var einfaldlega ljótt á myndunum og viðbjóðslegt á litinn.

En engu að síður innihélt þessi kokkabók smá þraut sem kokkabækur eiga til. Vinkona mín spurði mig hvernig ég héldi að þetta væri gert. Myndin var af skorinni appelsínu í báta en í stað appelsínu-kjötsins var hlaup. Ég sá náttúrulega svakalegt tæki sem hjálpaði hlaupinu að harðna ofan á appelsínu-barkar-bátnum. Hún sagðist líka hafa hugsað upp eitthvað svakalega flókið apparat og/eða aðferð við að koma hlaupinu í bátinn. Það hvarflaði ekki að okkur einfaldleiki aðferðarinnar við að koma hlaupinu svona fyrir.

En appelsínan er einfaldlega skorin í tvennt, kjötið skafið úr og svo er hálf-kúlan fyllt með hlaupi. Hlaupið storknar og síðan er skorið niður í báta!

Eitt sinn drullaðist ég að skoða lokapróf í stærðfræði þegar ég var í framhaldsskóla. Ég var nefnilega svo hissa að ég, sem gat ekki leitað aðstoðar hjá góðum vinum, fékk sjö sem er mjööög há tala þegar ég á í hlut auk þess sem ég klóraði mig út úr þessu algerlega sjálf. Kennarinn sagði við mig: Sunna, ég skil þetta ekki, þú ert að klúðra einföldu dæmunum en geta þau flóknu!

Hugsanlega útskýrði kennarinn ekki einföldu hlutina eins vel og þá flóknu, sem ég virðist þurfa, honum hefur hugsanlega þótt þeir einföldu sjálfsagðir (eitthvað sem kennarar mættu kannski taka til sín!). En engu að síður gat ég ekki appelsínuþrautina þó hún virðist borðleggjandi fái maður lausnina. Og þvílík niðurlæging!

Ég þykist ætla í inngang að rökfræði í vor og ég get alveg sagt ykkur það að með þessa appelsínu-hlaup-vitneskju kvíði ég alveg stórkostlega fyrir. Ég auglýsi því hér með eftir þrautum til að æfa mig fyrir vorönnina í von um að einhver hafi fattað á undan mér við þennan lestur lausnina á appelsínu-þrautinni.

þriðjudagur, ágúst 26, 2008

Vælustund trjá-Bjarkar

Hvers konar gáfukonu-besservissera-hjal get ég boðið upp á í dag? Svona þegar maður lítur yfir farinn bloggveg þá er maður nánast alltaf að segja það sama.

Ég luma á dagbókum sem ég hef skrifað í gegnum tíðina. Eins konar ruslakistur þar sem flest er látið flakka og aldrei litið í framar. Fyrir nokkru kíkti ég í eina sem var frá árinu 1998 og brá hvað ég er að glíma við nákvæmlega sömu vandamál. Hugsaði því með mér að ef þessi tiltekni hlutur er ennþá að bögga mig hvað í andskotanum gengur eiginlega að mér? Bloggið mitt er sjálfsagt líka slíkar endurtekningar. Bara ekki alveg eins þunglynt!

Ég reyndi einu sinni að halda bjartsýnisbók. Það var bannað að skrifa í hana neitt neikvætt. Allt átti að vera frábært og gott. Eins konar hjálp við hugarfarsbreytingum. Ég náði ekki að skrifa hálfa blaðsíðu um gleði. Á endanum var mér orðið flökurt og að kafna yfir að sitja á leiðindunum, sprakk og bókin varð útbíuð vonbrigðum sorgum, kvíða, sjálfshatri og þaðan af verra. Mér létti stórum, lokaði bókinni og leið miklu betur. Þvílík hreinsun! En svo hefur komið á daginn að ég setti allt hreinlega inn í bók og lokaði henni svo. Svipað eins og að fara til vinkonu sinnar og væla yfir sjálfum sér til að létta á sér, líða betur og fara svo í sama farið. Finna sér nýjar vinkonur því maður er búinn að kæfa þær gömlu eða fara í Tígrisdýrið og kaupa sér nýja bók af því að hin tekur ekki við meiru ógeði þó svo að 100 blaðsíður séu lausar í henni enn!

Fyndna er að ég treysti mér engan vegin að lesa fjandans dagbækurnar. Ég fæ alveg ógeð á sjálfri mér sem er hreint ekkert uppbyggilegt. "Djísúss, hvaða leiðinda píka er idda?!", hugsa ég og langar ekkert að fara í einhverja naflaskoðun. Meira helvítis huxið alltaf hreint! Hættu þessu væli og skipuleggðu líf þitt betur, segi ég, þar sem vælið er alltaf um tíma fyrir sjálfan sig og sjálfan sig. Svo ertu bara LÖT belja! Þess vegna er ekkert skipulag...Þá kemur hitt heilahvelið sem bendir massaranum í mér á að vegna of mikillar fullkomnunaráráttu kemur frestunaráráttan. Fullkomnunaráráttan segir að að hlutirnir eigi að breytast núna strax og ég láti hendur standa fram úr ermum, sjái síðan hvernig verkefnið sem ég hef tekið mér á hendur er svo stórt að heilbrigð manneskja myndi ekki láta bjóða sér þetta, slæ öllu á frest og fer svo að væla um tímaskort með tvö ankeri í sínu hvoru munnvikinu og herðakistil á bakinu nánast í gólfinu. Ég sver það að maður getur verið djöfuls fífl gagnvart sjálfum sér. Ég þarf stanslaust að minna mig á að ég myndi ekki segja við nokkurn mann það sem ég segi við sjálfa mig. Þrjóskan kemur því stundum upp í mér og ég reyni að segja við aðra það ljóta sem ég segi við sjálfa mig til að réttlæta meðferðina á mér.
Ég held að ég þurfi að hætta að hugsa um skilyrðislausa skylduboð Kants!!! Stórhættulegt helvíti.
Lítið mál að afbaka það með breyskleikanum...

Sakna Blönna. Hann var mikil andagift á sínum tíma.

sunnudagur, ágúst 24, 2008

Íslensk hreintungu-stefna!

Geiri Gullputti héðan í frá!
Starfsemi hans þykir mér svo hallærisleg og mér hefur alltaf þótt uppspretta slíkrar atvinnusköpunnar, sem hann og fleiri hafa komið á laggirnar hér á landi, samfélagsleg afturför.
Gullputti þykir mér því sóma betur en enska orðið því það er jafn hjákátlegt og rekstur súlustaða og klobbaglenninga kvenkyns einstaklinga. Að hafa atvinnu af því að rassgatast framan í fólk sýnir dómgreindarleysi að beggja hálfu. Bæði eru að hafa sig að algeru fífli.

Sem líkamsræktartæki er súlan sjálfsagt ágæt og sem slík sjálfsagt framför. Tilbreyting frá því að traðka á vöðvunum sínum í Heims Klassa innan um dauðans svitafýlur og gráa boli með viðbjóðslega svitabletti á bringu, undir höndum og aftan á hnakka, kringum klofið. Komum fjandans súlunni bara inn í Baðhuset.

Þreytt þreyttari þreyttust eða syfjuð í tætlur

Ég er búin að sofa nánast í allan dag. Rembdist á fætur til að góna á íslenska landsliðið en syfjan hékk yfir mér og það í allan dag. Búin að leggja mig tvisvar. Get hugsað mér að fara aftur að sofa. Mikið óskaplega er ég þreytt eftir þetta sumar.

Kíkti aðeins í ameríska brjálæðinginn og subbið hans en hélt ekki athygli lengi. Buddha vol. 5 er komin í hús og ég róaðist talsvert við það. Nú vantar mig bara búst, losna við syfjuna og massa bækurnar. En einmitt núna langar mig að gera eftirfarandi og það allt í einu:
 • lesa bók
 • horfa á góða bíómynd
 • hlusta á þátt í tölvunni um Hannah Arendt
 • hlusta á Hugh Laurie lesa sögu
 • hrista fram úr erminni eitt stykki sjal
Jám ég er ekki uppiskroppa með hugmyndir. Vantar bara kraft

föstudagur, ágúst 22, 2008

Sumarstarfslok

Síðasti dagurinn minn í sumarvinnunni er í dag. Á morgun er svo menningarnótt og það er ekki laust við að ég vilji bara loka mig af inni í íbúðinni minni sökum valkvíða. Láta fjörið fara algerlega framhjá mér. Eftir að ég flutti úr 101 finnst mér allt menningarlegt vera horfið og það er eins og ég búi í dönsku úthverfi einhverstaðar langt í burtu og lestin fer ekki hér framhjá. Mér kemur ekki við 101 lengur. Ég held að ég hafi einmitt sleppt menningarnótt í fyrra. En nú er stutt að fara yfir á Klambratún í fjörið þar, svo er margt girnilegt að gerast í bókasafninu sjálfu og flugeldasýningin, sem hefur misst glæsileika sinn eftir að hún var flutt út á sjó, langar mig alls ekki að sleppa.

Ég er að hugsa um að reyna að safna faman fjölskyldunni og fá hana til að taka þátt í húllumhæinu með mér. Þá eru fleiri um hvert eigi að fara og hvað eigi að gera. Mér finnst ágætt að aðrir taki stundum stjórn og ákveði fyrir mig.

fimmtudagur, ágúst 21, 2008

Eftir langan og strangan...

...vinnudag keyri ég heim í rigningunni, Bach hamast aleinn á sellóinu sínu í gegnum einhverja manneskju sem klóraði sig í gegnum nóturnar hans í margar klukkustundir til þess að spila hann sómasamlega inn á sé dé. Langar í rauðvín en nenni ekki í glundurbúðina. En fyrir einhverja undarlega tilviljun vel ég mér nýja leið heim og glundurbúðin í Borgartúni er í leiðinni. Svo ég stekk inn og gríp tvær léttvínsflöskur til að slátra í kvöld og annað kvöld.

Til að koma í veg fyrir að ég steinsofni í sófanum fer ég í svakalega heitt bað og finn hvernig allir vöðvar eru útúr-spenntir í vatninu og það er alveg sama hvað ég reyni að slaka á ekkert gerist. Svo er furðulegt að reyna að anda þegar maður liggur í baði. Maður andar og kroppurinn lyftist allur upp þannig að hausinn lekur úr stæðinu sem maður var búinn að koma sér fyrir í og maður þarf að festa hann einhvern veginn aftur. Ferlega pirrandi. Upp og niður upp og niður. Loksins finn ég hvernig spennan lekur út í vatnið svo ég tek tappann úr og ligg á meðan vatnið streymir í niðurfallið og allur skítur, andlegur sem líkamlegur, fer...ja kannski í næsta hús! Aumingja sá! Ég veit ekkert hvert þetta fer.

Eftir losunina er tími til kominn að blogga um þessi herlegheit og fá sér rauðvínstár og kannski sígarettu, til að ná í spennuna sína aftur og áður en ég fer að sofa fæ ég mér vatnsglas. En á morgun verður spennan sem fór með baðvatninu, komin aftur í kroppinn á mér út af sígarettunni og vatninu sem ég fékk mér og öllu því sem mig langar að gera, þarf að gera, vill ekki gera og býr bara í hausnum á mér því hann er ofvirkur.

Huxsu-tímabilið mitt er hafið.

miðvikudagur, ágúst 20, 2008

Subbið sópast upp

Nú er aðeins farið að örla á subbuskap bókarinnar...ég sat í leisíbojinum mínum með teppi vafið utan um mig og fann hvernig heilinn fór að framleiða eitthvað sem ég veit ekki hvað heitir, sjálfsagt eitthvað boðefni, sem maður finnur einungis fyrir þegar subbusetningar birtast augunum. Þetta tiltekna boðefni, sem væri gaman að vita hvað heitir, blandaðist hræðslutilfinningu og ég þorði ekki að klára kaflann. Færði mig inn í stofu fyrir framan andlausan landsleik og steinsofnaði.

Nú er ég fersk og södd, tilbúin í slaginn og á val fyrir höndum: Shining, sem ég nenni ekki að horfa á því mér finnst hún ekkert skemmtileg, eða American Psycho-bók.

Mjööög líklega vel ég leisíbojinn. Ég er búin að dreyma svo lengi að sitja svona og lesa að það er fáránlegt að láta framhjá sér fara forréttindi sem maður hefur skapað sér sjálfur með góðri hjálp Góða hirðisins. Fallegt ljós (Svíkea reyndar...) í hillu sem er að springa af bókum sem vilja láta lesa sig á þessari öld, stór blóm í glugganum og trén sem blasa við manni þegar maður lítur upp úr lestrinum...frönsku hurðirnar tvær í herberginu, lágvært píanógutl Franz Lizt í hljómtækjunum...alveg eins og í sögu! Ekkert mál að búa til hugguleg heit. Erfiðara að njóta þeirra hins vegar í amstrinu öllu. Tími til kominn að læra það Bunna Sjörk!

mánudagur, ágúst 18, 2008

American Psycho

Ég er að lesa agalega skemmtilega bók núna. Amk er hún skemmtileg enn sem komið er. Hrokafullir eitís-hnakkar að metast um nafnspjöld og slíkt. Öll fatamerki eru á hreinu hvort sem það eru konur eða karlar, tískudót sem ég hef ekki einu sinni heyrt nefnd nokkurntíma og eru þar af leiðandi ekkert flott fyrir mér. Nafnspjalda-atriðið er mér í fersku minni því mér fannst það stórkostlega vel skrifað og fann alveg hvernig "ég" sögupersónunnar fór algerlega í rúst eins og hann spilaði sig góðan þegar hann var að sýna vinum sínum herlegheitin. Svo var hann toppaður af næsta sem toppaðist af þeim þriðja.

Ég hef ekki séð myndina og er að spara hana þangað til að ég klára bókina en Christian Bale er bara nokkuð töff og passar vel í ímyndunaraflus.

Skemmtileg enn sem komið er...já ég er ekki komin að sóðaskap og ógeðseðli þessarar sögupersónu (getur viðbjóður verið skemmtilegur ha Platón, ha Aristóteles?). Bíð spennt og vona að ég verði ekki fyrir vonbrigðum. Viðurkenni þó að það örlar á smá ótta við að lesa subbið sem bíður mín en oft er subb í setningum skemmtileg upplifun og allt öðruvísi að lesa subb heldur en að horfa á subb. Bókin var bönnuð á sínum tíma og höfundurinn átti ekki að geta gefið hana út vegna forlagsins sem hann var hjá en annað forlag bjargaði honum.

Að lestri loknum ég get velt upp siðferðilegum spurningum um bannaðar bækur innan svo og svo margra ára (þ.á.m. manga teiknimyndasögurnar), börn og foreldrar og ábyrgð VS bókasöfn og lýðræðið. Gæti verið ágætis BA-ritgerð meiraðsegja!

föstudagur, ágúst 15, 2008

?

Erum við með þrjá borgarstjóra á launum núna?!

þriðjudagur, ágúst 12, 2008

Fer í fríið

Fékk fríið...lestrardagur á morgun. Ekki plata mig í eitthvað bull eins og Góða hirðirinn og Svíkea og fleiri girnilega tímafreka staði!

Ný klemma

Nýjasta klemman sem ég er búin að koma mér í er sú að ég get ekki klárað Buddha nr. 4 vegna þess að Buddha nr. 5 er ekki komin í hús! Sæll-frasinn á vel við hér. Nr. 6, 7, og 8 bíða óþolinmóðar á náttgólfinu því þeim finnst tími til kominn að fleiri fái að njóta þeirra. Auk þess er mig farið að langa að skoða aðrar teiknimyndasögur eftir Osamu Tezuka. Er með eina feita og bleika...á náttgólfinu...sem er bönnuð innan 16 ára. Hvað skyldi vera svona mikill ósómi í teiknimyndasögu? Það er feikilega spennandi að vita. En ég þarf nú ekki að bíða eftir Buddha 5 til að komast að því. Ég væri hins vegar til í að taka mér frídag eða tvo til þess að liggja yfir henni.

Kannski ég smjaðri fyrir einhverjum sem gæti hugsanlega sagt já...aldrei að vita. Svo er píanóinu mínu orðið illt af vanrækslu og vill fá stillingarkarl til að hljóma betur. Það ætlar ekki að setjast, fjandans píanóið. Ég ætla spyrja varasjóðinn hvort hann vilji heldur, fallega hljómandi píanó eða skólabækur.

Hilsen

föstudagur, ágúst 08, 2008

RegnbogafáninnSoldið lítill þessi en best að flagga og vera með...jamm jamm.

miðvikudagur, ágúst 06, 2008

Af bíói og bruðli

Gat ekki setið á mér þrátt fyrir peningaleysið og kuffti fjarstýrðan bíl handa syninum sem mig langaði svo í. Ég er búin að hugsa nógu lengi um hann til þess að réttlæta kaupin. Þannig réttlæti ég kaupuæðið. Hafi ég setið á mér nógu lengi og er enn jafn áhugasöm um hlutinn er hann keyptur. En ég á líka til að klúðra málunum gjörsamlega og kaupa eitthvað alveg út í hött bara af því að ég held að ég þurfi svo stórkostlega á því að halda. Fékk samt nett áfall þegar flatskjárinn var kominn inn í hús þrátt fyrir hux huxanna lengi vel. Aðeins og stór græja til að réttlæta...Svo þegar bíó-blaster-græjurnar bætast við (hehemm) þá læt ég leggja mig inn á geðdeild í smá stund þangað til að ég átta mig á að ég get réttlætt þessi kaup með því að halda að ég fari í bíó þrisvar í viku. Ég fer kannski einu sinni á ári!

Mér leiðist nefnilega að fara í bíó. Þar er skítkalt ef fáir eru á sýningunni og/eða fólk sem spjallar heilmikið þrátt fyrir öll reyklausu kaffihúsin út um allt. Að ekki sé minnst á símana sem hringja í gríð og erg og fólk virkilega SVARAR! Svo er ég frekar lágvaxin og lendi yfirleitt fyrir framan manneskju með hatt sem hún kærir sig ekki um að taka niður. Hafi hún eitthvað að fela getur hún sest á aftasta bekk.

Um daginn þegar ég fór á háheilaga sýningu þ.e. Mr. Battmaður var salurinn nánast fullur af pöbbum með syni sína sem ekki kunna að lesa! Svo héldu þeir fyrir augun á drengjunum sínum þegar við átti.

Áður en sýningin hófst sátu tveir ólátabelgir fyrir framan mig ca 7-8 ára. Vesenið á þeim var þvílíkt að ég sagði þeim að ég yrði foxill eyðileggðu þeir sýninguna fyrir mér og léti fleygja þeim út yrðu þeir ekki stilltir. Annar sagði mér þá að pabbi sinn væri sko lögga og réði öllu. Hér átti ég að hafa mig hæga. Ég benti honum hins vegar á að ef ekki væri fyrir pabba minn gæti pabbi hans ekki farið á klósettið. Barnið setti upp skelfingar svip svo vinur hans kom honum til bjargar með því að leggja fyrir mig nokkrar stærðfræðigátur; hvað 10 x 10 væri, hvað 10 + 10 væri...hér átti sko að láta reyna á greindarvísitölu þessarar undarlegu og afskiptasömu stelpukonu. En ég er svo mikill púki að ég heimtaði að við færum að spjalla um kvaðratrætur og veldi. Það var aðeins of mikið fyrir þá og skilningsleysið bjargaði þeim alveg. Aldrei heyrt slík hugtök og hugsanlega væri stelpukonan eitthvað að búa til núna.

Pabbarnir sem fygldu þessum peyjum urðu greinilega einhvers varir því áður en sýningin hófst röðuðu þeir upp í sætin af mikilli skynsemi: pabbi, strákur, pabbi, strákur. Ég þurfti ekki að óttast óeinkennisklætt yfirvaldið fyrir yfirganginn en vorkenndi hverjum einasta dreng þegar pabbarnir hlógu hátt og dátt af bröndurunum í myndinni og reyndu síðan að útskýra fyrir þeim hvað væri svona fyndið í hvert sinn!

þriðjudagur, ágúst 05, 2008

Tómtfólksmanneskja

Í dag er ég eitthvað svo blönk inn í mér og hálf rugluð eitthvað. Væri til í eitthvað kalt og gott að drekka og svo væri ég til í að leggja mig í smá stund og vakna fersk og fín, skrifa eins og eina sögu og fá bara að vera í friði.

Að vera í friði en hafa félagskap í kringum sig er dásamlegt. Og svo finnst mér ég vera frekja að hugsa svona. Ætli mér liði eins og skækju ef ég framkvæmdi frekjuganginn? Eitthvað ekki alveg í lagi hjá minni held ég...best að klappa mér aðeins og fá mér hjólarúnt.

mánudagur, ágúst 04, 2008

Ljúlí ljúlí sagði björkin


Station-helginni lokið og ferðalag framundan. Ég sé fram á að sitja í ca 4 klst. í bílnum á milli Akraness og Reykjavíkur. Ég er þegar farin að velja tónlist hefði átt að taka með mér sögu til að hlusta á. En ég veit að Benedikt búálfur á eftir að taka völdin. Gerir ekkert. Ég er hvort eð er svo annars hugar. Við tökum bara dúett ég og Dagur. Vonandi lifum við ferðina af. Það hefur enginn dáið ennþá...eða er það nokkuð?
Ég myndi fara Hvalfjörðinn ef ég hefði ferðafélaga sem er eldri en 3 ára og ef myndavélin hefði verið með í för.

Og vitið þið bara hvað? Sólin er að koma núna!

sunnudagur, ágúst 03, 2008

Skaganes

Sólin og hégómleiki minn eru ekki að tala saman! Hvar í fjandanum ertu? Ég sem kom ekki með fatatutlu með mér. Ég ætlaði að láta þig sleikja mig í bak og fyrir! Í staðinn er frændatuð stanslaust frændatuð og stríðni. Svo mikil að ég er alveg að fara að pakka niður og fara heim.

Fórum svakalegan Reykholts-rúnt með tuðið í aftursætinu í gær og dauðþreyttar og leiðar systur í von um að frændurnir myndu rotast við heimkomu hélt fjörið bara áfram. Ég tók loks í taumana, tók mitt litla gúraskinn, fleygði honum í rúmið og tuðaði upp einhverja útgáfu af Rauðhettu. Minn var sofnaður þegar veiðimaðurinn var kominn að húsi ömmu en ég kláraði hana samt til vonar og vara

Fórum upp í kirkjugarð og vökvuðum bræður okkar . Sólin búin að steikja nánast hvert einasta blóm á hverri gröf. Ætli verið sé að spara úðarana? Vill gleymast að til er fólk sem kemst ekki upp í kirkjugarð til að sinna sínum látnu. Sjálf er ég með blendnar tilfinningar gagnvart kirkjugörðum. Er ekki alveg búin að gera það upp við mig hvort slíkar ferðir hafi tilgang. Þetta eru dularfullir minnisvarðar um fólk og eins og ég hef sagt áður að þá er fáránlegt að standa með vatnskönnu og sulla yfir ættingja sína. Veit ekki fyrir hvern verið er að heiðra minninguna. Líklegast er þetta fyrir okkur hin sem eftir sitja með hjörtun kramin og kvalin.

laugardagur, ágúst 02, 2008

Umhverfissvissingar

Hráskinkan í höfðinu á mér er í ballanseringu í rólegu umhverfi æskustöðvanna. Reykjavík fer þannig með landsbyggðarpakk eins og mig að maður verður að komast í burt.
Afskaplega girnilegt að flytja til baka að námi loknu þ.e. ef ég get hætt í skóla. Svo óskaplega gaman ukkað. Ég fæ kvíðahnút í magan af tilhugsuninni um að klára námið. Hræðilegt! Kannski ætti ég að glíma við að taka tvær gráður...bara svona...bara. Fer kannski á hausinn við það en ef valið stendur á milli hausar og hamingju þá vel ég...hmm...

Bak við mig rífast frændur um nammi. Minn karl segir: þett'er minn nammi! Stóri frændi segir: Nei. Og svo kemur litli kútur og klagar í mömmu sína sem svarar: Það er til fullt af nammi. Annað hljóð í strokk og apað upp eftir mér:...fjullt af nammi...og þar með lauk klögum þeim í bili.

miðvikudagur, júlí 30, 2008

Samskiptatilraun

Kæra samstarfsfólk sem les bloggið mitt. Tobba á hráskinku upp í ískáp sem við eigum endilega að leggja okkur til munns svo hún skemmist ekki. Viljið þið koma þessu til skila fyrir hana?

Það er' að koma skilaboð...

- Hvaða skilaboð?
- Að setja hægra heilahvel í gang...

Það er'að koma skilaboð.
- Hvaða skilaboð
- Að setja vinstra heilahvel í gang...

Það er' að koma skilaboð!
-Hvaða skilaboð?
- Að setja bæði heilahvel í gang...

Nokkrar mögulegar leiðir til að lifa af sem hugsandi vera í þessu lífi eru að gera sér í hugalund að veruleikinn er eins og maður skynjar hann og svo er aftur á móti veruleikinn eins og hann er í sjálfum sér. Hard core segja okkur aldrei skynja veruleikann eins og hann er í sjálfum sér. Svo eru hinir sem treysta því að maðurinn geti mögulega verið svo skynsamur að hugsa út fyrir sjálfan sig og sjá heiminn eins og hann er þrátt fyrir hvaða tilfinningu sjálfið hefur fyrir líðandi stund. Skynsamar tilfinningaverur myndi ég kalla þá sem falla undir seinni flokkinn.

Bara svona að gamni pæling. Gott að vita að stundum er það hugarástand sem lætur mann draga rangar ályktanir af hlutum og finnast eitt og annað vera vitleysa.

þriðjudagur, júlí 29, 2008

Gremja

Ég gæti grenjað yfir veðrinu. Mér finnst ég vera svikin og er sár í hjarta mínu. Hér sit ég INNI og veðrið er hreint ótrúlegt. Það er bömmer að búa hérna. Ég vil rigningu og rok strax!

Ég er kannski ósanngjörn en helvítis maður. Þetta er nú einum of. Ég er að tapa minni hégómlegu brúnku um allan kroppinn!

Ekki reyna segja mér frá brúnkukremunum; Bla bla bla brúnku klepra í túpu hvað!

Þungavigtin í kvikmyndatónlist- ég veit ég er algert geek!Ég hef alltaf verið veik fyrir sló mó þyrluspaða-tónlist enda langaði mig alltaf til læra fljúga þyrlu. Of fátæk svo ég finn þá bara þyrluspaðana í tónlist eins og þessari. Svo nottlega fokkíngs brassið! EEElllska horn út af lífinu. Amen.

mánudagur, júlí 28, 2008

En annars...

...hljóp sonur minn út um alla íbúð í gærkveldi, berrassaður með skikkju og hrópaði: ÉG Á ENGA FRAMTÍÐ og gerði mig hálf skelkaða. Svo ég varaði dömurnar í leikskólanum við í morgun til að þær færu nú ekki að draga einhverjar ályktanir. Leikskólafólk á það til. En nú s.s. vita þær að hann horfir dálítið á sjónvarp og þarf endilega að segja allt upphátt sama hversu pínlegt það er fyrir mig!

Mætti mér í morgun einn maður...


Mætti þessum fræga manni á leið í vinnu í morgun. Horfði djúpt í augun á honum til þess að sannfæra mig um að þau væru örugglega brún. Annars væri kauði ekki sjálfur Anthony Edwards. Brosti til hans yfir gleraugun. Hans augnaráð var meira svona vandræðalegt: veistu hver ég er?!

föstudagur, júlí 25, 2008

Óskalög sem nokkrir fá að heyra. Tækifæri til að ala upp múginn!

Jæja...nú er ég í tónó...ekki með kantötu. Einhverjar tillögur? Verður að vera safnvænt og til í safninu að sjálfsögðu.

Annars er Air (Bach sjálfur hvað annað?!) yfirleitt lokalagið hjá mér þegar ég tek kvöldvaktir upp á 5. hæð. Smá tilvitnun í 7even og á vel við tón-ogmyndó. Enginn yfirmaður að böggast yfir því. Löngu farinn heim þegar ég trylli græjurnar. Enda stykki til að spila hátt og kröftulega.

Air er simplun (góð! ég er alveg að gera mig í slettusöfnununni!) á svítu nr. 3 í Dé dúr BWV 1068.
Er að æfa mig að muna romsur. Uppáhalds píanósónatan mín eftir Mozart er KV 331 A-dúr. Alveg einstaklega falleg.
Yfirburða gáfulegt að geta skellt svona tölum um sónötur á bloggið hjá sér...en í raun er þetta bara skráning einhverra karla sem flokkuðu og tímasettu verk löngu dauðra manna til þess að fá einhverja röð á nótnastaflann á skrifborðunum þeirra...eða svona næstum því soleiðis. Pjúra bókasafnsfræði! Hana nú.
Óskalög? Hmm...eníboddí?

Á náttgólfinu...er ekki með náttborð. Þarf að skófla bókum undir rúm og gleraugun ofan á svo litlir puttar glenni ekki gleraugun í tætlur

fimmtudagur, júlí 24, 2008

Mozart kemur til bjargar á ögurstundu

a bé sér dé ef e er gé eftir kemur hájoð ká, ellimenn og einnig pé ætli kú þar standi hjá...

Einföldustu hlutir eins og stafrófið getur algerlega keyrt mann um koll. Stundum getur maður ekki raðað af því að skyndilega er maður ekki fær um að muna hvar hver stafur á heima. Oft hef ég lent í vandræðum með kú og veit ekki hvort kú sé á undan pé eða á eftir. Þá þarf maður að fara að syngja Mozart í huganum...stundum...upphátt... lánþegum til mikillar skelfingar. En svo er annað ótrúlega merkilegt. Þegar kemur e,f,g,h,i,jogk nenni ég ekki að raða lengur og fer aftast í stafrófið. Q og p fara líka í taugarnar á mér. Hvernig í ósköpunum má það vera að ákveðin röð fari í taugarnar á manni? Sérstaklega i,j og k. En mér finnst ég líka hafa unnið persónulegan sigur þegar ég hef farið í gengum allt stafrófið. Þá á ég skilið góðan kaffibolla.

miðvikudagur, júlí 23, 2008

Endurtekningin

Burt séð frá spekinni að þá sit ég í tónlistardeildinni. Skellti á "fóninn" eftir mikla leit og miklar pælingar og valkvíða innan um allt hér, kantötu eftir Bach númer einhver ósköp. Voða fín stemning í safninu ossona...eftir 30 mínútur var mér farið að leiðast stefið og sömu hrópin og köllin í kórnum trekk ofan í hvað...hugsaði með mér að tónskáldum sé trúandi til alls og lengd lagsins (komið upp í 40 mínútur alltaf sami rúnturinn) sjálfsagt eitt af þeim þrekraunum sem tónskáld eiga til að leggja á flytjendur. Ég veit varla hvað kantata er og þekki Bach svipað og hluti sem ég varla sé (eins og t.d. óæðra gat líkama míns) dags daglega.

Að sjálfsögðu, lesandi góður, hefurðu rétt fyrir þér með hvernig málunum var háttað. Þetta var bara svo snilldarleg skipting að ég tók ekki eftir því. Lúpp lúpp lúpp lúpp.

Speki dagsins

Konur kunna að meta hreinskilni;
Segðu henni að þú sért blankur á fyrsta deiti.

fimmtudagur, júlí 17, 2008

Svauung

Mig langar í eitthvað rosalega gott að borða. Ég er að deyja hérna í vinnunni og huxa og huxa um hvað í ósköpunum ég eigi að bjóða mér upp á. Miðbærinn býður upp á ýmislegt:

 • Grillhús Gumma
 • Hlölli
 • amk 3 pizzusneiða-staðir
 • Nonni bátus
 • 10 fokkíng 11
 • Shalimar
 • Tai ukkað
 • Bæjarins bestu

Man ekki meira. En hvað á ég að velja? Mig langar doldið í fiss end tjihhps. Þá þarf ég að fara að panta. Ég ötla nefnilega að töka þa me mé. Varð að prófa táningamál. Varla að ég skilji þetta sjálf.

Ohh ég er að krumpast niður úr húúngri!

miðvikudagur, júlí 16, 2008

"Klukkan er 8.08! Ég verð að fá nægan svefn!"

Ég er ennþá að lesa Buddha 3 en hef eytt síðustu tveimur kvöldum í Næturvakta-syrpuna. Hvílík snild! Ég er svo hrifin að ég ætla að fjárfesta í eintaki hið snarasta. Ég er að reyna að bæta mér upp myndbanda- og bókasvelti síðustu þjú ár sem hafa farið í að reyna að læra að vera foreldri og þakklát fyrir að fá fimm klukkustunda svefn samfellt. Hamingjan sem fellst í því að spara peninginn sem fer í bleyjukaup gleymist fljótt þegar ég er vakin með orðunum: ég þarf að pissa, kl. 03.15 á næturna. Og ég er mest undrandi á því að ekki þarf að ýta við mér heldur sprett ég upp eins og stálfjöður af værum svefni og dríf drenginn inn á tóalettið. Svo reynir hann að plata mig fram að horfa á Latabæ þar sem býr álfur kenndur við íþróttir og klifar á því að hann verði að fá nægan svefn. Ég sármóðguð út í soninn fyrir að átta sig ekki á að mæður þurfi líka nægan svefn segi: Ekkert bull! Nóttin-sofa! Og skríð uppí og vona að ég viti ekki af mér eftir smá stund. Yfirleitt tekst það en alltaf með smá hnút í maga um hvort maður fái að hvíla sig og hvort drengurinn eigi eftir að vaka aleinn og leiðast upp í rúmi í þögninni. Helv...meðvirkni!

Annars er ég fúl yfir að vera ekki úti í sólbaði heldur innilokuð hjá öllum vinkonum mínum sem heita ýmsum nöfnum en eiga sameiginlegt að vera aðföng. Ég væri líka til í að leggja mig eða fara upp í sveit og eyða nokkrum dögum ein í sumarbústað með bækur, blöð og penna. Kannski tölvu og leita að efni í BA-ritgerðina. Og vera ekki vakin af litlu tippi sem getur ekki beðið fram á morgun!!!

þriðjudagur, júlí 15, 2008

Atvinnutilboð

Fékk atvinnutilboð í dag. En vegna þess að ég á eina önn eftir þá bara verð ég að bíða róleg. Held samt að ég megi hafa samband klári ég ukkurntíma.

föstudagur, júlí 11, 2008

Harpa

Það eru hörputónleikar í vinnunni. Mér líður eins og það sé árið 1578 eða ukkað!
Geggjað
Buddah 3 kominn á náttborðið

miðvikudagur, júlí 09, 2008

Meira meira

+
Og svo hóf ég lestur á númer tvö...og þá eru eftir sjö...
Ji hvað ég á eftir að vera stolt þegar ég lít yfir þetta lestrarár! Margar margar bækur. Ég hef ekki lesið svona rosalega í fjölda ára. Mikið er ég fegin að vera laus við get- ekki- klárað- bækur-safna-þeim-bara-á-náttborðið-syndromið.
Er grasekkja næstu daga. Það verður skrítið. Ég kvíði aðeins fyrir því. Ukkað óvön slíku. Annars er bróðir minn hjá mér þessa dagana svo við Dagur erum ekki ein í kotinu.

mánudagur, júlí 07, 2008

Lítið ferðalag


Fórum í svakalegan bíltúr í gær með systur minni, ég og Dagur. Ég mundi eftir myndavélinni og ákvað að vera túristi. Hér erum við fallegust í heimi saman...

föstudagur, júlí 04, 2008

Buddha- nýjasta æðið


Ég er sokkin í teiknimyndasögurnar. Þessi er nr. 1 af ég veit ekki hvað mörgum og er dásamleg.

Ræningjar á ferð um Hlíðar á næturna

Einhver reyndi að taka bílinn minn frá mér í nótt. SKAMM SKAMM!
Hann er ljótasti bíllinn í götunni.
Ribbaldinn skemmdi plastið utan af stýrinu og ætlaði sér að tengja ukkurneigin fram hjá. Tók í sundur rúðuþurrkurnar. Nú get ég bara valið hröðustu stillinguna þegar rignir.
Ekkert var fjarlægt úr bílnum...því miður. Ég hefði svo gjarnan viljað að hann hefði tekið aðeins til...

miðvikudagur, júlí 02, 2008

Innri flæðisgleði

Ég er búin að vera einstaklega hamingjusöm undanfarnar 24 stundirnar og ég held að það sé tölvuleikjaæðið. Mér finnst ég eiga mig sjálfa með húð og hári og enginn truflar mig og mitt barnslega flæði í höfðinu. Ji hvað þetta er gott. Alveg eins og þegar ég var barnlaus og mátti allt. Mér finnst ég ennþá ríkari með að fá bæði flæðið og eiga barn. Miklu betri mamma fyrir vikið og drengurinn finnur það svo sannarlega og ég fæ trilljón knús á dag.

Ég fer sum sé í tölvuleik þegar lítil augu lokast í kveld. Ætla að halda þessu við þangað til ég fæ leið á tölvuleiknum.

mánudagur, júní 30, 2008

Pirr

Ég er búin að fara tvisar til læknis og hvorugur þeirra kann skýringu á hvað kom fyrir kroppinn á mér. Ég er öll að skríða saman, smá óþægindi í fótunum, en ég á að hafa á takteinunum hvað ég át næst þegar ég verð handa og fótalaus. Það eina sem þeim dettur í hug eru ukkur sölt eða of mikið af salti einhversstaðar frá. Hmmm...ég borðaði saltað hrossakjöt tveimur dögum áður en þetta byrjaði. Það er víst of langur tími...

Svo er ég pirruð móðir út í leikskólann. Hann vill ekki hlusta á okkur þegar við erum að reyna að útskýra fyrir honum frauðvörturnar á líkama barnsins. Sem hann (sonurinn) nota bene, þurfti endilega að kroppa svo rosalega í að hann varð óhugnanlegur undir handakrikanum. Er í krem meðferð og hefur tekið þvílíkum framförum. Leikskólinn, sem bar þetta í hann, vill endilega vita hvort þetta geti farið í önnur börn. Já af einhverjum fékk sonur minn fjandans bólurnar! Ég er svakalega fúl. Við erum búin að vera að glíma við þetta helvíti í amk 3 mánuði og þrálátt er þetta. Ég er líka búin að tilkynna þetta en það virðist bara hafa borist til deildarstjórans en ekki til annars starfsfólks. Nú er deildarstjórinn í fríi og hringt í okkur einu sinni í viku út að þessum fjanda. GGRRRR.
Best að fara í lækninn og láta hann skrifa á blað hvað þetta er nákvæmlega og senda leiksskólanum.
Svo bráir þetta af mér með kveldinu. Verð að spila tölvuleik. Ég er komin með tölvuleikja-æði.

sunnudagur, júní 29, 2008

Sjálfsafgreiðsla

Í fyrra voru teknar upp sjálfsafgreiðsluvélar í nokkrum (ef ekki öllum) bókasöfnum borgarinnar. Mikil gremja gaus upp meðal lánþega. Þau puffuðu og dæstu yfir að þurfa að læra eitthvað nýtt, skömmuðust yfir hvað vélarnar væru ómögulegar. Sumir, ekki margir, höfðu orð á hvað þetta væri nú sniðugt en endalausar spurningar dundu yfir okkur í afgreiðslunni hvort við værum að missa vinnuna og hvað það ætti að þýða að fá ekki að hafa samskipti við fólk/bókaverði/fræðinga á meðan skil og útlán ættu sér stað.

Ástæðan fyrir þessum litla pistli er bók sem ég myndi alls ekki vilja afgreiðslu bókasafnsins sjá að ég ætlaði mér að taka (væri ég óbreyttur lánþegi og aldrei unnið á bókasafni) og er það bók siðapostulans Þorgríms Þráinssonar...svo og allur 152 flokkurinn! Hvað þá AA bækurnar og tólfsporakerfið. Eða líf handan lífs (sem mér finnst algert rugl en sé nálgunin frumspekileg gef ég því séns). Það eru þessar bækur sem eru svo afskaplega viðkvæmt mál fyrir lánþegann að koma með til manneskju í afgreiðslu að ég er alveg viss um að sjálfsafgreiðsla er hið besta mál. Þangað til að vélin klikkar og lánþegi neyðist til þess að fara með bækurnar til manneskju...

miðvikudagur, júní 25, 2008

Af furðum

Þrennt er það sem ég furða mig á:

Björk fyrir að eiga ísbjörn heima hjá sér, pistill Birgis Maussonar um að kreppa þurfi að tónlistarmönnum svo þeir verði blankir og búi til betri tónlist og svo...man ég ekki það þriðja í augnablikinu...jú að menn haldi að einkavæðing og betri þjónusta við viðskiptavini fari saman.

Ég tel að það hljóti að vera lygi upp á hana Björk að hún eigi ísbjarnarskinn með haus og öllu tilheyrandi. Hún samdi jú lagið Human Behavior...nema það hafi verið barnaskapur. Ég sem ét kjöt og skammast mín fyrir að þurfa á því að halda næringarinnar vegna finnst það hræsni eigi hún fjandans ísbjarnartutluna.

Tónlistarmenn hafa grátið og vælt í gegnum tíðina yfir því að geta ekki lifað af sinni tónlist. Nú semja þeir hverja snilldina á fætur annarri sem þeir geta selt dýrum dómum til flutnings í auglýsingatímum. Loksins þegar þeir geta tekið þátt í kapitalismanum á sínum forsendum þykir það ekkert flott.

Strætó og Síminn eru dæmi um lélega þjónustu vegna einkavæðingar. Ég nenni ekki að telja upp leiðindin sem fylgt hafa þeirri stórkostlegu græðgi sem ræður ríkjum. Ég vona að menn fari að sjá að það verði að gera eitthvað í almenningssamgöngum eigi fólk að spara einkabílinn og olíu heimsins.

Er heima í dag vegna þess að ég held að ég sé komin með gigt eða eitthvað ógeð í hendur og fætur. Get varla gengið og er með bjúg á fótunum og handarbökunum sem mér finnst stórundarlegt. Ætla að reyna að massa lækni. Ég er hálf hrædd. Veit ekkert hvað er að gerast í kroppnum á mér. Systir mín segir að ég sé nú að verða fertug! Svo klæjar mig á þessum stöðum og já ég botna ekkert í þessu. Ég hélt að það væri nóg að vera...smá klikkuð...

föstudagur, júní 20, 2008

Talibönun í Kabúl

Flugdrekahlauparinn hefur aðeins og mikil áhrif. Nú er ég að hlusta á afganska tónlist og surfa á netinu.

Tók ljótu myndina.

Og horfi á Rauðhettu...með syninum...og Mikka Mús og annað barna efni.

Bókalestur, bækur og bækur og bækur

Minn mælikvarði segir mér að ég sé búin að vera á endemum dugleg að lesa.
Las Brúðuheimili Ibsens, ritgerð um leikritið og svo kláraði ég Flugdrekabókina í nótt.
Ég er líka grútsyfjuð...en nú er komin helgi og ég ætla svo sannarlega að fara í næstu bók. VAr með einhvern derring út í tískubókmenntir eins og flugdrekann en svo er ágætt að vita hverju maður getur mælt með ofan í safngesti. Nenni samt ekki að lesa Ranking, Cornwell og glæpaliðið. Ég er kominn með sæmilega nóg af reyfurum.

Ég er að springa úr monti. Aldrei þessu vant klára ég bækur. Langt síðan ég var svona dugleg. Safna þeim yfirleitt í stafla á stól við rúmið mitt...

En ég var búin að ákveða að vera dugleg og láta ekkert stoppa mig þetta árið innan um allar bækurnar sem gera mig vitlausa. Mig langar að lesa þær nánast allar!

miðvikudagur, júní 18, 2008

Strætó blætó

4000 krónur sem áður fylltu hjá mér tankinn gerir hann hálffullan (ég er fegin að mér datt ekki í hug hálftóman hér). Og ég segi bara vá. En ég tók strætó í vinnuna í dag. Tilraun sem endaði næstum með hjartaáfalli. Við Dagur röltum í leikskólann á góðum tíma en vegna stoppa og staldurs víðsvegar á leiðinni var hjartað mitt farið að slá ansi hratt. Og ég vil ekki vera drífðu þig nú, ég er að verða of sein, hættu þessu slóri drengur-móðir. Ef ég næði ekki strætó þyrfti ég að bíða í hálftíma eða hlaupa heim eftir bílnum. Loksins komum við á leiðarenda. Þegar ég var orðin "frjáls" hljóp ég í átt að strætóskýlinu sem er hinum megin við Miklubraut. Ég þarf sum sé að komast yfir á ljósum sem eru endalaust lengi að breytast gögnufólki í hag. Þegar maður gengur í átt að þessum ljósum einbeitir maður sér að því að athuga hvort einhver sé þegar búinn að ýta á grænukalla takkann. Ef svo er rýkur maður af stað til að hlaupa og ná yfir í tíma. Í morgun sá ég hvar stúlka stóð og beið við ljósin og svo kom græni kallinn allt of snemma og ég þurfti að hlaupa eins og eldibrandur til að ná yfir götuna. Síðan tekur við dágóður spölur að biðskýlinu...ég þarf að hugsa þetta aðeins betur hvað ég er tilbúin til að leggja á mig fyrir að mæta á réttum tíma í vinnuna svo ég fái greidd laun (stimpilkerfið ógurlega hefur verið tekið upp á annars stresslausum vinnustað) og tekið þátt í heimssparnaði á olíuverði...
Mig langar til að rasskella borgina fyrir að losa sig við strætó. 90 milljónkróna halli er varla halli meðan Orkuveitan makar krókinn. Og héldu strætó rekendur virkilega að samgöngur á Íslandi væri eitthvað til þess að græða á?! Og strætó á 30 mínútna fresti allan daginn yfir sumarið? Nei ég botna ekkert í þessu. Í staðinn fyrir að bæta samgöngur eru menn að reyna að finna nýja orkugjafa til að knúa einkabílinn! Mér finnst þetta frekar stúpid.

Mættu alveg vera göng fyrir gangandi undir umferðabrjálaðar götur á fleiri stöðum eins og þessa Miklubraut. Maður ætti kannski bara að flytja ukkurt þar sem maður þarf bara fæturnar.

fimmtudagur, júní 12, 2008

Ég fann bók...


...sem er auglýst í bak og fyrir hvað hún sé frábær og æðisleg (afskaplega ljótt orð og heimskulegt visúalt-séð)og ég er algerlega dottin ofan í hana

sunnudagur, júní 08, 2008

Lúxusvæl

Ég held bara að ég hafi ekkert að segja. Velti því fyrir mér hvort ég ætti ekki bara að fara að hætta öllu bloggi. Stundum kemur upp sterk þörf fyrir að setja eitthvað á netið en svo koma dagar þar sem maður setur eitthvað inn af algerri skyldu til að viðhalda síðunni sinni hvort sem hún er lesin eða ekki. Uppfærsluþörf.

Ég vinn bara og vinn. Fyrsta vikan mín og helgin líka. Svo hefst næsta vinnuvika á morgun. Þó svo að þessi vinna sé mjög skemmtileg þá finnst mér eins og ég sé aldrei heima hjá mér. Hvers vegna í ósköpunum höfum við ekki minnkað vinnutímann? Jú það hefur svo sem verið gert en maður mætir seinna til vinnu en kemur seint heim fyrir því. Ég hlakka ekki til að fara út á vinnumarkaðinn þegar náminu líkur. Átta klukkustundir í vinnunni, fjórar klukkustundir vakandi heima hjá sér og restinni eyðir maður í svefn. Þetta er rugl. Síðan er dagatalið skoðað bak og fyrir til þess að hlakka til einhverra frídaga og beðið með óþreyju eftir sumarfríi sem líður hraðar en helgarfrí að manni finnst. Mér finnst þetta ekkert spennandi líf. Ég er allt of heimakær fyrir svona mikla fjarveru frá heimili mínu. Mikið er gott að vera námsmaður þó að það sé aldrei neitt í ísskápunum.
Þetta er nú óttarlegt lúxusvæl hjá mér.

Mér lýst vel á að Seyðfirðingar breyti klukkunni hjá sér til að fá sólina aðeins lengur e. vinnu.

laugardagur, júní 07, 2008

Er Nóatúns kjúlli ekki bara málið í kveld? Nenni ekki að elda...held ég. Er ukkað timbruð í vinnunni!

föstudagur, júní 06, 2008

Bókaæsingur

Ég er að velta því fyrir mér hvort maður eigi algerlega að sniðganga bækur sem hafa æpandi auglýsingu á kápunni um hversu mikil snild þær eru. Nokkrar hafa valdið mér stórkostlegum vonbrigðum.

þriðjudagur, júní 03, 2008

Og svo er veðrið orðið gott og svakalegt þegar ég sit inni. Sagði ég ekki?!

mánudagur, júní 02, 2008

Og svo vinna vinna og vinna...

...sem hófst í dag. Mikið gott. Ég hef aldrei á ævi minni unnið á svona góðum vinnustað. Hann er fullkominn á allan hátt. Bækur, frábært fólk, yfirmanneskjan er snillingur og kúnnarnir eru frábærir. Svo er maður meira í tengslum við það sem er að gerast í menningarheiminum heldur en gerist og gengur...hjá mér þ.e.a.s. Ég er yfirleitt steinsofandi þagnað til þarna.

Viggo Mortensen hinum fræga missti ég þó af. Hefði ég byrjað í síðustu viku væri ég með áritaðar Lord of the Rings eignir heimilisins. Hann var nánast alla síðustu viku upp á kaffistofunni minni að búa til argentískt te handa sér og setja upp sýningu. Svona getur maður verið óheppinn. Vonandi tekur hann hana niður sjálfur en ég efast um að eitthvað verði til að taka niður því hann er búinn að selja 105 myndir af 110. Ég skoðaði ekki sýninguna í dag en ötla að kíkja á morgun. Hún verður hvort eð er svo lengi uppi. Ég verð að gá hvort ég hafi efni á einni mynd fyrst ég missti af honum. Ætli það sé starfsmannaafsláttur?

Saumó á morgun og allt í rúst!
Tiltekt og uppskriftabækur. Ötla að kaupa ukkað gott til að malla ofan í dásamlega klúbbinn minn.

miðvikudagur, maí 28, 2008

þriðjudagur, maí 27, 2008

Hundaeigandi

Haldiði að ég sé ekki búinn að fá mér labrador-hvolp! Hann er í þrívíðu á facebook. Ég þarf ekki að fara með hann út að ganga eða þrífa eftir hann. Nú kemur í ljós hversu mikinn áhuga ég hef á að eiga hund. En þetta er tölvuhundur svo það er ekki víst að ég nenni mikið að hugsa um hann fyrst hann er í netheimum.

föstudagur, maí 23, 2008

Bara ukkað

Já já þetta er bara notalegt. Get fókuserað á soninn 99% og það er ágætis tilbreyting .

fimmtudagur, maí 22, 2008

Það klippist á sumarfíið

Ó jiminn! Vikan er að verða búin. Þá á ég bara eina eftir. Jiminn.

Ég er á brúnkukremafylliríi því sólinn sem ég ætlaði að baða mig í í laugum borgarinnar ætlar að bíða þangað til ég fer að vinna. En ég sá við henni með brúnkukremi. Vona að ég breytist ekki í gulrót fyrir bekkjarmótið um helgina. Mér skilst að ég hafi tekið lit. Ó ji ég er svo fín. Alveg að gella yfir mig. Samt ónotatilfinning sem fylgir svona pjatti. Ég er hreint ekki vön að láta svona.

Júróvisjón fer algerlega framhjá mér en í morgun gerði ég dauðaleit að einhverju bleiku til að klæða soninn í. Það er ukkur júróhátíð í leiksskólanum. Fann eitthvað semi-bleikt og svart. Síðan tek ég stefnuna á rasistabælið í kvöld eða á morgun. Kannski að ég ætti að prenta út fána Palestínu og hafa með mér?

miðvikudagur, maí 21, 2008

Akranes vs. Palestína


Umræðan vegna flóttafólks frá Palestínu bendir eindregið til þess að gagnrýnin hugsun ætti að vera skyldugrein í barnaskólum. Hluti bæjarbúa óttast að koma fólksins eigi eftir að mergsjúga bæjarsjóðinn. Að það sé synd og skömm að líta fram hjá vandamálum innan bæjarins sem nú þegar eru og bjóða þeim byrgin með að taka á móti einhverjum útlendingum sem ekki hafa unnið sér inn neinn rétt til að fá húsaskjól og vinnu. Og aumingjans fólkið sem er á biðlistum eftir íbúð. Hvað á það að halda? Ég veit ekki um neinn sem býr á götunni á Skaganesi í pappakassa. Ef svo er þá er viðkomandi pottþétt ekki á biðlista eftir félagslegri íbúð. Sá er líklega með kardímommurnar í vasanum og alsæll með þær.

Stundum kemur upp í mér péturblöndalisminn. Hann er á þá leið að til sé fólk sem getur vel bjargað sér á annan hátt heldur en það gerir nú. Og ég hugsa að innan þeirra sem eru á biðlistanum góða séu einmitt slíkir bæjarþegnar. Svo er alltaf spurning með knattspyrnuna sem hefur blóðmjólkað bæinn í mörg ár. Hvað ætli Guðjón Þórðarson kosti? Ég hugsa að það megi halda mörgum palestínskum fjölskyldum uppi á þeim peningum.

Það er fjarri lagi að maður geti sett sig í spor flóttafólks. En það er auðvelt að velta fyrir sér sínum lúxusvandamálum og hugsa með sér hvort hægt sé að yfirfæra þau yfir til annars lands. Til dæmis hvort að ég myndi þurfa að skammast mín fyrir hvað bíllinn minn er ljótur færi ég á honum til Palestínu og að ég sé nú þokkaleg til fara og skilji ekki eftir Prada-veskið. Ég velti þessu fyrir mér og sé fáránleikan í því að langa í flatskjá og heimabíóið. Sumir halda því fram að þetta sé ekki sambærilegt og svona sé ekki hægt að gera. Þarna sé allt önnur menning og svo framvegis. Afstæðishygga ógnar hins vegar siðferði og er stórhættuleg. Verið er að brjóta á fólki og rétti þess til að lifa sómasamlegu lífi. Á Íslandi er til dæmis til fólk sem lifir ekki sómasamlegu lífi sé ekki flatskjár á heimilinu og blúrei græja. Hvað þá jeppinn. Maður verður að komast á fjöll og í veiðna. Annars er lífið bara ónýtt. Til hvers að lifa ef maður á ekki peninga til að gera neitt? Alveg glatað.

Ef ástandið væri ekki eins og það er þá er ég viss um að bíllinn minn yrði að athlægi. Hann er sko þokkalega ekki afstæður hann ljóti duglegi minn. Og ég vona að umræðan verði lögð niður fljótlega og bæjarbúar fari að undibúa komu þeirra með notalegheitum. Svona svipuðum og maður fær í Hafnarfjarðaleikhúsi: Ullarsokka, kaffi, heitar pönnsur og falleg orð í umslagi.

Serótónín í brauð takk fyrir!

Éti maður vissa tegund af lyfjum getur það breytt lífi manns alveg stórkostlega. Hætti maður síðan að taka þau af því að maður nennir ekki alltaf að vera í apotekinu að endurnýja skammtinn sinn (heitir frestunarárátta) hefur það líka stórkostlegar afleiðingar.

Ég held að ég sé að ganga í gegnum það núna og það sé orsök þess að ég er voðaleg í skapinu og mig hálf svimar alla daga og ég held að ég sé að verða veik en verð ekkert veik. Ég var farin að halda að ég væri komin á breytingaskeiðið svona korn-ung af því að það getur alveg gerst en svo las ég um hækjuna mína góðu og hún kemur í veg fyrir hitt og þetta í sambandi við tíðarhringinn. Hins vegar hef ég aldrei átt slík vandamál. Aldrei orðið brjáluð nokkrum dögum áður en klæða-vesenið og sóðaskapur kroppsins míns hefst. En svo virðist vera að hætti maður að taka hækjuna sína þá hefur reiðin og ósköpin læðst inn í líf mitt í formi frákvarfseinkenna. Ég sé RAUTT. Ég sé yfirleitt ekki rautt og gerði það ekki áður en hækjan kom inn í líf mitt til að hressa upp á serótónínforðan og gera hann virkan og glaðan.

Núna sit ég hér alveg viðþolslaus að bíða eftir að ódýrasta apotekið í bænum fari á fætur. Það nennir enginn á fætur fyrr en kl. 10 á morgnanna orðið. Og ég ætla að éta og éta þetta fjandans lyf þangað til það dregur mig til dauða. Af hverju í fjandanum er ekki hægt að fá serótónín úr ristuðu brauði með gúrku og tómötum? Það myndi spara fjandans fullt! Vesen er þetta. Ég hélt að heilinn væri náttúrulegt fyrirbæri en hann er greinilega verksmiðjuframleiddur fyrst hann þarf svona sérhæfðar mannaísetningar. Við erum kannski þrátt fyrir allt heili í krukku stjórnuð af illum anda?!

mánudagur, maí 19, 2008

Ræræræræ

Komst að því að maður verður að halda í vissar reglur til að halda geðheil-Sunni þegar skóla sleppir. Fór því í mína vikulegu heimsókn til vinkonu minnar, sem nota bene bauð mér í leikhúsið þessi elska, og lífið fékk tilgang að nýju. Er heima hjá mér alein (sofandi barn telst ekki með samkvæmt Parísardömunni)og alsæl með lífið og tilverunua. Og langar að massa og massa fullt af hlutum. Veit ekki hvar ég á að byrja svo ég opna einn lítin bjór.
Skál.
Svo hefst vinna vinna vinna 2.júní. Nóg að gera og ég hlakka til að fara "heim" til allra bókanna og raða þeim upp. Ji og plasta! Það er massa gaman.

Mammamammamamma

Enn og aftur kvarta ég yfir því að hafa fullt af tíma og vita ekkert hvað ég á að gera við hann. Reyndi að lesa í gærkveldi og mér fannst það hundleiðinleg bók. Ég ætla samt að rembast í gegnum hana. Hún er öll um það hvernig það er að yfirgefa heimaland sitt. Milan Kundera með uppgjör í gegnum kvenpersónur amk. finnst mér það. Ég er að reyna að setja Skaganes í samhengi en ég held að fólk sem hefur flutt til útlanda í lengri eða skemmri tíma eigi eftir að samsama sig.

En mér var óvænt boðið í leikhús í gær. Sýningin var dásamleg og ég er hæst ánægð. Fékk bréf í lokin frá mömmu og ég trúi öllu sem stendur í því þó svo að einhver annar hafi samið það. Mjög gott að vita hvað mömmu finnst þrátt fyrir allt. Hún er varla fær um að segja mér það sjálf blessunin. Ji hvað ég sakna hennar mikið. En hún er bara ekki sama manneskjan lengur. Það glittir í það stundum en svo hverfur það. Svona er lífið. Bara sí svona. Maður þarf bara að átta sig á því hvað maður er valdalítill og sætta sig við það. Sumu getur maður ekki stjórnað. En löng sorgarferli eru varla holl nokkurri manneskju. Mjög þreytandi. Hins vegar er alveg ótrúlegt hvað maður getur rifið sig upp á stundum. En það getur verið reglulega erfitt að lifa sínu eigin lífi án þess að fá samviskubit. Það er auðveldara að kóa með þessu heldur en að bíta á jaxlinn og segja: uss ég á eftir að lenda í þessu, best að njóta lífsins.

Jæja, best að halda áfram í sumarfríi.

sunnudagur, maí 18, 2008

laugardagur, maí 17, 2008

Bara þreytt í fríinu mínu

Ég er alveg viðbjóðslega þreytt. Eitthvað sem mig langar ekki til að vera svona þegar ég er í fríi.
Í sjónvarpinu er Djöstinn Timberleik að glenna á sér tattúin sín og leika töffara með derhúfu í blómafokkíng skyrtu. Mig hefur langað að sjá þessa mynd síðan ég rembdist við að horfa á Emminemm spreyta sig svona til að bera þá saman en ég nenni ekki að horfa á sjónvarp.

Drengurinn er líka rosalega þreyttur. Steinsefur og sefur. Mig langar til að skríða upp í til hans (nei hann fær ekki að fara úr mömmu holu strax það er svo gott að kúra hann!) en mig langar svo að gera eitthvað og gera.

Við vinstri hlið er bókin um tungumál og hes. Við hægri hlið er bjórglasið sem ég er búin að þrá að fá að drekka í friði og ró. En mest langar mig til að loka augunum. En ef maður ætlar bara að sofa í fríinu sínu þá er það ekkert frí. Dagarnir fjúka bara í burtu ætli maður að vera sofandi.

Djöstinn er kominn með brúnan hatt á hausinn...hann er eitthvað að spjalla við vin sinn. Svo ganga þeir saman í burtu. Það er heitt og notalegt kvöld hjá þeim í myndinni. "Fallegi drengurinn minn", segir feitur gaur við Djöstinn og kyssir hann á kinnina...allir fullir og dópaðir eða ukkað. Þetta er ekki...neiHHH! Svíkeapúði eins og ég á! Vá. Djöstinn er bara að gera sig! Ég held ég lesi bara Bottglob Refge. Fer kannski svo bara í heitt bað...og lúrikúri fallega drenginn minn.

miðvikudagur, maí 14, 2008

Sumarfrí

Og þá er ég komin í sumarfrí og ég ætla að vera alger dúllari þangað til sumarvinnuperíodan hefst. Ó allt sem mig hefur langað til að gera en gat ekki gert fyrir lærdómi og fleiru...langar mig ekkert til þess að gera núna. Nú veit ég ekkert hvað ég á við mig að gera. Myndi fara út í garð í sólbað ef það væri aðeins öruggara umhverfið fyrir litla prinsinn minn. Hann er svo alger að ég get ekki treyst því að hann hlaupi út á götu. Ég nenni ekki svoleiðis sólbaði.

Farin að hafa það gott og heilalaust. Prjóna kannski eins og einn sokk...eða ukkað.

mánudagur, maí 12, 2008

Ég elska þetta húsGAGN

Bla blí blú ahhtsjú


Þegar ég sat sveitt við bækurnar á laugardagskvöldið hringdi síminn. Þar var mér tilkynnt að Sam Amidon væri að fara að spila eftir nokkrar mínútur. Ég gaf mér 7 mínútur og pantaði síðan leigubíl niður í bæ. Og sé ekki eftir því. Ákvað að drífa mig áður en það verður rukkað meira en 1200 kr. fyrir að berja drenginn augum.

Þetta voru frábærir tónleikar. En kostuðu sitt. Ég ofkældist á leiðinni heim og er með þvílíka horlekann. Ég er að hugsa um að setja ukkað yfir lyklaborðið eða vera ekki mikið yfir því í dag.

Próf á morgun. Ég er fegin að þetta er að verða búið en ég viðurkenni að nútíma frumspeki er ansi flókið fyrirbæri fyrir mig. Ekki alveg að gera mig hérna. Held að ég ætti bara að halda mig við Platon. Hef ekki þroska fyrir meira. Ætli ég verði ekki að klóra mig í gegnum nýjar nótur til að koma heilanum í gang fyrir lestur dagsins...eða taka nokkrar sjúddúkú-gátur til að vekja hr. Heilus. Kaffið er ekki alveg að virka hérna nebblilega...ahhhsstjúhhh!

laugardagur, maí 10, 2008

Mö má mí mú...nenni ekki að læra meira


Ég vona að ég hafi enn áhuga á að lesa þessa bók þegar ég er laus við annars skemmtilegt nám.
Ég þarf líka að losna við lina bumbu framan á mér. Það er húðsvunta utan á mér sem er óþægileg og pressar sér ukkrun vegin upp úr buxunum og kremur magann í klessu. Frekar óþægilegt. Ég fer í ýmiskonar bönn bráðlega.

föstudagur, maí 09, 2008

Þreyttust

Ég er orðin svolítið þreytt á rituðu máli.

fimmtudagur, maí 08, 2008

Helvítis djöfulsins hormónar

Mér hefur gengið skelfilega að lesa þessa dagana. Ég skil ekki neitt. Sjálfstraustið er alveg að fara út um gluggann. En ég ákvað að gera tilraun og prufa að lesa eitthvað allt annað (Ódyseifskviðu). Og þegar ég varð þess vör að ég skildi það ekki heldur ákvað ég að slaka á og gefa skít í prófalestur. það er greinilega hormónavesen í gangi. Best að keyra sem minnst í dag og taka lítið mark á rúmskynjun minni. Vonandi eykst testosteron-framleiðsla fljótt svo ég fái skerpuna í hausinn aftur. Ég hef grun um að undanfari klæða-veikinnar sé hér að verki.

þriðjudagur, maí 06, 2008

Smá kast áður en skræðurnar eru opnaðar


Ég hef ekkert að segja en það er aldrei að vita nema að ég böggi lesendur með frumspeki þessa vikuna. Svona bara til að fá útrás sjálf. Ég fékk hins vegar alveg svakalegt tilboð í gær frá vini mínum í litlu heimspeki-klíkunni minni. Tilboðið er gistin í Keflavík og frumspeki-prófs-undirbúningur. Og þar sem vinir mínir tveir eru svo svaklega klárir ætla ég að þekkkkkkjast þetta boð með eins mörgum káum og mögulegt er. Mér veitir ekkert af. Ég er alveg orðin kolrugluð á realisma og anti-realsima og mér finnst textinn í bókunum erfiður því ég er með orðaforða á við gullfisk þegar kemur að öðrum tungumálum.

Ég hef samt lagast heil ósköp en það er ukkað sálrænt sem böggar mig þegar ég les enska texta. Ég held að í undirmeðvitundinni sé ég fyrirfram búin að afskrifa skilning. Það tekur mig t.d. 4 - 6 klst. að lesa 30 blaðsíður í hes. Ég ætti kannski að panta tíma hjá dáleiðara.

Svo er heimspekin nánast með sitt eigið tungumál.
Fyrir utan að eftir því sem textar heimspekinnar eru yngri þeim mun hræddari eru höfundar við að láta hanka sig á orðalagi og notkun orða. Mér skilst að það sé rökgreininarheimspeki en ég hef ekki kynnst henni að neinu ráði. En útkoman er helmingi leiðinlegri texti. Og hvað frumspekina varðar finnst mér hún vera meira rifrildi um hvaða merkingu orð hafa.

Það er stundum eins og maður bendi öðrum á risastórt fyrirbæri út í náttúrunni og segir: "fjall" en þá myndi hinn segja: "nei, kúkur." Og að það sé alveg sama hvað maður segi það skilji mann ekki nokkur hræða. Maður gæti alveg eins sagt: "me", við makann sinn eins og að biðja hann um að fara út með ruslið (reyndar er það svo hér svo ég djóki nú að eins í mínum manni) það skilur mann aldrei neinn hvort eð er.

En svona að mörgu leiti þá er hellings hellings í frumspekinni sem segir manni hversu nauðsynleg hún er. Það er ágætt að fara alveg á bólakaf ofan í frumspeki-hafið og gera sér grein fyrir því hvað það er mikilvægt að við leggjum sömu meiningu í hugtök eins og t.d. umburðalyndi (það eru nefnilega skiptar skoðanir á hvað það er).
En ég vona að ég verði ekki óþolandi þegar upp er staðið og breytist í Sókrates þegar ég á í samræðum við vinkonur mínar. Ef vinkona mín kvartar undan óréttlæti þá væri ekki mikill stuðningur í mér ef ég spyr hana hvað réttlæti sé til að athuga hvort við leggjum sömu merkingu í orðið áður en við förum í kvörtunarhaminn um hvað heimurinn sé stundum vondur við okkur (hér þyrftum við nottlega fyrst að fara í hugtökin um tíma, rúm og orsakasamhengið).

laugardagur, maí 03, 2008

Próf, kaupusýki, tilviljanir ofl.


Vildi óska þess að Illugi Jökulson myndi þýða fleiri.
Honum tókst það svo frábærlega með þá sem hann þýddi.
Ég hló og grét og hló. Skora á hann hér með að gera mér
til hæfis.


Þá er ég búin að taka eins og eitt próf og vonn tú gó. En ég á líka eftir 2 verkefni og 1 skýrslu. Ég kvíði skýrslunni alveg heiftarlega vegna þess að ég hef ekki hugmynd um hvað ég á að gera og hvert markmiðið með henni er. Svo finnst mér hrikalegt að þurfa að hafa skýrlsu hangandi yfir mér í prófalestri. Það er bara fáránlegt. Þetta allt á að gerast fyrir 13. maí og svo er prófið þann 13. og ég þekki mig svo vel að ég veit að ég á ekki eftir að massa þetta.

1. maí var alveg stórkostlegur. Ég fór með móðursystur minni í kaffiboð hjá Kennarasambandi Íslands og þvílíka kaffiboðið. Ég hef aldrei á ævi minni farið í svona fínt ókeypis kaffi á veitingastað út í bæ. Ég þakka Kennarasambandinu innilega fyrir þessar veitingar.

Svo gat ég fyllst kaupusýki og varð að fara í Kolaportið. Þar fann ég kápu á 700 kall og tölvuleik á 500. Nú þegar kaupusýkis-púkinn kemur upp í mér legg ég leið mína í bókabúðir eða Góða Hirðinn. En að öllum líkindum fer ég að sniðganga bókabúðir eftir að hafa grætt svo stórkostlega í Góða Hirðinum um daginn. Ég fann uppáhalds glæpakónginn minn, sem mér fannst fáránleg tilviljun*, og helling af honum. Ég valdi 12 stykki og hver þeirra kostaði mig 50 krónur. Ég sparaði mér sum sé 12 x 13-1500 kall.

*Eftir þekkingarfræði-kúrsinn minn hefur vaknað hjá mér mikill áhugi fyrir tilviljunum. Mér finnst ég alltaf vera að lenda í fáránlegum tilviljunum. Sbr. bækurnar sem ég fann í Hirðinum Góða. Sunnudeginum áður en ég fór í GH var Mannaveiðar í sjónvarpinu. Það sem ég hjó eftir þar var að ekki einungis var afmælisdagurinn minn nefndur heldur var hinn umræddi glæpasagnahöfudur líka í þættinum (ég þekki engan nema mig sem les þennan kall og fáir virðast vita af honum, eins og hann er dásamlegur). Síðan fer ég í GH á föstudeginum eftir og þar er bara þessi massi af bókum eftir herrann! Þær voru ekki í hillunni vikunni á undan skal ég segja ykkur (er farin að venja komur mínar einu sinni í viku). Mjög hressandi og skemmtilegar tilviljanir.

Eftir að ég verslaði dýrum dómum rafmagnsknúinn hægindastól fyrir móður mína hef ég verið með ákafa þrá eftir að eignast slíkan stól. Vinkona mín á tvo hægindastóla, Lazyboy takk fyrir, og mig dauðlangaði í annan þeirra. Svo lést faðir systkyna minna rétt fyrir áramót (31. nánar tiltekið) og þá var systir mín komin með þennan gullfallega Lazyboy í stofuna hjá sér. Og maður grær við stólinn og vill ekki standa upp. Ég er búin að sjá mig fyrir mér í svona stól með höfuðtól og bók í hönd, gott ljós og góða bók síðan ég settist í Lazyboyinn hennar.

Haldiði að það sé ekki einn í GH! Grænn og skítugur. Beið eftir mér í tvær vikur en þá stökk ég á hann. Vegna sjúskleika fékk ég hann á 4000 en yfirleitt eru þeir seldir á 5000. Svo var massað fyrir mig bíl sem kostaði 1400 þegar heim kom og draumur minn hefur ræststststst! Heimilisfaðirinn var ekki hrifinn af þessum skítuga stól og óttaðist hann það sem hugsanlega fylgir með honum (gott að fréttin um lyklaborðin kom í sjónvarpið í gær svo hann geti gleymt stólnum). Ég sagði honum að ég væri viss um að Þorsteinn heitinn Gylfason hefði átt stólinn. Hann róaðist helling við þetta. Og á meðan ég skrapp út í 1. maí - kaffi stalst hann til að setjast í stólinn og festist í heilar 20 mínútur. Varð síðan að hringja í mig til þess að deila með mér ánægjunni sem fylgdi því að sitja í stólnum. Ég fylltist mikilli örvæntingu og hræðslu og sagði með þjósti að þetta væri minn stóll!

fimmtudagur, maí 01, 2008

Angur í prófalestri sem kemur náminu ekkert við!

Eitt sem er að angra mig í miðjum prófalestri:

Hvernig var þetta með grunnskólana, ríkið og sveitafélögin? Vildu sveitarfélögin fá grunnskólana eða tróð ríkið rekstri grunnskólanna upp á sveitarfélögin?

mánudagur, apríl 21, 2008

Segðu mér bara satt og rétt og færðu fyrir því rök...og kannski mun ég kjósa þig.

Í kjölfar þessarar semi-afgreiðslu á íslenskri pólitík frá því í gær dettur mér í hug eftirfarandi:

Stjórnvöld segjast ætla að lækka skatta og lækka skatta hjá þeim ríku vegna þess að hugsanlega hafa stjórnvöld þau plön að í kjölfarið muni eitthvað gerast í efnahagskerfinu sem verður þess valdandi að hægt verði að laga hlutina hjá þeim láglaunuðu. Þeir segja bara ekki frá leiðinni af ótta við að verða ekki kosnir, segjast bara ætla að lækka skatta.

En svo lækka þeir skattanna hjá ríka fólkinu, ríka fólkið tekur bruðl-tremma, rústar efnahagskerfinu í botn og þess vegna kemur aldrei að okkur hinum. Heldur erum það við sem björgum skútunni. Og svo er það kallað Þjóðarsátt: "Veeerkalýðurinn verður að staaanda saman til að halda þjóðarskútunni á floootii", gellur í lúðrum 1. maí.

Síðan er öllu stillt upp eins og það séum við með 100 þúsund kallinn sem þurfum að fara að spaaaraahhh. Við verðum að halda að okkur höndunum!

 • Selja sjónvarpið svo spara megi afnotagjöld á heimilinu.
 • Setja alla ofna í 1 (það má alls ekki loka fyrir ofnana ef þið vissuð það ekki vegna þess að það kostar fullt af peningum að láta streymið á aftur, þannig að ALLS EKKI LOKA ALVEG FYRIR ÞAÐ KOSTAR SVO MIKIÐ ÞEGAR ÞIÐ ÆTLIÐ AÐ HÆKKA HITANN ÞÓ EKKI VÆRI NEMA Í TVO...ég er sko pípara-dóttir þess vegna veit ég þetta...já og ef Danfoss-kraninn er sömu megin og opnanlegi glugginn í húsinu þá er það ekki gott heldur. Þeir nema nebblilega hitabreytingar og keyra allt á fullt finni þeir fyrir kulda t.d. frá glugganum sem stendur opinn fyrir ofan...aha!)
 • Ef maður eldar mat í ofni...nýta hitann þegar maður slekkur og loka honum ekki.
 • Spurning um að loka fyrir öll símtöl í símanum. Bara rétt að hringja í 112 og grænu númerin þurfi maður að spjalla.
 • Taka rauða krossinn við símanúmerið í skránni af svo einhver hringi í mann og spyrji mann um frábæra þjónustu símafyrirtækis. Alltaf gaman að spjalla.
 • Baðkar- svo allir geti farið í sama vatnið.
 • Sorrí...buxur á 500 kall hjá Hjálpræðishernum takk fyrir. Hallærislegt eða að fara ekki út úr húsi (versla þar sjálf reyndar...með góðum árangri).
 • Hætta að þrífa húsið sitt. Það má prjóna flíkur úr þeirri ló sem myndast á flísum og parketi. Fjárfesta í rokk!!!
 • Hænur eru leyfilegar í görðum...eggjaframleiðlsa...
 • Skrá sig í háskóla og fá ókeypis strætó kort að andvirði 50 þúsund með námskeiðum.
 • Fara ekki í bíó, ekki út að borða, ekki í leikhús, ekki í líkamsrækt, ekki á tónleika, ekki kaupa áskrift af blöðum (lof sé blaði fátækra, skuldara og fátækra skuldara...hvernig væri að fá blaðið um helgar...)
 • Ekki draga andann...vertu nægjusamur og njótu þess sem þú átt nú þegar og getur moðað úr en horfðu síðan á eftir nágrannanum á leið til í sumarhúsið sitt í Frakklandi í einkaþotunni og hugsaðu með þér: Sá kann sko ekki gott að meta. Hvernig væri að fara að lifa lífinu lifandi.
 • Ég get haldið endalaust áfram en þá verð ég þreytt...
Hmmm...og hverjum er sum sé að kenna fall þjóðarskútunnar? Mér?! Af því að ég fór út í búð og kuffti mér flatskjá og píanó? Og svo kaupi ég mat! Ónýtar paprikur í Bjánus og myglaðar að innan (kemst að því í miðri matseld og búið að loka...jamm).

Nei ég er farin að halda að mér komi þetta ekki við. Og svo er MÉR sagt að ég sé með gervivandamál. Að það sé fólk úti í heimi sem getur ekki fengið að borða! Af hverju er verið að segja mér það? Ok, ég veit það en það er ekki mér að kenna að ég eigi ekki aflögu örfáar krónur til þess að rétta samtökum sem HUGSANLEGA koma þeim til skila. Af hverju má ég ekki bara fá eitt sætt nýfætt barn á morgun með flugvél og hugsa um það og koma því til manns ef við erum svo frábær í henni Evrópu? Af hverju þarf fólk að fara í gegnum ætleiðingaferli þegar það er vitað að barni er betur komið hér en á munaðarleysingjahæli eða dautt úti á götu eins og ég sá á mynd bíðandi í mæðraskoðun blaðandi í ukkuru Hellói?

Nei ég held að ég ásamt fleirum sé ekki ábyrg fyrir þessu. Ef svo er, þá vil ég fá að vita það. Eflaust gæti ég gert betur en ég er að reyna að lifa lífinu. Mig langar að lifa í samfélagi við fólk og ég vil að við stöndum saman. Mig langar hins vegar ekki að axla ábyrgð á því sem ég fékk ekki ráðið við.

Bla bla bla bla
Góðar stundir...próf framundan.

sunnudagur, apríl 20, 2008

Er lýðræðið að virka?

Ég er algerlega heilluð af bók sem ég er að lesa. Hún er ekki til prófs blessunin því miður en ég get ekki hætt að lesa. Og svo er ég orðin alveg brjáluð inn í mér þannig að ég verð að létta á mér.

Fyrir um 2300 árum síðan skrifaði Platon og lagði Sókratesi í munn eftirfarandi:
"þú hrópar húrra fyrir mönnum sem hafa fordekrað Aþeninga með því að láta allt eftir þeim, og hlaðið ofan í þá öllu sem þeir hafa beðið um. Sagt er að þeir hafi gert borgina mikla. Staðreyndin er hins vegar sú að hún bólgnar af graftarkýli - svo er þessum gömlu leiðtogum að þakka - en þessa verður fólk ekki vart. Og ástæðan er sú að þeir hafa fyllt borgina af höfnum, slippum og sköttum og annarri þvílíkri heimsku án þess að skeyta um hófsemi eða réttvísi". (Gorgías, bls 518-519.)


Er það ekki soldið sorglegt að sjá að samfélag manna læri aldrei neitt? Það sem er enn verra er að Sókrates þrasar við karl að nafni Kallíkles sem stendur fyrir einstaklingshyggju og honum tekst ekki að kveða karl í kútinn.

Ég og móðursystir mín áttum samtal í gærkveldi þar sem við ræddum pólitík þessa lands. Ég sagði henni að í stjórnmálaheimspeki hefði kennari vor sagt að þrasið á milli flokka væri ekki vegna þess að menn væru ekki sammála um að það þyrfti t.d. að lækka skatta heldur væri þrasið um hvaða leiðir ætti að fara þeim málum. Þannig að þegar maður kýs flokk er maður að kjósa leið að breytingum samkvæmt þessu. Þannig að kjósi maður sjálfstæðismenn er maður að fara þá leið að lækka skatta hjá ríka fólkinu en kjósi maður ukkað annað t.d. vinstri græna, lækkar maður ekki skatta af því að það er ekki sniðugt eins og stendur.

Sjálfstæðisflokkurinn er svo skammaður fyrir að lækka ekki skatta. En hann svarar því til að hann hafi lækkað skatta. Sem er alveg rétt, hjá ríka fólkinu. Þannig að loforð þeirra stendur. Þeir segja bara í kosningum að þeir ætli að lækka skatta en aldrei hvernig. Og nú er það ljóst að þeir segja heldur ekki hverjir verði þess njótandi. Ef þeir segðu frá því hvernig þeir ætli að lækka skatta þá er spurning hvort flokkurinn yrði kosinn yfirleitt.

Pólitík er sem sagt bara mælskubrölt. Og sá sem mælir af mikilli list er kosinn eins og á tímum Platons. Platon er einmitt að gagnrýna slíka mælskulist í Gorgíasi þ.e. þar sem tilgangurinn er einungis að sannfæra fólk um hvað eina sé satt eða rétt. Ekki að segja neitt að viti heldur að sannfæra af kappi (ætlaði Einar Ben ekki að plata Norðurljósin inn á útlendinga?). Eftir þetta spjall las ég svo í Gorgíasi:

Þegar Platón gagnrýnir mælskulistina, er hann jafnframt að deila á lýðræðið. Áróður og sannfæringarbrögð virðast vera óhjákvæmilegir fylgifiskar lýðræðisskipulags: þegar stjórnmálamenn verða að keppa um hylli kjósenda til að halda völdum eða krækja sér í þau, eru þeir tilneyddir að beita öllum tiltækum ráðum til að afla skoðunum sínum vinsælda. Og þeir verða að hafa skoðanir á öllum málum, líka þeim sem þeir hafa engan skilning á og eru ekki dómbærir um.
( Inngangsorð Eyjólfs Kjalars Emilssonar, Gorgías, bls. 29.)
Hvað er í stöðunni? Að hætta að taka þátt samfélaginu og ota einungis sínum tota með því að reyna að svíkja undan sköttum eða hugsa um sig og sína og spá ekkert í lýðræði meir og hætta að kjósa? Reyna að lifa lífinu sínu eins og það er og fylgja þeim straum sem er sniðin að manns fjárhagslega stakki? Ég sé ekki að neitt sé að fara breytast. Það hefur ekki gert það í amk 2400 ár.
Ja hérna hér. Meira hvað maður getur orðið pirraður. Góðir hlutir hafa svo sannarlega gerst en hægt. En græði og lygi virðast alltaf bera sigur úr býtum. Nema í ævintýrum. Eru græðgi og lygi ekki hluti af lýðræðinu?

laugardagur, apríl 19, 2008

Tilgangslaust tuð um gervivandamál

Spilaði Trivial í gær og á gulu- KÖKU- reit fékk ég spurninguna hvar Benashir Buttho hefði verið forsætisráðherra. Ég var á köku nota bene. Og ég svaraði með gulu kökuna í hönd montin og alsæl:
Pakistan.

Sorrý, Stína, svarið er AFGANISTAN!
Er ekki í lagi? Sá sem skrifaði þetta svar veit ekkert um Talibana og að hugmyndir þeirra um konur eru ekki að vera forsætisráðherrar.

Spyrill sá aumur á mér en hvort á maður að fara eftir spjaldinu eða sögulegum staðreyndum þegar maður spila Trivial? Ég velti því fyrir mér í hvert einasta skipti sem upp koma furðulega orðaðar spurningar og svo spurningar á við þá sem ég fékk. Maður er að spila spil þar sem maður þarf að svara "rétt". En ef ég hefði verið spurð af manneskju sem veit ekkert um Pakistan, Afganistan eða Benasir þá hefði ég kannski fengið: En það stendur á spjaldinu, og þú færð enga köku.

Ég er bara reglulega ósátt við þetta. Ótrúlega fúl. Sló mig algerlega út af kortinu. Fólk trúir nebblilega öllu sem stendur í Trivial og finnst auðveldar að læra í gegnum það heldur en ukkurar kennslubækur. Já. Barasta...döhhhh! Hvað ef Lagarflót verði nú fært í Elliðarárdalinn? Ég veit ekkert um ár og brúr og bakka þessa lands og gæti bara vel farið að trúa slíku.
Stórhættulegt lýðræði og upplýsingasamfélagi okkar, þetta Trivial Pussút.