sunnudagur, ágúst 31, 2008

Breyttir tímarEinhverjir muna þann tíma þegar til þess var ætlast af manni að skrifa dagbók í barnaskóla. Ukkurskonar dulbúin skriftaræfing. Hver einasti dagur var á þá leið:

Ég vaknaði klukkan hálf átta, fór á fætur og svo klæddi ég mig og síðan fékk ég seríjós í morgun mat og svo fórum ég í skólann (með tveimur N-um rembdist maður við að muna) og mamma í vinnuna.

Í dag þegar ég var vakin af þvagblöðrunni góðu (í dag?! Í morgun!) og fór fram með hana varð mér hugsað til þessara einföldu tíma. Núna myndi slík færsla hljóma öllu lengri. Hér er til dæmis ein:

Vaknaði klukkan sjö fimmtíu fimm við að þvagblaðra talaði í gegnum son minn og sagði: Mamma.......eigum vi a koma hramm? Ég samþykkti það en sonurinn ætlaði sér ekki að losa sig við þvagið, heldur fór beint inn í stofu hvar hann fann nammi í poka er gladdi hann mjeg. Ég fór í hótunar-gírinn og sagði að fyrst ætti að pissa morgun-pissið og eftir smá baráttu sagði sá litli: jæja þá. Eftir morgunpiss var kveikt á barnaefni Rúf sem er ótrúlega leiðinlegt sjónvarpsefni. Á meðan sonurinn hámar í sig viðbjóðslegan morgunmatinn fer ég inn í eldhús og laga mér kaffi. Meðan kaffið gerir sig klárt til drykkjar (þvílíkur lúxus) set ég í uppþvottavélina. Þegar kom að því að setja uppþvottaduftið í litla hólfið sitt, laust niður þeirri hugsun að ég sé alltaf að setja í þessa uppþvottavél og hvort ég eigi líf fyrir utan hana; svona hugsanir minna mig á að gefa serótónín-riddurunum mínum að borða og ég opna skáp sem er troooðfullur af fáránlegu drasli og krafla með fingrunum þar til ég finn réttan kassa þar sem búa tvílit hylki, gul og græn.
Skrúfa frá krananum og skelli Hemúlnum (nýji blollinn minn :D ) undir bununa, skelli hylkinu upp í munn, kyngi og minni mig á að tími sé kominn að kaupa meira uppþvottavéladuft.

Ég fer inn í lúxusherbergi heimilisins og kveiki á tölvunni. Þar fer ég að tvístíga vegna þess að litli frændi minn gleymdi tölvuleiknum sínum hjá mér. Ég var búin að finna diskinn en ekki hulstrið. Nú er ég búin að finna hulstrið en tapa disknum.
Ég bölva vísum stöðum í vísri óreiðu og fer að bora í nefið. Það er ekkert að finna í nefinu af viti. Þetta eru litlar horkleprur sem ekki er hægt að snýta og ekki hægt að bora út en eru óþolandi og ég gefst ekki upp. Græði ekkert.

Kaffið er til og ég finn Hemúlinn og fylli hann af ilmandi vökvanum. Tölvan er vöknuð og ég blogga nútíma barnaskóla-dagbókar-færslu með fullorðinslegu ívafi enda tel ég mig ekki vera orðin fullorðin. Veit ekki hvað það er eða hvenær sá hluti hefst þ.e. við hvað er miðað. Aldur? Mánaðarlega reikninga? Eða hugsunarhátt? Veit ekki. Mér finnst það alla vega ekki mjög heillandi hlutverk sem samfélagið æskir af mér, bæði erfitt og flókið. Hvar ætli ég geti sýnt ábyrgðarleysi sem mér yrði fyrirgefið?

Lausn:
Með því að hætta að setja í uppþvottavélina!

föstudagur, ágúst 29, 2008

Hver á fiskinn?


Ákvað að skella gátunni í dag. Man sjálf ekki hver á fiskinn en þetta er ótrúlega skemmtileg gáta

Fengið af Vísindavef HÍ;
Sagt er að Albert Einstein hafi sett fram þessa gátu:

Fimm hús í fimm mismunandi litum standa í röð frá vinstri til hægri. Í hverju húsi býr maður af ákveðnu þjóðerni, engir tveir af því sama. Íbúarnir fimm drekka ákveðinn drykk, reykja ákveðna vindlategund og hafa ákveðið gæludýr. Engir tveir þeirra drekka sama drykkinn, reykja sömu vindlategund eða halda sama gæludýrið. Aðrar upplýsingar:
 1. Bretinn býr í rauða húsinu.
 2. Svíinn hefur hunda sem gæludýr.
 3. Daninn drekkur te.
 4. Græna húsið er næsta hús vinstra megin við það hvíta.
 5. Íbúi græna hússins drekkur kaffi.
 6. Sá sem reykir Pall Mall heldur fugla.
 7. Íbúi gula hússins reykir Dunhill.
 8. Íbúi hússins í miðjunni drekkur mjólk.
 9. Norðmaðurinn býr í fyrsta húsinu.
 10. Sá sem reykir Blends býr við hliðina á þeim sem heldur ketti.
 11. Sá sem á hest býr við hliðina á þeim sem reykir Dunhill.
 12. Sá sem reykir Bluemasters drekkur bjór.
 13. Þjóðverjinn reykir Prince.
 14. Norðmaðurinn býr við hliðina á bláa húsinu.
 15. Sá sem reykir Blends býr við hliðina á þeim sem drekkur vatn.
Sá sem er innan við 15 mínútur að leysa þessa þraut myndi ég halda að hefði einhverja tegund -hverfu :) svona til að réttlæta minn eigin tregleika. Ég tek því fram að Einstein á að hafa haldið því fram að einungis 2% fólks geti leyst gátuna. Maður er því æstur í að afsanna sjálfan Einstein!
Nú eða monta sig af því að vera einn af þessum tveimur prósentum...
Njótið.


miðvikudagur, ágúst 27, 2008

Appelsínuvandinn - Rökfræði og stærðfræðileg huxun...

...er eitthvað sem mig skortir kannski ekki algerlega en ég er ekkert sérlega lagin við að leysa þrautir. Því einfaldari sem þrautir eru á ég erfiðara með að leysa þær. Og ég er lengi að. Miðlungs flóknar henta mér betur svona eins og þrautin góða Hver á fiskinn, ef einhver man eftir henni.

Ég var stödd hjá vinkonu minni um daginn sem sýndi mér kokkabók um hlaupgerð sem hún hafði krækt sér í. Það sem var hvað skemmtilegast við þessa bók var að jukkið í henni var ekki listilega vel gert heldur voru veitingarnar frekar klúðurslegar og litu alveg eins út og maður hefði gert þetta sjálfur. Það var ekkert verið að lítillækka mann með einhverju stórkostlegu skrauti og fögrum útfærslum. Hlaupjukkið var einfaldlega ljótt á myndunum og viðbjóðslegt á litinn.

En engu að síður innihélt þessi kokkabók smá þraut sem kokkabækur eiga til. Vinkona mín spurði mig hvernig ég héldi að þetta væri gert. Myndin var af skorinni appelsínu í báta en í stað appelsínu-kjötsins var hlaup. Ég sá náttúrulega svakalegt tæki sem hjálpaði hlaupinu að harðna ofan á appelsínu-barkar-bátnum. Hún sagðist líka hafa hugsað upp eitthvað svakalega flókið apparat og/eða aðferð við að koma hlaupinu í bátinn. Það hvarflaði ekki að okkur einfaldleiki aðferðarinnar við að koma hlaupinu svona fyrir.

En appelsínan er einfaldlega skorin í tvennt, kjötið skafið úr og svo er hálf-kúlan fyllt með hlaupi. Hlaupið storknar og síðan er skorið niður í báta!

Eitt sinn drullaðist ég að skoða lokapróf í stærðfræði þegar ég var í framhaldsskóla. Ég var nefnilega svo hissa að ég, sem gat ekki leitað aðstoðar hjá góðum vinum, fékk sjö sem er mjööög há tala þegar ég á í hlut auk þess sem ég klóraði mig út úr þessu algerlega sjálf. Kennarinn sagði við mig: Sunna, ég skil þetta ekki, þú ert að klúðra einföldu dæmunum en geta þau flóknu!

Hugsanlega útskýrði kennarinn ekki einföldu hlutina eins vel og þá flóknu, sem ég virðist þurfa, honum hefur hugsanlega þótt þeir einföldu sjálfsagðir (eitthvað sem kennarar mættu kannski taka til sín!). En engu að síður gat ég ekki appelsínuþrautina þó hún virðist borðleggjandi fái maður lausnina. Og þvílík niðurlæging!

Ég þykist ætla í inngang að rökfræði í vor og ég get alveg sagt ykkur það að með þessa appelsínu-hlaup-vitneskju kvíði ég alveg stórkostlega fyrir. Ég auglýsi því hér með eftir þrautum til að æfa mig fyrir vorönnina í von um að einhver hafi fattað á undan mér við þennan lestur lausnina á appelsínu-þrautinni.

þriðjudagur, ágúst 26, 2008

Vælustund trjá-Bjarkar

Hvers konar gáfukonu-besservissera-hjal get ég boðið upp á í dag? Svona þegar maður lítur yfir farinn bloggveg þá er maður nánast alltaf að segja það sama.

Ég luma á dagbókum sem ég hef skrifað í gegnum tíðina. Eins konar ruslakistur þar sem flest er látið flakka og aldrei litið í framar. Fyrir nokkru kíkti ég í eina sem var frá árinu 1998 og brá hvað ég er að glíma við nákvæmlega sömu vandamál. Hugsaði því með mér að ef þessi tiltekni hlutur er ennþá að bögga mig hvað í andskotanum gengur eiginlega að mér? Bloggið mitt er sjálfsagt líka slíkar endurtekningar. Bara ekki alveg eins þunglynt!

Ég reyndi einu sinni að halda bjartsýnisbók. Það var bannað að skrifa í hana neitt neikvætt. Allt átti að vera frábært og gott. Eins konar hjálp við hugarfarsbreytingum. Ég náði ekki að skrifa hálfa blaðsíðu um gleði. Á endanum var mér orðið flökurt og að kafna yfir að sitja á leiðindunum, sprakk og bókin varð útbíuð vonbrigðum sorgum, kvíða, sjálfshatri og þaðan af verra. Mér létti stórum, lokaði bókinni og leið miklu betur. Þvílík hreinsun! En svo hefur komið á daginn að ég setti allt hreinlega inn í bók og lokaði henni svo. Svipað eins og að fara til vinkonu sinnar og væla yfir sjálfum sér til að létta á sér, líða betur og fara svo í sama farið. Finna sér nýjar vinkonur því maður er búinn að kæfa þær gömlu eða fara í Tígrisdýrið og kaupa sér nýja bók af því að hin tekur ekki við meiru ógeði þó svo að 100 blaðsíður séu lausar í henni enn!

Fyndna er að ég treysti mér engan vegin að lesa fjandans dagbækurnar. Ég fæ alveg ógeð á sjálfri mér sem er hreint ekkert uppbyggilegt. "Djísúss, hvaða leiðinda píka er idda?!", hugsa ég og langar ekkert að fara í einhverja naflaskoðun. Meira helvítis huxið alltaf hreint! Hættu þessu væli og skipuleggðu líf þitt betur, segi ég, þar sem vælið er alltaf um tíma fyrir sjálfan sig og sjálfan sig. Svo ertu bara LÖT belja! Þess vegna er ekkert skipulag...Þá kemur hitt heilahvelið sem bendir massaranum í mér á að vegna of mikillar fullkomnunaráráttu kemur frestunaráráttan. Fullkomnunaráráttan segir að að hlutirnir eigi að breytast núna strax og ég láti hendur standa fram úr ermum, sjái síðan hvernig verkefnið sem ég hef tekið mér á hendur er svo stórt að heilbrigð manneskja myndi ekki láta bjóða sér þetta, slæ öllu á frest og fer svo að væla um tímaskort með tvö ankeri í sínu hvoru munnvikinu og herðakistil á bakinu nánast í gólfinu. Ég sver það að maður getur verið djöfuls fífl gagnvart sjálfum sér. Ég þarf stanslaust að minna mig á að ég myndi ekki segja við nokkurn mann það sem ég segi við sjálfa mig. Þrjóskan kemur því stundum upp í mér og ég reyni að segja við aðra það ljóta sem ég segi við sjálfa mig til að réttlæta meðferðina á mér.
Ég held að ég þurfi að hætta að hugsa um skilyrðislausa skylduboð Kants!!! Stórhættulegt helvíti.
Lítið mál að afbaka það með breyskleikanum...

Sakna Blönna. Hann var mikil andagift á sínum tíma.

sunnudagur, ágúst 24, 2008

Íslensk hreintungu-stefna!

Geiri Gullputti héðan í frá!
Starfsemi hans þykir mér svo hallærisleg og mér hefur alltaf þótt uppspretta slíkrar atvinnusköpunnar, sem hann og fleiri hafa komið á laggirnar hér á landi, samfélagsleg afturför.
Gullputti þykir mér því sóma betur en enska orðið því það er jafn hjákátlegt og rekstur súlustaða og klobbaglenninga kvenkyns einstaklinga. Að hafa atvinnu af því að rassgatast framan í fólk sýnir dómgreindarleysi að beggja hálfu. Bæði eru að hafa sig að algeru fífli.

Sem líkamsræktartæki er súlan sjálfsagt ágæt og sem slík sjálfsagt framför. Tilbreyting frá því að traðka á vöðvunum sínum í Heims Klassa innan um dauðans svitafýlur og gráa boli með viðbjóðslega svitabletti á bringu, undir höndum og aftan á hnakka, kringum klofið. Komum fjandans súlunni bara inn í Baðhuset.

Þreytt þreyttari þreyttust eða syfjuð í tætlur

Ég er búin að sofa nánast í allan dag. Rembdist á fætur til að góna á íslenska landsliðið en syfjan hékk yfir mér og það í allan dag. Búin að leggja mig tvisvar. Get hugsað mér að fara aftur að sofa. Mikið óskaplega er ég þreytt eftir þetta sumar.

Kíkti aðeins í ameríska brjálæðinginn og subbið hans en hélt ekki athygli lengi. Buddha vol. 5 er komin í hús og ég róaðist talsvert við það. Nú vantar mig bara búst, losna við syfjuna og massa bækurnar. En einmitt núna langar mig að gera eftirfarandi og það allt í einu:
 • lesa bók
 • horfa á góða bíómynd
 • hlusta á þátt í tölvunni um Hannah Arendt
 • hlusta á Hugh Laurie lesa sögu
 • hrista fram úr erminni eitt stykki sjal
Jám ég er ekki uppiskroppa með hugmyndir. Vantar bara kraft

föstudagur, ágúst 22, 2008

Sumarstarfslok

Síðasti dagurinn minn í sumarvinnunni er í dag. Á morgun er svo menningarnótt og það er ekki laust við að ég vilji bara loka mig af inni í íbúðinni minni sökum valkvíða. Láta fjörið fara algerlega framhjá mér. Eftir að ég flutti úr 101 finnst mér allt menningarlegt vera horfið og það er eins og ég búi í dönsku úthverfi einhverstaðar langt í burtu og lestin fer ekki hér framhjá. Mér kemur ekki við 101 lengur. Ég held að ég hafi einmitt sleppt menningarnótt í fyrra. En nú er stutt að fara yfir á Klambratún í fjörið þar, svo er margt girnilegt að gerast í bókasafninu sjálfu og flugeldasýningin, sem hefur misst glæsileika sinn eftir að hún var flutt út á sjó, langar mig alls ekki að sleppa.

Ég er að hugsa um að reyna að safna faman fjölskyldunni og fá hana til að taka þátt í húllumhæinu með mér. Þá eru fleiri um hvert eigi að fara og hvað eigi að gera. Mér finnst ágætt að aðrir taki stundum stjórn og ákveði fyrir mig.

fimmtudagur, ágúst 21, 2008

Eftir langan og strangan...

...vinnudag keyri ég heim í rigningunni, Bach hamast aleinn á sellóinu sínu í gegnum einhverja manneskju sem klóraði sig í gegnum nóturnar hans í margar klukkustundir til þess að spila hann sómasamlega inn á sé dé. Langar í rauðvín en nenni ekki í glundurbúðina. En fyrir einhverja undarlega tilviljun vel ég mér nýja leið heim og glundurbúðin í Borgartúni er í leiðinni. Svo ég stekk inn og gríp tvær léttvínsflöskur til að slátra í kvöld og annað kvöld.

Til að koma í veg fyrir að ég steinsofni í sófanum fer ég í svakalega heitt bað og finn hvernig allir vöðvar eru útúr-spenntir í vatninu og það er alveg sama hvað ég reyni að slaka á ekkert gerist. Svo er furðulegt að reyna að anda þegar maður liggur í baði. Maður andar og kroppurinn lyftist allur upp þannig að hausinn lekur úr stæðinu sem maður var búinn að koma sér fyrir í og maður þarf að festa hann einhvern veginn aftur. Ferlega pirrandi. Upp og niður upp og niður. Loksins finn ég hvernig spennan lekur út í vatnið svo ég tek tappann úr og ligg á meðan vatnið streymir í niðurfallið og allur skítur, andlegur sem líkamlegur, fer...ja kannski í næsta hús! Aumingja sá! Ég veit ekkert hvert þetta fer.

Eftir losunina er tími til kominn að blogga um þessi herlegheit og fá sér rauðvínstár og kannski sígarettu, til að ná í spennuna sína aftur og áður en ég fer að sofa fæ ég mér vatnsglas. En á morgun verður spennan sem fór með baðvatninu, komin aftur í kroppinn á mér út af sígarettunni og vatninu sem ég fékk mér og öllu því sem mig langar að gera, þarf að gera, vill ekki gera og býr bara í hausnum á mér því hann er ofvirkur.

Huxsu-tímabilið mitt er hafið.

miðvikudagur, ágúst 20, 2008

Subbið sópast upp

Nú er aðeins farið að örla á subbuskap bókarinnar...ég sat í leisíbojinum mínum með teppi vafið utan um mig og fann hvernig heilinn fór að framleiða eitthvað sem ég veit ekki hvað heitir, sjálfsagt eitthvað boðefni, sem maður finnur einungis fyrir þegar subbusetningar birtast augunum. Þetta tiltekna boðefni, sem væri gaman að vita hvað heitir, blandaðist hræðslutilfinningu og ég þorði ekki að klára kaflann. Færði mig inn í stofu fyrir framan andlausan landsleik og steinsofnaði.

Nú er ég fersk og södd, tilbúin í slaginn og á val fyrir höndum: Shining, sem ég nenni ekki að horfa á því mér finnst hún ekkert skemmtileg, eða American Psycho-bók.

Mjööög líklega vel ég leisíbojinn. Ég er búin að dreyma svo lengi að sitja svona og lesa að það er fáránlegt að láta framhjá sér fara forréttindi sem maður hefur skapað sér sjálfur með góðri hjálp Góða hirðisins. Fallegt ljós (Svíkea reyndar...) í hillu sem er að springa af bókum sem vilja láta lesa sig á þessari öld, stór blóm í glugganum og trén sem blasa við manni þegar maður lítur upp úr lestrinum...frönsku hurðirnar tvær í herberginu, lágvært píanógutl Franz Lizt í hljómtækjunum...alveg eins og í sögu! Ekkert mál að búa til hugguleg heit. Erfiðara að njóta þeirra hins vegar í amstrinu öllu. Tími til kominn að læra það Bunna Sjörk!

mánudagur, ágúst 18, 2008

American Psycho

Ég er að lesa agalega skemmtilega bók núna. Amk er hún skemmtileg enn sem komið er. Hrokafullir eitís-hnakkar að metast um nafnspjöld og slíkt. Öll fatamerki eru á hreinu hvort sem það eru konur eða karlar, tískudót sem ég hef ekki einu sinni heyrt nefnd nokkurntíma og eru þar af leiðandi ekkert flott fyrir mér. Nafnspjalda-atriðið er mér í fersku minni því mér fannst það stórkostlega vel skrifað og fann alveg hvernig "ég" sögupersónunnar fór algerlega í rúst eins og hann spilaði sig góðan þegar hann var að sýna vinum sínum herlegheitin. Svo var hann toppaður af næsta sem toppaðist af þeim þriðja.

Ég hef ekki séð myndina og er að spara hana þangað til að ég klára bókina en Christian Bale er bara nokkuð töff og passar vel í ímyndunaraflus.

Skemmtileg enn sem komið er...já ég er ekki komin að sóðaskap og ógeðseðli þessarar sögupersónu (getur viðbjóður verið skemmtilegur ha Platón, ha Aristóteles?). Bíð spennt og vona að ég verði ekki fyrir vonbrigðum. Viðurkenni þó að það örlar á smá ótta við að lesa subbið sem bíður mín en oft er subb í setningum skemmtileg upplifun og allt öðruvísi að lesa subb heldur en að horfa á subb. Bókin var bönnuð á sínum tíma og höfundurinn átti ekki að geta gefið hana út vegna forlagsins sem hann var hjá en annað forlag bjargaði honum.

Að lestri loknum ég get velt upp siðferðilegum spurningum um bannaðar bækur innan svo og svo margra ára (þ.á.m. manga teiknimyndasögurnar), börn og foreldrar og ábyrgð VS bókasöfn og lýðræðið. Gæti verið ágætis BA-ritgerð meiraðsegja!

föstudagur, ágúst 15, 2008

?

Erum við með þrjá borgarstjóra á launum núna?!

þriðjudagur, ágúst 12, 2008

Fer í fríið

Fékk fríið...lestrardagur á morgun. Ekki plata mig í eitthvað bull eins og Góða hirðirinn og Svíkea og fleiri girnilega tímafreka staði!

Ný klemma

Nýjasta klemman sem ég er búin að koma mér í er sú að ég get ekki klárað Buddha nr. 4 vegna þess að Buddha nr. 5 er ekki komin í hús! Sæll-frasinn á vel við hér. Nr. 6, 7, og 8 bíða óþolinmóðar á náttgólfinu því þeim finnst tími til kominn að fleiri fái að njóta þeirra. Auk þess er mig farið að langa að skoða aðrar teiknimyndasögur eftir Osamu Tezuka. Er með eina feita og bleika...á náttgólfinu...sem er bönnuð innan 16 ára. Hvað skyldi vera svona mikill ósómi í teiknimyndasögu? Það er feikilega spennandi að vita. En ég þarf nú ekki að bíða eftir Buddha 5 til að komast að því. Ég væri hins vegar til í að taka mér frídag eða tvo til þess að liggja yfir henni.

Kannski ég smjaðri fyrir einhverjum sem gæti hugsanlega sagt já...aldrei að vita. Svo er píanóinu mínu orðið illt af vanrækslu og vill fá stillingarkarl til að hljóma betur. Það ætlar ekki að setjast, fjandans píanóið. Ég ætla spyrja varasjóðinn hvort hann vilji heldur, fallega hljómandi píanó eða skólabækur.

Hilsen

föstudagur, ágúst 08, 2008

RegnbogafáninnSoldið lítill þessi en best að flagga og vera með...jamm jamm.

miðvikudagur, ágúst 06, 2008

Af bíói og bruðli

Gat ekki setið á mér þrátt fyrir peningaleysið og kuffti fjarstýrðan bíl handa syninum sem mig langaði svo í. Ég er búin að hugsa nógu lengi um hann til þess að réttlæta kaupin. Þannig réttlæti ég kaupuæðið. Hafi ég setið á mér nógu lengi og er enn jafn áhugasöm um hlutinn er hann keyptur. En ég á líka til að klúðra málunum gjörsamlega og kaupa eitthvað alveg út í hött bara af því að ég held að ég þurfi svo stórkostlega á því að halda. Fékk samt nett áfall þegar flatskjárinn var kominn inn í hús þrátt fyrir hux huxanna lengi vel. Aðeins og stór græja til að réttlæta...Svo þegar bíó-blaster-græjurnar bætast við (hehemm) þá læt ég leggja mig inn á geðdeild í smá stund þangað til að ég átta mig á að ég get réttlætt þessi kaup með því að halda að ég fari í bíó þrisvar í viku. Ég fer kannski einu sinni á ári!

Mér leiðist nefnilega að fara í bíó. Þar er skítkalt ef fáir eru á sýningunni og/eða fólk sem spjallar heilmikið þrátt fyrir öll reyklausu kaffihúsin út um allt. Að ekki sé minnst á símana sem hringja í gríð og erg og fólk virkilega SVARAR! Svo er ég frekar lágvaxin og lendi yfirleitt fyrir framan manneskju með hatt sem hún kærir sig ekki um að taka niður. Hafi hún eitthvað að fela getur hún sest á aftasta bekk.

Um daginn þegar ég fór á háheilaga sýningu þ.e. Mr. Battmaður var salurinn nánast fullur af pöbbum með syni sína sem ekki kunna að lesa! Svo héldu þeir fyrir augun á drengjunum sínum þegar við átti.

Áður en sýningin hófst sátu tveir ólátabelgir fyrir framan mig ca 7-8 ára. Vesenið á þeim var þvílíkt að ég sagði þeim að ég yrði foxill eyðileggðu þeir sýninguna fyrir mér og léti fleygja þeim út yrðu þeir ekki stilltir. Annar sagði mér þá að pabbi sinn væri sko lögga og réði öllu. Hér átti ég að hafa mig hæga. Ég benti honum hins vegar á að ef ekki væri fyrir pabba minn gæti pabbi hans ekki farið á klósettið. Barnið setti upp skelfingar svip svo vinur hans kom honum til bjargar með því að leggja fyrir mig nokkrar stærðfræðigátur; hvað 10 x 10 væri, hvað 10 + 10 væri...hér átti sko að láta reyna á greindarvísitölu þessarar undarlegu og afskiptasömu stelpukonu. En ég er svo mikill púki að ég heimtaði að við færum að spjalla um kvaðratrætur og veldi. Það var aðeins of mikið fyrir þá og skilningsleysið bjargaði þeim alveg. Aldrei heyrt slík hugtök og hugsanlega væri stelpukonan eitthvað að búa til núna.

Pabbarnir sem fygldu þessum peyjum urðu greinilega einhvers varir því áður en sýningin hófst röðuðu þeir upp í sætin af mikilli skynsemi: pabbi, strákur, pabbi, strákur. Ég þurfti ekki að óttast óeinkennisklætt yfirvaldið fyrir yfirganginn en vorkenndi hverjum einasta dreng þegar pabbarnir hlógu hátt og dátt af bröndurunum í myndinni og reyndu síðan að útskýra fyrir þeim hvað væri svona fyndið í hvert sinn!

þriðjudagur, ágúst 05, 2008

Tómtfólksmanneskja

Í dag er ég eitthvað svo blönk inn í mér og hálf rugluð eitthvað. Væri til í eitthvað kalt og gott að drekka og svo væri ég til í að leggja mig í smá stund og vakna fersk og fín, skrifa eins og eina sögu og fá bara að vera í friði.

Að vera í friði en hafa félagskap í kringum sig er dásamlegt. Og svo finnst mér ég vera frekja að hugsa svona. Ætli mér liði eins og skækju ef ég framkvæmdi frekjuganginn? Eitthvað ekki alveg í lagi hjá minni held ég...best að klappa mér aðeins og fá mér hjólarúnt.

mánudagur, ágúst 04, 2008

Ljúlí ljúlí sagði björkin


Station-helginni lokið og ferðalag framundan. Ég sé fram á að sitja í ca 4 klst. í bílnum á milli Akraness og Reykjavíkur. Ég er þegar farin að velja tónlist hefði átt að taka með mér sögu til að hlusta á. En ég veit að Benedikt búálfur á eftir að taka völdin. Gerir ekkert. Ég er hvort eð er svo annars hugar. Við tökum bara dúett ég og Dagur. Vonandi lifum við ferðina af. Það hefur enginn dáið ennþá...eða er það nokkuð?
Ég myndi fara Hvalfjörðinn ef ég hefði ferðafélaga sem er eldri en 3 ára og ef myndavélin hefði verið með í för.

Og vitið þið bara hvað? Sólin er að koma núna!

sunnudagur, ágúst 03, 2008

Skaganes

Sólin og hégómleiki minn eru ekki að tala saman! Hvar í fjandanum ertu? Ég sem kom ekki með fatatutlu með mér. Ég ætlaði að láta þig sleikja mig í bak og fyrir! Í staðinn er frændatuð stanslaust frændatuð og stríðni. Svo mikil að ég er alveg að fara að pakka niður og fara heim.

Fórum svakalegan Reykholts-rúnt með tuðið í aftursætinu í gær og dauðþreyttar og leiðar systur í von um að frændurnir myndu rotast við heimkomu hélt fjörið bara áfram. Ég tók loks í taumana, tók mitt litla gúraskinn, fleygði honum í rúmið og tuðaði upp einhverja útgáfu af Rauðhettu. Minn var sofnaður þegar veiðimaðurinn var kominn að húsi ömmu en ég kláraði hana samt til vonar og vara

Fórum upp í kirkjugarð og vökvuðum bræður okkar . Sólin búin að steikja nánast hvert einasta blóm á hverri gröf. Ætli verið sé að spara úðarana? Vill gleymast að til er fólk sem kemst ekki upp í kirkjugarð til að sinna sínum látnu. Sjálf er ég með blendnar tilfinningar gagnvart kirkjugörðum. Er ekki alveg búin að gera það upp við mig hvort slíkar ferðir hafi tilgang. Þetta eru dularfullir minnisvarðar um fólk og eins og ég hef sagt áður að þá er fáránlegt að standa með vatnskönnu og sulla yfir ættingja sína. Veit ekki fyrir hvern verið er að heiðra minninguna. Líklegast er þetta fyrir okkur hin sem eftir sitja með hjörtun kramin og kvalin.

laugardagur, ágúst 02, 2008

Umhverfissvissingar

Hráskinkan í höfðinu á mér er í ballanseringu í rólegu umhverfi æskustöðvanna. Reykjavík fer þannig með landsbyggðarpakk eins og mig að maður verður að komast í burt.
Afskaplega girnilegt að flytja til baka að námi loknu þ.e. ef ég get hætt í skóla. Svo óskaplega gaman ukkað. Ég fæ kvíðahnút í magan af tilhugsuninni um að klára námið. Hræðilegt! Kannski ætti ég að glíma við að taka tvær gráður...bara svona...bara. Fer kannski á hausinn við það en ef valið stendur á milli hausar og hamingju þá vel ég...hmm...

Bak við mig rífast frændur um nammi. Minn karl segir: þett'er minn nammi! Stóri frændi segir: Nei. Og svo kemur litli kútur og klagar í mömmu sína sem svarar: Það er til fullt af nammi. Annað hljóð í strokk og apað upp eftir mér:...fjullt af nammi...og þar með lauk klögum þeim í bili.