miðvikudagur, maí 28, 2008

þriðjudagur, maí 27, 2008

Hundaeigandi

Haldiði að ég sé ekki búinn að fá mér labrador-hvolp! Hann er í þrívíðu á facebook. Ég þarf ekki að fara með hann út að ganga eða þrífa eftir hann. Nú kemur í ljós hversu mikinn áhuga ég hef á að eiga hund. En þetta er tölvuhundur svo það er ekki víst að ég nenni mikið að hugsa um hann fyrst hann er í netheimum.

föstudagur, maí 23, 2008

Bara ukkað

Já já þetta er bara notalegt. Get fókuserað á soninn 99% og það er ágætis tilbreyting .

fimmtudagur, maí 22, 2008

Það klippist á sumarfíið

Ó jiminn! Vikan er að verða búin. Þá á ég bara eina eftir. Jiminn.

Ég er á brúnkukremafylliríi því sólinn sem ég ætlaði að baða mig í í laugum borgarinnar ætlar að bíða þangað til ég fer að vinna. En ég sá við henni með brúnkukremi. Vona að ég breytist ekki í gulrót fyrir bekkjarmótið um helgina. Mér skilst að ég hafi tekið lit. Ó ji ég er svo fín. Alveg að gella yfir mig. Samt ónotatilfinning sem fylgir svona pjatti. Ég er hreint ekki vön að láta svona.

Júróvisjón fer algerlega framhjá mér en í morgun gerði ég dauðaleit að einhverju bleiku til að klæða soninn í. Það er ukkur júróhátíð í leiksskólanum. Fann eitthvað semi-bleikt og svart. Síðan tek ég stefnuna á rasistabælið í kvöld eða á morgun. Kannski að ég ætti að prenta út fána Palestínu og hafa með mér?

miðvikudagur, maí 21, 2008

Akranes vs. Palestína


Umræðan vegna flóttafólks frá Palestínu bendir eindregið til þess að gagnrýnin hugsun ætti að vera skyldugrein í barnaskólum. Hluti bæjarbúa óttast að koma fólksins eigi eftir að mergsjúga bæjarsjóðinn. Að það sé synd og skömm að líta fram hjá vandamálum innan bæjarins sem nú þegar eru og bjóða þeim byrgin með að taka á móti einhverjum útlendingum sem ekki hafa unnið sér inn neinn rétt til að fá húsaskjól og vinnu. Og aumingjans fólkið sem er á biðlistum eftir íbúð. Hvað á það að halda? Ég veit ekki um neinn sem býr á götunni á Skaganesi í pappakassa. Ef svo er þá er viðkomandi pottþétt ekki á biðlista eftir félagslegri íbúð. Sá er líklega með kardímommurnar í vasanum og alsæll með þær.

Stundum kemur upp í mér péturblöndalisminn. Hann er á þá leið að til sé fólk sem getur vel bjargað sér á annan hátt heldur en það gerir nú. Og ég hugsa að innan þeirra sem eru á biðlistanum góða séu einmitt slíkir bæjarþegnar. Svo er alltaf spurning með knattspyrnuna sem hefur blóðmjólkað bæinn í mörg ár. Hvað ætli Guðjón Þórðarson kosti? Ég hugsa að það megi halda mörgum palestínskum fjölskyldum uppi á þeim peningum.

Það er fjarri lagi að maður geti sett sig í spor flóttafólks. En það er auðvelt að velta fyrir sér sínum lúxusvandamálum og hugsa með sér hvort hægt sé að yfirfæra þau yfir til annars lands. Til dæmis hvort að ég myndi þurfa að skammast mín fyrir hvað bíllinn minn er ljótur færi ég á honum til Palestínu og að ég sé nú þokkaleg til fara og skilji ekki eftir Prada-veskið. Ég velti þessu fyrir mér og sé fáránleikan í því að langa í flatskjá og heimabíóið. Sumir halda því fram að þetta sé ekki sambærilegt og svona sé ekki hægt að gera. Þarna sé allt önnur menning og svo framvegis. Afstæðishygga ógnar hins vegar siðferði og er stórhættuleg. Verið er að brjóta á fólki og rétti þess til að lifa sómasamlegu lífi. Á Íslandi er til dæmis til fólk sem lifir ekki sómasamlegu lífi sé ekki flatskjár á heimilinu og blúrei græja. Hvað þá jeppinn. Maður verður að komast á fjöll og í veiðna. Annars er lífið bara ónýtt. Til hvers að lifa ef maður á ekki peninga til að gera neitt? Alveg glatað.

Ef ástandið væri ekki eins og það er þá er ég viss um að bíllinn minn yrði að athlægi. Hann er sko þokkalega ekki afstæður hann ljóti duglegi minn. Og ég vona að umræðan verði lögð niður fljótlega og bæjarbúar fari að undibúa komu þeirra með notalegheitum. Svona svipuðum og maður fær í Hafnarfjarðaleikhúsi: Ullarsokka, kaffi, heitar pönnsur og falleg orð í umslagi.

Serótónín í brauð takk fyrir!

Éti maður vissa tegund af lyfjum getur það breytt lífi manns alveg stórkostlega. Hætti maður síðan að taka þau af því að maður nennir ekki alltaf að vera í apotekinu að endurnýja skammtinn sinn (heitir frestunarárátta) hefur það líka stórkostlegar afleiðingar.

Ég held að ég sé að ganga í gegnum það núna og það sé orsök þess að ég er voðaleg í skapinu og mig hálf svimar alla daga og ég held að ég sé að verða veik en verð ekkert veik. Ég var farin að halda að ég væri komin á breytingaskeiðið svona korn-ung af því að það getur alveg gerst en svo las ég um hækjuna mína góðu og hún kemur í veg fyrir hitt og þetta í sambandi við tíðarhringinn. Hins vegar hef ég aldrei átt slík vandamál. Aldrei orðið brjáluð nokkrum dögum áður en klæða-vesenið og sóðaskapur kroppsins míns hefst. En svo virðist vera að hætti maður að taka hækjuna sína þá hefur reiðin og ósköpin læðst inn í líf mitt í formi frákvarfseinkenna. Ég sé RAUTT. Ég sé yfirleitt ekki rautt og gerði það ekki áður en hækjan kom inn í líf mitt til að hressa upp á serótónínforðan og gera hann virkan og glaðan.

Núna sit ég hér alveg viðþolslaus að bíða eftir að ódýrasta apotekið í bænum fari á fætur. Það nennir enginn á fætur fyrr en kl. 10 á morgnanna orðið. Og ég ætla að éta og éta þetta fjandans lyf þangað til það dregur mig til dauða. Af hverju í fjandanum er ekki hægt að fá serótónín úr ristuðu brauði með gúrku og tómötum? Það myndi spara fjandans fullt! Vesen er þetta. Ég hélt að heilinn væri náttúrulegt fyrirbæri en hann er greinilega verksmiðjuframleiddur fyrst hann þarf svona sérhæfðar mannaísetningar. Við erum kannski þrátt fyrir allt heili í krukku stjórnuð af illum anda?!

mánudagur, maí 19, 2008

Ræræræræ

Komst að því að maður verður að halda í vissar reglur til að halda geðheil-Sunni þegar skóla sleppir. Fór því í mína vikulegu heimsókn til vinkonu minnar, sem nota bene bauð mér í leikhúsið þessi elska, og lífið fékk tilgang að nýju. Er heima hjá mér alein (sofandi barn telst ekki með samkvæmt Parísardömunni)og alsæl með lífið og tilverunua. Og langar að massa og massa fullt af hlutum. Veit ekki hvar ég á að byrja svo ég opna einn lítin bjór.
Skál.
Svo hefst vinna vinna vinna 2.júní. Nóg að gera og ég hlakka til að fara "heim" til allra bókanna og raða þeim upp. Ji og plasta! Það er massa gaman.

Mammamammamamma

Enn og aftur kvarta ég yfir því að hafa fullt af tíma og vita ekkert hvað ég á að gera við hann. Reyndi að lesa í gærkveldi og mér fannst það hundleiðinleg bók. Ég ætla samt að rembast í gegnum hana. Hún er öll um það hvernig það er að yfirgefa heimaland sitt. Milan Kundera með uppgjör í gegnum kvenpersónur amk. finnst mér það. Ég er að reyna að setja Skaganes í samhengi en ég held að fólk sem hefur flutt til útlanda í lengri eða skemmri tíma eigi eftir að samsama sig.

En mér var óvænt boðið í leikhús í gær. Sýningin var dásamleg og ég er hæst ánægð. Fékk bréf í lokin frá mömmu og ég trúi öllu sem stendur í því þó svo að einhver annar hafi samið það. Mjög gott að vita hvað mömmu finnst þrátt fyrir allt. Hún er varla fær um að segja mér það sjálf blessunin. Ji hvað ég sakna hennar mikið. En hún er bara ekki sama manneskjan lengur. Það glittir í það stundum en svo hverfur það. Svona er lífið. Bara sí svona. Maður þarf bara að átta sig á því hvað maður er valdalítill og sætta sig við það. Sumu getur maður ekki stjórnað. En löng sorgarferli eru varla holl nokkurri manneskju. Mjög þreytandi. Hins vegar er alveg ótrúlegt hvað maður getur rifið sig upp á stundum. En það getur verið reglulega erfitt að lifa sínu eigin lífi án þess að fá samviskubit. Það er auðveldara að kóa með þessu heldur en að bíta á jaxlinn og segja: uss ég á eftir að lenda í þessu, best að njóta lífsins.

Jæja, best að halda áfram í sumarfríi.

sunnudagur, maí 18, 2008

laugardagur, maí 17, 2008

Bara þreytt í fríinu mínu

Ég er alveg viðbjóðslega þreytt. Eitthvað sem mig langar ekki til að vera svona þegar ég er í fríi.
Í sjónvarpinu er Djöstinn Timberleik að glenna á sér tattúin sín og leika töffara með derhúfu í blómafokkíng skyrtu. Mig hefur langað að sjá þessa mynd síðan ég rembdist við að horfa á Emminemm spreyta sig svona til að bera þá saman en ég nenni ekki að horfa á sjónvarp.

Drengurinn er líka rosalega þreyttur. Steinsefur og sefur. Mig langar til að skríða upp í til hans (nei hann fær ekki að fara úr mömmu holu strax það er svo gott að kúra hann!) en mig langar svo að gera eitthvað og gera.

Við vinstri hlið er bókin um tungumál og hes. Við hægri hlið er bjórglasið sem ég er búin að þrá að fá að drekka í friði og ró. En mest langar mig til að loka augunum. En ef maður ætlar bara að sofa í fríinu sínu þá er það ekkert frí. Dagarnir fjúka bara í burtu ætli maður að vera sofandi.

Djöstinn er kominn með brúnan hatt á hausinn...hann er eitthvað að spjalla við vin sinn. Svo ganga þeir saman í burtu. Það er heitt og notalegt kvöld hjá þeim í myndinni. "Fallegi drengurinn minn", segir feitur gaur við Djöstinn og kyssir hann á kinnina...allir fullir og dópaðir eða ukkað. Þetta er ekki...neiHHH! Svíkeapúði eins og ég á! Vá. Djöstinn er bara að gera sig! Ég held ég lesi bara Bottglob Refge. Fer kannski svo bara í heitt bað...og lúrikúri fallega drenginn minn.

miðvikudagur, maí 14, 2008

Sumarfrí

Og þá er ég komin í sumarfrí og ég ætla að vera alger dúllari þangað til sumarvinnuperíodan hefst. Ó allt sem mig hefur langað til að gera en gat ekki gert fyrir lærdómi og fleiru...langar mig ekkert til þess að gera núna. Nú veit ég ekkert hvað ég á við mig að gera. Myndi fara út í garð í sólbað ef það væri aðeins öruggara umhverfið fyrir litla prinsinn minn. Hann er svo alger að ég get ekki treyst því að hann hlaupi út á götu. Ég nenni ekki svoleiðis sólbaði.

Farin að hafa það gott og heilalaust. Prjóna kannski eins og einn sokk...eða ukkað.

mánudagur, maí 12, 2008

Ég elska þetta húsGAGN

Bla blí blú ahhtsjú


Þegar ég sat sveitt við bækurnar á laugardagskvöldið hringdi síminn. Þar var mér tilkynnt að Sam Amidon væri að fara að spila eftir nokkrar mínútur. Ég gaf mér 7 mínútur og pantaði síðan leigubíl niður í bæ. Og sé ekki eftir því. Ákvað að drífa mig áður en það verður rukkað meira en 1200 kr. fyrir að berja drenginn augum.

Þetta voru frábærir tónleikar. En kostuðu sitt. Ég ofkældist á leiðinni heim og er með þvílíka horlekann. Ég er að hugsa um að setja ukkað yfir lyklaborðið eða vera ekki mikið yfir því í dag.

Próf á morgun. Ég er fegin að þetta er að verða búið en ég viðurkenni að nútíma frumspeki er ansi flókið fyrirbæri fyrir mig. Ekki alveg að gera mig hérna. Held að ég ætti bara að halda mig við Platon. Hef ekki þroska fyrir meira. Ætli ég verði ekki að klóra mig í gegnum nýjar nótur til að koma heilanum í gang fyrir lestur dagsins...eða taka nokkrar sjúddúkú-gátur til að vekja hr. Heilus. Kaffið er ekki alveg að virka hérna nebblilega...ahhhsstjúhhh!

laugardagur, maí 10, 2008

Mö má mí mú...nenni ekki að læra meira


Ég vona að ég hafi enn áhuga á að lesa þessa bók þegar ég er laus við annars skemmtilegt nám.
Ég þarf líka að losna við lina bumbu framan á mér. Það er húðsvunta utan á mér sem er óþægileg og pressar sér ukkrun vegin upp úr buxunum og kremur magann í klessu. Frekar óþægilegt. Ég fer í ýmiskonar bönn bráðlega.

föstudagur, maí 09, 2008

Þreyttust

Ég er orðin svolítið þreytt á rituðu máli.

fimmtudagur, maí 08, 2008

Helvítis djöfulsins hormónar

Mér hefur gengið skelfilega að lesa þessa dagana. Ég skil ekki neitt. Sjálfstraustið er alveg að fara út um gluggann. En ég ákvað að gera tilraun og prufa að lesa eitthvað allt annað (Ódyseifskviðu). Og þegar ég varð þess vör að ég skildi það ekki heldur ákvað ég að slaka á og gefa skít í prófalestur. það er greinilega hormónavesen í gangi. Best að keyra sem minnst í dag og taka lítið mark á rúmskynjun minni. Vonandi eykst testosteron-framleiðsla fljótt svo ég fái skerpuna í hausinn aftur. Ég hef grun um að undanfari klæða-veikinnar sé hér að verki.

þriðjudagur, maí 06, 2008

Smá kast áður en skræðurnar eru opnaðar


Ég hef ekkert að segja en það er aldrei að vita nema að ég böggi lesendur með frumspeki þessa vikuna. Svona bara til að fá útrás sjálf. Ég fékk hins vegar alveg svakalegt tilboð í gær frá vini mínum í litlu heimspeki-klíkunni minni. Tilboðið er gistin í Keflavík og frumspeki-prófs-undirbúningur. Og þar sem vinir mínir tveir eru svo svaklega klárir ætla ég að þekkkkkkjast þetta boð með eins mörgum káum og mögulegt er. Mér veitir ekkert af. Ég er alveg orðin kolrugluð á realisma og anti-realsima og mér finnst textinn í bókunum erfiður því ég er með orðaforða á við gullfisk þegar kemur að öðrum tungumálum.

Ég hef samt lagast heil ósköp en það er ukkað sálrænt sem böggar mig þegar ég les enska texta. Ég held að í undirmeðvitundinni sé ég fyrirfram búin að afskrifa skilning. Það tekur mig t.d. 4 - 6 klst. að lesa 30 blaðsíður í hes. Ég ætti kannski að panta tíma hjá dáleiðara.

Svo er heimspekin nánast með sitt eigið tungumál.
Fyrir utan að eftir því sem textar heimspekinnar eru yngri þeim mun hræddari eru höfundar við að láta hanka sig á orðalagi og notkun orða. Mér skilst að það sé rökgreininarheimspeki en ég hef ekki kynnst henni að neinu ráði. En útkoman er helmingi leiðinlegri texti. Og hvað frumspekina varðar finnst mér hún vera meira rifrildi um hvaða merkingu orð hafa.

Það er stundum eins og maður bendi öðrum á risastórt fyrirbæri út í náttúrunni og segir: "fjall" en þá myndi hinn segja: "nei, kúkur." Og að það sé alveg sama hvað maður segi það skilji mann ekki nokkur hræða. Maður gæti alveg eins sagt: "me", við makann sinn eins og að biðja hann um að fara út með ruslið (reyndar er það svo hér svo ég djóki nú að eins í mínum manni) það skilur mann aldrei neinn hvort eð er.

En svona að mörgu leiti þá er hellings hellings í frumspekinni sem segir manni hversu nauðsynleg hún er. Það er ágætt að fara alveg á bólakaf ofan í frumspeki-hafið og gera sér grein fyrir því hvað það er mikilvægt að við leggjum sömu meiningu í hugtök eins og t.d. umburðalyndi (það eru nefnilega skiptar skoðanir á hvað það er).
En ég vona að ég verði ekki óþolandi þegar upp er staðið og breytist í Sókrates þegar ég á í samræðum við vinkonur mínar. Ef vinkona mín kvartar undan óréttlæti þá væri ekki mikill stuðningur í mér ef ég spyr hana hvað réttlæti sé til að athuga hvort við leggjum sömu merkingu í orðið áður en við förum í kvörtunarhaminn um hvað heimurinn sé stundum vondur við okkur (hér þyrftum við nottlega fyrst að fara í hugtökin um tíma, rúm og orsakasamhengið).

laugardagur, maí 03, 2008

Próf, kaupusýki, tilviljanir ofl.


Vildi óska þess að Illugi Jökulson myndi þýða fleiri.
Honum tókst það svo frábærlega með þá sem hann þýddi.
Ég hló og grét og hló. Skora á hann hér með að gera mér
til hæfis.


Þá er ég búin að taka eins og eitt próf og vonn tú gó. En ég á líka eftir 2 verkefni og 1 skýrslu. Ég kvíði skýrslunni alveg heiftarlega vegna þess að ég hef ekki hugmynd um hvað ég á að gera og hvert markmiðið með henni er. Svo finnst mér hrikalegt að þurfa að hafa skýrlsu hangandi yfir mér í prófalestri. Það er bara fáránlegt. Þetta allt á að gerast fyrir 13. maí og svo er prófið þann 13. og ég þekki mig svo vel að ég veit að ég á ekki eftir að massa þetta.

1. maí var alveg stórkostlegur. Ég fór með móðursystur minni í kaffiboð hjá Kennarasambandi Íslands og þvílíka kaffiboðið. Ég hef aldrei á ævi minni farið í svona fínt ókeypis kaffi á veitingastað út í bæ. Ég þakka Kennarasambandinu innilega fyrir þessar veitingar.

Svo gat ég fyllst kaupusýki og varð að fara í Kolaportið. Þar fann ég kápu á 700 kall og tölvuleik á 500. Nú þegar kaupusýkis-púkinn kemur upp í mér legg ég leið mína í bókabúðir eða Góða Hirðinn. En að öllum líkindum fer ég að sniðganga bókabúðir eftir að hafa grætt svo stórkostlega í Góða Hirðinum um daginn. Ég fann uppáhalds glæpakónginn minn, sem mér fannst fáránleg tilviljun*, og helling af honum. Ég valdi 12 stykki og hver þeirra kostaði mig 50 krónur. Ég sparaði mér sum sé 12 x 13-1500 kall.

*Eftir þekkingarfræði-kúrsinn minn hefur vaknað hjá mér mikill áhugi fyrir tilviljunum. Mér finnst ég alltaf vera að lenda í fáránlegum tilviljunum. Sbr. bækurnar sem ég fann í Hirðinum Góða. Sunnudeginum áður en ég fór í GH var Mannaveiðar í sjónvarpinu. Það sem ég hjó eftir þar var að ekki einungis var afmælisdagurinn minn nefndur heldur var hinn umræddi glæpasagnahöfudur líka í þættinum (ég þekki engan nema mig sem les þennan kall og fáir virðast vita af honum, eins og hann er dásamlegur). Síðan fer ég í GH á föstudeginum eftir og þar er bara þessi massi af bókum eftir herrann! Þær voru ekki í hillunni vikunni á undan skal ég segja ykkur (er farin að venja komur mínar einu sinni í viku). Mjög hressandi og skemmtilegar tilviljanir.

Eftir að ég verslaði dýrum dómum rafmagnsknúinn hægindastól fyrir móður mína hef ég verið með ákafa þrá eftir að eignast slíkan stól. Vinkona mín á tvo hægindastóla, Lazyboy takk fyrir, og mig dauðlangaði í annan þeirra. Svo lést faðir systkyna minna rétt fyrir áramót (31. nánar tiltekið) og þá var systir mín komin með þennan gullfallega Lazyboy í stofuna hjá sér. Og maður grær við stólinn og vill ekki standa upp. Ég er búin að sjá mig fyrir mér í svona stól með höfuðtól og bók í hönd, gott ljós og góða bók síðan ég settist í Lazyboyinn hennar.

Haldiði að það sé ekki einn í GH! Grænn og skítugur. Beið eftir mér í tvær vikur en þá stökk ég á hann. Vegna sjúskleika fékk ég hann á 4000 en yfirleitt eru þeir seldir á 5000. Svo var massað fyrir mig bíl sem kostaði 1400 þegar heim kom og draumur minn hefur ræststststst! Heimilisfaðirinn var ekki hrifinn af þessum skítuga stól og óttaðist hann það sem hugsanlega fylgir með honum (gott að fréttin um lyklaborðin kom í sjónvarpið í gær svo hann geti gleymt stólnum). Ég sagði honum að ég væri viss um að Þorsteinn heitinn Gylfason hefði átt stólinn. Hann róaðist helling við þetta. Og á meðan ég skrapp út í 1. maí - kaffi stalst hann til að setjast í stólinn og festist í heilar 20 mínútur. Varð síðan að hringja í mig til þess að deila með mér ánægjunni sem fylgdi því að sitja í stólnum. Ég fylltist mikilli örvæntingu og hræðslu og sagði með þjósti að þetta væri minn stóll!

fimmtudagur, maí 01, 2008

Angur í prófalestri sem kemur náminu ekkert við!

Eitt sem er að angra mig í miðjum prófalestri:

Hvernig var þetta með grunnskólana, ríkið og sveitafélögin? Vildu sveitarfélögin fá grunnskólana eða tróð ríkið rekstri grunnskólanna upp á sveitarfélögin?