þriðjudagur, september 30, 2008

Allt of mikið af verkefnum í haus. Hvað á að gera við svona haus?

Ég er að lesa svo mikið af bókum að ég má ekki vera að þessu. Og svo dettur mér ekkert skemmtilegt í hug. Bankamálin ekki til umræðu. Fiskabúrið er orðið skítugt aftur og húsið er smá fatlað vegna framkvæmda. Svo eru að koma próf djísúss minn góður. Og ég er ekki tilbúin.

Kosturinn við að fara í skóla þegar maður telur sig vera orðinn skynsamur í kollinum er sá að maður hefur gaman af því sem maður er að fást við. Ókosturinn er að vera ekki á l'Hotel Mama þar sem hugsað er fyrir öllu fyrir mann, hrein föt inn í skáp og matur á borðinu, gætt að því að síminn sé ekki að svindla á manni, allir reikningar greiddir á tilsettum tíma o.s.frv. Praktískir hlutir í höndum einhvers annars alfarið og maður þarf bara að hafa áhyggjur af að skila verkefnum á réttum tíma eða í mínu tilfelli AÐ SKILA VERKEFNUM!

Ég held að ég sé með of mikið að gera. Kannski ætti ég að fara að taka gulu möppurnar í hausnum á mér og gera það sama við þær og maður gerir stundum við spilastokk: sprauta þeim upp í loft. Helst ekki inni hjá mér samt. Fara út í Gróttu og dæla þeim út í sjó. Keyra svo úthreinsuð heim aftur. Jamm ég væri til í það.

Stóð mig að því um daginn að vera að telja loftbólur í kaffibollanum mínum. Tók eftir því að þær voru mismunandi að stærð svo ég tók að flokka: stóru sér og litlu sér...
Þá er nú einum of langt gegnið!

fimmtudagur, september 18, 2008

Stjórnleysi heilabús míns.

Eins og ég hélt þá er lífið að taka frá mér blogg-dúlleríið. Hér er verið að brjóta allt og bramla út af hundleiðinlegu röri sem lekur. Gólfið hjá mér er heitt og notalegt þar sem lekinn er.

Ég hef því nóg af verkefnum og er að drukkna. Heilinn í mér starfar ekki sem skyldi í öllu þessu kraðaki og flokkar allt í vitleysu. Ég sé fyrir mér yellow folders fljúgandi út um allt höfðuð. Veit ekki hvað er í forgang og er ekki fær um að vinna vel úr þeim örfáu klst. sem eru aflögu.

Ef gulur leki kemur úr nefinu á mér veit ég að ég er að glata upplýsingum af harða drifinu sem ég veit ekki hverjar eru. Sem í sjálfu sér er ekkert slæmt þar sem ég á aldrei eftir að sakna einhvers sem ég veit ekki hvað er.

miðvikudagur, september 10, 2008

Móar

Bloggið mitt er að breytast í íslenskukennslu og því ekki úr vegi að fjalla um sagnorð en frægum bókmenntafræðingi sem ég hef starfað með síðastliðin þrjú sumur datt í hug þá snilld að fallbeygja nafn mitt þannig að það breytist í ja...sagnorð eða lýsingarorð eða eins konar stigbreytingu? Er hreint ekki viss:

Sunna
Sann
Sunnum
Sonnið
Ætlaði að vera með ærlega matarveislu sem breyttist í viðbjóð við eldun (nafnyrðing sagnorðsins að elda). Kjúklingur frá Móum breyttist í blóðbað dauðans ofan í djúpsteikingarpottinum og minnti fjölskyldufólk óþægilega á Rambó 4 sem við horfðum á fyrir stuttu. Rambó 4 fjallar aðallega um kjötflykki úr manneskjum sem dreifast um loftin blá og axlabreiðan dverg með ennisband. Dvergurinn er ekki saklaus af því að taka þátt í kjötflugssýningunni.

Ætlaði mér að taka mynd af kjúllus svona til að benda fólki á að Móar eru ekkert sérlega duglegir við að blóðga almennilega fiðurlaust fé sitt en
Móum til hjálpar kom myndavél hússins
batteríslaus og allt.

Batteríin eru í hleðslu!

þriðjudagur, september 09, 2008

Versl og kaup

Ég er í námskeiði sem nefnist textagerð og við fengum verkefni í dag sem við eigum að leysa fyrir föstudaginn...að ég held. Verkefnið felst í því að í fyrsta hluta eigum við að leiðrétta 4 eða 5 setningar, sjáum við eitthvað athugavert við þær. Í seinni hlutanum eigum við að færa rök fyrir skoðun X annars vegar, sem heldur því fram að setningarnar séu vel skiljanlegar og því þurfi ekki að leiðrétta þær, og Y hins vegar, sem heldur því fram að setningarnar eigi að lagfæra. X og Y fá þrenn rök hvor sér til stuðnings. Ég hlakka ekki til að rökstyðja X...né Y...

En hvað um það. Ein setninging hljóðar svo:

Kona nokkur, sem er kvænt Dana, kvaðst munu færa systir sinni útvarpið sem hún verslaði.
Kennarinn valdi þessa setningu til þess að kynna fyrir okkur í hverju verkefni okkar fælist. Þegar hann fór í gegnum reglur þess að kvænast og giftast gat ég ekki á mér setið vegna þeirra samfélagslegu breytinga sem hafa átt sér stað. Benti honum á að við værum með konu sem menntamálaráðherra svo Daninn hljóti því að vera kona. Kennarinn (sem er karl nota bene) sagði að svo gæti vel verið.

Sessunautur minn (kona) sagði mig vera anal og bað mig vinsamlegast um að þegja í komandi tímum. Vel meint...held ég.....vúpps!

Við komumst ekki lengra með setninguna því tíminn var búinn. En það er nokkuð ljóst að setningin þarf mössunar við. Verslar maður til dæmis útvarp? Kaupir maður ekki útvarp? Ég fór út í búð að kaupa og ég verslaði útvarp og brauð...? WTF?

mánudagur, september 08, 2008

Geit á reit


For viewing Only?! Sem sagt myndin er ekki drykkjarhæf? Er átt við það?
Annars er skólinn byrjaður og það þýðir að bloggfærslur eru kannski það fyrsta sem mér dettur í hug til þess að losna við skyldurnar eða öfugt þ.e. skyldurnar að eta mig lifandi.

Hóf lestur hjá Blindrabókasafni Íslands í dag eftir margra ára hlé. Mjög skrítið að halda áfram með bók sem ég byrjaði á fyrir 12 árum eða ukkað...nei ekki alveg svo slæmt. Klára hana í vikunni og get fengið eitthvað nýtt kræsilegt. Er að lesa Rokkað í Vittula sem er ekkert sérlega auðvelt að lesa upphátt en er mjög skemmtileg bók. Hló nokkrum sinnum og þurfti að spóla til baka til að eyða flissinu og brosinu af "teypinu". Það heyrist strax þegar maður brosir...einnig þarf maður að passa sig að vera búinn að borða því garnagaul lekur léttilega inn á svo næmt er þetta. UUrrrrg heyrist alveg örugglega á einhverjum hljóðskræðum sem ég hef lesið í fátækt og svelti. Vel á minnst:

Þa er kominn matur.

fimmtudagur, september 04, 2008

Vínið og....................................................................... svínið

"Láttu ekki vín breyta þér í svín" segir í auglýsingu þessa dagana. Síðan koma svipmyndir úr lífi nýrrar tegundar sem ég hef aldrei séð áður, einskonar manneskja sem hefur nef og eyru áþekk svínum. Þessi tegund skjögar og pissar utan í vegg, keyrir bíl þrátt fyrir að hafa greinilega einhvern erfðagalla og hefði alls ekki átt að fá bílpróf frekar en blind manneskja og rífst og skammast fyrir framan barnið sitt þrátt fyrir að valda óþægindum. Barnið virðist lítið eiga skylt við foreldrana, er að öllum líkindum ættleitt.

Að vín breyti fólki í svín er ágætis rím...en þegar auglýsingin klikkir út með "drekktu eins og manneskja" fallast mér alveg hendur. Ég veit ekki betur en að það séu einmitt við manneskjurnar sem eigum það til að drekka frá okkur vit og skynsemi og taka upp svipaða hætti þessarar nýju manntegundar. Svín drekka ekki áfengi mér vitandi og því væri það einmitt hvatning að æskja þess að mannfólk drykki eins og svín

...en svín nota ekki hendurnar sínar því þau hafa engar...

Kannski er það þess vegna sem við erum beðin um að drekka ekki eins og þau? Af því að það er ekki mannsæmandi að vera á fjórum fótum og lepja vatn? Hugsaði ekki alveg út í það...

Engu að síður er hér auglýsing sem hittir engan vegin í mark. Góð auglýsing um offarir í drykkjuskap á að vera svo öflug að maður fær timburmenni af því að horfa svo og móralinn. Ég finn enga samsömun með svínslegum manneskjum.

Nær væri að segja okkur að gæta hófs og höfða til skynseminnar (svo lengi sem hún býr með þeim sem horfir) með hjálp góðra og gamalla fræða (t.d. úr Hávamálum, Platon, Aristoteles...) til að benda okkur á að manneskjan er enn, eftir öll þau ár síðan hún uppgötvaði vínvímuna hátt upp í fjöllum Georgíu, að spóla í sömu hjólförunum og komin á 100 tommu dekk í þokkabót til að dýpka almennilega í vandræðum sínum. Ekki útópíu þar sem svín sulla í Sancere.

Ef við hugsum til þess sögulega hvað við erum alltaf að gera það sama þrátt fyrir að halda að við séum í svo agalega mikilli þróun og séum svo miklu betri einstaklingar heldur en fólk sem var uppi fyrir 2500 árum (er mótaði menningu vora og hún hefur ekki mikið breyst síðan þá!) er ágætt að upplýsa fólk að við erum enn að bögglast við nákvæmlega sömu samfélagslegu vandamál og forforforforfeður okkar, hvað varðar menntun, stjórnmál og félagsleg vandamál eins og ja...drykkju. Skynsemin er ekki manneskjum í blóð borin og því er ekkert endilega skynsamlegt að drekka eins og manneskja.

Ég geri ráð fyrir að fara með vinnufélögum annað kveld á Rósarbjarg og ég hef hugsað mér að drekka eins og svín nema hvað ég ætla mér að sitja á stól og nota hendurna til þess arna.

þriðjudagur, september 02, 2008

Bak og vesen

Ég er að drepast í bakinu. Þett'er svona "halda í sér andanum" bakverkur í mjóhryggnum. Bara vont. Eins og þegar maður skellist á bakið í sundi og missir andan...ótrúlega óþægilegt ukkað.

Ætlaði í sund í mína uppáhalds laug sem er út'á nesi því þar er aldrei neinn og nóg pláss en svo fattaði ég að það er bölvað ves þegar maður er í klæða-vesininu. Nenni ekki drakúla-tepokum. Svo hangir alltaf spottinn niður eins og maður sé sprellikerling og er BLÁR á litin í þokkabót! Ómögulegt að fela þetta. Ég myndi ekki kippa mér upp við það að sjá á öðrum konum spotta hangandi neðan úr klofinu á þeim, myndi ekki taka eftir því vegna þess að ég er ekkert voðalega mikið að skoða á konum klofið, og sérstaklega ekki eftir að þær fóru að stílísera á sér skaparhárin, en sjálf er ég ekkert hress með að sýna öðrum konum spottann. Svo myndi sonur minn bara tosa í hann í gamni...hann reynir stundum að klæða mig úr í sundi, reyndar óviljandi, hangir í sundbolnum mínum og allt á leiðini í dagsljósið. Myndi ekki meika spottatosingar líka. En mig langar alveg voðalega í kraftmikinn straum á mjóbakið akkúrat núna. Og hégóma-brúnku!