þriðjudagur, janúar 20, 2009

Kuldaskrímsli með félagsfælniMér finnst erfiðara að blogga, ekki bara út af móðurmissinum heldur líka út af vinnunni. Það er einhvernveginn tabú að blogga sé maður að vinna. Svo ég segi engar vinnusögur eins og þær eru nú oft skemmtilegar nema ef ég plasta sjálfa mig óvart.

Eftir móðurmissirinn hefur dúkkað upp gleymd og grafin félagsfælni. Mér finnst reglulega erfitt að vera innan um fólk og fæ skjálftaköst í margmenni. Áður en ég fór í tíma í gær kom ég við á Háskólatorgi. Ætlaði að fá mér góðan hádegisverð en áður en ég vissi af sogaðist ég inn í Bóksöluna, sem var nánast tóm, og gekk út með penna og blöð, laumaðist inn í kaffiteríuna og greip pínu lítið rúndstykki með osti og skinku og lítinn latte-ræfil. Strunsaði síðan út með þetta allt saman og flýtti mér í Árnagarð. Faldi mig á bak við tölvuskjá og fésbókaði áður en tími hófst. Augun í mér ætluðu út og suður í flóttafælninni innan um étandi háskólafólk. Ég sem ætlaði að fá mér alvuru mat ekki ukkað rúndstykki!

Svo ég fór að mótmæla í dag til að æfa mig. En mér fannst ég ekkert vera að mótmæla. Ég stóð bara skjálfandi úr kulda og horfði á aðra mótmæla. Í tilgangsleysinu leið mér ágætlega hvað varðar félagsfælnina en mér fannst ég vera svikari innan um alla hina af því að ég var ekki með pott og sleif. Átti von á því að svartklætt andlit kæmi í æðiskasti upp að mér og skammaði mig fyrir tillits- og fánaleysið. Svo ég fór heim...í kjallaraholuna mína þar sem ég lagaði mér gott kaffi til að ná úr mér kuldaskrímslinu honum Morra og skreið upp í rúm með skræðu. Sofnaði síðan.

föstudagur, janúar 16, 2009

Bara erfitt

Það er ógeðningur að missa mömmu sína. Ógeð, leiðinlegt, ömurlegt...svo ég mæli með því að kynnast mömmu sinni ekki neitt, gera ekkert með henni, eiga engar gleðistundir saman osfrv.

Jám svona er það. Mamma mín var best í heimi og ég sakna hennar svo mikið að ég er að springa. Vont að sofa vegna þess að heilinn dælir öllum tilfinningarskalanum í gegnum hverja einustu æð. Tilfinningarnar meðan ég sef eru svo rosalegar að þegar ég vakna er ég fegin því að þá er ekki alveg eins vont. Þær eru öðruvísi þegar ég sef. Þá er ég svona hálf vakandi og kvalin. Ég mæli ekki með því að missa mömmu sína.
Finn virkilega til með drengjunum tveimur sem eru búnnir að missa mömmu sína og pabba sinn á tveimur árum. Eru báðir undir tvítugu. Lífið er miskunarlaust og ekki sanngjarnt. Sanngirni er ekki til í náttúrunni. Og þaðan í að...

...markaðslögmál eru ekki náttúrulögmál. Maðurinn bjó til markaðinn. Því gildir ekki það sama um markaðslögmál. Það er ekki hægt að láta lögmál markaðarins ráða vegna þess að gildi sem maðurinn skapaði ráða þar ríkjum. Dintótt lögmál háð geðþótta jafnvel og bullshit-vilja. Þar skítur frjálshyggjan í fótinn á sér. Frjálshyggja hentar í annars konar baráttu. Kvenfrelsi og kynþátta baráttu. Ekki péninga baráttu. Frjálshyggja er nebblilega ekki bara um frelsi í viðskiptum. Hún á líka við annarsstaðar og getur breitt lífi t.d. kvenna á Indlandi og víðar.

En mér er illt í mömmu samt. Þó að það séu hörmungar í Palestínu. Vild'ég gæti gert eitthvað við því...

mánudagur, janúar 12, 2009

This country is ripe

Er ríkisstjórnin ekki búin að fá loka intrum-seðilinn?

Ég var EBS-sinnuð fyrir kreppu en ekki í kreppu. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara með skottið á milli lappanna inn í samband sem getur nýtt sér veikleika þjóðarinnar og látið okkur semja af okkur, svona eins og verkalýðurinn gerði með þjóðarsáttinni. Á reyndar eftir að fara í saumana á greinum Moggans um Sambandið en ætla mér það í góðu tómi. Las grein eftir einhvern útlending sem hvatti okkur til að reyna sjálf og berjast því við værum svo svakalega hæfileikarík og dugleg. Mannauðurinn væri svo mikill. Mikill sannleikur í þessu. Fá og klár. Þurfum bara að fara að losa okkur við bullshittarana sem eru að reyna að koma undan upplýsingum til að halda í æru sína svo þeir geti haldið af stað aftur þegar allt fellur í dúnalogn. Halda í að þeir geti horfið aftur til hálaunastarfa sinna. Allir sem eru með yfir 500 þúsund á mánuði eiga að skila afgangnum í Ríkiskassann. Hins vegar ef við öll værum með 500 þúsund á mánuði þá gæti menningin haldið áfram að blómstra, fólk farið í leikhús 4 sinnum á ári, tónleika með Simfó, listasýningar, án þess að vera miður sín yfir bruðlinu. Menning er nefnilega bruðl í kreppuástandi.

miðvikudagur, janúar 07, 2009

Fleiri blogg

Tvö blogg: eitt fyrir daginn í gær sem var já bara fallegur þrátt fyrir þoku og eitt fyrir daginn í dag. Svona bloggar maður á hverjum degi sjáiði til, ætli maður að halda í heitið hehehhehe. Ætla samt ekki að hafa þau alltaf svona skof.

mánudagur, janúar 05, 2009

...

Eitt blogg.

sunnudagur, janúar 04, 2009

Rugl

Mér líður ótrúlega vel þessa stundina og finnst það vera hálfgert rugl. Yfirveguð, búin að liggja upp í sófa, dotta, lesa, hlusta á útvarpið og horfa yfir fallega heimilið mitt og vona að ég missi nú ekki þessa kjölfestu líka.

Í gær leið mér svipað nema mér fannst óþægilegt að vera svona róleg yfir öllu. Eins og ég væri að bæla niður allar tilfinningar og viljandi að kæfa ástandið án þess að leiða svo sem hugann að því. Tilkynningin um mömmu kom í Mogganum í gær og ég klippti hana út. Það var ekki fyrr en ég handfjallaði snepilinn að ég brotnaði niður. Mikið var ég fegin að ég saknaði hennar þrátt fyrir allt og er pínu óttaslegin yfir framtíðinni.

En ég er búin að kveljast helling og held að hausinn vilji halda sér uppi þrátt fyrir allt og það eru svo margir litlir og skemmtilegir hlutir búnnir að sitja á hakanum fyrir lærdómsþrældóminn sem ég vil endilega ljúka. Er að fara að lesa heimspekilegar pælingar um Bullshiting og hvernig við þolum Bullshit-ara. Mér skilst að hugmyndin um bullshittið hafi slegið einn heimspeking í kjölfar Írakstríðsins og ákvarðana Bush um að þar væru gjöreyðingarvopn. Ég er mjög spennt að komast í þá bók en læt mér duga ritgerðasafnið sem ég keypti mér fyrir alllöngu og hefur beðið upp í skáp ásamt fleirum góðum bókum, þangað til ég kemst í On Bullshit. Held að þetta séu mjög markverðar pælingar. Hvernig ætli maður þýði bullshit? Ruglari? Bullukollar? Ekki eins sterkt og bullshit. Bulluskítur bulluskítar...moðmunnur?

laugardagur, janúar 03, 2009

Tikk takk

Lífið heldur áfram að tikka. Ég er brattari í dag en í gær og hef ákveðið að hausinn fái hvíld vilji hann hvíld en þurfi hann að fara í einhverja upprifjun minninga þá skuli hann gera það þegar hann vill. Svo ég er búin að ryksjúga eldhúsgólfið og er að þvo í þvottavélunum tveimur: uppvask og lín. Mér finnst komið nóg eftir kistulagningu, sem var í gær, en útförin sjálf er eftir og svo allt fjandans erfðadraslið og gramsið í minningunum. Ég ætla að setja mig í gír fyrir það um að það sé spennandi og skemmtilegt verkefni þegar það að kemur.

Sonurinn er hress í öllu havaríinu og heimtar að prófa alla tölvuleiki á heimilinu þrátt fyrir að þeir séu svo erfiðir að kalla þurfi á mann til að aðstoða. Reyndar ekki vitlaus hugmynd því mér finnst mjög gaman að spila en hann þarf alltaf að prófa eftir eina sek þegar hann er búin að sjá mömmu sína leysa þrautirnar og rífur af mér stýripinnann. Frekja! Hann er samt miklu betri en ég í Spiderman! Ég er eiginlega móðguð.

Ég var búin að lofa að blogga á hverjum degi en sleppi erfiðu dögunum. Enda eru heit til þess að bregða út af vegna mannlegra breyskleika.