fimmtudagur, febrúar 05, 2009

Áfram Katrín!

Katrín Jakobs er alveg með puttann á réttum stað. Mikið er ég fegin að einhver skuli loksins fara í saumana á LÍN-Svín. Ég vona svo heitt og innilega að breytingar til batnaðar verði þar á. Soldið seint fyrir mig...ja kannski...því þegar ég er komin með mína BA gráðu og starfsréttindi frá menntamálaráðuneytinu verð ég líklega látin fjúka úr vinnunni. Svo huxanlega fer ég aftur í nám verði pláss fyrir mig þar, slíkur er nemendafjöldinn orðinn. Heimspekin heillar mig alltaf og ég held að hefði ég haft kjark til að velja hana sem aðalgrein strax væri ég hamingjusöm manneskja í dag. Ég er hins vegar búin að leggja grunn að því að gera hana að seinni BA gráðu og langar til að nýta mér það fái ég enga vinnu. Og vera í heilbrigðu lánaumhverfi í stað þess að maka krók einkarekins banka meðan ég bíð eftir niðurstöðum úr prófunum.

miðvikudagur, febrúar 04, 2009

Tissi Nissi og Pissuskrímslið

"Rassinn minn er mjö mjúkur", segir sonur minn. Hann segir jafnframt að ég sé með fjólubláar kellingatennur (wtf?!). Ég veit ekki hvaðan hann fær hugmyndirnar. Hann er nottlega bara barn og það er ekki ónýtur á þeim hausinn. Þvílíkar hugmyndir sem barnið fær. Stundum langar mig að setjast niður og skrifa barnabók með orðunum hans. Til dæmis er ein persóna sem ég held að sé algerlega frá honum komin. Sú heitir Tissi Nissi. Tissi Nissi er alveg frábært nafn á karakter í barnabók. Síðan bjuggum við saman til skrímsli sem heitir Pissuskrímslið. Pissuskrímslinu er ætlað það hlutverk að hræða soninn svo hann fari á klósettið en hefur engin slík áhrif. Er bara ein af fígúrunum sem verða til eins og hann Tissi Nissi.

þriðjudagur, febrúar 03, 2009

Náðugi heilaslökkvarinn

Djöfulli er kalt!
Og hvað haldið þið? Rör gaf sig undir eldhúsgólfinu svo ég varð að gjöra svo vel að loka fyrir hitann á ofnunum. Neysluvatnið lék því um okkur og sá möguleiki fyrir hendi að fara í bað væri klakinn farinn að myndast utan á manni.
Pabbi kom, sagaði eitt rör, lokaði fyrir það, tosaði annað í burtu með handafli, fékk sér tvo kaffibolla og dýfði mjólkurkexi ofan í, sagði síðan bless og var rokinn.

Ég hef verið blessunarlega laus við verkefni að svona leiðindartagi en það bættist eitt við í dag. Þegar ég var búin að lesa upp á Blindrabókasafni hljóp ég inn í bíl, setti í gang og ætlaði að keyra af stað. En bíllinn vildi meina að hann væri fastur í skafli, slíkt var hljóðið, þó enginn skafl væri sjáanlegur. Ég dæsti og minntist þess þegar ég rak dekk harkalega í snjóugan kant og viti menn ekkert loft. Ég held að ég þurfi bíl á stærri dekkjum. Ég er voðalega hress í köntunum. Þetta er annað dekkið sem mér tekst að láta leka á þennan hátt. Varadekkið enn undir sökum leti svo mín tók strætó heim. Á morgun er því tveggja dekkja vesen. Úff og það er svo svakalega kalt...

God of War I hefur átt hug minn allan síðustu tvær vikur og ég kláraði hann áðan. Tölvunördið er að vakna upp. Ég hélt að nördið hefði yfirgefið mig því ég væri orðin svo mikil móðir en blessunarlega blossaði það upp aftur. Lifi tölvuleikjamarkaðurinn! Þetta er heilaslökkvari af mikilli náð. BA-ritgerðin er í vinnslu þannig lagað á bara eftir að fara að vinna í henni. Ég þarf að fara í alsherjar skipulagningarferli næstu daga. Það er bara svo kalt að ég er ekki í stuði. Vil bara spila tölvuleiki eða liggja undir sæng og (spila tölvuleiki) lesa bækur.