miðvikudagur, janúar 30, 2008

Sorrý strákar...

...en þetta er bara alveg satt og fær mann til að springa úr hlátri

MANCOLD

Kláraði Bukow í gær og er stolt af því að hafa tekist að ljúka skáldsögu fyrir næstu áramót. Nú get ég slappað af restina af árinu. Er alltaf í kvíðakasti yfir því að komast ekki yfir heila bók.

Ég er enn að lesa nokkrar í einu. Kannski tekst mér að klára þær fyrir jól en eins og ég segi er róleg yfir því.

þriðjudagur, janúar 29, 2008

Unglingur í einn dag


Ég stóð svo sannarlega við það sem ég sagði í gær. Þangað til að það kom að kveldmat. Snaraði fram einhverju sem enginn borðaði nema ég...jú annars ég lýg því. En ég sat ein við matarborðið. Einn var sofandi og hinn var ekki viss hvort hann borðaði mat yfirleitt. Ég átti gott spjall við vinkonu um daginn um drengina okkar sem virðast ekki borða neitt. Svo ég var ekkert að hafa áhyggjur af því að Dagur þyrfti að hugsa sig um.

En ég varð andvaka í nótt og las mér til skemmtunar. Og mikil skemmtilesning þar eða Post Office eftir Bukowski. Jiminn hvað hún er skemmtileg. Hann er alltaf timbraður í vinnunni og svo fer hann á veðreiðar og svo humpar hann einhverjar vinkonur sínar...lífernið er dásamlegt. Fínt að lesa það svona í bók. Best að hann er alltaf timbraður í hundleiðinlegu vinnunni sinni sem hann nennir virkilega að mæta í. Bara fyrir bokkuna, bjórinn og veðreiðarnar. Ég mæli svo sannarlega með þessari hafi fólk ekki lesið hana.

Skemmtilegast er að eins og maðurinn hefur verið dásamaður fyrir hvað hann er frábær rithöfundur (sem hann er, þetta er rosalega gaman) að þá eru þetta engar heimsbókmenntir með einhverjum orðavaðli. Þetta er enginn Thor sem tekur nokkrar blaðsíður í að lýsa læk niður hæð heldur saga um fyllibyttu. Sem er mjög skemmtileg fyllibytta.

Ég er að verða búin með bókina ég bara les og les...og er farin að lesa meira...

Mæli með: Bókmenntum fyllibytta.

mánudagur, janúar 28, 2008

Fullorðins-leikur er ekki skemmtilegur


Og það snjóar! Og það er gott að vera inni hjá sér að horfa á þetta og hlusta á konurveraldar-tónlist. Ég er að þykjast vera veik í dag. Er með kvef sem er skárra í dag en í gær og fyrradag. En ég er skrópari í dag. Og langar ekki til að lesa heimspeki eða neitt skóla-tengt. Mig langar bara til að liggja í skáldsögum og glamra á píanóið og hlusta á tónlist og vera eins og ég sé unglingur á heimili foreldra minna.

Maður fer alveg í klessu við að verða fullorðinn. Það er svo boooring. Fullt af leiðindum. Taka til, reyna að láta enda ná saman, taka hundleiðinlegar ákvarðanir um hvað eigi að vera í matinn, elda matinn, taka til eftir matinn...þvo föt, þurrka föt, brjóta þau saman og setja inn í skáp. Skipuleggja allt þangað til að maður fær pásu til að liggja í leti. En listinn er endalaus. Þegar maður er búinn að maður heldur, byrjar allt aftur. Ef ég væri ægilega rík væri heimsendur matur á hverjum degi. En þá myndi ég fara í fýlu yfir því að þurfa að hringja í matinn og segja honum að koma. Svona er ég ferleg.

Stundum finnst mér voðalega gaman í fullorðins-leik, set í brýrnar og massa á fullu...en svo á dögum eins og þessum, vil ég ekki þurfa að hugsa heila hugsun um að gera gera. Alltaf gerandi eitthvað. Svo slakar maður pínu ponsu lítið á...horfir á fegurðinga í kringum sig...allt svo yndislegt...og rólegt...og svo allt í einu í afslöppuninni rísa á manni hárin, augun glennast upp í skelfingu, hjartað fer á fullt: Það er ennþá í þvottavélinni síðan í gær!!! Og maður skammar sig fyrir að vera að slaka á. Maður gleymir hlutum ef maður slakar á. Ég er hætt að slaka á. Það gengur ekki! Ég verð bara að vera á taugum svo ég muni allt sem ég þarf að muna.

Til dæmis muna það að lesa utan á klósettpappír í búðinni um að hann sé klósettpappír en ekki eldhúsrúllur. Óþolandi eins umbúðir fyrir skussa eins og mig.
Mæli með: Women of the World Acoustic sem fæst í kaffibúðum og og og ukkustaðar fleiri stöðum.

föstudagur, janúar 25, 2008

BjánusdagurÞað er meira úrval í Bjánus út'á nesi heldur en í Beyglunni. Mér leiðist alveg afskaplega að fara út í Beyglu að kaupa inn í matinn. Þess vegna er ágæt að fara út á nes. Í dag lenti ég kortaveseni svo ég þurfti að fara tvisvar í Bjánus. Kortið svaraði ekki út á nesi og ég var búin að versla fyrir fúlgur fjár. Þurfti að skila öllu og fara heim og aftur í Bjánus. Oj, og fór í Beygluna. Það var ekkert á við Bjánus-nes. En styttra.

Dagur er að fleygja peningum út um alla íbúð. Frábært uppeldi! Strax farin að bera virðingu fyrir krónunni, eða þannig.

Á
morgun er fyrirlestur sem mig langar að fara á. Brjálaður pönk-heimspekingur. Ef ég er ekki að fara að skauta þá massa ég pössun og skrepp að sjá brjálæðinginn.

fimmtudagur, janúar 24, 2008

Blái hanskinnÉg er alveg ægilega montin. Við þurfum að taka próf í frumspeki tvisvar í viku. Þetta eru skítlétt próf yfileitt og hvert próf gildir 1% af heildareinkunn. Þegar ég skora 10 á þessum prófum er ég í hæstu hæðum. En þetta er alger lágmarksskilningur á efninu! Ég er ekki í lagi. En það er ótrúlega gaman að sjá stundum 10 á prófi burt séð frá þyngd þess.

Og ég er ekki alveg búin að jafna mig á borgarpólitíkinni. Þegar ég sá skoðanakönnun í blaði fátækra skuldara, sem sýndi þennan ótrúlega litla stuðning þátttakenda á nýja fyrirkomulaginu, fór ég öll að skjálfa af reiði yfir hvernig lýðræðið snýr á sjálft sig alltaf hreint. Kannski er lýðræði ekkert rétta fyrirkomulagið, amk, ekki í þeirri mynd sem það er nú, sum sé í formi flokksmeirihluta sem var ekki kosinn á sínum tíma. Samfylkingin hafði þó meira fylgi heldur en frjálslyndir.

Ég er svo sammála Dr. Gunna í bakþönkum Fátækra skuldara að ég fór að velta því fyrir mér hvort ég ætti að stofna nýjan flokk með bakþanka Dr. Gunna að leiðarljósi. Þetta er alveg rétt hjá honum með Ingibjörgu og Össur. Þau hefðu bilast á þingi yfir ráðningu Árna Matt væru þau í stjórnarandsstöðu.

Og hugsið ykkur! Björn Bjarna: "Ábbni minn, væriru ekki til í að vera dómsmálaráðherra fyrir mig í smá stund. Sonur hans Dabba er meðal umsækjenda og ég er ekki hæfur til þess að ráða hann. En ég get gefið honum ágætis meðmæli, ég er nú svo dómbær á margt...
-Ábni: "já á ég að ráða hann?"
-Björn Bjarna:" Ja ef þú ert í einhverjum vafa, skaltu fara í bláa hanskann þarna á borðinu og fletta í flokksbiflíunni, það gæti gefið þér einhverja hugmynd um hvað er rétt í þessu."

miðvikudagur, janúar 23, 2008

Hneyksluð

Ég er svo yfirmáta hneyksluð.

Ég er hneyksluð á borgarstjórnarmálum. Og ég vil ekki sjá þennan Villa í borgarstjórn. Það hefur sýnt sig að mannkynið lærir ekkert af mistökum sínum og geri fólk mistök gerir það þau aftur í annars konar formi. Eins konar determinism í gangi. Villi á pottþétt eftir að gera stórkostlega skandala. Ég vil hann út eins og fiskurinn í kettinum með höttinn. ÚT!

Ég er líka hneyksluð á bílaframleiðanda sem býr til bíla með stefniljósinu á hliðarspeglunum. Maður sér ekki stefniljósið fyrr en of seint. Svo er greinilega ekki gert ráð fyrir að speglarnir brotni frekar af heldur en að framljósið eyðileggist. Ég vil fá stefniljós að framan á þessum bílum! Og ég vil sjá fólk nota fjandans stefniljósin ALLTAF þegar það á við. T.d. í hringtorgum. Það er ekki hægt að lesa í hegðun ökumanna á bílnum einum saman! "Hvað ætlar hann að gera?" er ekki setning sem á að þurfa að leiða hugann að í umferðinni.

Í kjölfarið: Ég vil ekki sjá Sundabraut og göng og eitthvað svona. Ég vil einmitt að einkabílnum verði settar þessar ömurlegu skorður sem hann hefur núna og að fólk komist ekki heim til sín fyrr en eftir dúk og disk. Einmitt í þessu bílakraðaki á efla almenningssamgöngur og neyða þannig einkabílafríkina upp í strætó eða sporvagninn eða hvað það verður sem reddar þessu. Það er ógeðslegt þetta svifryks-vandamál sem er að koma upp. Bráðum verðum við eins og í Kína með svona hvíta grímu fyrir andlitinu til varnar viðbjóðnum.

Já ég er hneyksluð á einhverju meiru en ég man ekki hvað það er svo þetta er framhaldssaga.

Mæli með: Að lesa Nafn rósarinnar og hlusta á Þorlákstíðir með Voces Thules í leiðinni.

föstudagur, janúar 18, 2008

Verð að blogg'um idda (sbr. áramótaskaup)

Ég var voðalega dugleg að þvo í gær. Alltaf að þvælast inn í þvottahús með körfu, fram og til baka. Og að sjálfsögðu var ég elt alltaf hreint af litla dýrinu mínu. Seinna um kvöldið keyrðum við svo næturvaktina í vinnuna. Þegar við komum heim var litla dýrið sofnað í bílnum svo ég bar krúttið inn í rúm...fór svo inn í eldhús að hlusta á þungarokksþáttinn á Rús Tvú. Klukkan var ekki orðin 23 en einhverra hluta vegna var heitavatnslaust!

Ég varð alveg brjáluð. Hvað átti það að þýða að vera að rífa af manni heita vatnið án þess að fá tilkynningu um það. Ég hlustaði á tilkynningarnar í hádeginu á Gufus og það kom ekkert fram um neina fjandans lokun! Hvað þá að þeir loki á hálfa tímanum!!!

En hvað um það. Ég hugsaði að þetta væri sjálfsagt einhver viðgerð sem væri lokið áður en við færum á fætur.

Í morgun var ekkert heitt vatn. Ég hélt ég yrði ekki eldri. Allt bilað! Ég fann heitt rennsli í gólfinu sem benti bara til eins. Bilað hjá okkur! Ég þyrfti að hringja aftur í padre og biðja hann um að koma að brjóta hér allt upp...ó nei. Allt frosið eða stíflað eða eitthvað hrææææðileeegt.

Þegar ég settist á morgun pisseríið fór rökhugsunin í gang. Hvað ef litlir puttar hafa nú fiktað í skyndilokanum? Gæti það verið málið? Ég gleymdi mér algerlega við þessa hugsun og rauk á fætur með nærbuxurnar á hælunum af spenningi yfir því hvort það gæti verið satt.

Þegar ég fór inn í þvotta hús var einn lokinn eitthvað öðruvísi en allir hinir. Litlir puttar höfðu virkilega átt hér hlut að máli. Mér létti stórum og setti rennslið aftur á mér innilega þakklát fyrir að vera svona klár í kollinum að láta mér detta þetta í hug. Ég er búin að banna litla skrímslinu mínu hundrað sinnum að fikta í rörunum og segja sínkt og heilagt: Afi á! Má ekki fikta.

Það er skítkalt inni en hiti á ofnunum.
Omg. Hvað ég er nú fegin...

þriðjudagur, janúar 15, 2008

Frumspeki

Í tíma í dag fjölluðum við um heilaskiptingar en það sem er undarleg tilviljun að akkúrat núna á Nasjónal Geógrafikk er verið að fjalla um hausaágræðslur! Oj! Haus tekinn af apa og græddur á annan apa. Apinn vaknaði! En lamaður. Mænan er til vandræða enn við þessar aðgerðir en sum sé menn eru virkilega að hamast við þetta í vísindaheiminum. Það er sum sé hægt að vera maður sjálfur í framtíðinni en með kannski allt annan líkama. Ég þarf ekki að fara í lýtaaðgerð heldur stel ég fallegum tvítugum kropp, læt afhausa hann og skella mínum á held áfram að lifa for ever end ever!

Tilviljanir eru merkilegt fyrirbæri verð ég að segja. Þær virðast svo áskapaðar oft.

föstudagur, janúar 11, 2008

laugardagur, janúar 05, 2008

Gaman gamanWhat band from the 80s are you?
You're all about the music. Not too incredibly mainstream, but not too incredibly underground. It's awfully hard for anyone to oppose you, seeing as how you rule.
Take this quiz!
Quizilla |
Join

| Make A Quiz | More Quizzes | Grab Code

föstudagur, janúar 04, 2008

Fjölskyldu-fækkanir og brugðis við því

Fleiri fjölskyldumeðlimir en Kisa hafa horfið á braut. Ein af tegundinni maður og er faðir systur minnar og bróður, og svo nánast allir fiskarnir okkar!

Við fórum því í dag og kufftum nýja fiska. Kosturinn við fiskadauða er sá að maður getur breytt um stíl í búrinu (þ.e. ef að fiskarnir deyja ekki samdægurs, þá verður maður fúll út í peningamissinn, hef ekki lent í því enn). Nú er komið nýtt þema (annað orð sem móðir frænku minnar þooolir ekki, sbr. komment frá færslunni í gær).

Þemað er stórir fiskar. Ég var búin að ákveða að ég mætti velja einn og Berti einn en svo fann Berti ekkert handa sér svo ég valdi tvo. Kallinn (ungi maðurinn) í búðinni vildi endilega meina að þessir fiskar vildu vera í pörum. Ég held því fram að svona tal sé peningaplokk fyrst fólk er ekki að kaupa einn fisk á fimmþnúst heldur einn á 900 kr. En Berti segir þetta rétt hjá unga kallinum og ég held að Berti hafi vit á þessu og kaupi allt sem Berti segir...amk í fiskakaupum.

Búrið okkar var svo ægilega fínt þangað til að Berti kom með þessa rosalegu fallega gulu snigla. Sniglarnir voru ægilega skemmtilegir. Þegar þeir soguðu sig við glerið var eins og kvenskapabarmar væru á fullu að eta ósýnilega hluti á glerinu. Bæði ógeðslegt og skemmtilegt. Öll hreyfing hjá dýrum finnst mér skemmtileg (sum dýr nenna ekki neinu eins og ryksugurnar okkar).

En þeir fóru á sínum hraða yfir allar plönturnar í búrinu sem losnuðu og enduðu allar með að stífla dæluna og eyðileggjast. Og blómið sem ég keypti með móral dauðans því það kostaði mig 3000 var etið í spað! Ég tými ekki einu sinni að kaupa mér plöntu í gluggann á þessu verði. Sniglarnir drápust á endanum og eins og manni þykir nú vænt um líf yfirleitt að þá var þetta fyrir bestu.

Við keyptum nýjar plöntur í dag...sem kostuðu okkur 1100 krónur og eru afskaplega fallegar. Sniglar eru bannaðir í þetta búr!

Ég treysti samt Berta til að hafa vit á fiskamálum. Hann er svo mikill (ung)dýrakall. Svo mikill að þó ég hafi talað um tvo fiska í þessum mánuði voru þrír aðrir komnir í búrið þegar ég kom heim í dag. S.s. fimm stykki bæst við þær tvær lífverur sem eftir voru af öllu fiskihafinu sem við vorum með (sniff, sjö tetrur, tveir ukkurskonar fiskar, einn ukkurskonar fiskur, salamandran sniff sniff sniff, albínóaryksugan, stóri stóri fiskurinn...uuuuhhhhuuuhhhuuuuuu).

fimmtudagur, janúar 03, 2008

Ha hva?

Ég er svona við það að gefa upp á bátinn að púkabloggarinn í mér fari að láta á sér kræla. Ég velti því fyrir mér á hverjum degi hvort það sé ekki tími til kominn að hætta að blogga. Þetta er orðið svo yfirdrifið. Var það ekki þegar ég byrjaði. Þá var þetta svo agalega spennandi. En nú kemur hver hvursdagsfærslan á fætur annarri.

Hmm...jám...bráðum byrjar skólinn...og svona...

Tel mér trú um að kisa sé á sínum stað þ.e. á stól undir borðstofuborðinu. Mjög góð tilfinning.

miðvikudagur, janúar 02, 2008

Grátbólgin í Guitarhero

Sorgardagur.

Tók þá ákvörðun að fara með Kisu í aflífun í morgun. Keyrði upp í Víðidal með dýrið. Elsku Kisa mín. Hélt ég myndi meika þetta en þegar ég tók hana úr búrinu sínu fór ég að háskæla fyrir framan stelpurnar í afgreiðslunni. Knúsaði Kisu bless og afhenti hana yndislegri stúlku. Strunsaði síðan út með búrið og keyrði grátandi heim. Ég treysti mér ekki til að vera hjá henni og horfa upp á dýrið verða vankað og sofna og fá síðan stóra skammtinn.

Berti heimtaði að ég færi í Guitarhero til þess að hugsa um eitthvað annað. Heilinn á mér er steiktur eftir 12 eða 13 lög svo ég er í pásu. Kaffi og svo ætla ég að keyra í gegnum Guitarhero í dag.

Sniff

þriðjudagur, janúar 01, 2008

1. jan blogg

Það bara verður að vera 1. jan færsla. Annars er ekkert gaman. Gleðilegt ár og svona.
Er að prufa rosalega fína tölvu, ægilega gott lyklaborð eitthvað. Mín er ekki svona frábær. Hún er ágæt samt.

Er að fara að horfa á Breiðarvíkurdrengina. Kannski að maður geti bloggað um það svona til að vera eins og í áramótaskaupinu, negrastrákar og fleira skemmtilegt.

Annars var ég dúndur ánægð með skaupið. Best fannst mér Jón Gnarr og selurinn í stundinni okkar. Massi.