laugardagur, júní 05, 2010

Af fullkomnunaráráttu

Ég hef ekki haft eirð í mér til þess að skrifa neitt eftir að mamma dó. Mér finnst allt í einu asnalegt að blogga. En það hefur svo sannarlega komið aftan að mér að halda mér ekki við. Mér hefur gengið mjög klaufalega að skrifa ritgerðir síðan ég hætti. Vægast sagt klaufalega. Endaði með því að ég fór til námsráðgjafa þar sem ég féll algerlega saman vegna þess að ég er furðulostin yfir þessari skyndilegu fötlun sem helltist yfir mig.Ég settist í stól og greip næstu bréftusku og fór að háskæla eins og lítið barn. Námsráðgjafinn var ekki sestur niður einu sinni. Tók ekki einu sinni eftir því fyrr en hún (hún ráðgjafinn er alveg satt samkv. íslenskri tungu þó svo að það sé kannski ekki málfræðilega rétt) sneri sér við og sagði: Nú! Er það svona?! Eftir nokkur skæl og væl (svo ég geri nú lítið úr sjálfri mér og því uppnámi sem staða mín hefur valdið mér) fékk ég að vita að ég væri algerlega á rangri hillu í skrifum mínum. Fullkomnunaráráttan er komin út í svo miklar öfgar að ég skrifa ekki línu í ritgerðar-ræfli nema setningin sé fullmótuð í höfðinu og pörfekt! Fyrr fær hún ekki viðurkenningu sem birtingarhæf í word-skjali. Ég sver það! Ég er sum sé ekki í lagi.

Ég fékk því það skemmtilega verkefni að rembast við: meðan ég skrifa ritgerð sem ég þarf að skila svo ég fái nú námslánin og bankinn verði glaður og allir glaðir og sál mín hálfa leið úr hreinsunareldi skuldasúpu, á ég að taka mig í hugræna atferlismeðferð. Sem fellst þá í því að ég kvelji fullkomnunaráráttuna með því að skrifa það fyrsta sem kemur upp í höfuðið í stað þess að ganga um gólf í leit að hinni fullkomnu setningu. Og vitið þið bara quað? Mér finnst þetta vera mest spennandi verkefni sem ég hef tekist á við í langan tíma! Mjög tilvistarlega heimspekilegur sjálfskoðunar fyrirbæra og verufræðilegur spenningur fyllir hjarta mitt. BA-verkefnið mitt verður alsælt ef mér tekst að yfirvinna þennan fjanda.