miðvikudagur, október 29, 2008

Skaut mig í fótinn


Það er ekki "svo að" sem er rangt heldur "sem að". Ég læri sum sé...jáf...ekki fljótt og vel.

Dreymdi skrítinn draum og mjög táknrænan að ég held. Ég var að prjóna peysu með mynstri. Ég kann ekki að prjóna mynstur og gengur illa með peysuna sem ég er að prjóna í raunheimum. En í draumnum hélt ég að ég væri að prjóna eins og mig langaði að prjóna þ.e. peysuna í raunheimi en þegar ég fór að fylgjast með mér prjóna var ég greinilega að prjóna mynstur á peysuna. Í draumnum var ég svo hissa að mér var litið á peysuna alla og sá að hún var öll niður njörfuð í mynstri. Svaka flott peysa en ekki peysan sem ég hélt ég væri að prjóna!

Í kreppuástandi eins og nú fer maður óhjákvæmilega að huxa um tölur og stærfræðikunnáttu sína. Frænka sonar míns sýndi mér kennslubók í stærðfræði sem dóttir hennar á...eða ríkið á ég veit aldrei hver staðan er með skólabækur. En hvað um það hún fór að segja mér frá þeirri aðferð sem verið er að tilraunast með í dag en það er að börnin finni sér leið til þess að komast að réttri niðurstöðu á eigin spýtur. Mér varð hugsað til þeirra tíma þegar ég var lítil og uppgötvaði mér til mikillar skelfingar hvað ég kæmi svakalega illa út væri ég í uppgötvunarkennslu í dag.

Ef ég fengi dæmi þar sem ég yrði beðin um að leggja saman fætur 8 hesta og 4 svína myndi ég fara í flækju. Nú er ég að rifja upp eins og ég var sem barn. Það væri alveg sama hvað kennarinn segði mér um að leggja fæturna saman ég myndi ekki heyra neitt af því sem hann segði vegna þess að ég er þegar búin að sjá í hendi mér að fætur á hestum og fætur á svínum eru ekki sömu fæturnir og því ekkert hægt að leggja þá saman! Þetta eru ekki sömu dýrin. Ég fengi því aldrei rétta niðurstöðu því ég væri komin með meinloku þá að reyna að fá fjandans fæturna til þess að líta eins út svo hægt væri að leggja þær saman. Ég væri í mesta lagi komin með tvær tölur, annars vegar fyrir svínafætur og hins vegar hestafætur.

Svona hef ég alltaf verið en skánað með aldrinum. Ég væri hins vegar alveg til í að fá skýringu á hugsunarhætti sem þessum. Gæti komið mér til góða þegar sonurinn fer að erfa þetta eftir mér. Hvað ætli það séu mörg börn núna í þessari klemmu í dag? Ég er örugglega ekki ein í heiminum með þessa fullkomnunarfötlun!

þriðjudagur, október 21, 2008

Ukkað

Ég er algerlega andlaus þessa dagana. Og er frekar fúl yfir því.
Ég rembist við skólann, peysugerð og svo skrepp ég og les hljóðsnældur hjá Blindróbókósafnó.
Afskaplega notalegt líf svo sem. Voða rólegt ukkað.

En ég er alveg glötuð í tungumálinu íslensku. Veit ekki djakk! Fæ sorglegar einkunnir úr textagerðanámskeiðinu! Mikið er það furðulegt að vera lélegur í málinu sínu. Ef ég ætti að fara í gegnum bloggfærslurnar mínar eins og verkefni í textagerð myndi ég eyða öllu af helberri skömm.

Djísjúss...

Ég ætla ekki að eyðileggja pælingar mínar á þeim forsendum. Ósanngjarnt gagnvart mér. En ég ætla að reyna að skrifa ekki "svo að" í framtíðinni. Ég læri sum sé mér til mikillar furðu! Stundum verður samt aðeins að fá að leika sér. Mar má ekki tapa sér. Væri gaman að skella inn færslu í Íslendingasagnastíl. Þa ku vera svo voðalega fín íslenska.

sunnudagur, október 12, 2008

Algjört DarlingTilviljun réði algerlega þessu kodak mómenti.
Hann veit hins vegar að þetta er/var peningur
sem er nokkuð gott miðað við kortamenningu þá
sem hann hefur alist upp við.

laugardagur, október 11, 2008

Þátttaka mín

Sem ég er að skrolla í gegnum blogg Silfurs-Egils fann ég þetta einstaklega skemmtilega blogg. Ég er grenjandi hérna úr hlátri. Þetta er svo dásamleg hugmynd að ég vildi óska að hún væri mín eigin!

Annars sit ég sveitt við prófalestur og verð svo brjáluð í leiðinni að ég þarf að standa upp nánast eftir hvert einasta paragraf og böslótast út í samfélag sem skortir siðferðilega dýpt. Ég er nefnilega að lesa fyrir próf í stjórnmálaheimspeki og hver snilldin á fætur annarri um hvernig skynsamlegt samfélag fúnkerar gerir mig svona kolbrjálaða. Einhverjir karlar eru fyrir löngu síðan búnir að setja á prent fullt af skynsömum leiðum til að halda utan um samfélag en alltaf verður breyskleiki mannsins ofan á.

Núna er ég að undirbúa prófspurningu um Locke og Hobbes og eftir að hafa lesið Locke velti ég því fyrir mér hvort aðgerðir stjórnvalda standist stjórnarskrá og og lög um mannréttindi? Ég er ekkert svakalega vel að mér í stjórnarskrá okkar, á þennan litla bleðling einhversstaðar. En ég velti því fyrir mér hvort þessar björgunaraðgerðir að hálfu ríkisins séu eina leiðin? Að þegnarnir blæði í sameiningu á kostnað einstaklingsmiðaðrar markaðshyggju? Ég skil það ekki alveg. Er sum sé verið að segja manni að einkavæðing sé frábær þangað til að eitthvað svona gerist? Þá eigum við að standa með einkavæðingunni? Þá sé tími til kominn að snúa bökum saman og standa saman? Við erum að tala um fólk sem fær starfslokasamninga þar sem upphæðirnar eru margfalt það sem ég á eftir að vinna mér inn á allri minni ævi!

Ég næ þess öngvan vegin! Á viðskipti er litið sem um ópersónuleg samskipti sé að ræða enda peningar sem teljast vera ópersónulegur og tilfinningalaus hlutur sem stanslaust er tönglast á að séu algert aukaatriði. Þetta sé einungis nauðsynlegt verkfæri innan viðskiptarammans, sem er ópersónulegur og ekkert er illa meint, bara viðskipti, mér er ekkert illa við þig persónulega, kæra þjóð, þetta eru bara viðskipti og þau fóru út um þúfur í græðgi minni.

Þetta er bara bull. Það er ein tilfinning, sem fólk verður að taka sem gefinni. Ætli að þetta sé ekki sú tilfinning sem á hvað erfiðast með að standa í "ópersónulegum" viðskiptum. Og það er traustið. Peningar snúast um traust. Traust er tilfinning. Peningar eru því ekki með öllu ópersónulegir og viðskipti ekki heldur. Það er niðurlægjandi að hafa treyst einhverjum sem fór illa með það traust. Og það er mjög erfitt að endurreisa traust eftir gjaldþrot þar sem slegið er upp að þetta séu bara peningar til þess að réttlæta svik.

Ég óska eftir því að ég sem þegn þessa ríkis að eigur þess fólks sem um ræðir séu FRYSTAR UNDIR EINS! Allar innistæður í öllum bönkum í heiminum, fasteignir, bílar. Í upplýsingasamfélagi nútímans er vel hægt að komast að því hvað fólk átti áður en það varð gráðugt. Setjum það bara á sama level aftur. Það er fáránlegt að bankaliðið sé á sömu launakjörum og það setti sér. Það hefur enginn Íslendingur að gera með 10 millur á mánuði. Hvað þarf svona voðalega mikið að kaupa? Það er vel hægt að komast af með talsvert minna...ja kannski þangað til í dag...
Málefnaæsingurinn er svo mikill að ég meika ekki að pæla í stafsetningu. Ég vona að ég komist í gegnum efnið fyrir próf vegna reiði.

þriðjudagur, október 07, 2008

Ótrúlega hressandi tímar framundan

Það er'að koma próf skúbbí dúahh
það er' að koma proooohhóóóóófff
og ég er komin með í ennisholurnar
það er' að koma próóóf skúbbí dúahh

Ég verð svakalega hress og kát næstu daga og hamingjusöm og allt svo jákvætt sem mögulegt er að finna í heiminum...það er svo gaman að vera til og ég er svo bjartsýn. Svo bjartsýn að ég ætla að fara að fá mér kex með smjöri, sultu og osti.