fimmtudagur, apríl 02, 2009

Bókastaflarnir...

já þeir eru svo sannarlega komnir út um allt!

Bókafíkill eins og ég ER, er rosalegt. Ég hef hér tækifæri til að velta mér upp úr því hvað í ósköpunum það er við bækur sem mér finnst svo heillandi. Ekki gef ég mér tíma til að lesa þær! Og svo les ég margar, ekki í einu, heldur eru margar í gangi. Sem þýðir að ekki er ég dugleg að klára blessaða staflana. Sumar hef ég verið í mörg ár að lesa! Sem dæmi eru Nafn rósarinnar og American Psycho.

Vitandi af þessu hefur mér tekist að forrita heilann minn á þann veg að hann er duglegur að muna hvar hann er staddur missi hann áhugan. Ég er svakalega montin með þann árangur. Svindl með Nafn rósarinnar hún hefur verið kvikmynduð; en hvað ameríska bilaðinginn varðar þá er innihaldið þess eðlis að maður er kannski ekki tilbúin til þess að lesa áfram alveg strax. Hún er suddaleg.

Ég veigra mér við því að "raða upp" (setja bækur í hillu í vinnunni) á 5. hæð. Vegna þess að ég gæti bilast þar og bætt um betur við bókastaflann. Ég er að reyna að halda mér við skáldsögurnar því ég hef svelt þær svo lengi. Hins vegar að þegar "svarti hundurinn" minn fer að gelta, þá finnst mér voða gott að flýja skáldverkin (sem minna mig á raunveruleikann og ég fyllist sektarkennd) og fara yfir í fræðsluna (sem eru pælingar í haus einhvers) og krefst annars konar áreynslu.

Í gær fékk ég móral yfir því að vera ekki vel að mér í neinu nema Harry Potter og Töff týpa á föstu í barna og unglingadeildinni. Svo mín tók: tríólógíu af Ávítara-bókunum, Eragon og Philip Pullman - bókunum. Við erum að tala um 15 kíló því Eragon er þykkari en almennings-klósettrúllur.

Sjáum hvað setur. Dóttir ávítarans byrjar býsna vel. Finn ekki fyrir því að ég sé fullorðin stelpa.

En quað er svona notalegt við bækur sem fær mann til að betrekja heimilið sitt með þeim og þurrka loftið heima hjá sér í fáránlega lága tölu (er með mæli fyrir píanóið)? Aumingja píanóið mitt.

miðvikudagur, apríl 01, 2009

Minning


Í tilefni af þessum degi set ég kertamynd. Mér finnst hann ekkert fyndinn og skemmtilegur og kann ekki við grín og hrekki. Og ég þekki fleiri sem eru sama sinnis. Elsti bróðir minn sem er látinn fæddist á þessum degi árið 1957. Og ég ætla að kaupa handa mynd af honum, blóm og kveikja á kerti fyrir mömmu sín.

En þrátt fyrir þessa depurð og nánast galtóma buddu þá er einhver gleðidagur í dag. Alla vega sá ég það í póstinum mínum. Því ákvað ég að vera fín, í pilsi með bleik jarðaber lafandi í eyrunum og gloss á munni. Og tók strætó svo ég gæti notið miðbæjarins í þessu stórkostlega veðri sem er í dag. En í strætó fékk ég brjóstsviða og fór út fyrr en ég ætlaði mér. Hljóp í Apótekið til þess að kaupa mér tuggutöflur sem ekki virka. Svo ég er með eld í kviðarholinu og líður ekkert sérlega gleðilega...þrátt fyrir glossið og jarðaberin í eyrunum...