miðvikudagur, mars 11, 2009

Af nógu


Dagurinn í gær var alger massi. Ég massaði fullt. Vann eins og skepna til kl. 18. Las frá ca. 13 - 18. Er alveg að verða búin með hljóðbókina og hlakka mikið til. Þá er ég búin að segja upphátt rúmar 500 síður fullar af orðum. Á föstudaginn, ef munnurinn og tungan eru hress, lýk ég við Karlana sem hata konurnar og fæ vonandi annað verkefni.

En svei mér þá. Hvað eru Bjarts-menn að pæla? Ég er ansi hrædd um að ef ég hef ekki verið vel vakandi þá hef ég lesið þvílíkar villurnar inn að hlustandinn verður gapandi hissa. Setningar margar hverjar eru fáránlegar, stafsetningar- og innsláttarvillurnar svakalegar, nöfn persóna ruglað saman, ártölum ruglað...þetta er með því skelfilegra sem ég hef nokkurntíma lesið. Frábærri sögu algerlega rústað með vinnubrögðum dauðans. Ég er miður mín að hafa gefið systur minni þessa bók í jólagjöf því svona verk eru ekki eiguleg. En spennan er víst þvílík, að sögn fólks, að það tekur ekkert eftir þessu. Hálfgerð fyrirgefning, því sagan þykir þess virði.

Sjálf er ég orðin hundleið á svona bókum og les varla svona bækur lengur fyrir mig prívat. Það er helst Ed McBain sem ég held alltaf svo mikið upp á því hann gleymir sér ekki í sakamálunum heldur hleypir húmor, mystík og áföllum að.

Mig hefur alltaf langað til þess að pota í Illuga Jökulsson og biðja hann um að halda áfram að þýða McBain. Hann gerði það svo snilldarlega í þeirri einu bók sem hefur verið þýdd á íslensku. Af nógu er nefnilega að taka því McBain var mjög afkastamikill. Ég er bara svo mikill heigull; og ég hugsa að einhverjar ástæður séu fyrir því að Illugi hélt ekki áfram. Bókarkápan var nú heldur ekkert sem hrópaði: lestu mig, lestu mig!

mánudagur, mars 02, 2009

Lokaður sími

Bloggdeyfðin er vegna þess að kreppan er farin að láta á sér kræla á heimilinu. Nú hefur maður varla efni á því að vera með internet. Síminn hefur verið lokaður í amk 2 vikur. Ég saknaði þess ekkert þar sem gemsinn bjargaði því helsta. Grand Theft Auto IV hefur algerlega séð um það að ég hafi eitthvað fyrir stafni og internetsleysið ekkert erfitt. Lúmskur tímaþjófur þessar tölvur. Það er helst að ég komst ekki í póstinn minn.

Datt svona hrikalega um daginn og það þurfti að sauma 4 spor undir hægra auga. Ég lít stórkostlega út og fljót að ná mér þ.e. útlitið. En mig klæjar óskaplega í skurðinn og verkjar enn í kinnbeini og beininu fyrir ofan augað. Kannski ætti ég að láta lækni kíkja á mig. Fann fyrir furðulegum þrýstingi í gær bak við augað. Kannski var hann vegna þess að ég er svo þreytt.

Við systkinin vorum laugardag og sunnudag að grisja úr húsinu hennar mömmu. Mikið verk og erfitt. Ég er verst í að hirða. Ég held að ég hafi komið með 15 kassa heim. Allt handavinnubækur um hekl og jólaföndur, venjulegar bækur og svo búsáhöld sem mig vantar; kökudiskar fyrir afmæli og svoleiðis. Svo fæ ég amk 3 skápa fyrir allar bækurnar þannig að ég á að koma þessu fyrir (döhh). Ég þykist nefnilega ætla að lesa sumar bækurnar og fara með í Den Gode Hirð en svo les ég aldrei neitt. Ég ætla samt ekki að vera fljót að dæma vegna þess að ég gæti komið mér á óvart og lesið þær. Manni leið eins og maður væri að fremja helgispjöll með að tæma svona og ég á eftir að sakna þess óskaplega að fara ekki inn á mitt æskuheimili að kúra mig fyrir framan sjónvarpið og gramsa í dótinu mínu. Mér finnst eins og ég hafi aldrei átt heima neins staðar nema þarna. Og að vera alla helgina (og aðra líklega til) "heima hjá mömmu" firrti mig algerlega því lífi sem ég lifi nú. Mikið eru minningar skrítnar, lyktin og allt. Þetta situr svo fast að breytingar eru tabú! Manneskjan er furðuleg!

Svo fór ég að hugsa hvað það er sem mér finnst hræðilegast við að mamma skuli vera farin frá mér. Og það sem er hvað verst er að maður hefur áhyggjur af því hvar hún er niður komin og að hún sé í lagi. Sé á svipuðum stað og maður sjálfur áður en maður fæddist. Hver man eftir því? Ekki ég. Þannig að varla hefur mér liðið illa né vel né neitt. Já ég held að það sé verst. Hvar er mamma? Hún er nefnilega týnd.