mánudagur, apríl 21, 2008

Segðu mér bara satt og rétt og færðu fyrir því rök...og kannski mun ég kjósa þig.

Í kjölfar þessarar semi-afgreiðslu á íslenskri pólitík frá því í gær dettur mér í hug eftirfarandi:

Stjórnvöld segjast ætla að lækka skatta og lækka skatta hjá þeim ríku vegna þess að hugsanlega hafa stjórnvöld þau plön að í kjölfarið muni eitthvað gerast í efnahagskerfinu sem verður þess valdandi að hægt verði að laga hlutina hjá þeim láglaunuðu. Þeir segja bara ekki frá leiðinni af ótta við að verða ekki kosnir, segjast bara ætla að lækka skatta.

En svo lækka þeir skattanna hjá ríka fólkinu, ríka fólkið tekur bruðl-tremma, rústar efnahagskerfinu í botn og þess vegna kemur aldrei að okkur hinum. Heldur erum það við sem björgum skútunni. Og svo er það kallað Þjóðarsátt: "Veeerkalýðurinn verður að staaanda saman til að halda þjóðarskútunni á floootii", gellur í lúðrum 1. maí.

Síðan er öllu stillt upp eins og það séum við með 100 þúsund kallinn sem þurfum að fara að spaaaraahhh. Við verðum að halda að okkur höndunum!

 • Selja sjónvarpið svo spara megi afnotagjöld á heimilinu.
 • Setja alla ofna í 1 (það má alls ekki loka fyrir ofnana ef þið vissuð það ekki vegna þess að það kostar fullt af peningum að láta streymið á aftur, þannig að ALLS EKKI LOKA ALVEG FYRIR ÞAÐ KOSTAR SVO MIKIÐ ÞEGAR ÞIÐ ÆTLIÐ AÐ HÆKKA HITANN ÞÓ EKKI VÆRI NEMA Í TVO...ég er sko pípara-dóttir þess vegna veit ég þetta...já og ef Danfoss-kraninn er sömu megin og opnanlegi glugginn í húsinu þá er það ekki gott heldur. Þeir nema nebblilega hitabreytingar og keyra allt á fullt finni þeir fyrir kulda t.d. frá glugganum sem stendur opinn fyrir ofan...aha!)
 • Ef maður eldar mat í ofni...nýta hitann þegar maður slekkur og loka honum ekki.
 • Spurning um að loka fyrir öll símtöl í símanum. Bara rétt að hringja í 112 og grænu númerin þurfi maður að spjalla.
 • Taka rauða krossinn við símanúmerið í skránni af svo einhver hringi í mann og spyrji mann um frábæra þjónustu símafyrirtækis. Alltaf gaman að spjalla.
 • Baðkar- svo allir geti farið í sama vatnið.
 • Sorrí...buxur á 500 kall hjá Hjálpræðishernum takk fyrir. Hallærislegt eða að fara ekki út úr húsi (versla þar sjálf reyndar...með góðum árangri).
 • Hætta að þrífa húsið sitt. Það má prjóna flíkur úr þeirri ló sem myndast á flísum og parketi. Fjárfesta í rokk!!!
 • Hænur eru leyfilegar í görðum...eggjaframleiðlsa...
 • Skrá sig í háskóla og fá ókeypis strætó kort að andvirði 50 þúsund með námskeiðum.
 • Fara ekki í bíó, ekki út að borða, ekki í leikhús, ekki í líkamsrækt, ekki á tónleika, ekki kaupa áskrift af blöðum (lof sé blaði fátækra, skuldara og fátækra skuldara...hvernig væri að fá blaðið um helgar...)
 • Ekki draga andann...vertu nægjusamur og njótu þess sem þú átt nú þegar og getur moðað úr en horfðu síðan á eftir nágrannanum á leið til í sumarhúsið sitt í Frakklandi í einkaþotunni og hugsaðu með þér: Sá kann sko ekki gott að meta. Hvernig væri að fara að lifa lífinu lifandi.
 • Ég get haldið endalaust áfram en þá verð ég þreytt...
Hmmm...og hverjum er sum sé að kenna fall þjóðarskútunnar? Mér?! Af því að ég fór út í búð og kuffti mér flatskjá og píanó? Og svo kaupi ég mat! Ónýtar paprikur í Bjánus og myglaðar að innan (kemst að því í miðri matseld og búið að loka...jamm).

Nei ég er farin að halda að mér komi þetta ekki við. Og svo er MÉR sagt að ég sé með gervivandamál. Að það sé fólk úti í heimi sem getur ekki fengið að borða! Af hverju er verið að segja mér það? Ok, ég veit það en það er ekki mér að kenna að ég eigi ekki aflögu örfáar krónur til þess að rétta samtökum sem HUGSANLEGA koma þeim til skila. Af hverju má ég ekki bara fá eitt sætt nýfætt barn á morgun með flugvél og hugsa um það og koma því til manns ef við erum svo frábær í henni Evrópu? Af hverju þarf fólk að fara í gegnum ætleiðingaferli þegar það er vitað að barni er betur komið hér en á munaðarleysingjahæli eða dautt úti á götu eins og ég sá á mynd bíðandi í mæðraskoðun blaðandi í ukkuru Hellói?

Nei ég held að ég ásamt fleirum sé ekki ábyrg fyrir þessu. Ef svo er, þá vil ég fá að vita það. Eflaust gæti ég gert betur en ég er að reyna að lifa lífinu. Mig langar að lifa í samfélagi við fólk og ég vil að við stöndum saman. Mig langar hins vegar ekki að axla ábyrgð á því sem ég fékk ekki ráðið við.

Bla bla bla bla
Góðar stundir...próf framundan.

sunnudagur, apríl 20, 2008

Er lýðræðið að virka?

Ég er algerlega heilluð af bók sem ég er að lesa. Hún er ekki til prófs blessunin því miður en ég get ekki hætt að lesa. Og svo er ég orðin alveg brjáluð inn í mér þannig að ég verð að létta á mér.

Fyrir um 2300 árum síðan skrifaði Platon og lagði Sókratesi í munn eftirfarandi:
"þú hrópar húrra fyrir mönnum sem hafa fordekrað Aþeninga með því að láta allt eftir þeim, og hlaðið ofan í þá öllu sem þeir hafa beðið um. Sagt er að þeir hafi gert borgina mikla. Staðreyndin er hins vegar sú að hún bólgnar af graftarkýli - svo er þessum gömlu leiðtogum að þakka - en þessa verður fólk ekki vart. Og ástæðan er sú að þeir hafa fyllt borgina af höfnum, slippum og sköttum og annarri þvílíkri heimsku án þess að skeyta um hófsemi eða réttvísi". (Gorgías, bls 518-519.)


Er það ekki soldið sorglegt að sjá að samfélag manna læri aldrei neitt? Það sem er enn verra er að Sókrates þrasar við karl að nafni Kallíkles sem stendur fyrir einstaklingshyggju og honum tekst ekki að kveða karl í kútinn.

Ég og móðursystir mín áttum samtal í gærkveldi þar sem við ræddum pólitík þessa lands. Ég sagði henni að í stjórnmálaheimspeki hefði kennari vor sagt að þrasið á milli flokka væri ekki vegna þess að menn væru ekki sammála um að það þyrfti t.d. að lækka skatta heldur væri þrasið um hvaða leiðir ætti að fara þeim málum. Þannig að þegar maður kýs flokk er maður að kjósa leið að breytingum samkvæmt þessu. Þannig að kjósi maður sjálfstæðismenn er maður að fara þá leið að lækka skatta hjá ríka fólkinu en kjósi maður ukkað annað t.d. vinstri græna, lækkar maður ekki skatta af því að það er ekki sniðugt eins og stendur.

Sjálfstæðisflokkurinn er svo skammaður fyrir að lækka ekki skatta. En hann svarar því til að hann hafi lækkað skatta. Sem er alveg rétt, hjá ríka fólkinu. Þannig að loforð þeirra stendur. Þeir segja bara í kosningum að þeir ætli að lækka skatta en aldrei hvernig. Og nú er það ljóst að þeir segja heldur ekki hverjir verði þess njótandi. Ef þeir segðu frá því hvernig þeir ætli að lækka skatta þá er spurning hvort flokkurinn yrði kosinn yfirleitt.

Pólitík er sem sagt bara mælskubrölt. Og sá sem mælir af mikilli list er kosinn eins og á tímum Platons. Platon er einmitt að gagnrýna slíka mælskulist í Gorgíasi þ.e. þar sem tilgangurinn er einungis að sannfæra fólk um hvað eina sé satt eða rétt. Ekki að segja neitt að viti heldur að sannfæra af kappi (ætlaði Einar Ben ekki að plata Norðurljósin inn á útlendinga?). Eftir þetta spjall las ég svo í Gorgíasi:

Þegar Platón gagnrýnir mælskulistina, er hann jafnframt að deila á lýðræðið. Áróður og sannfæringarbrögð virðast vera óhjákvæmilegir fylgifiskar lýðræðisskipulags: þegar stjórnmálamenn verða að keppa um hylli kjósenda til að halda völdum eða krækja sér í þau, eru þeir tilneyddir að beita öllum tiltækum ráðum til að afla skoðunum sínum vinsælda. Og þeir verða að hafa skoðanir á öllum málum, líka þeim sem þeir hafa engan skilning á og eru ekki dómbærir um.
( Inngangsorð Eyjólfs Kjalars Emilssonar, Gorgías, bls. 29.)
Hvað er í stöðunni? Að hætta að taka þátt samfélaginu og ota einungis sínum tota með því að reyna að svíkja undan sköttum eða hugsa um sig og sína og spá ekkert í lýðræði meir og hætta að kjósa? Reyna að lifa lífinu sínu eins og það er og fylgja þeim straum sem er sniðin að manns fjárhagslega stakki? Ég sé ekki að neitt sé að fara breytast. Það hefur ekki gert það í amk 2400 ár.
Ja hérna hér. Meira hvað maður getur orðið pirraður. Góðir hlutir hafa svo sannarlega gerst en hægt. En græði og lygi virðast alltaf bera sigur úr býtum. Nema í ævintýrum. Eru græðgi og lygi ekki hluti af lýðræðinu?

laugardagur, apríl 19, 2008

Tilgangslaust tuð um gervivandamál

Spilaði Trivial í gær og á gulu- KÖKU- reit fékk ég spurninguna hvar Benashir Buttho hefði verið forsætisráðherra. Ég var á köku nota bene. Og ég svaraði með gulu kökuna í hönd montin og alsæl:
Pakistan.

Sorrý, Stína, svarið er AFGANISTAN!
Er ekki í lagi? Sá sem skrifaði þetta svar veit ekkert um Talibana og að hugmyndir þeirra um konur eru ekki að vera forsætisráðherrar.

Spyrill sá aumur á mér en hvort á maður að fara eftir spjaldinu eða sögulegum staðreyndum þegar maður spila Trivial? Ég velti því fyrir mér í hvert einasta skipti sem upp koma furðulega orðaðar spurningar og svo spurningar á við þá sem ég fékk. Maður er að spila spil þar sem maður þarf að svara "rétt". En ef ég hefði verið spurð af manneskju sem veit ekkert um Pakistan, Afganistan eða Benasir þá hefði ég kannski fengið: En það stendur á spjaldinu, og þú færð enga köku.

Ég er bara reglulega ósátt við þetta. Ótrúlega fúl. Sló mig algerlega út af kortinu. Fólk trúir nebblilega öllu sem stendur í Trivial og finnst auðveldar að læra í gegnum það heldur en ukkurar kennslubækur. Já. Barasta...döhhhh! Hvað ef Lagarflót verði nú fært í Elliðarárdalinn? Ég veit ekkert um ár og brúr og bakka þessa lands og gæti bara vel farið að trúa slíku.
Stórhættulegt lýðræði og upplýsingasamfélagi okkar, þetta Trivial Pussút.

föstudagur, apríl 18, 2008

Vitið þið hvað?!

Sonur minn er veikur! Pælið í því...þetta er með ólíkindum.
Ég er svo aldeilis hissa.

þriðjudagur, apríl 15, 2008

Skóli búið

Úpps. Og nú hefst heljarinnar lestur og verkefnaskil dauðans. Ég á mér því nokkrar óskir:
 • Sonur minn kær, ekki verða veikur og ekki andsetinn
 • Mamma, ekki þú heldur!
 • Ég, ekki verða veik, geðveik, stressuð og ekki lenda í neinu veseni.
 • Barnsfaðir, vertu þolinmóður og haltu þér á mottunni þegar ég hvæsi á þig
 • Þið hin, ekki biðja mig um greiða ég get ekki sagt nei
 • Kæra fjölskylda, þetta er hugsanlega næst síðasta önnin mín og ég er að losna undan leiðinlegri bókasafnsfræði. Ég þarf stuðning, nóg að eta og drekka og viljið þið skamma mig ef íbúðin er full hreinleg miðað við það sem er í vændum. Ég er þá ekki að gera skyldu mína við sjálfa mig sem námsmaður.
 • Að ég syndi 400 m 3 í viku á meðan á þessu stendur.
Jám...ekkert óvænt handa mér. Ég er búin að fá slatta þessa önn.
Ja nema það sé delux-ferð til útlanda þar sem tærnar fá að vera upp í loft 24-7

föstudagur, apríl 11, 2008

Viðauki

Púdul-hundur glefsaði í löppina á mér og urraði á mig á leið minni að sækja Dag.

Djöfull varð ég reið.

Mig langar í hund! Varúð-svakalega löng færsla


Svei mér þá! Allt í einu langar mig alveg svakalega í hund. Fyrir viku síðan keyrði ég fyrir aftan bíl með þessum stórglæsilega seppa í aftursætinu. Hann var svo mannalegur og glæsilegur þar sem hann sat með gyllta kollinn sinn lítandi í kringum sig eins og hann væri túristi í stórborginni að mig langaði að taka frammúr bílnum stoppa þversum fyrir framan hann og segja seppa að koma og bæta sér við fjölskylduna mína litlu.
Ég sem hef alla tíð verið hrædd við hunda eftir að hafa verið bitin all svakalega af púdul-hundi.

En ég veit að fólkið sem ætlaði að kaupa þessa íbúð á sínum tíma fékk ekki að hafa hund í húsinu og því hættu þau við kaupin. Svo ég á fallegu íbúðina út af hundinum þeirra. Þess vegna langar mig svo mikið til að þakka öðrum hundi fyrir að hafa grætt þessa íbúð með því að fá mér hann...eftir á.

Fyrst var farið í hundabók sem til er á heimilinu. Síðan skoðaðar reglurgerðir þar sem segir að hafi fólk sérinngang geti aðrir í húsinu ekki sagt neitt um hvort maður fái sér hund eða ekki.
Í hundabókinni er fjallað um reglugerðir og hvernig hlutirnir hafa þróast frá ákveðnu tímabili (nenni ekki að gá að því) til ca 1988. Það sem vakti hins vegar athygli mína var þetta:

Þá gerðist það [sic] að Rafn Jónsson fréttamaður hjá Sjónvarpinu kærði Albert Guðmundsson ráðherra fyrir ólöglegt hundahald, eftir að hann lýsti því opinberlega í sjónvarpi að hann héldi hund, tíkina Lucy, og bryti þannig lög. Kæra Rafns var upphaflega hugsuð, sem mótmæli gegn því ójafnræði til laganna, að almennir hundaeigendur sættu ofsóknum og háum sektum, meðan vitað var að yfirvöld héldu verndarhendi yfir hundum fína fólksins, þó þeir væru alveg jafn ólöglegir. En Alberti tókst að snúa málinu þannig við, að hann varð einskonar fulltrúi allra hinna réttlausu hundaeigenda og hafði mjög á orði, að hann væri til þess reiðubúinn að sitja í fangelsi fyrir tíkina sína fremur en að greiða sektina. En auðvitað kom aldrei til greina að svo háttsettur maður væri fangelsaður, heldur stuðlaði þetta að því að lausn var fundin á vandanum [leturbreyting mín].
Þorsteinn Thorerensen, Stóra hundabókin, bls. 234.
Ég fór því að velta því fyrir mér hvort það sé eitthvað fleira í okkar samfélagi nú sem aðeins fína fólkið kemst upp með og lýsi hér með eftir því svo það sé hægt að fiffa lögin til fyrir okkur hin sem njótum ekki sömu réttinda af því að við erum ekki hátt settir þjóðfélagsþegnar sama hvað við rembumbst við að borga skattana okkar svo þeir sem svíkja undan skatti geti notið heilbrigðiskerfisins á sama hátt og við hin. Og allur annar skítur sem ég veit ekki af en er að auglýsa eftir.

Hvað hundinn varðar langar mig ennþá í hann. En hann étur eflaust mikið, er óþekkur, enginn vill passa hann því hann er svo stór (nei ég vil ekki eldspýtustokk í bandi). Og ég verð grátandi þegar ég fer að heiman yfir að þurfa að skilja hann eftir. Svo hundurinn er át í bili.miðvikudagur, apríl 09, 2008

Fordildin og bloggið

Ég skil ekki þessa niðrandi umræðu um blogg alltaf hreint. Það þykir með eindæmum hallærislegt að blogga. Svo hallærislegt að Ármann Jakobson ákvað að gefa út valdar færslur af því að hann vill frekar vera slakur rithöfundur heldur en góður bloggari.

Í viðtali við hann í Víðsjá sagði hann samt margt viturlegt um bloggið og ég er ánægð með það. Mér finnst ekkert að því að fólk bloggi. Hins vegar eru til miður viturleg blogg. En enginn er þvingaður til þess að lesa þau. Mér finnst skemmtilegast að blogga þegar ég fæ góðar hugmyndi, að mér finnst og gauka þeim að vinum en stundum langar mig bara til að segja eitthvað þó ekki væri nema "hæ".

Ég næ hins vegar ekki af hverju það þykir ófínt að blogga...nema maður búi í útlöndum (og það er meiraðsegja ekki nógu góð afsökun). Ég er algerlega ósammála þessu. Það eru fullt af hlutum sem ég nenni ekki að telja hér upp sem eru miður góðir hjá sumum bloggurum. En bloggið virðist hafa þau áhrif á þann sem er að blogga að honum finnist hann mikilvægur og skipta máli. Og er það ekki bara ágætis tilfinning að þykja það endrum sinnum og fordildast? Þó svo að engum finnist það nema manni sjálfum? Við lærum kannski að meta okkur sjálf fyrir okkur sjálfum vons in a væl. Sumir bloggarar eru ekki einu sinni lesnir! Halda samt áfram.