sunnudagur, mars 30, 2008

Stöðvar sem taka fólk í r***gatiðVið sonurinn gerðum víðreist í gær. Fórum með frænkum og systur í ýmsar búðir auk þess að kíkja inn í Kolaport og svo í Bláa Lónið. Ég var svo ferskt eftir seltuna í lóninu að mér fannst eins og saltið væri búið að éta allan skít utan af kroppnum á mér. Reyndar er ég með sár á puttanum mínum svo það var dálítið óþægilegt í saltinu. Ég reyndi því að synda með einn putta upp úr lóninu. það var ekki auðvelt.

Síðan stungum við mæðginin Reykjavík af og fórum upp á Skaganes. Komum okkur notalega fyrir framan imbakassann sem hegðaði sér alveg eins og imbi. Maður var alveg sokkinn ínn í söguþráð myndarinnar þegar digitalíska ruslið fór að frjósa inn í miðri mynd. Svo datt það inn aftur en þá fór símaafruglarinn að fokkast upp og segja að ekkert samband væri milli myndlykils og einhvers. Svo það var hafist handa við að taka úr sambandi og setja aftur í gang og reyna að halda áfram að horfa. Eftir að myndin hafði farið algerlega úr skorðum vegna þessarar ömurlegu digitalískrar tækni og þeirrar í gegnum ALSD-ið (sýrusjónvarpið) gáfumst við upp og fórum að sofa. Þakklátar yfir að hafa komist í gegnum amk eina kvikmynd. Seinni myndinina verðum við bara að geta eyðurnar í.

Svo rukka sjónvarpsstöðvarar mann dýrum dómum og maður getur ekki einu sinni horft. Internetið á Skaganessi virðist ekki virka sem skyldi og það er ekki auðvelt að ná úrvarps-útsendingum frá RÚV einu sinni. Það er eitthvað sem skyggir á. Ég man að við mamma áttum í mesta basli við að hlusta á útvarpið og þá sérstaklega Rás 2. Og það er ennþá erfitt að ná henni. En svo eru Bylgjan og einhverjar FM rásir með stanslausu tónaflóði og æsingi með svaka fínar útsendingar!

En Rás 2 er hvort eð er orðin svo hundleiðinleg að það skiptir engu. Ég skil ekkert í þeim að varpa ekki Kastljósi frekar en að vera með einhverja tónlist á dauðatímanum sem kemur á eftir fréttum og veðri. Nóg af mússík út um allt allsstaðar. Kannski einn og einn þáttur sem maður man varla eftir.

En hvað digitalistískt sjónvarp varðar og vef sjónvarp, þá finnst mér að fólk sem er búið að koma sér í einhverja hræðilega bindipakka ætti að fá að rifta slíkum samningum þar sem tækin standa sig ekki sem skildi. Sérstaklega þegar tæknideild Símanns veit ósköp vel að internetið virkar la la út á landsbyggðinni.

Ég hvet alla til þess að sýna þeim hörku.

fimmtudagur, mars 27, 2008

Réðust þeir inn vopnaðir X- i


Hvað er að gerast í fjölmiðlunum í dag? Allt í einu er öxi orðin að exi alls staðar. Var ekki löngu búið að ákveða að ex og ufsilon væru stafir í rófi?

Nú ganga menn með X-i út um allt og hóta fólki. Er búið að skipta um skoðun enn einu sinni hvernig fallbeygja skuli fjandans verkfærið?

þriðjudagur, mars 25, 2008

Heilbrigðiskerfi?


Mér líður fáránlega hvað sem það þýðir. Mamma er enn og aftur komin á sjúkrahús og veit ekki einu sinni hvort það er ég eða systir mín sem erum hjá henni. Ég hringdi í morgun og óskaði eftir því að hún yrði send í heila-skann. Mig fýsir að vita hvað er að gerast í hausnum á henni.
Hvort ég fái ósk mína uppfyllta er svo annað mál. Engin skilur orðið heilbrigðiskerfið og ekki hjálpar heilbrigðiskerfið manni með það sem vantar. Það segist ekki vita neitt og ekki er það hjálplegt með að benda manni á aðrar leiðir.

Ég veit ekkert eins og ég segi en mér dettur helst í hug að lýsa mætti heilbrigðiskerfinu eins og manneskju sem ætlaði að skrifa ritgerð um íslenskt efnahagslíf eða Hinrik 8. Englandskonung og setjast niður við tölvuna og skrifa án þess að skoða heimildir.

Ég hefði haldið að sjúrnalar sjúkrahúsa væru heimildir um sjúklinga og þeir væru skoðaðir til þess að kanna hvað mæti skoða betur. Fyrir ca tveimur árum var mamma send í heilaskann. Kom þá í ljós gamlir blettir sem benda til þess að blæðingar inn á heila hafi átt sér stað. Mig langar að vita hvort slíkt sé að gerast núna.

Er ég þá að gera fáránlegar kröfur til kerfisins? Eða á ég bara að sitja og bíða eftir að hún fái lausn fá öllu saman? Er það vitleysa í manni að fá einhverjar upplýsingar? Er maður orðinn upplýsingabrjálaður? Á maður bara að sitja og bíða og sjá hvernig málin þróast? Því heilbrigðiskerfið á svo bágt og er svo fjársvelt og það er fullt af fólki sem fær ekki þær meðferðir sem fólk þarfnast? Ég skil ekkert í þessu en ég er orðin svolítið þreytt í hjartanu mínu litla. Svo og allt mitt hyski.

Mér líður aðeins betur þó að allur heimurinn sjái hvað ég er að hugsa.

mánudagur, mars 17, 2008

Ekkert á seiði

Nenni ekki að blogga neitt og nenni varla að tala nema með höndunum.

fimmtudagur, mars 13, 2008

Að liggja andvaka og huxa - possible worlds


Fékk niðurstöðurnar úr hinu prófinu mínu í dag. Og eru þær vonum framar svona miðað við allt. Ég er aðallega ánægð með að hafa mætt og geta skrifað eitthvað á blað. En ég fékk falleinkunn. ÉG af öllum! ÉG ofurkvenndið...

Svo langar mig til þess að eyða deginum í að blogga um allt sem mér dettur í hug. Ég get nefnilega ekki sofnað á kvöldin þó svo að ég vakni eldsnemma að morgni. Svona er öll vikan búin að vera. Ég andvaka upp í rúmi að huxa.

Hux mín eru ótrúleg (eins og allra sem leggjast út af og huxa).
Ég rífst við ímyndaða einstaklinga um heimspeki; fer að hugsa um heimspeki í Ísrael, hvort Ísraelar hafi kantískar hugmyndir yfirleitt; þá dettur mér í hug Dorit Mússajeff og fer þaðan yfir í að hanna ullarkjóla og kann ekki einu sinni að prjóna kjól; Kjóllinn raknar upp og festist í bíl og dregur mig út um allt svo fer hugurinn í að búa til ljót umferðaóhöpp þar sem sonurinn er í aðalhlutverki. Ég er svo hrædd um að það verði keyrt á hann að ég ímynda mér fáránlegustu aðstæður mögulegar til að varast í umferðinni; til dæmis að trukkur sé að koma á fullri ferð á móti umferð niður Ártúnsbrekkuna og stýmir beint á minn bíl og ég sé allt hægt og hef tíma til að taka ákvörðun um að fara úr bílnum en þá er bara annar sem kemur úr réttri átt sem keyrir á okkur. Skyndilega slekk ég á þessari umferðarpælingu (líklegast af því að þá man ég eftir bolla sem er í aftursætinu á bílnum) og fer að telja upp allt sem mig vantar til að halda afmælisveislu (vonandi verða gestir, það er ekki afmælisveisla ef það eru bara kökur og matur á borði, gestir eru partur af þessu) og út frá því er ég farin að gera tékklista í huganum sem ég kæfi við fæðingu þar sem ég eigi að fara að sofa og sé ekki með blað og penna við hönd til þess að skrifa allt þetta niður.

Hausinn á manni og krullið sem í honum býr er mjög merkilegt fyrirbæri og heil veröld út af fyrir sig þar sem allt getur gerst. Þannig að hugmyndin um aðra mögulega heima á örugglega rétt á sér.

miðvikudagur, mars 12, 2008

Pjanó mjanó

Slapp við þetta ógeð sem ég óttaðist í gær.

Nú er bara hamingja í gangi, vel stillt píanó, svo vel að ég fékk sjálf gæsahúð þegar ég rembdist við að spila fyrstu 3 línurnar í tunglskinssónötu Bítófens. Je dúddda mía hvað það var geggjað! Kosturinn við að eiga píanó er þegar það þarf að stilla það. Maður er einhvern veginn alltaf að kaupa sér nýtt píanó. Lovvitt. Píanóið er æææði. Þokkalega.

Svo er mér farið að líða eins og ég sé komin í páskafrí. En það byrjar ekki strax og verður svo sem ekkert frí heldur. Les les, læri læri.

Ég er á fullu að kæfa niður kökukvíðann minn. Og svo náttúrulega á ég ekkert:

Hitabrúsa fyrir kaffi
Bollastell
Kökuform
Skeiðar og gaffla

Jamm jamm. Ætla að fara að velta mér upp úr þessu.

þriðjudagur, mars 11, 2008

Prumpu-viðauki

Er prumpu-veiki í gangi? Þessi þar sem maður safnar lofti óendanlega mikið og getur ekki lengur hreyft sig og þarf að fara í indíánastellingar til þess að dæla loftinu út? Og opna fyrir hringvöðvann þannig að hann myndi fallegt O og segi HHHHHHHHHHHH eins og munnur nema mannlegt eyra nemur ekki h-hljóðið?

Bara spyr því að ég fór og kuffti Sam Amidon í dag í þeirri vissu að hann hefði lækningarmátt. Þegar ég settist í tíma með diskinn og tróð honum í andlitið á vinkonu minni í miklu montkasti hófust þvílíkir skruðningar í maga mínum. Og mér líður ekki vel og finnst eins og eitthvað í líkingu við upphaf bloggs míns sé að hefjast. Hvar enda ég? Nú ég hlýt að fjúka eisn og blaðra út um alla íbúð.

Annars bendi ég fólki á að hér má krækja sér í tvö lög eftir mussju Amidon og er ég hrifnari af Saro. Einstaklega fallegt. Og ekkert nema íslenskumælandi einstaklingar að spila undir. Og nú þarf ég ekki að taka frekari bloggtremma yfir þessum manni/mannsbarni.

Pósútnmer


Veikindi í sinni bestu mynd.

Rambaði inn á fræga lottósíðu og fór að fylla út eitthvað bull. Hugsaði mér gott til glóðarinnar að senda vitlaust tölvupóstfang þ.e. til einhvers ræfils sem þegar hefur sent mér á gmailinn hjá mér að ég hafi unnið lottó vinning. Allt á íslensku á síðunni nema eins og titill bloggs míns segir til um. Pósútnmer er fjandi erfitt að vélrita vitlaust. Það er auðveldara að gera "eisn" í staðinn fyrir eins heldur en pósútnmer.

Skemmtilegt þetta -tnmer.

Fór til læknis í gær og fékk pensa. Og ætla að borða pennsann með góðri list sama hvernig það fer með þarmaflóruna í mér. Burt með ruslið í hausnum á mér! 5 vikna kvef telst líka til langst tíma samkv. doktorus.

sunnudagur, mars 09, 2008

Já var það ekki?!


Partíið byrjaði klukkan hálf tíu í gærmorgun þegar ég vaknaði með skruðninga í maganum. Það varð sum sé ekkert gettogehter hér í gær. Og enginn spænskur saltfiskréttur né hvítvín. Ég fékk ælupest og þurfti að blása gleðinni af eina ferðina enn. Stelpurnar létu þó slag standa en án mín. Ég á ekki til orð! Nú á ég bara eftir að fá flensuna og 40 stiga hita og þá held ég að ég sé búin að fá öll veikindi vetrarins nema kannski lungnabólgu.

Ég er reglulega fúl. En það er fallegt veður í dag og ég ÆTLA í sund og skola mig upp úr klóruðu vatninu og losna við ógeðið af líkamanum.

föstudagur, mars 07, 2008

Viðauki

Búin að þvo gluggana að utan fyrir partíið á morgun. Það er náttúrulega nauðsynlegt. Ég og sonurinn fórum út í morgun með sköfu og svampa og gerðum huggulegt. Svo eldaði pabbi grjónagraut og eftir hádegið steinsofnaði ég, svo sofnaði sonurinn, svo vakanði ég og skreið uppí til sonarins og svo vöknuðum við kl. hálf níu Í KVÖLD! Ég gæti farið aftur að sofa en ég er ekki viss um að hann sé spenntur fyrir meiri hvíld. Mikið líkamserfiði sem gluggaþvotturinn og grjónagrauturinn höfðu á okkur mæðginin.

Sonarblogg

Í dag ætla ég að gera fínt hjá mér. Svo langar mig til þess að þrífa gluggana að utan. Þeir eru ógeðslegir. Mér finnst rosalega gaman að þrífa glugga. Þegar ég hugsa um glugga-sköfuna brosi ég hringinn. Það er svo gaman að munda henni. Svona álíka spennandi og manni fannst búðarkassar vera í den tid.

Við erum heima í dag. Nenni ekki að fara í baráttuna við fötin. Í því fellst að maður þarf að elta skríkjandi dreng út um alla íbúð með sokkabuxur og slíkt. Og svo þarf maður að kitla hann aðeins og reyna að klæða hann í leiðinni. Að fara með barn á leikskóla er heljarinnar vinna. Ég vona að þetta eldist af honum. Ég fæ svo í bakið af þessu. Það þýðir ekkert að þykjast vera reiður og ákveðinn. En kvíðahnúturinn sem ég er með í maganum alla morgna einmitt út af þessum eltingaleik fór um leið og ég hringdi í leikskólann og sagði að við ætluðum að vera heima í dag. Það er alveg furðulegt hvað maður ræður betur við 24 börn sem eru ekki manns eigin heldur en þetta eina sem maður á.

Í gærkvöldi var rosalega mikið gaman hjá okkur. Fórum í Bósa Ljósár leik. Ég tók soninn einhvern veginn á bakið og svo hljóp ég með hann út um alla íbúð og upp í sófa. Endaði með því að okkur syni mínum tókst að stúta sófaborðinu. Það brotnaði í klessu. Nú get ég haft áhyggjur af því hvar fólk á að leggja frá sér hluti í afmælisveislunni hans sem er næstu helgi. Úff hvað ég kvíði fyrir að undirbúa hana. Ég, kökubaninn.

Genesis

<
Ég elska þessa plötu. Veit ekki ukkuru. Á hana því miður ekki. Verð að fá hana.

fimmtudagur, mars 06, 2008

blogg


Fór í 12 teina í dag til að ná í Amidon. Bíllinn með öllum nýjungunum var á leiðinni. Lagði af stað kl. 10. Kl. var 1230 þegar ég var þar. Kom enginn bíll. Ég sat og hlustaði á furður veraldar frá því um 300 og ukkað fyrir krist og Franz List. Er alltaf að leita að einu verki sem ég fann og kuffti...Amidon kom aldrei og ég labbaði út með Mephistos Walzt eftir Lizt. Aumingja ég. Eða aumingja vinkonur mínar sem koma á lau. dag. Það verður bara einhver geðveiki í spilun við fordrykk. Svo tekur eitís nottlega við. Og þá meina ég Svart Hvítan Draum og gamalt og gott íslenskt öndergránd eitís. Eða ukkað bara.

Nú er ég þreytt og ætla að fara inn í rúm og hugsa um altök og rakhníf Ockhams. Ég er ekki alveg að gúddera hugmyndina um altök. Og nenni ekki að segja fólki sem ekki veit um altök neitt um altök akkúrat núna. Þreytt. Mill ekki fara að sofa, eins og sonur minn segir. Sonur minn "mill" ekki marga hluti. Mill ekki fara á leihhkólann, til dæmis.

miðvikudagur, mars 05, 2008

Hjælp med Gud

Samdi ljóð í tímanum í dag en er í vandræðum með endirinn. Kannski einhver geti hjálpað mér?

Guð
er nafn á einhverju heimspekilegu vandamáli.
Takmörkuð og tilgangslaus vera
sem hefur ekkert að gera
nema telja hár á höfði...

og svo vantar mig botninn á þessu. Þar sem Guð hefur ekkert annað að gera en að telja hár og flokka fólk í gott og vont. Mig langaði að síðasta setningin sum sé hefði flokkunina. En ég er bara ekki nógu klár til þess að fatta eitthvað sniðugt.

Svona hafði Spinoza mikil áhrif! Hann er víst nokkuð alvöru geti maður lesið hann á annað borð. Ég hef ekki reynt það sjálf.

Sam AmidonÓtrúlega fallegt lag með gaur sem heitir Sam Amidon, var flutt í Víðsjá í gær. Hann er ukkurskonar ungur þjóðlagagaur og tók plötuna upp hér á landi. Ég ætlaði að kaupa plötuna í dag og hringdi í 12 teina en hún er ekki til. Kannski á morgun sagði ukkur í símanum. Ég á enga peninga en ég ætla að búa þá til svo ég geti spilað hann fyrir vinkonur mínar sem ætla að koma í hitting um helgina.

Mig vantar pössun. Ukkur sem vill passa fallegan snáða sem ég þekki meðan við vinkonurnar hlustum á Sam Amidon og rifjum upp æskuminningar? Ha, Dísa, Bjögga? Freydís, Odda?

Karlinum verður hent út. Hann þarf að spila á tónleikum hvort eð er og getur bara rótað í marga klukkutíma á meðan.

Þarf að fara að mæta í tíma. Við erum að reyna að skilja Spinoza og nauðhyggju hans og hvernig heimurinn er samkvæmt honum.

mánudagur, mars 03, 2008

Skríðandi upp í rólegheitunum.


Uppáhalds myndin mín með Mr. Handsome. Frábær tónlist og fullt af bókum!

Ég hef svo sem ekki mikið að segja. Ég er að skríða upp úr veikindunum. Mamma krækti sér í lungnabólgu og súrefnismettunin fór niður úr öllu valdi. Enda skrítnir hlutir sem koma upp úr henni. Hún sér ketti og ýmislegt sem aðrir sjá ekki. Mér skilst að súrefnið sé að aukast...spurning hvað hefur komið fyrir upp í heilus við þetta. Hennar veikindi eru að fara úr því að vera þekkingafræðilegt yfir í að vera frumspekilegt vandamál. Og enginn talar við okkur. Ef systir mín hefði ekki hringt og spurt hvað amaði að henni í þetta sinn hefði enginn sagt okkur neitt. Svona er heilbrigðiskerfið í dag. Við heimsóttum hana og enginn kom til okkar og ekki var mamma fær um að segja okkur nokkuð sjálf. Fengum mjög skrítna sögu frá henni.

Sonurinn er laus við illa anda og er kominn aftur til sjálfs sín. Kannski var hann að taka jaxl. Hann varð ekkert lilla brjálaður fyrir ca. tveimur árum síðan sem minnti óneitanlega á köstin um daginn. Nema nú kann hann að tala sem er öllu verra.

Annað prófið fór undarlega vel en ég veit ekki hvernig mér gekk á seinna prófinu. Enda erfiðari textar þar. Svo er ég bara svakalega syfjuð. Held að horinn í hausnum á mér hafi eitthvað með það að gera.

Verð að fara að læra ég er búin að missa svo mikið úr.

Hilsen