mánudagur, febrúar 25, 2008

Animated handavinna


Þetta er ótrúlega krúttlegt vídíó af orrustunni við Hastings fyrir um 1000 árum síðan. Hljóðin og tónlistin hreint dásamleg. Njótið með súkkulaði.

fimmtudagur, febrúar 21, 2008

zzzzzzZZZzzzzZZZZ


Þetta er ég og verð næstu daga. Nú ætla ég að slappa af ef ég má.
Hmm...þreytt og stolt. zzzzzzzzzzzzzzzZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzZzz
Sonurinn er með blóðnasir og andsetningurinn nánast farinn. Hann er samt enn pínu lasinn.

Góða helgi

miðvikudagur, febrúar 20, 2008

Þetta er náttúrulega bilun!


Ég er geðbiluð hetja. Að ég skuli nánast vera að útskrifast með tæplega 3 ára skrímsli er hetjuskapur. Ég ætti að vera með amk 9 í lokaeinkunn og uppeldi ætti að skrifast á allt sem á vantar til að ná 9 í einkunn.

Það er náttúrulega bilun að vera í skóla með ungt barn og halda að maður geti bara massað alla skapaða hluti. Þetta fer alveg með sálartetrið í manni þessi hetjuskapur.
Ég vona að serótónínin fari nú að koma sér í ballans.

Ég mæli ekki með þessu. En það er viss agi sem fylgir því að vera í skóla og eiga barn. Maður rekur sig einhvern veginn áfram en hollusta þess er svo annað mál. Ég væri til í heilsuhælið í Hveró. Hlakka til þegar allt verður venjulegt aftur.
Ég er að tapa mér hérna. Ég er samt að reyna að ímynda mér að ég sé bara í spennumynd og nú er allt í hámarki erfiðleikanna í myndinni. Svo kemur fáránleg lausn á öllu saman og hetjan fer á ströndina og fær sér sundsprett. Í alvörunni er strandarferðin góður kaffibolli og snúður og reyna að taka 100% próf...
Já...ætli ég verði ekki að fara að mæta í það bráðum...
Farin í próf. Oj það er annað á morgun líka! Ahh ég geri mitt besta, hvaða röfl er þetta!?

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

AAAARRRRGGGGGHHHH...

Andlega úrvinda! Terrible something er í gangi og er núna í hámarki plús veikindin. Morguninn byrjaði á helvíti og með tár á hvörmum yfir andsetnum syni, rúllaði ég honum á leiksskólann.

Síðan brunaði ég til vinar míns til þess að fá hjálp við að massa eins og eitt heimspekipróf upp að fimmu. Kemur í ljós hvernig gengur á morgun.

Síðan fór ég og sótti soninn í leiksskólann og hinn illi andi settist að í barninu um leið og ég tók hann glaðan í fangið. Þá byrjaði ballið...aftur. Og andsetinn fór hann heim. Ég er búin að vera með hann nánast í fanginu síðan elsku litla angann. Ekki ímyndaði ég mér það að það væri svona erfitt að eldast og þroskast. Enn verra er að vera veikur með því. Hann hóstar og hóstar og skammar okkur fyrir að standa ekki á réttum stöðum og koma með vitlaust kex og eiga ekki epli og neitar því að ekki séu til epli á heimilinu. Vill ekki drekka neitt. Vill ekki íspinna. Vill bara að ég gangi með hann um gólf og finni snuddurnar þegar hann er búinn að henda þeim eitthvert í reiði sinni.

Við töldum upp að tíu og ákváðum að stíll yrði málið. Af ótta við trylling dauðans höfum við treinað stílinn. En viti menn. Ráð við illum öndum er stíll í rass. Nú er sum sé pása frá: "sittu! stattu! ekki þessa leið! ég vil epli! víst!

En ég
er með Gary Larson
-haus.
Slíkur haus
liggur loftlaus
út á hlið
andlaus.

mánudagur, febrúar 18, 2008

Dæmigert


Ég á að mæta í tvö lokapróf í vikunni og þá er sonur minn veikur og ekki bara veikur heldur þrælerfiður líka. Það er allt vitlaust sem við gerum og ég er að missa vitið endanlega.

Gangi mér bara vel á þessum prófum mínum. Ekki gott að lesa heimspeki með hnút í maga og skerta heilastarfsemi plús sonar-dinti.

Viljið þið senda mér góða strauma?
Ég er hrædd sál.

miðvikudagur, febrúar 13, 2008

Sonarblogg

Ég ætlaði mér bara að tilkynna þeim sem hafa beðið í ansi langan tíma að síða sonar míns er komin í gagnið aftur.

Er með smá samviskubit yfir að vera að hlæja að óförum annarra þ.e. VÞV.

Aðeins meira um fynd

Ákvað að bæta þessu við af því að þetta fær mig til að hlæja. Hlátur eykur serótónín í hausnum og er ágætis lækning við veikindum á borð við "andlegt mótlæti" (múúahhhhhahahaha).

Spjall um verslanir og feðginin


Systir mín og ég spjöllum reglulega um málin. Ekkert reglulega bara á hverjum degi. Hún tjáði mér það að hún hafi farið út í búð í gærkveldi til að kaupa sér tóbak. Stúlkan í búðinni sagðist því miður ekki geta afgreitt hana, hún væri ekki með aldur. Systir mín varð frekar foj, varð ekkert dónaleg, þetta eru bara reglurnar. En hún veltir því samt fyrir sér hvort stúlkan megi afgreiða vítissódann sem er í hillunni og fleiri vörur merktar krossi. Og jafnframt af hverju í ósköpunum sígarettur eru fluttar inn í landið. Hvað með vínið sem kaupmenn vilja endilega selja í búðunum sínum? Á maður ekki að geta keypt sér eina vínflösku af því að stúlkan í búðinni má ekki afgreiða hana? Svona spara kaupmenn launakostnað en svo er spurning hvort að varan seljist eitthvað...

Við ræddum líka metnaðarleysið í búðum. Það er enginn til að aðstoða mann í búðinni lengur. Fólk er í kjötborðinu (ef búðin býður svo vel að hafa kjötborð) og svo eru tveir starfsmenn á kassa sem hafa ekki aldur til að selja ákveðnar vörur. Bjánus er eitt dæmi um undarleg heit á borð við risastórt gult spjald sem hangir fyrir ofan afgreiðsluborðin. Þar eru punktar um frábærleika starfsfólks sem býður góðan daginn og ég man ekki hvaða endalausu dásemingar-setningar eru þarna á spjaldinu. Kannski er þetta búðar-brandarinn, ég veit það ekki, kannski eru Bjánus-ingar með svona rosalega kaldan húmor.

Svo er góður leikur að vera með útlendinga sem segja bara: vrústí mússí krjústjí njúblji, þegar maður fær kassakvittunina með tómum mistökum á eða röngu verði. Íslendingar hrissta bara hausinn fýlulega og strunsa út úr búðinni, með pokana þó, og frussa út úr sér hatursyrðum út í útlendsku greyjin...

Svo ræddum við feðginin frægu. Hvað er að því að segja bara af sér. Þetta er orðið ágætis lexía karlinn minn. Það er engin skömm af því að gefast upp. Og hvað með dótturina? Sagði hún upp út af pabba eða er hún að fara að gera eitthvað annað skemmtilegra? Hún vann sína vinnu og Sigmar vann sína vinnu. Það hefði verið fáránlegt ef Sigmar hefði verið með hanska á karlinum út af dótturinni. Ég sé bara ekkert að þessu. Hún saumaði að Þórólfi og Sigmar saumaði að pabba gamla. Svona er það í þessu litla landi að vinna á þessum vettvangi. Það er til hins verra haldi pabbi áfram í pólitík. Það er fáránlega hugsunarlaust að gera uppreisn með nýjum meirihluta án þess að hugsa þó ekki væri nema í peninginn sem fer í alla þessa borgarstjóra. Hugsa aðeins lengra heldur en borgarstjórastólinn takk fyrir.

þriðjudagur, febrúar 12, 2008

Ég grenja úr hlátri...

...svo mér hlýtur að fara að batna veikin sem er að mér þessa dagana.

En þetta er svo fyndið. Ég hlæ í hvert einasta skipti sem ég sé mynd af manninum í blaði fátækra skuldara. En þetta toppar alveg blaðið!

Maðurinn er algerlega úti að skíta sem pólitíkus. Elsku kallinn hvað ég vorkenni honum. Talandi um að vera ekki samkvæmur sjálfum sér!

mánudagur, febrúar 11, 2008

Esjuæsingurinn...

í bloggheimum veldur því að mig er farið að langa á fjöll og fann einhverja Toppfara-síðu sem ég ætla að stúdera. MMMmmm...ég finn ilm af ferskum snjó og heitu kakói.

Mónöðufræði...


Forríkur hárkollu-heimspekingur frá 17. öld. Svona hefði ég verið flott mar....eru á dagskránni í dag. Senn líður að prófum þ.e. næsta vika. Svo ég fæ geðveikiköst sem sjást ekki utan á mér næstu klukkustundirnar í þessari viku.

En mónöðufræði eru einmitt fyrirbæri sem nóta bene ríkur 17. aldar kall fann upp í hausnum á sér til að útskýra allt. Kallinn hét Leibniz og flestir hafa heyrt hans getið á lífsleiðinni en vita sjálfsagt ekkert endilega neitt um hann. Enda ekki nauðsynleg sannindi þegar mann langar í heimabíó.

Samkvæmt Leibniz situr Guð í sófa sínum og blaðar í Séðu og Hurðu. Hann er búin að skapa hinn fullkomna heim og þarf ekkert að blanda sér neitt meir í hann. Allt er skráð fyrir fram. Það að ég sé að pota í lyklaborð akkúrat núna var hann lifandislöngu búinn að massa. Þegar Guð grípur inn í þ.e. skiptir sér að sköpunarverkinu, köllum við það kraftaverk. Ég hlakka til að lesa um þau kraftaverk hjá Leibba. Skildi hann útskýra þau?

Af því að Guð hefur lokið sköpunaverkinu þá getum við með ákveðnum aðferðum, löngunum og skynsemi, nálgast visku hans með vísindalegu aðferðunum sem við höldum að við höfum uppgötvað. Guð er sum sé ekkert leyndardómsfullt fyrirbæri sem er að fela sig fyrir okkur. Við nálgumst Guð meir og meir með þekkingu okkar. Jamm.

Hress hann Leibbi. Farin að uppgötva mónöðurnar hans.

sunnudagur, febrúar 10, 2008

Sunnudagur er alltaf jafn skrítinnHvað á maður að gera á sunnudögum? Ég nenni varla út úr húsi en ég er búin að hanga hérna nánast alla helgina...verð að láta mér detta eitthvað snjallræði í hug.
Sundbolurinn minn er orðin of ljótur til að fara í sund í honum og ég vil ekki að sonurinn ofkælist...Mig langar samt að nenna einhverju svona hressu dæmi. Til dæmis krafti til að nenna út með snjóþotuna eða ukkað.

Geislaspilarinn er dáinn svo ekki getum við verið með Latabæjar-ball. Ég er komin með ógeð á sjónvarpinu og barnaefni. Ég nenni ekki að tjalda Svíkeatjaldinu og vera þar inni í einhverjum kuðung og láta berja í tjaldið allt að utan...

Voðalega er ég ukkað lummó mamma...

Annars er aðal skemmtunin að fara á Skype og spila bingó við brósa og frænda en Dagur hefur ekki gaman að því. Ég hafði hugsað mér að hafa hann inn í dæminu.

laugardagur, febrúar 09, 2008

Meira um geðveikiJóhanna af Örk var með anorexíu.
Hvernig veit fólk sona?

föstudagur, febrúar 08, 2008

Blogg um þráhyggju og árátturöskun


Það er hægt að búa til vandamál úr fáránlegustu hlutum. Þetta er veiki sem er einhverskonar árátta. Maður er alltaf að leita að fullkomnuninni. Sumir leita að fullkomnun með því að kaupa nýtt og nýtt til heimilisins en svo eru til nægjusamir einstaklingar (ég þykist tilheyra þeim hópi) sem eru að reyna að gera gott úr því sem þeir hafa nú þegar.

Ef ég væri ríkur kall og uppi á 17. eða 18. öld, væri ég líklega að eyða þessari áráttu minni í að grúska í heimspeki og skrifa hverja frum, og þekkingarfræðilegu ritgerðina mína á fætur annari þess á milli sem ég gengi um í ný snyrtu limgerðar-völundarhúsi fyrir utan sumarhöllina mína sem ég erfði frá föður mínum, og þjónustu fólkið mitt kæmi hlaupandi með tebollan og kökuna til mín.

En ég er ekki í þessum pakka og ekki er 17. eða 18. öld samkvæmt tímatalinu mínu. Ég er að eyða þessum kröftum í að finna hið fullkomna skipulag á heimilinu mínu eins og alltaf. Það er áráttan mín. Og það sem mér finnst verst er að ég get ekki farið í Svíkea og horft á hlut og sagt við sjáfla mig: "Já þetta húsgagn myndi gera mikið fyrir þetta drasl og þetta drasl sem ég verð að eiga." Ég er ekki svo séð í höfðinu. Mér hefur líka dottið í hug, mér til framdráttar, að það hefur engum hönnuði dottið í hug sú hirsla sem mig vantar og þess vegna fái ég ekki þá tilfinningu að ég þurfi að kaupa ákveðið húsgagn, horfi ég í kringum mig.

En vandamálið sem ég ætlaði að tala um eru myndir og rammar. Ég keypti árið 1996 tvær myndir í Prag. Og ég tými ekki að henda þeim en þær liggja undir skemmdum, þokkalega. Mamma sem var ferðafélagi minn er löööööngu búin að ramma sínar inn. Hún gerði það nánast daginn sem við komum heim. Svona erum við ólíkar. Mamma nennir að ramma allar sínar myndir og hún fer með þær í innrömmun! Ekkert minna. Ég man eftir myndunum þegar ég er, t.d. í Svíkea og sé alla rammana, og er ekki með málið á þeim í höfðinu. Svo kem ég heim og man ekki meir. Fyrr en skipulagsáráttan fer í gang. Þá opna ég skápa og hirslur og sé allt sem ég hef ætlað að gera þegar þetta og þegar hitt.

Mig dauðlangar til að fá innanhúss-arkitekt til þess að koma bara og segja hvernig best er að vinna úr því sem ég á nú þegar. En kostar það ekki grilljón? Og hvað ef hann/hún segir mér að ég verði að kaupa þetta og hitt?

Kannski er best að opna ekkert skápa og hirslur...og það er gott að ég fæ ekki á tilfinninguna að ég þurfi að éta allt úr ískápnum í hvert sinn sem ég opna hann.

fimmtudagur, febrúar 07, 2008

Fokkíngs kökur!

Að sjálfsögðu klikkaði kakan. Hvað annað. Jú hún var alveg æt en hún var föst í álpappírnum. SAMT stendur á leiðbeiningunum að maður eigi ekki að þurfa að smyrja nokkurn skapapan hlut þegar bránís eru annars vegar.

Við Dagur stóðum við kökuna og klóruðum hana upp úr álpappírnum með puttunum. Neglurnar á honum eru svo langar að það er kökuslóð undir þeim. Ég er með píanóneglur þannig að ég slapp við allt slíkt. Hana...ég er farin á fyllirí af bömmer yfir hvað ég er slök í kökunum. En svo þegar köku-þyngslunum léttir...þá kaupi ég aftur bránís og reyni eina ferðina ennn...nema það sé eitthvað að þessu bránís-degi...eða ég er ekki með KÖKUPUTTA!

miðvikudagur, febrúar 06, 2008

Allt að gerast!!!


Framtíðarsýn mín

Akkúrat þessa stundina eru magnaðir hlutir að gerast hjá mér og mikil spenna í loftinu. Þannig er mál með vexti að ég er að baka bettí nokkra krokket bránís og...du du dummmmm: Þetta er í 3 skiptið sem ég reyni þetta merkilega bökunarverkefni. Hin tvö mistókust stórkostlega og kökurnar voru ekki ætar. Annað hvort hráar og fastar við formið eða glerharðar og fastar við formið. Þrátt fyrir frábærar leiðbeiningar.


En ég gefst ekki upp og nú er þriðja tilraun í gangi! Ég er spennt og mjög vongóð með árangurinn. Ég á nefnilega ekki álform og hef bakað hinar í glerformi. Nú sá ég við kökunni og setti álpappír ofan í glerformið he heheh ég er svo sééð. Hún verður kannski smá krumpin á endunum en sé hún æt þá er markmiðinu náð.

Ég ætla aldrei ALDREI að gefast upp á að baka kökur eins og mér mistekst það alltaf. Þarf að æfa mig...ammæli bráðum hjá syninum.

Ef ég verð ekki orðin góð í kökunum á afmælinu...þá verður bara heimalöguð pizza og djúpsteiktir kjúklingaleggir!

Ég er nefnilega betri í henni matargerð heldur en kökugerð. Kökurnar mínar verða alveg ferlegar OG ljótar!

Hætt! Verð að fylgjast með kökunni og skeiðklukkunni!

þriðjudagur, febrúar 05, 2008

Til viðbótar við kjötið að neðanFyrir dapra í dag þá hlýtur þetta að fá serótónínin í gang. Takk Solla mín. Hressandi fyrir saltketið. Þetta er geggjað fyndið. Mér finnst gaman að fyndnu þessa dagana.

Sprengjus


Gleðilegan sprengidag!

Í dag ætla ég að hætta að vera veik og drulla mér í kennslustund það sem eftir er dags.
Svo ætla ég í hina árlegu sprengiveislu hjá tengdó.

Fullt af krummum út um allar trissur. Er fengitími hjá þeim í kuldanum eða er þeim svona kalt að þeir skreppa til byggða?

Ukkað er það. Hef engar skoðanir í dag sem lúta að pólitík en ég þarf hins vegar að leysa frumspekileg vandamál svo ég ætla ekki að bræða úr mér hér. Nema mér detti eitthvað ótrúlegt í hug sem verður að blogga um.