mánudagur, júní 30, 2008

Pirr

Ég er búin að fara tvisar til læknis og hvorugur þeirra kann skýringu á hvað kom fyrir kroppinn á mér. Ég er öll að skríða saman, smá óþægindi í fótunum, en ég á að hafa á takteinunum hvað ég át næst þegar ég verð handa og fótalaus. Það eina sem þeim dettur í hug eru ukkur sölt eða of mikið af salti einhversstaðar frá. Hmmm...ég borðaði saltað hrossakjöt tveimur dögum áður en þetta byrjaði. Það er víst of langur tími...

Svo er ég pirruð móðir út í leikskólann. Hann vill ekki hlusta á okkur þegar við erum að reyna að útskýra fyrir honum frauðvörturnar á líkama barnsins. Sem hann (sonurinn) nota bene, þurfti endilega að kroppa svo rosalega í að hann varð óhugnanlegur undir handakrikanum. Er í krem meðferð og hefur tekið þvílíkum framförum. Leikskólinn, sem bar þetta í hann, vill endilega vita hvort þetta geti farið í önnur börn. Já af einhverjum fékk sonur minn fjandans bólurnar! Ég er svakalega fúl. Við erum búin að vera að glíma við þetta helvíti í amk 3 mánuði og þrálátt er þetta. Ég er líka búin að tilkynna þetta en það virðist bara hafa borist til deildarstjórans en ekki til annars starfsfólks. Nú er deildarstjórinn í fríi og hringt í okkur einu sinni í viku út að þessum fjanda. GGRRRR.
Best að fara í lækninn og láta hann skrifa á blað hvað þetta er nákvæmlega og senda leiksskólanum.
Svo bráir þetta af mér með kveldinu. Verð að spila tölvuleik. Ég er komin með tölvuleikja-æði.

sunnudagur, júní 29, 2008

Sjálfsafgreiðsla

Í fyrra voru teknar upp sjálfsafgreiðsluvélar í nokkrum (ef ekki öllum) bókasöfnum borgarinnar. Mikil gremja gaus upp meðal lánþega. Þau puffuðu og dæstu yfir að þurfa að læra eitthvað nýtt, skömmuðust yfir hvað vélarnar væru ómögulegar. Sumir, ekki margir, höfðu orð á hvað þetta væri nú sniðugt en endalausar spurningar dundu yfir okkur í afgreiðslunni hvort við værum að missa vinnuna og hvað það ætti að þýða að fá ekki að hafa samskipti við fólk/bókaverði/fræðinga á meðan skil og útlán ættu sér stað.

Ástæðan fyrir þessum litla pistli er bók sem ég myndi alls ekki vilja afgreiðslu bókasafnsins sjá að ég ætlaði mér að taka (væri ég óbreyttur lánþegi og aldrei unnið á bókasafni) og er það bók siðapostulans Þorgríms Þráinssonar...svo og allur 152 flokkurinn! Hvað þá AA bækurnar og tólfsporakerfið. Eða líf handan lífs (sem mér finnst algert rugl en sé nálgunin frumspekileg gef ég því séns). Það eru þessar bækur sem eru svo afskaplega viðkvæmt mál fyrir lánþegann að koma með til manneskju í afgreiðslu að ég er alveg viss um að sjálfsafgreiðsla er hið besta mál. Þangað til að vélin klikkar og lánþegi neyðist til þess að fara með bækurnar til manneskju...

miðvikudagur, júní 25, 2008

Af furðum

Þrennt er það sem ég furða mig á:

Björk fyrir að eiga ísbjörn heima hjá sér, pistill Birgis Maussonar um að kreppa þurfi að tónlistarmönnum svo þeir verði blankir og búi til betri tónlist og svo...man ég ekki það þriðja í augnablikinu...jú að menn haldi að einkavæðing og betri þjónusta við viðskiptavini fari saman.

Ég tel að það hljóti að vera lygi upp á hana Björk að hún eigi ísbjarnarskinn með haus og öllu tilheyrandi. Hún samdi jú lagið Human Behavior...nema það hafi verið barnaskapur. Ég sem ét kjöt og skammast mín fyrir að þurfa á því að halda næringarinnar vegna finnst það hræsni eigi hún fjandans ísbjarnartutluna.

Tónlistarmenn hafa grátið og vælt í gegnum tíðina yfir því að geta ekki lifað af sinni tónlist. Nú semja þeir hverja snilldina á fætur annarri sem þeir geta selt dýrum dómum til flutnings í auglýsingatímum. Loksins þegar þeir geta tekið þátt í kapitalismanum á sínum forsendum þykir það ekkert flott.

Strætó og Síminn eru dæmi um lélega þjónustu vegna einkavæðingar. Ég nenni ekki að telja upp leiðindin sem fylgt hafa þeirri stórkostlegu græðgi sem ræður ríkjum. Ég vona að menn fari að sjá að það verði að gera eitthvað í almenningssamgöngum eigi fólk að spara einkabílinn og olíu heimsins.

Er heima í dag vegna þess að ég held að ég sé komin með gigt eða eitthvað ógeð í hendur og fætur. Get varla gengið og er með bjúg á fótunum og handarbökunum sem mér finnst stórundarlegt. Ætla að reyna að massa lækni. Ég er hálf hrædd. Veit ekkert hvað er að gerast í kroppnum á mér. Systir mín segir að ég sé nú að verða fertug! Svo klæjar mig á þessum stöðum og já ég botna ekkert í þessu. Ég hélt að það væri nóg að vera...smá klikkuð...

föstudagur, júní 20, 2008

Talibönun í Kabúl

Flugdrekahlauparinn hefur aðeins og mikil áhrif. Nú er ég að hlusta á afganska tónlist og surfa á netinu.

Tók ljótu myndina.

Og horfi á Rauðhettu...með syninum...og Mikka Mús og annað barna efni.

Bókalestur, bækur og bækur og bækur

Minn mælikvarði segir mér að ég sé búin að vera á endemum dugleg að lesa.
Las Brúðuheimili Ibsens, ritgerð um leikritið og svo kláraði ég Flugdrekabókina í nótt.
Ég er líka grútsyfjuð...en nú er komin helgi og ég ætla svo sannarlega að fara í næstu bók. VAr með einhvern derring út í tískubókmenntir eins og flugdrekann en svo er ágætt að vita hverju maður getur mælt með ofan í safngesti. Nenni samt ekki að lesa Ranking, Cornwell og glæpaliðið. Ég er kominn með sæmilega nóg af reyfurum.

Ég er að springa úr monti. Aldrei þessu vant klára ég bækur. Langt síðan ég var svona dugleg. Safna þeim yfirleitt í stafla á stól við rúmið mitt...

En ég var búin að ákveða að vera dugleg og láta ekkert stoppa mig þetta árið innan um allar bækurnar sem gera mig vitlausa. Mig langar að lesa þær nánast allar!

miðvikudagur, júní 18, 2008

Strætó blætó

4000 krónur sem áður fylltu hjá mér tankinn gerir hann hálffullan (ég er fegin að mér datt ekki í hug hálftóman hér). Og ég segi bara vá. En ég tók strætó í vinnuna í dag. Tilraun sem endaði næstum með hjartaáfalli. Við Dagur röltum í leikskólann á góðum tíma en vegna stoppa og staldurs víðsvegar á leiðinni var hjartað mitt farið að slá ansi hratt. Og ég vil ekki vera drífðu þig nú, ég er að verða of sein, hættu þessu slóri drengur-móðir. Ef ég næði ekki strætó þyrfti ég að bíða í hálftíma eða hlaupa heim eftir bílnum. Loksins komum við á leiðarenda. Þegar ég var orðin "frjáls" hljóp ég í átt að strætóskýlinu sem er hinum megin við Miklubraut. Ég þarf sum sé að komast yfir á ljósum sem eru endalaust lengi að breytast gögnufólki í hag. Þegar maður gengur í átt að þessum ljósum einbeitir maður sér að því að athuga hvort einhver sé þegar búinn að ýta á grænukalla takkann. Ef svo er rýkur maður af stað til að hlaupa og ná yfir í tíma. Í morgun sá ég hvar stúlka stóð og beið við ljósin og svo kom græni kallinn allt of snemma og ég þurfti að hlaupa eins og eldibrandur til að ná yfir götuna. Síðan tekur við dágóður spölur að biðskýlinu...ég þarf að hugsa þetta aðeins betur hvað ég er tilbúin til að leggja á mig fyrir að mæta á réttum tíma í vinnuna svo ég fái greidd laun (stimpilkerfið ógurlega hefur verið tekið upp á annars stresslausum vinnustað) og tekið þátt í heimssparnaði á olíuverði...
Mig langar til að rasskella borgina fyrir að losa sig við strætó. 90 milljónkróna halli er varla halli meðan Orkuveitan makar krókinn. Og héldu strætó rekendur virkilega að samgöngur á Íslandi væri eitthvað til þess að græða á?! Og strætó á 30 mínútna fresti allan daginn yfir sumarið? Nei ég botna ekkert í þessu. Í staðinn fyrir að bæta samgöngur eru menn að reyna að finna nýja orkugjafa til að knúa einkabílinn! Mér finnst þetta frekar stúpid.

Mættu alveg vera göng fyrir gangandi undir umferðabrjálaðar götur á fleiri stöðum eins og þessa Miklubraut. Maður ætti kannski bara að flytja ukkurt þar sem maður þarf bara fæturnar.

fimmtudagur, júní 12, 2008

Ég fann bók...


...sem er auglýst í bak og fyrir hvað hún sé frábær og æðisleg (afskaplega ljótt orð og heimskulegt visúalt-séð)og ég er algerlega dottin ofan í hana

sunnudagur, júní 08, 2008

Lúxusvæl

Ég held bara að ég hafi ekkert að segja. Velti því fyrir mér hvort ég ætti ekki bara að fara að hætta öllu bloggi. Stundum kemur upp sterk þörf fyrir að setja eitthvað á netið en svo koma dagar þar sem maður setur eitthvað inn af algerri skyldu til að viðhalda síðunni sinni hvort sem hún er lesin eða ekki. Uppfærsluþörf.

Ég vinn bara og vinn. Fyrsta vikan mín og helgin líka. Svo hefst næsta vinnuvika á morgun. Þó svo að þessi vinna sé mjög skemmtileg þá finnst mér eins og ég sé aldrei heima hjá mér. Hvers vegna í ósköpunum höfum við ekki minnkað vinnutímann? Jú það hefur svo sem verið gert en maður mætir seinna til vinnu en kemur seint heim fyrir því. Ég hlakka ekki til að fara út á vinnumarkaðinn þegar náminu líkur. Átta klukkustundir í vinnunni, fjórar klukkustundir vakandi heima hjá sér og restinni eyðir maður í svefn. Þetta er rugl. Síðan er dagatalið skoðað bak og fyrir til þess að hlakka til einhverra frídaga og beðið með óþreyju eftir sumarfríi sem líður hraðar en helgarfrí að manni finnst. Mér finnst þetta ekkert spennandi líf. Ég er allt of heimakær fyrir svona mikla fjarveru frá heimili mínu. Mikið er gott að vera námsmaður þó að það sé aldrei neitt í ísskápunum.
Þetta er nú óttarlegt lúxusvæl hjá mér.

Mér lýst vel á að Seyðfirðingar breyti klukkunni hjá sér til að fá sólina aðeins lengur e. vinnu.

laugardagur, júní 07, 2008

Er Nóatúns kjúlli ekki bara málið í kveld? Nenni ekki að elda...held ég. Er ukkað timbruð í vinnunni!

föstudagur, júní 06, 2008

Bókaæsingur

Ég er að velta því fyrir mér hvort maður eigi algerlega að sniðganga bækur sem hafa æpandi auglýsingu á kápunni um hversu mikil snild þær eru. Nokkrar hafa valdið mér stórkostlegum vonbrigðum.

þriðjudagur, júní 03, 2008

Og svo er veðrið orðið gott og svakalegt þegar ég sit inni. Sagði ég ekki?!

mánudagur, júní 02, 2008

Og svo vinna vinna og vinna...

...sem hófst í dag. Mikið gott. Ég hef aldrei á ævi minni unnið á svona góðum vinnustað. Hann er fullkominn á allan hátt. Bækur, frábært fólk, yfirmanneskjan er snillingur og kúnnarnir eru frábærir. Svo er maður meira í tengslum við það sem er að gerast í menningarheiminum heldur en gerist og gengur...hjá mér þ.e.a.s. Ég er yfirleitt steinsofandi þagnað til þarna.

Viggo Mortensen hinum fræga missti ég þó af. Hefði ég byrjað í síðustu viku væri ég með áritaðar Lord of the Rings eignir heimilisins. Hann var nánast alla síðustu viku upp á kaffistofunni minni að búa til argentískt te handa sér og setja upp sýningu. Svona getur maður verið óheppinn. Vonandi tekur hann hana niður sjálfur en ég efast um að eitthvað verði til að taka niður því hann er búinn að selja 105 myndir af 110. Ég skoðaði ekki sýninguna í dag en ötla að kíkja á morgun. Hún verður hvort eð er svo lengi uppi. Ég verð að gá hvort ég hafi efni á einni mynd fyrst ég missti af honum. Ætli það sé starfsmannaafsláttur?

Saumó á morgun og allt í rúst!
Tiltekt og uppskriftabækur. Ötla að kaupa ukkað gott til að malla ofan í dásamlega klúbbinn minn.