föstudagur, október 30, 2009

Er að setja í gang

Ég er bara að hlakka til þess að hugurinn fari á flug. Það hlýtur að gerast. Ekkert er betra en að blogga soldið. Pólitík algerlega búin að hertaka þennan vettvang.

mánudagur, september 28, 2009

Tæpur er tunguputtinn

Stuldur er orðin svo hrikalegur að maður þorir ekki að láta neitt hér niður. Og nú þegar fésbók er búin að gleypa allt og alla er alveg kominn tími til að putta soldið bloggið sitt.

Nú þegar ég er komin með nóg af henni fésbók, og allir sem blogga, blogga um pólitík, svind, svínarí og plott...er þá ekki bara kominn tími á endurreisn hugleiðinga í dagsins önn? Kannski bara.

Sjáum hvað setur, hvort tjáningarþörfin fari ekki að gera vart við sig með haustinu...sköpun æpandi og óandi inn í manni, ólgandi æst að fá að blaðra með puttunum um allt og ekkert...sjáum til.

fimmtudagur, apríl 02, 2009

Bókastaflarnir...

já þeir eru svo sannarlega komnir út um allt!

Bókafíkill eins og ég ER, er rosalegt. Ég hef hér tækifæri til að velta mér upp úr því hvað í ósköpunum það er við bækur sem mér finnst svo heillandi. Ekki gef ég mér tíma til að lesa þær! Og svo les ég margar, ekki í einu, heldur eru margar í gangi. Sem þýðir að ekki er ég dugleg að klára blessaða staflana. Sumar hef ég verið í mörg ár að lesa! Sem dæmi eru Nafn rósarinnar og American Psycho.

Vitandi af þessu hefur mér tekist að forrita heilann minn á þann veg að hann er duglegur að muna hvar hann er staddur missi hann áhugan. Ég er svakalega montin með þann árangur. Svindl með Nafn rósarinnar hún hefur verið kvikmynduð; en hvað ameríska bilaðinginn varðar þá er innihaldið þess eðlis að maður er kannski ekki tilbúin til þess að lesa áfram alveg strax. Hún er suddaleg.

Ég veigra mér við því að "raða upp" (setja bækur í hillu í vinnunni) á 5. hæð. Vegna þess að ég gæti bilast þar og bætt um betur við bókastaflann. Ég er að reyna að halda mér við skáldsögurnar því ég hef svelt þær svo lengi. Hins vegar að þegar "svarti hundurinn" minn fer að gelta, þá finnst mér voða gott að flýja skáldverkin (sem minna mig á raunveruleikann og ég fyllist sektarkennd) og fara yfir í fræðsluna (sem eru pælingar í haus einhvers) og krefst annars konar áreynslu.

Í gær fékk ég móral yfir því að vera ekki vel að mér í neinu nema Harry Potter og Töff týpa á föstu í barna og unglingadeildinni. Svo mín tók: tríólógíu af Ávítara-bókunum, Eragon og Philip Pullman - bókunum. Við erum að tala um 15 kíló því Eragon er þykkari en almennings-klósettrúllur.

Sjáum hvað setur. Dóttir ávítarans byrjar býsna vel. Finn ekki fyrir því að ég sé fullorðin stelpa.

En quað er svona notalegt við bækur sem fær mann til að betrekja heimilið sitt með þeim og þurrka loftið heima hjá sér í fáránlega lága tölu (er með mæli fyrir píanóið)? Aumingja píanóið mitt.

miðvikudagur, apríl 01, 2009

Minning


Í tilefni af þessum degi set ég kertamynd. Mér finnst hann ekkert fyndinn og skemmtilegur og kann ekki við grín og hrekki. Og ég þekki fleiri sem eru sama sinnis. Elsti bróðir minn sem er látinn fæddist á þessum degi árið 1957. Og ég ætla að kaupa handa mynd af honum, blóm og kveikja á kerti fyrir mömmu sín.

En þrátt fyrir þessa depurð og nánast galtóma buddu þá er einhver gleðidagur í dag. Alla vega sá ég það í póstinum mínum. Því ákvað ég að vera fín, í pilsi með bleik jarðaber lafandi í eyrunum og gloss á munni. Og tók strætó svo ég gæti notið miðbæjarins í þessu stórkostlega veðri sem er í dag. En í strætó fékk ég brjóstsviða og fór út fyrr en ég ætlaði mér. Hljóp í Apótekið til þess að kaupa mér tuggutöflur sem ekki virka. Svo ég er með eld í kviðarholinu og líður ekkert sérlega gleðilega...þrátt fyrir glossið og jarðaberin í eyrunum...

miðvikudagur, mars 11, 2009

Af nógu


Dagurinn í gær var alger massi. Ég massaði fullt. Vann eins og skepna til kl. 18. Las frá ca. 13 - 18. Er alveg að verða búin með hljóðbókina og hlakka mikið til. Þá er ég búin að segja upphátt rúmar 500 síður fullar af orðum. Á föstudaginn, ef munnurinn og tungan eru hress, lýk ég við Karlana sem hata konurnar og fæ vonandi annað verkefni.

En svei mér þá. Hvað eru Bjarts-menn að pæla? Ég er ansi hrædd um að ef ég hef ekki verið vel vakandi þá hef ég lesið þvílíkar villurnar inn að hlustandinn verður gapandi hissa. Setningar margar hverjar eru fáránlegar, stafsetningar- og innsláttarvillurnar svakalegar, nöfn persóna ruglað saman, ártölum ruglað...þetta er með því skelfilegra sem ég hef nokkurntíma lesið. Frábærri sögu algerlega rústað með vinnubrögðum dauðans. Ég er miður mín að hafa gefið systur minni þessa bók í jólagjöf því svona verk eru ekki eiguleg. En spennan er víst þvílík, að sögn fólks, að það tekur ekkert eftir þessu. Hálfgerð fyrirgefning, því sagan þykir þess virði.

Sjálf er ég orðin hundleið á svona bókum og les varla svona bækur lengur fyrir mig prívat. Það er helst Ed McBain sem ég held alltaf svo mikið upp á því hann gleymir sér ekki í sakamálunum heldur hleypir húmor, mystík og áföllum að.

Mig hefur alltaf langað til þess að pota í Illuga Jökulsson og biðja hann um að halda áfram að þýða McBain. Hann gerði það svo snilldarlega í þeirri einu bók sem hefur verið þýdd á íslensku. Af nógu er nefnilega að taka því McBain var mjög afkastamikill. Ég er bara svo mikill heigull; og ég hugsa að einhverjar ástæður séu fyrir því að Illugi hélt ekki áfram. Bókarkápan var nú heldur ekkert sem hrópaði: lestu mig, lestu mig!

mánudagur, mars 02, 2009

Lokaður sími

Bloggdeyfðin er vegna þess að kreppan er farin að láta á sér kræla á heimilinu. Nú hefur maður varla efni á því að vera með internet. Síminn hefur verið lokaður í amk 2 vikur. Ég saknaði þess ekkert þar sem gemsinn bjargaði því helsta. Grand Theft Auto IV hefur algerlega séð um það að ég hafi eitthvað fyrir stafni og internetsleysið ekkert erfitt. Lúmskur tímaþjófur þessar tölvur. Það er helst að ég komst ekki í póstinn minn.

Datt svona hrikalega um daginn og það þurfti að sauma 4 spor undir hægra auga. Ég lít stórkostlega út og fljót að ná mér þ.e. útlitið. En mig klæjar óskaplega í skurðinn og verkjar enn í kinnbeini og beininu fyrir ofan augað. Kannski ætti ég að láta lækni kíkja á mig. Fann fyrir furðulegum þrýstingi í gær bak við augað. Kannski var hann vegna þess að ég er svo þreytt.

Við systkinin vorum laugardag og sunnudag að grisja úr húsinu hennar mömmu. Mikið verk og erfitt. Ég er verst í að hirða. Ég held að ég hafi komið með 15 kassa heim. Allt handavinnubækur um hekl og jólaföndur, venjulegar bækur og svo búsáhöld sem mig vantar; kökudiskar fyrir afmæli og svoleiðis. Svo fæ ég amk 3 skápa fyrir allar bækurnar þannig að ég á að koma þessu fyrir (döhh). Ég þykist nefnilega ætla að lesa sumar bækurnar og fara með í Den Gode Hirð en svo les ég aldrei neitt. Ég ætla samt ekki að vera fljót að dæma vegna þess að ég gæti komið mér á óvart og lesið þær. Manni leið eins og maður væri að fremja helgispjöll með að tæma svona og ég á eftir að sakna þess óskaplega að fara ekki inn á mitt æskuheimili að kúra mig fyrir framan sjónvarpið og gramsa í dótinu mínu. Mér finnst eins og ég hafi aldrei átt heima neins staðar nema þarna. Og að vera alla helgina (og aðra líklega til) "heima hjá mömmu" firrti mig algerlega því lífi sem ég lifi nú. Mikið eru minningar skrítnar, lyktin og allt. Þetta situr svo fast að breytingar eru tabú! Manneskjan er furðuleg!

Svo fór ég að hugsa hvað það er sem mér finnst hræðilegast við að mamma skuli vera farin frá mér. Og það sem er hvað verst er að maður hefur áhyggjur af því hvar hún er niður komin og að hún sé í lagi. Sé á svipuðum stað og maður sjálfur áður en maður fæddist. Hver man eftir því? Ekki ég. Þannig að varla hefur mér liðið illa né vel né neitt. Já ég held að það sé verst. Hvar er mamma? Hún er nefnilega týnd.

fimmtudagur, febrúar 05, 2009

Áfram Katrín!

Katrín Jakobs er alveg með puttann á réttum stað. Mikið er ég fegin að einhver skuli loksins fara í saumana á LÍN-Svín. Ég vona svo heitt og innilega að breytingar til batnaðar verði þar á. Soldið seint fyrir mig...ja kannski...því þegar ég er komin með mína BA gráðu og starfsréttindi frá menntamálaráðuneytinu verð ég líklega látin fjúka úr vinnunni. Svo huxanlega fer ég aftur í nám verði pláss fyrir mig þar, slíkur er nemendafjöldinn orðinn. Heimspekin heillar mig alltaf og ég held að hefði ég haft kjark til að velja hana sem aðalgrein strax væri ég hamingjusöm manneskja í dag. Ég er hins vegar búin að leggja grunn að því að gera hana að seinni BA gráðu og langar til að nýta mér það fái ég enga vinnu. Og vera í heilbrigðu lánaumhverfi í stað þess að maka krók einkarekins banka meðan ég bíð eftir niðurstöðum úr prófunum.

miðvikudagur, febrúar 04, 2009

Tissi Nissi og Pissuskrímslið

"Rassinn minn er mjö mjúkur", segir sonur minn. Hann segir jafnframt að ég sé með fjólubláar kellingatennur (wtf?!). Ég veit ekki hvaðan hann fær hugmyndirnar. Hann er nottlega bara barn og það er ekki ónýtur á þeim hausinn. Þvílíkar hugmyndir sem barnið fær. Stundum langar mig að setjast niður og skrifa barnabók með orðunum hans. Til dæmis er ein persóna sem ég held að sé algerlega frá honum komin. Sú heitir Tissi Nissi. Tissi Nissi er alveg frábært nafn á karakter í barnabók. Síðan bjuggum við saman til skrímsli sem heitir Pissuskrímslið. Pissuskrímslinu er ætlað það hlutverk að hræða soninn svo hann fari á klósettið en hefur engin slík áhrif. Er bara ein af fígúrunum sem verða til eins og hann Tissi Nissi.

þriðjudagur, febrúar 03, 2009

Náðugi heilaslökkvarinn

Djöfulli er kalt!
Og hvað haldið þið? Rör gaf sig undir eldhúsgólfinu svo ég varð að gjöra svo vel að loka fyrir hitann á ofnunum. Neysluvatnið lék því um okkur og sá möguleiki fyrir hendi að fara í bað væri klakinn farinn að myndast utan á manni.
Pabbi kom, sagaði eitt rör, lokaði fyrir það, tosaði annað í burtu með handafli, fékk sér tvo kaffibolla og dýfði mjólkurkexi ofan í, sagði síðan bless og var rokinn.

Ég hef verið blessunarlega laus við verkefni að svona leiðindartagi en það bættist eitt við í dag. Þegar ég var búin að lesa upp á Blindrabókasafni hljóp ég inn í bíl, setti í gang og ætlaði að keyra af stað. En bíllinn vildi meina að hann væri fastur í skafli, slíkt var hljóðið, þó enginn skafl væri sjáanlegur. Ég dæsti og minntist þess þegar ég rak dekk harkalega í snjóugan kant og viti menn ekkert loft. Ég held að ég þurfi bíl á stærri dekkjum. Ég er voðalega hress í köntunum. Þetta er annað dekkið sem mér tekst að láta leka á þennan hátt. Varadekkið enn undir sökum leti svo mín tók strætó heim. Á morgun er því tveggja dekkja vesen. Úff og það er svo svakalega kalt...

God of War I hefur átt hug minn allan síðustu tvær vikur og ég kláraði hann áðan. Tölvunördið er að vakna upp. Ég hélt að nördið hefði yfirgefið mig því ég væri orðin svo mikil móðir en blessunarlega blossaði það upp aftur. Lifi tölvuleikjamarkaðurinn! Þetta er heilaslökkvari af mikilli náð. BA-ritgerðin er í vinnslu þannig lagað á bara eftir að fara að vinna í henni. Ég þarf að fara í alsherjar skipulagningarferli næstu daga. Það er bara svo kalt að ég er ekki í stuði. Vil bara spila tölvuleiki eða liggja undir sæng og (spila tölvuleiki) lesa bækur.

þriðjudagur, janúar 20, 2009

Kuldaskrímsli með félagsfælniMér finnst erfiðara að blogga, ekki bara út af móðurmissinum heldur líka út af vinnunni. Það er einhvernveginn tabú að blogga sé maður að vinna. Svo ég segi engar vinnusögur eins og þær eru nú oft skemmtilegar nema ef ég plasta sjálfa mig óvart.

Eftir móðurmissirinn hefur dúkkað upp gleymd og grafin félagsfælni. Mér finnst reglulega erfitt að vera innan um fólk og fæ skjálftaköst í margmenni. Áður en ég fór í tíma í gær kom ég við á Háskólatorgi. Ætlaði að fá mér góðan hádegisverð en áður en ég vissi af sogaðist ég inn í Bóksöluna, sem var nánast tóm, og gekk út með penna og blöð, laumaðist inn í kaffiteríuna og greip pínu lítið rúndstykki með osti og skinku og lítinn latte-ræfil. Strunsaði síðan út með þetta allt saman og flýtti mér í Árnagarð. Faldi mig á bak við tölvuskjá og fésbókaði áður en tími hófst. Augun í mér ætluðu út og suður í flóttafælninni innan um étandi háskólafólk. Ég sem ætlaði að fá mér alvuru mat ekki ukkað rúndstykki!

Svo ég fór að mótmæla í dag til að æfa mig. En mér fannst ég ekkert vera að mótmæla. Ég stóð bara skjálfandi úr kulda og horfði á aðra mótmæla. Í tilgangsleysinu leið mér ágætlega hvað varðar félagsfælnina en mér fannst ég vera svikari innan um alla hina af því að ég var ekki með pott og sleif. Átti von á því að svartklætt andlit kæmi í æðiskasti upp að mér og skammaði mig fyrir tillits- og fánaleysið. Svo ég fór heim...í kjallaraholuna mína þar sem ég lagaði mér gott kaffi til að ná úr mér kuldaskrímslinu honum Morra og skreið upp í rúm með skræðu. Sofnaði síðan.

föstudagur, janúar 16, 2009

Bara erfitt

Það er ógeðningur að missa mömmu sína. Ógeð, leiðinlegt, ömurlegt...svo ég mæli með því að kynnast mömmu sinni ekki neitt, gera ekkert með henni, eiga engar gleðistundir saman osfrv.

Jám svona er það. Mamma mín var best í heimi og ég sakna hennar svo mikið að ég er að springa. Vont að sofa vegna þess að heilinn dælir öllum tilfinningarskalanum í gegnum hverja einustu æð. Tilfinningarnar meðan ég sef eru svo rosalegar að þegar ég vakna er ég fegin því að þá er ekki alveg eins vont. Þær eru öðruvísi þegar ég sef. Þá er ég svona hálf vakandi og kvalin. Ég mæli ekki með því að missa mömmu sína.
Finn virkilega til með drengjunum tveimur sem eru búnnir að missa mömmu sína og pabba sinn á tveimur árum. Eru báðir undir tvítugu. Lífið er miskunarlaust og ekki sanngjarnt. Sanngirni er ekki til í náttúrunni. Og þaðan í að...

...markaðslögmál eru ekki náttúrulögmál. Maðurinn bjó til markaðinn. Því gildir ekki það sama um markaðslögmál. Það er ekki hægt að láta lögmál markaðarins ráða vegna þess að gildi sem maðurinn skapaði ráða þar ríkjum. Dintótt lögmál háð geðþótta jafnvel og bullshit-vilja. Þar skítur frjálshyggjan í fótinn á sér. Frjálshyggja hentar í annars konar baráttu. Kvenfrelsi og kynþátta baráttu. Ekki péninga baráttu. Frjálshyggja er nebblilega ekki bara um frelsi í viðskiptum. Hún á líka við annarsstaðar og getur breitt lífi t.d. kvenna á Indlandi og víðar.

En mér er illt í mömmu samt. Þó að það séu hörmungar í Palestínu. Vild'ég gæti gert eitthvað við því...

mánudagur, janúar 12, 2009

This country is ripe

Er ríkisstjórnin ekki búin að fá loka intrum-seðilinn?

Ég var EBS-sinnuð fyrir kreppu en ekki í kreppu. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara með skottið á milli lappanna inn í samband sem getur nýtt sér veikleika þjóðarinnar og látið okkur semja af okkur, svona eins og verkalýðurinn gerði með þjóðarsáttinni. Á reyndar eftir að fara í saumana á greinum Moggans um Sambandið en ætla mér það í góðu tómi. Las grein eftir einhvern útlending sem hvatti okkur til að reyna sjálf og berjast því við værum svo svakalega hæfileikarík og dugleg. Mannauðurinn væri svo mikill. Mikill sannleikur í þessu. Fá og klár. Þurfum bara að fara að losa okkur við bullshittarana sem eru að reyna að koma undan upplýsingum til að halda í æru sína svo þeir geti haldið af stað aftur þegar allt fellur í dúnalogn. Halda í að þeir geti horfið aftur til hálaunastarfa sinna. Allir sem eru með yfir 500 þúsund á mánuði eiga að skila afgangnum í Ríkiskassann. Hins vegar ef við öll værum með 500 þúsund á mánuði þá gæti menningin haldið áfram að blómstra, fólk farið í leikhús 4 sinnum á ári, tónleika með Simfó, listasýningar, án þess að vera miður sín yfir bruðlinu. Menning er nefnilega bruðl í kreppuástandi.

miðvikudagur, janúar 07, 2009

Fleiri blogg

Tvö blogg: eitt fyrir daginn í gær sem var já bara fallegur þrátt fyrir þoku og eitt fyrir daginn í dag. Svona bloggar maður á hverjum degi sjáiði til, ætli maður að halda í heitið hehehhehe. Ætla samt ekki að hafa þau alltaf svona skof.

mánudagur, janúar 05, 2009

...

Eitt blogg.

sunnudagur, janúar 04, 2009

Rugl

Mér líður ótrúlega vel þessa stundina og finnst það vera hálfgert rugl. Yfirveguð, búin að liggja upp í sófa, dotta, lesa, hlusta á útvarpið og horfa yfir fallega heimilið mitt og vona að ég missi nú ekki þessa kjölfestu líka.

Í gær leið mér svipað nema mér fannst óþægilegt að vera svona róleg yfir öllu. Eins og ég væri að bæla niður allar tilfinningar og viljandi að kæfa ástandið án þess að leiða svo sem hugann að því. Tilkynningin um mömmu kom í Mogganum í gær og ég klippti hana út. Það var ekki fyrr en ég handfjallaði snepilinn að ég brotnaði niður. Mikið var ég fegin að ég saknaði hennar þrátt fyrir allt og er pínu óttaslegin yfir framtíðinni.

En ég er búin að kveljast helling og held að hausinn vilji halda sér uppi þrátt fyrir allt og það eru svo margir litlir og skemmtilegir hlutir búnnir að sitja á hakanum fyrir lærdómsþrældóminn sem ég vil endilega ljúka. Er að fara að lesa heimspekilegar pælingar um Bullshiting og hvernig við þolum Bullshit-ara. Mér skilst að hugmyndin um bullshittið hafi slegið einn heimspeking í kjölfar Írakstríðsins og ákvarðana Bush um að þar væru gjöreyðingarvopn. Ég er mjög spennt að komast í þá bók en læt mér duga ritgerðasafnið sem ég keypti mér fyrir alllöngu og hefur beðið upp í skáp ásamt fleirum góðum bókum, þangað til ég kemst í On Bullshit. Held að þetta séu mjög markverðar pælingar. Hvernig ætli maður þýði bullshit? Ruglari? Bullukollar? Ekki eins sterkt og bullshit. Bulluskítur bulluskítar...moðmunnur?

laugardagur, janúar 03, 2009

Tikk takk

Lífið heldur áfram að tikka. Ég er brattari í dag en í gær og hef ákveðið að hausinn fái hvíld vilji hann hvíld en þurfi hann að fara í einhverja upprifjun minninga þá skuli hann gera það þegar hann vill. Svo ég er búin að ryksjúga eldhúsgólfið og er að þvo í þvottavélunum tveimur: uppvask og lín. Mér finnst komið nóg eftir kistulagningu, sem var í gær, en útförin sjálf er eftir og svo allt fjandans erfðadraslið og gramsið í minningunum. Ég ætla að setja mig í gír fyrir það um að það sé spennandi og skemmtilegt verkefni þegar það að kemur.

Sonurinn er hress í öllu havaríinu og heimtar að prófa alla tölvuleiki á heimilinu þrátt fyrir að þeir séu svo erfiðir að kalla þurfi á mann til að aðstoða. Reyndar ekki vitlaus hugmynd því mér finnst mjög gaman að spila en hann þarf alltaf að prófa eftir eina sek þegar hann er búin að sjá mömmu sína leysa þrautirnar og rífur af mér stýripinnann. Frekja! Hann er samt miklu betri en ég í Spiderman! Ég er eiginlega móðguð.

Ég var búin að lofa að blogga á hverjum degi en sleppi erfiðu dögunum. Enda eru heit til þess að bregða út af vegna mannlegra breyskleika.